Fréttasafn
13. desember 2006
Tíðnisvið fyrir þriðju kynslóð farsíma boðin út innan skamms
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun mun bjóða út tíðnisvið fyrir þriðju kynslóð farsíma innan skamms. Gert er ráð fyrir að tíðniheimildir verði gefnar út í byrjun annars ársfjórðungs 2007. Haft verður samráð við hagsmunaaðila og hafa þeir frest til kl. 12, miðvikudaginn 20. desember 2006 til að skila inn umsögnum, athugasemdum og ábendingum. Samráðsgögnin má nálgast hér neðar. Allt að fjórum bjóðendum verður úthlutað tíðnum. Gerð verður lágmarkskrafa um útbreiðslu til hvers tíðnirétthafa samkvæmt lögum nr. 8/2005. Skal þriðju kynslóðar farsímaþjónusta ná til a.m.k. 60% íbúa sérhverra eftirfarandi svæða: a) Höfuðborgarsvæðis b) Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra c) Norðurlands eystra og Austurlands d) Suðurlands og Suðurnesja Sett verða skilyrði um hraða uppbyggingarinnar í 4 áföngum. Tíðniheimildir munu gilda í 15 ár. Þjónusta sem byggir á þriðju kynslóð farsíma tryggir neytendum hraðari gagnaflutning en hefðbundin farsímaþjónusta sem byggir á GSM tækni. Erlendis hefur þjónusta sem byggir á tækni þriðju kynslóðar farsíma sótt í sig veðrið undanfarið og ýmis þjónusta sem krefst mikillar bandbreiddar hefur náð fótfestu. Notendabúnaður er til í fjölbreyttu úrvali á samkeppnishæfu verði. Það er því von Póst- og fjarskiptastofnunar að úthlutun tíðniheimilda fyrir þriðju kynslóðar farsímaneta hér á landi muni leiða til aukins framboðs þjónustu og aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði hérlendis. Kynning á samráði við hagsmunaaðila um útboð á tíðniheimildum fyrir þriðju kynslóð farsíma. (PDF) Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500, t-póstur:hrafnkell@pta.is
23. nóvember 2006
Ákvörðun í kvörtunarmáli vegna stofngjalds heimtauga
Nánar
Þann 14 nóvember sl. tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun í kvörtunarmáli vegna stofngjalds heimtauga. (PDF)
16. nóvember 2006
Ákvörðun tekin um útboð á NMT-450 tíðnisviðinu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að bjóða út allt NMT-450 tíðnisviðið til eins aðila til reksturs langdrægrar stafrænnar farsímaþjónustu. Stefnt er að opnu útboði á fyrri hluta næsta árs, samkvæmt sérstakri auglýsingu um dagsetningu og fyrirkomulag. Um síðustu áramót tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun Símanum ákvörðun sína um að nýta heimild til að fresta lokun NMT-farsímakerfisins þar til ný stafræn og langdræg farsímaþjónusta leysti hana af hólmi, eða til 31. desember 2008. Stefnt er þó að því að ný þjónusta á 450 MHz tíðnisviðinu verði í boði talsvert fyrr eða fyrir árslok 2007. (Sjá fréttatilkynningu 2. jan. 2006)Ákvörðun þessi var tekin með tilliti til mikilvægis þjónustunnar og hagsmuna notenda hennar. Leitað var eftir áliti hagsmunaaðila á ýmsum þáttum málsins og voru þeir flestir sammála um að skynsamlegast væri að úthluta tíðnisviðinu til eins rekstraraðila. Þá var það samdóma álit þeirra að landfræðileg skipting tíðnisviðsins kæmi ekki til greina. Í útboðsskilmálum verður mælt fyrir um forsendur og skilyrði úthlutunar, auk þess sem raktar verða þær tæknilegu kröfur til búnaðar sem hin nýja þjónusta verður að uppfylla. Stefnt er að því að útboðsskilmálar liggi fyrir upp úr næstu áramótum. Sjá nánar:Ákvörðun um útboð á NMT-450 tíðnisviðinu (PDF)Samantekt á sjónarmiðum hagsmunaaðila
16. nóvember 2006
Ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur
Nánar
Þann 13. nóvember sl. tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Rannsókn á tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar hefur staðið frá árinu 2003 og byggir á 36. gr. fjarskiptalaga, þar sem kveðið er á um að “Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi.” Í ákvörðun stofnunarinnar segir m.a. að þrátt fyrir að OR hafi, í framhaldi af tilkynningu stofnunarinnar um fyrirhugaðar aðgerðir dags. 10. janúar sl., fært tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar fjarskiptastarfseminnar (Gagnaveitan) til betri vegar, sé þörf á úrbótum varandi nokkur atriði. Var fyrirmælum beint til OR um eftirfarandi: Sjálfstætt reikningshald Gagnaveitunnar þarf jafnframt að ná til færslu veltufjármuna og skammtímaskulda. Sett voru skilyrði varðandi lán Gagnaveitunnar. Annars vegar að lán vegna yfirtöku eigna skulu bera markaðsvexti. Hins vegar að þess skuli gætt að lán séu ekki niðurgreidd og séu á sambærilegum kjörum og óskyldur aðili mundi fá. Kveðið var á