Hoppa yfir valmynd

Upplýsingar fyrir notendur

Alþjónusta

Allir eiga rétt á tiltekinni lágmarksþjónustu - Sjá um alþjónustu

Val á fjarskiptafyrirtæki

Neytendur geta valið á milli fjarskiptafyrirtækja. Fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverða markaðshlutdeild í fjarskiptanetum, svo sem Símanum og Vodafone, er skylt að verða við réttmætum og sanngjörnum beiðnum annarra fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum. Aðgangur að heimtaugum þessara fyrirtækja eykur möguleika annarra fjarskiptafyrirtækja til að selja neytendum áskrift að fastasíma/heimasíma.

Farsímareiki á EES svæðinu

Reikað sem heima innan EES-svæðisins

Athugið að Bretland er utan EES.

Eftir 15. júní 2017 þarf ekki að að greiða sérstök reikigjöld þegar ferðast er til annars lands á EES svæðinu. Allir núverandi viðskiptavinir sem hafa hefðbundinn aðgang að reiki færast nú á þessi nýju viðskiptakjör sem ná yfir gagnaflutning, símtöl og SMS skeyti. Þetta gildir eingöngu innan EES-svæðisins og ekki þegar ferðast er til annarra landa.

Upplýsingarnar hér eiga ekki við þegar ferðast er til landa utan EES-svæðisins. Kynntu þér upplýsingar um farsímanotkun á ferðalögum utan EES-landanna hér fyrir neðan.

Spurningar og svör um farsímareiki á EES svæðinu

Nei, að hringja símtöl að heiman í erlend númer fellur ekki undir reiki. Verð símtala frá heimalandi til útlanda, þ.e. útlandasímtöl, eru ekki undir reglum eða kvöðum. Kynntu þér gjaldskrár fyrir símtöl til útlanda á heimasíðu þess símafyrirtækis sem þú ert hjá.

Eins og verið hefur telst það innanlandssímtal að hringja í íslenskt númer, jafnvel þótt síminn sé staddur í útlöndum.

Ef þú ferðast innan EES svæðisins eftir 15. júní 2017 eru engin aukagjöld fyrir að taka á móti símtölum. Þegar þú hringir heim frá landi innan svæðisins þá borgar þú það sama og þú myndir gera heima.

Meginreglan er sú að engin reikigjöld eru lögð á símanotkun sem á sér stað á venjulegum ferðalögum innan EES-svæðisins. Ef dvalið er langdvölum eða flust til annars EES-lands gilda þessar „reikað sem heima“ reglur ekki.

Hvað varðar símtöl og SMS skeyti gildir heimaverðskrá um alla notkun. Sama verðskrá gildir í reiki og gildir um notkun innanlands. Innifaldar mínútur og innifalin SMS eru þar meðtalin, einnig ef viðkomandi áskrift býður ótakmarkaðar mínútur og/eða SMS skeyti.

Hvað gagnamagn varðar þá gilda reglur um sanngjörn not þar sem símafyrirtækin hafa heimild til að setja mörk á það hve mikið gagnamagn má nota samkvæmt innanlandskjörum. Ef slík mörk eru sett er símafyrirtækinu skylt að tilkynna notendum sínum hver þau mörk eru.

Ákvæði reikireglnanna um „reikað sem heima“ setja skilyrði um lágmarksmörk sem eru rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna. Ef farið er yfir þessi mörk er farsímafyrirtækinu heimilt að innheimta reikiálag sem nú nemur að hámarki 1.110,91 kr. fyrir hvert gígabæti af gagnamagni.

