Fréttasafn
26. júlí 2006
Tveir úrskurðir frá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála
Nánar
Hér á vefnum birtast nú tveir úrskurðir úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Annars vegar er um að ræða úrskurð í máli Símans hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun og Orkuveitu Reykjavíkur. Hins vegar úrskurð í máli Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun.
25. júlí 2006
Fréttatilkynning vegna útnefningar á farsímamarkaði 16
Nánar
Ákvörðun PFS um útnefningu Símans og Og Vodafone með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin farsímanetum og lækkun lúkningarverðs fyrir símtöl í GSM farsímanet Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstök farsímanet. Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM og NMT farsímanet og Og Vodafone með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM farsímanet. PFS hefur ákveðið að leggja eftirfarandi kvaðir á Símann vegna NMT kerfisins: Kvöð um aðgang að NMT farsímaneti, kvöð um jafnræði og kvöð um eftirlit með gjaldskrá. Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá er lögð sú skylda á Símann að bjóða ekki hærri verð fyrir lúkningu á símtölum í NMT kerfinu en voru í gildi samkvæmt gjaldskrá þann 31. desember 2005. Jafnframt hefur PFS ákveðið að leggja eftirfarandi kvaðir á bæði farsímafélögin vegna GSM farsímakerfanna: Kvöð um aðgang að GSM farsímaneti, kvöð um gagnsæi, kvöð um jafnræði, kvöð um bókhaldslegan aðskilnað og kvöð um eftirlit með gjaldskrá. Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá í GSM farsímanetum hefur PFS ákveðið að leggja þær skyldur á farsímafélögin að lækka og jafna gjaldskrá fyrir lúkningarverð í eigin GSM farsímaneti í kr. 7,49 í fjórum jöfnum þrepum. Í dag eru lúkningarverð Símans kr. 8,92 á mínútuna og tengigjald kr. 0,68 og hjá Og Vodafone er mínútan á dagtaxta kr. 13,2 og á næturtaxta kr. 11,0 (meðallúkningarverð Og Vodafone er kr. 12,10) og tengigjald 0,99 kr. Til að tryggja jafnræði þá hefur PFS ákveðið að félögin skulu bjóða aðeins eitt verð fyrir lúkningu símtals hvort sem um dag, kvöld eða helgi er að ræða. Fyrsta lækkun á lúkningarverðum er þann 1. september nk., önnur lækkun 1. júní 2007, þriðja lækkun 1. desember 2007 og sú fjórða 1. júní 2008. Tengigjöld skulu einnig falla niður. Borið hefur á kvörtunum frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir GSM farsímaþjónustu þegar hringt er á milli neta annars vegar og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar. Með því að jafna lúkningarverð er ein meginforsenda fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna ekki lengur til staðar. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og Póst- og fjarskiptastofnunar með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast, neytendum til hagsbóta. Búast má við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á seinni hluta ársins í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins og er markaður fyrir aðgang og upphaf símtala í almenn farsímanet næstur. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500. Nánar
24. júlí 2006
Fréttatilkynning vegna netsímaþjónustu
Nánar
Netsíminn er tækninýjung þar sem símaþjónusta er boðin í samræmi við staðla Internetsins. Með netsímanum geta neytendur m.a. nýtt sér kosti flökkuþjónustu sem felst í því að hægt er að tengjast símkerfum hvar sem er í heiminum með svipuðum kostnaði og um venjulega heimilisnotkun væri að ræða. Netsímaþjónusta er nú boðin í nær öllum ríkjum Evrópusambandsins og víða annars staðar. Erlendis hefur þjónustan m.a. aukið samkeppni á fjarskiptamarkaði, auðveldað innkomu nýrra markaðsaðila, og leitt til lægra verðs og aukinnar þjónustu við neytendur. Því er spáð að netsímaþjónusta muni smám saman taka alfarið við af hefðbundinni rásaskiptri talsímaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hóf undirbúning að innleiðingu þjónustunnar