um takmörkun á heimild OR til að veðsetja eignir sínar í tengslum við lán sem tekin verða vegna starfsemi Gagnaveitunnar. Að OR þurfi að taka sérstaka ákvörðun fyrir árslok um arðsemiskröfu Gagnaveitunnar með tilliti til samkeppnissjónarmiða og þess sem almennt gerist á fjarskiptamarkaði. Við málsmeðferð málsins voru skoðuð margvísleg gögn er vörðuðu fjárhag og rekstur OR. Í sumum tilvikum var leitað sérfræðilegra álitsgerða varðandi afmarkaða þætti málsins. Stofnunin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við eftirfarandi þætti: Stofnefnahagsreikning Gagnaveitunnar. Kaupverð ljósleiðaranets Línu.Nets og mat þess í stofnefnahagsreikningi. Meðhöndlun sameiginlegs kostnaðar og viðskipti milli sviða. Verðskrá fyrir þjónustu Gagnaveitunnar. Afskriftartíma eigna, þ.m.t. ljósleiðarakerfis Rétt er að geta þess að við meðferð þessa máls þessa krafðist Síminn þess að fá stöðu aðila máls og úrskurðaði úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála Símann með stöðu aðila máls með úrskurði sínum fyrr á árinu. Ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur (PDF) Nánari upplýsingar gefur Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500
9. nóvember 2006
Samgönguráðherra á þingi Alþjóðafjarskiptasambandsins, ITU
Nánar
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sat í byrjun vikunnar upphaf allsherjarþings Alþjóðafjarskiptasambandsins (International Telecommunication Union), ITU, í Tyrklandi. Í ávarpi sínu sagði ráðherra meðal annars að nauðsynlegt væri að endurskoða og bæta fjarskiptasamband víða um heim; það yrði að vera afkastamikið og hagkvæmt. Samgönguráðherra flutti ávarp sitt á öðrum degi þingsins sem stendur í þrjár vikur. Ásamt ráðherra sátu upphaf þingsins þau Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Ari Jóhannsson frá Póst- og fjarskiptastofnun. Ari situr út þingið sem lýkur þann 24. nóvember nk.. Samgönguráðherra sagði einnig í ávarpi sínu að nauðsynlegt væri að ITU endurskoðaði starfsemi sína með hliðsjón af margs konar tækninýjungum sem nú settu mark sitt á fjarskiptamarkað um heim allan. Nefndi hann sérstaklega öryggi og áreiðanleika fjarskiptaneta. Sagði hann að ITU ætti áfram að vera vettvangur alþjóðlegrar umræðu og þróunar í fjarskiptum.Á myndinni hér til hliðar flytur Sturla ávarp sitt. Við hlið hans sitja þau Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar. Ávarp samgönguráðherra má lesa í heild á vefsíðu allsherjarþings ITU
3. nóvember 2006
Allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins í Tyrklandi 6. - 24. nóvember 2006
Nánar
Dagana 6. – 24 nóvember sitja fulltrúar Póst- og fjarskiptastofnunar 17. allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins, ITU (International Telecommunication Union ), í Antalya í Tyrklandi. Alþjóðafjarskiptasambandið er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna og er sá sameiginlegi samstarfsvettvangur sem hefur gert mönnum kleift að þróa nútíma samskiptaleiðir á heimsvísu eins hratt og raun ber vitni.Sambandið heldur allsherjarþing á fjögurra ára fresti þar sem mörkuð er sú stefna sem fylgt er í fjarskiptamálum á alþjóðlega vísu. Að þessu sinni munu um 2000 fulltrúar opinberra aðila og einkafyrirtækja á fjarskiptamarkaði, auk fulltrúa svæðisbundinna og alþjóðlegra samtaka og stofnana, sitja þingið. Starf Alþjóðafjarskiptasambandsins er þríþætt og skiptist í svið radíófjarskipta (ITU-R), stöðlun í fjarskiptum (ITU-T) og aðstoð og ráðgjöf við þróunarlöndin á sviði fjarskipta (ITU-D). Starfsemin tekur til allra þátta fjarskipta, allt frá því að setja staðla sem tryggja að samskiptatæki og -kerfi geti virkað hnökralaust á alþjóðlega vísu, til þess að samræma samskipti þráðlausra kerfa og hanna kerfi til að bæta og styrkja innviði fjarskipta. Póst- og fjarskiptastofnun sér um dagleg samskipti og samstarf við sambandið fyrir Íslands hönd. Á þeim þremur vikum sem þing Alþjóðafjarskiptasambandsins stendur munu fulltrúar þurfa að koma sér saman um fjölmörg úrlausnarefni varðandi hlutverk og starfsemi sambandsins næstu fjögur ár og til framtíðar. Þau málefni sem talið er að verði efst á baugi eru m.a. endurskoðun á skipulagi ITU með tilliti til hinnar hröðu þróunar á sviði fjarskipta. Einnig verður rætt um hlutverk sambandsins í framkvæmd og útfærslu þeirra markmiða sem sett voru á Heimsráðstefnunni um upplýsingasamfélagið, WSIS (World Summit on the Information Society), sem haldin var á vegum Sameinuðu þjóðanna í Genf 2003 og Túnis 2005.