Á meðan viðvera heima er meiri en erlendis yfir fjögurra mánaða tímabil gilda „reikað sem heima“ reglurnar um notkun í reiki.
Ef viðvera erlendis er meiri en heima fellur það ekki undir sanngjörn not á reikiþjónustu og farsímafyrirtækið gæti haft samband til að tilkynna að hér eftir verði lagt álag á notkun í reiki. Viðskiptavinur hefur þá 14 daga til að skýra notkun sína og af hverju ekki ætti að leggja á slíkt álag, t.d. ef sérstakar aðstæður hafa verið undanfarna mánuði sem ekki eru viðvarandi.
Það álag sem leggja má á reikinotkun umfram sanngjörn not vegna mikillar viðveru erlendis eru að hámarki 4,62 kr/mín vegna símtala sem eru hringd, 1,44 kr/SMS og 1.110,91 kr/GB vegna gagnanotkunar.
Í slíkum tilfellur getur það verið hagkvæmara að útvega þarlenda farsímaáskrift en að greiða reikiálagið.

Allar þjónustuleiðir sem nú bjóða reiki á almennri reikiverðskrá verða færðar á þau kjör sem „reikað sem heima“ reglurnar kveða á um.

Á meðan tengst er við farsímanet frá landi gilda þessar reikireglur, t.d. ef siglt er á ám, vötnum og við ströndina. Um leið og tengst er annars konar farsímanetum, t.d. þegar skemmtiferðaskip eða flugvélar tengjast farsímanetum um gervihnött gilda þessar reikireglur ekki.

Sé viðskiptavinur nú með önnur reikikjör en þau almennu skal farsímafyrirtæki hafa samband og fá staðfest að viðskiptavinur vilji halda þeim sérstöku kjörum. Staðfesti viðskiptavinur ekki að hann vilji halda þessum sérstöku reikikjörum skal færa þjónustuleið hans yfir í kjör samkvæmt „reikað sem heima“ reglunum.

Bjóði þjónustuleiðin þegar upp á reiki fellur hún undir „reikað sem heima“ reglurnar og kjörin. Þó hefur farsímafyrirtækið heimild til að setja lægri mörk á sanngjörn not gagnaflutnings á fyrirframgreiddar þjónustuleiðir. Farsímafyrirtækinu er skylt að tilkynna viðskiptavinum sínum hver mörkin um sanngjörn not eru á þjónustuleiðum þeirra.
Sé fyrirframgreidda þjónustuleiðin með þeim hætti að dregið sé jafnóðum af inneign fyrir alla notkun, þar með talið gagnanotkun, eru mörkin um sanngjörn not miðuð við þá inneign sem fyrir hendi er þegar reiki hefst.
Sé keyptur sérstakur gagnamagnspakki með ákveðinni inneign af gagnamagni eru mörkin um sanngjörn not sett sérstaklega á þann gagnamagnspakka.
 

Farsímafyrirtækjunum er heimilt að setja slíkum þjónustuleiðum mörk um sanngjörn not í reiki. Reglur um „reikað sem heima“ setja lágmarksviðmið um þessi mörk sem taka mið af mánaðargjaldi viðkomandi áskriftarleiðar. Farsímafyrirtækjunum er alltaf heimilt að bjóða meira gagnamagn innan sanngjarnra nota en þetta reiknaða lágmark. Reiknireglan er að viðskiptavinum í fastri eftirágreiddri áskrift skal að lágmarki heimilt að nota tvöfalt það gagnamagn í gígabætum sem fæst þegar mánaðarverði áskriftar er deild á 1.110,91 kr. Sem þýðir að áskrift sem kostar 3000 kr skal að lágmarki geta notað 5,4 GB í reiki áður en heimilt er að leggja álag á notkun í reiki.
Ef þjónustuleiðin er fyrirframgreidd sem pakki er lágmarkið einfalt magn í GB, þ.e. 2,7 GB fyrir þjónustuleið sem kostar 3000 kr. á mánuði. Ef fyrirframgreidda þjónustuleiðin með þeim hætti að dregið er jafnóðum af inneign fyrir alla notkun, þar með talið gagnanotkun, eru mörkin um sanngjörn not miðuð við þá inneign sem fyrir hendi er þegar reiki hefst.

Farsímareiki utan EES svæðisins

Athugið að Bretland er utan EES.