hérlendis í lok árs 2004. Á því tímabili var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Jafnframt var sérstakt samráð haft við Neyðarlínuna um þau atriði sem snúa að staðsetningarupplýsingum. Í því samráðsferli komu fram nokkrir annmarkar á netsímaþjónustu hvað varðar öryggi, t.d. að enn hefur ekki verið sett á markaðinn lausn sem gerir kleift að staðsetja netsíma á sama hátt og almennir heimilissímar eru staðsettir í kerfi Neyðarlínunnar í dag. Til mótvægis við þessa annmarka var ákveðið að skilgreina sérstaka númeraröð fyrir flökkuþjónustu, að merkja sérstaklega þau símanúmer sem flutt væru úr almennun númeraröðum yfir í netsímaþjónustu og að fjarskiptafélög skyldu upplýsa neytendur sérstaklega um þá annmarka sem er á netsímaþjónustu hvað varðar þennan öryggisþátt. PFS tók ákvörðun um að heimila netsímaþjónustu m.a. á grundvelli þess að Neyðarlínan gerði ekki athugasemdir við fyrirætlanir stofnunarinnar eins og þær birtust í yfirlýsingu um netsímaþjónustu frá 3. febrúar 2006. Í kjölfar hennar hófu markaðsaðilar að innleiða og bjóða netsímaþjónustu. Það kom því PFS á óvart að Neyðarlínan skyldi kæra bráðabirgðaákvörðun stofnunarinnar í ágreiningsmáli því sem verið hefur til umræðu í fjölmiðlum undanfarið og nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála tók til. Varðaði það mál synjun Símans um að flytja símanúmer yfir í netsímaþjónustu hjá Atlassíma. Samkvæmt bráðabirgðaákvörðun PFS var það mat stofnunarinnar að ágreiningsefni málsins væri óskylt miðlun staðsetningaupplýsinga í netsímaþjónustu almennt. Í ljósi þess að umrædd fjarskiptafyrirtæki hafa nú leyst úr ágreiningi sínum með sátt, telst málinu hins vegar lokið af hálfu stofnunarinnar. PFS tekur undir þau sjónarmið sem komið hafa fram um mikilvægi þess að stuðla að öryggi símnotenda eins og framast er unnt, m.a. varðandi miðlun staðsetningarupplýsinga. Er það sannfæring stofnunarinnar að innan tíðar muni koma á markaðinn lausnir sem duga til að staðsetja símnotendur netsímans í neyðartilfellum. Með þetta í huga, og í ljósi þess að sama þróun á sér stað í nær öllum nágrannaríkjum okkar, taldi PFS hag neytenda best borgið með því að heimila netsímaþjónustu. Stofnunin vill að lokum benda á að samkvæmt fjarskiptalögum er fjarskiptafyrirtækjum ekki skylt að miðla staðsetningarupplýsingum til neyðarþjónustuaðila, þ.m.t. lögreglunnar. Hins vegar hefur samstarf milli hagsmunaaðila leitt til þess að við Íslendingar búum við gott kerfi neyðarbjörgunar sem full ástæða er til að standa vörð um. Ljóst er að vegna mikillar og hraðrar tækniþróunar, sem birtist m.a. í samruna fjarskipta og upplýsingatækni, mun útfærsla lausna á þessu sviði vera viðvarandi verkefni næstu ár. Í þeirri vinnu verða allir aðilar að vera samstíga og taka höndum saman um að útfæra lausnir sem tryggja öryggi neytenda að teknu tilliti til sjónarmiða um persónuvernd. Hér má sjá yfirlýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi netsímaþjónustu frá því í febrúar 2006. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500, t-póstur:hrafnkell@pta.is
12. júlí 2006
Nýjar reglur um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Birtar hafa verið reglur Póst- og fjarskiptastofnunar um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp. Reglurnar kveða á um aðgang útvarpsstöðva, efnisveitenda og notenda að skilyrtum aðgangskerfum í fjarskiptanetum sem dreift geta stafrænni hljóð- eða sjónvarpsþjónustu og um tæknilega eiginleika aðgangskerfa og samsvarandi notendabúnaðar. Sjá nánar: Reglur um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp
6. júlí 2006
Úrskurður í ágreiningsmáli
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála kom saman 3. júlí 2006 og kvað upp úrskurð í ágreiningsmáli Símans hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun og Atlassíma ehf. Sjá úrskurðinn hér að neðan: Nr. 7/2006 - 3. júlí - Síminn ehf. gegn PFS og Atlassíma ehf.