1. nóvember 2006
Níu tíðniheimildir á 3,5 og 10 GHz fyrir háhraða aðgangsnet gefnar út
Nánar
Í apríl 2006 auglýsti Póst- og fjarskiptastofnun eftir umsóknum um heimildir til notkunar á tíðnum fyrir háhraða aðgangsnet á 3,5 GHz og 10 GHz.Í útboðinu var gert ráð fyrir að boðin yrði háhraða gagnaflutningsþjónusta á þeim aðgangsnetum sem byggð verða á þeim svæðum sem bjóðendur hyggjast veita þjónustu. Sérhver úthlutun skyldi fela í sér heimild til notkunar á 28 MHz (2 x 14 MHz) bandbreidd. Að uppfylltum vissum skilyrðum mætti þó til viðbótar veita heimild til notkunar á 14 MHz (2 x 7 MHz) án auglýsingar.Samkvæmt útboðslýsingu skyldu umsækjendur m.a. tilgreina í hvaða sveitarfélögum þeir hefðu í hyggju að veita þjónustu og hvort sótt væri um heimildir á 3,5 eða 10 GHz. Alls bárust 10 umsóknir og voru tíðniheimildir gefnar út til 9 umsækjenda 25. október 2006. Ein umsókn var ekki talin uppfylla þau skilyrði, sem tilgreind voru í útboðslýsingu.Flestar umsóknir bárust um tíðniheimild á 3,5 GHz en aðeins ein umsókn um 10 GHz tíðnisvið fyrir aðgangsnetið.Sótt var um tíðniheimildir fyrir mismunandi landssvæði. Í fimm umsóknum var sótt um tíðniheimildir fyrir flesta þéttbýlisstaði landsins og nágrenni þeirra, en í fjórum var aðeins óskað eftir heimild fyrir mjög takmörkuð svæði. Útgáfa tíðniheimilda skiptist þannig með tilliti til tíðnisviðs og þjónustusvæða:3,5 GHz tíðnisviðið (8 heimildir)a) Flestir þéttbýlisstaðir á landinu og nágrenni þeirra:eMax ehfNova ehfIP fjarskipti ehfOg VodafoneWireless Broadband Systems ehfb) Takmörkuð svæði:Ábótinn ehf Síminn hf Digiweb Ltd (Írlandi) 10 GHz tíðnisviðið (1 heimild)Orkuveita Reykjavíkur Frekari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, s. 510 1500 Sjá kort sem sýnir samanlagt útbreiðslusvæði allra tíðniheimilda (PDF)(Á lituðu svæðunum má vænta að byggð verði upp eitt eða fleiri aðgangsnet.) Sjá frétt um opnun tilboða frá 16. maí 2006 Útboðsauglýsing 5. apríl 2006
6. október 2006
Framlengdur frestur til að skila athugasemdum við drög að greiningu á markaði 15
Nánar
Þann 8. september sl. tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun að hagsmunaaðilum væri gefið tækifæri að nýju til þess að koma á framfæri athugasemdum við drög að greiningu og úrræðum á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (markaður 15). Tilkynning þess efnis var birt á heimasíðu stofnunarinnar auk þess sem sent var bréf til allra skráðra fjarskiptafyrirtækja. Ástæða þess að drögin voru lögð fram til umsagnar að nýju var m.a. sú að komið hafði fram sú skoðun að ekki hefðu öll fjarskiptafyrirtæki fengið nægilegt tækifæri til að tjá sig um þau. Stofnuninni hafa ekki borist nein svör eftir 8. september sl. þar sem gerðar eru athugasemdir við efni greiningarinnar. Vakin er athygli á því að berist engar athugasemdir þá mun stofnunin líta svo á að hagsmunaaðilar hafi ekki frekari andmæli fram að færa og mun stofnunin þá taka ákvörðun byggða á fyrirliggjandi gögnum. Fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum er hér með gefinn lokafrestur til að koma athugasemdum á framfæri og skulu þær hafa borist Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en föstudaginn 13. október nk. Að þeim fresti loknum verður málið tekið til ákvörðunar.