Mikill munur getur verið á gjaldskrám fyrir síma- og netnotkun erlendis og heima fyrir. Því er rík ástæða til að kynna sér vel verð fyrir reikiþjónustu og aðra fjarskiptaþjónustu í því landi sem ferðast er til.

Með orðinu reiki er átt við það þegar farsíma- eða tölvunotandi sem er í viðskiptum við ákveðinn þjónustuaðila fær aðgang að síma- og/eða netkerfum annarra þjónustuaðila.

Alþjóðlegt reiki er þegar aðgangur er veittur að síma- og/eða netkerfum þjónustuaðila í öðru landi.

ATH: Innan EES-svæðisins falla sérstök reikigjöld niður frá 15. júní 2017 fyrir íbúa landanna á svæðinu.

Kynnið ykkur upplýsingar á vefsíðum farsímafyrirtækjanna

Símafyrirtækin eru með upplýsingar um farsímanotkun erlendis á vefsíðum sínum. Hér fyrir neðan eru tenglar á viðkomandi vefsíður hjá fyrirtækjunum.

Hringdu

Hringiðan

Nova

Síminn

Vodafone

Spurningar og svör um farsímareiki utan EES svæðisins

Þegar dvalið er um lengri tíma í útlöndum getur borgað sig að kaupa SIMkort hjá einhverju símafyrirtæki í landinu og nota það númer. Þá greiðir þú ekki fyrir þau símtöl sem berast þér.

Í mörgum tilfellum getur komið sér vel fyrir farsímnotendur að velja sjálfir hvaða þjónustufyrirtæki þeir vilja nota á meðan þeir dvelja erlendis. Það gildir ekki síst um þá sem ferðast utan Evrópu. Forsendan er þó að þjónustufyrirtækið heima hafi gert reikisamning við fleiri en eitt símafyrirtæki í því landi sem ferðast er til. Því er rétt að kynna sér reikisamninga þjónustufyrirtækisins og bera saman gjaldskrá þeirra erlendu símafyrirtækja sem það hefur samið við. Í leiðbeiningum um notkun flestra farsíma eru upplýsingar um hvernig hægt er að velja farsímanet í útlöndum, telji notandinn að sú reikiþjónusta sem sjálfkrafa kemur upp, sé ekki sú ódýrasta. 

Þegar hlaðið er niður gögnum af netinu í farsímann eða í útlöndum getur það verið mun dýrara en netnotkun innanlands.

Þeir sem eru með 3G/4G síma eða önnur snjalltæki og hafa netþjónustu tengda geta aftengt þessa þjónustu þegar farið er til útlanda. Ef það er ekki gert fer síminn sjálfvirkt að leita að netþjónustu. Þetta getur haft mikinn aukakostnað í för með sér. Hægt er að fá aðstoð við að aftengja netþjónustumöguleika símans hjá því fyrirtæki sem viðkomandi er í viðskiptum við. Athugið þó að evrópskum farsímafyrirtækjum (þ.m.t. íslenskum) er skylt að láta notandann vita þegar um sérstök reikigjöld er að ræða og notkun nær 50 evrum.

Þegar fartölvan er tengd netinu með netkorti eða netlykli sem notar 3G eða 4G kerfi er það sami kostnaður og þegar hlaðið er niður efni í farsímann.

 

Hugið að öryggi í netnotkun

Mikilvægt er að huga að öryggi í netnotkun allsstaðar. 
 

 



 

Það kostar meira að taka á móti skilaboðum úr símsvaranum heima þegar dvalið er erlendis og jafngildir það millilandasímtali að hringja í talhólfið. Því er rétt að kynna sér fyrirfram á hvaða kjörum hægt er að nýta símsvarann á meðan dvalið er í útlöndum.
 

Farsímanotandi í útlöndum greiðir fyrir símtal sem endar í talhólfinu hans jafnvel þó sá sem hringir leggi á um leið og talhólf svarar.

Gott sparnaðarráð er því að aftengja talhólfið áður en farið er til útlanda.

Það kostar jafnan meira að senda textaskilaboð frá útlöndum og heim heldur en innanlands. 