3. júlí 2006
Gjöld fyrir alþjónustu innan eðlilegra marka - ný verðkönnun
Nánar
Samkvæmt 20. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) skylt að hafa eftirlit með gjaldskrám fyrir alþjónustu. Stofnunin á að sjá til þess að alþjónusta sé veitt á eðlilegu og viðráðanlegu verði og fylgjast með því að verðþróun sé í samræmi við kaupmátt innanlands. Auk þess má hafa hliðsjón af verðlagningu í viðmiðunarríkjum. Til alþjónustu í fjarskiptum heyrir m.a. talsímaþjónusta, rekstur almenningssíma og upplýsingaþjónusta um símanúmer 118 og hvílir sú kvöð á Símanum sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk að veita þessa þjónustu. Til að framfylgja eftirlitsskyldunni gerði PFS verðsamanburð á símtölum úr almenningssímum og símtölum í 118 hér á landi og í viðmiðunarríkjum, en varðandi almenna talsímaþjónustu var stuðst við verðsamanburð breska greiningarfyrirtækisins Teligen. Í ljós kom að verð fyrir þessa þjónustu hér á landi er innan eðlilegra marka. Í alþjóðlegum verðsamanburði Teligen á árlegum kostnaði fyrir meðalnotkun á heimilissíma innan OECD landa er Ísland með þriðja lægsta kostnað á eftir Kanada og Bandaríkjunum. Ef tekið er mið af meðalnotkun heimilissíma á Norðurlöndunum er ódýrast hér á landi að nota heimilissíma. Gjaldskrá fyrir almenningssíma er lægri hér á landi en í Noregi og Svíþjóð og gildir þá einu hvort hringt er úr almenningssíma í fastanetssíma eða farsíma. Þá kemur fram að einnar mínútu símtal í upplýsingaþjónustuna 118 er ódýrara hér á landi en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en tvöfalt dýrari en í Lúxemborg og á Grikklandi. Í ljósi þessarar niðurstöðu sér PFS ekki ástæðu til að ákveða hámarksverð fyrir talsímaþjónustu, símtöl úr almenningssíma eða símtöl í 118, eins og heimild er til í 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga. Sjá verðsamanburð (pdf-snið)
21. júní 2006
Drög að reglum um númerabirtingar til umsagnar
Nánar
Samkvæmt 51. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 skulu fjarskiptafyrirtæki sem reka almenna talsímaþjónustu bjóða notendum númerabirtingu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd. Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að setja reglur um fyrirkomulag númerabirtinga. Stofnunin hefur gert drög að slíkum reglum og hafa þær verið birtar á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is. Drögin taka mið af 8. gr. tilskipunar 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta Öllum sem hagsmuna eiga að gæta þ.m.t. notendum er heimilt að senda inn umsagnir um drögin. Óskað er eftir að umsagnir verði sendar á rafrænu formi á póstfangið sigurjon@pta.is, en jafnframt er óskað eftir að fá frumrit til skráningar. Umsagnir verða birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Frestur til að skila umsögnum er til og með 20. júlí nk. Drög að reglum um númerabirtingar(PDF)(Word)
15. júní 2006
Samráð um greiningar á þremur leigulínumörkuðum
Nánar
Í samræmi við V. kafla laga um fjarskipti nr. 81/2003 ásamt síðari breytingum nr. 78/2005, skal Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) skilgreina viðeigandi þjónustu- og vörumarkaði og landfræðilega markaði á fjarskiptasviði í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafa skilgreint fyrirfram 18 fjarskiptamarkaði sbr. tilmæli um viðkomandi markaði. PFS skal skv. 17. gr. fjarskiptalaga greina þessa 18 markaði, kanna hvort samkeppni á þeim sé virk og hvort þar finnist eitt eða fleiri fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Póst- og fjarskiptastofnun hefur greint samkeppnina á þremur mörkuðum leigulína, smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð leigulína (markaður 7), heildsölumarkaði fyrir lúkningahluta leigulína (markaður 13) og heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14). Frumdrög greiningar og niðurstaðna PFS um framangreinda markaði eru nú lögð fram til samráðs og PFS býður fjarskiptafyrirtækjum og öðrum sem áhuga hafa á að gera athugasemdir við þau, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Frumdrögin má finna á heimasíðu PFS www.pfs.is. Vakin er athygli á því að PFS áætlar að birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og þá mun stofnunin leggja mat á þá beiðni. Þess er vinsamlegast óskað að athugasemdir verði sendar til PFS eigi síðar en þriðjudaginn 1. ágúst nk. Þegar athugasemdir hafa borist mun PFS endurskoða greiningar á framangreindum mörkuðum með hliðsjón af framkomnu athugasemdum og útbúa á grundvelli þeirra drög að ákvörðun sem send verður ESA til samráðs, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003. Geri ESA ekki athugasemdir við markaðsgreiningar og niðurstöður PFS verður ákvörðun á þeim byggðar birtar hlutaðeigandi fyrirtækjum. Nánari upplýsingar um markaðsgreiningar veita starfsmenn PFS Birgir Óli Einarsson og Bjarni Sigurðsson. Upplýsingar um markaðgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunnar er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is. Markaðsgreining – Smásölumarkaður fyrir lágmarksframboð af leigulínum(markaður 7), heildsölumarkaður fyrir lúkningahluta leigulína (markaður 13) og heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14) (PDF)