Greitt er fyrir MMS eins og gagnanotkun.

Kynntu þér verðskrána hjá fjarskiptafyrirtækinu þínu.

 

Sá sem hringir frá Íslandi í farsímanotanda með íslenskt númer sem staddur er í útlöndum greiðir skv. innanlandsgjaldskrá síns fjarskiptafyrirtækis en sá sem tekur á móti símtalinu greiðir samkvæmt útlandagjaldskrá síns fjarskiptafyrirtækis.

Því greiðir farsímanotandi í útlöndum bæði fyrir þau símtöl sem hann hringir sjálfur og þau símtöl sem honum berast. Athugið þó að gjaldið er lægra fyrir móttekin símtöl en þegar hringt er heim.

Öll símtöl fara í gegnum símgátt þjónustufyrirtækis á Íslandi og  því jafngildir það millilandasímtali ef hringt er í vin eða ættingja sem er með notandanum á ferðalagi og eru með honum í vinaáskrift.

Gjaldskrá þess fyrirtækis sem íslenska símafyrirtækið hefur gert reikisamning við gildir fyrir alla símnotkun að viðbættu 20 %þjónustugjaldi og 24,5% virðisaukaskatti. Það kostar því töluvert meira að hringja erlendis frá til Íslands, en það kostar að hringja innanlands.

Talhólf
Farsímanotandi sem er í útlöndum greiðir fyrir símtöl sem enda í talhólfinu hans eins og um móttekin símtöl sé að ræða.

Hægt er að nota flest fyrirframgreidd símkort í útlöndum, en það getur þurft að skrá sig fyrir slíkri þjónustu áður en lagt er í ferðalag. Því er mælt með því að notendur fyrirframgreiddra korta kynni sér kjörin og gangi úr skugga um það hjá þjónustufyrirtækinu hvort þeir geti notað þau í því landi sem ferðast er til.

CE merkingar - Kaup á tækjum

Margir freistast til að kaupa sér ódýr fjarskipta- og rafmagnstæki á erlendis frá, í gegnum netið eða á ferðalögum.  Dæmi um þetta eru farsímar, spjaldtölvur, leikföng, fjarstýrðar læsingar o.s.frv.

Fjarskiptabúnaður þarf hins vegar að uppfylla kröfur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu til þess að nota megi hann hér á landi. Fjarskiptatæki sem eru almennt í notkun í löndum utan Evrópu geta því verið ólögleg hér á landi. 
Ef fjarskiptabúnaður er í fullu samræmi við kröfu á EES svæðinu er hann CE-merktur.

Góð ráð áður en fjárfest er í fjarskiptatæki til nota hér á landi

Öll fjarskiptatæki eiga að vera CE-merkt.  Ef þau eru það ekki, eru þau ólögleg á Íslandi.
CE-merkið skal vera greinilegt á umbúðum og á tækjunum. Að auki skal tækið vera merkt með framleiðslunúmeri.

Ofangreint á við, hvort heldur tækin eru keypt  á Íslandi, erlendis eða koma til landsins sem gjöf, t.d. frá ættingjum.

Ofangreint á einnig við ef tækin eru keypt á netinu.

Athuga þarf hvort hvort afla þurfi tilskilinna leyfa til að nota tækið á Íslandi.

Dæmi um búnað sem er skilgreindur sem fjarskiptatæki og skal vera CE-merktur:

Farsímar

Handtalstöðvar (Walkie-talkie)

Þráðlaus vaktbúnaður í barnavagna

Þráðlausir hljóðnemar

Fjarstýrðar bílskúrslæsingar

Ýmis símatæki og mótöld.

Fjarstýrð leikföng

Útvarpstæki

Búnaður fyrir þráðlausar tengingar við Internetið

Radarvarar

GPS -Búnaður

Munið
Öll fjarskiptatæki verða að vera CE-merkt. Tæki, sem ekki eru CE-merkt, eru ólögleg hér á landi.

Algengar spurningar og svör um fjarskiptaþjónustu