Hoppa yfir valmynd

Leiðbeiningar vegna ótryggs farnetssambands

Leiðbeiningar um úrræði til heimila og vinnustaða með slitrótt farnetssamband

Ísland er í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að fjarskiptasambandi almennings og fyrirtækja þrátt fyrir að vera strjálbýlt og landfræðilega erfitt þegar kemur að uppbyggingu fjarskiptakerfa.

Engu að síður eru ennþá örfáir staðir þar sem ekki er hægt að tryggja fullt innanhússamband og enn færri sem ekkert samband hafa utanhúss þegar um farnetssamband er að ræða. Íslensk stjórnvöld og fjarskiptafyrirtækin vinna þó stöðugt að því að bæta samband almennings og fyrirtækja. Með verkefninu Ísland ljóstengt hafa heimili í strjálbýli fengið aðgengi að tengingu við ljósleiðara og þar með öflugt netsamband á heimilunum. Slíkt samband opnar fyrir lausnir sem geta m.a. bætt farsímasamband  innanhúss.

Nokkrar lausnir eru til sem geta hjálpað notendum farneta  sem eru með ótryggt farnetssamband innanhúss til þess að ná góðu sambandi og þannig tryggja aukið öryggi notenda.

Tal og sms yfir WiFi (e. Voice over WiFi; VoWiFi)

Tal og sms yfir WiFi  er nærtækasta lausnin sem í boði er en sú lausn gerir mögulegt að taka á móti símtölum og hringja símtöl ásamt sms sendingum með farsíma sem er tengdur á þráðlaus heimanet (WiFi). Til þess þarf farsíma sem býður þessa þjónustu (VoWiFi) ásamt því að fjarskiptafyrirtæki notanda hafi virkjað þessa þjónustu í sínu kerfi.

Fjarskiptafélögin eru komin mislangt með innleiðingu þessarar þjónustu og er notendum því bent á að hafa samband við þjónustuver fjarskiptafélaganna.

4G/5G loftnetsbúnaður

Þeir notendur sem búa við stopult farnetssamband og hafa ekki nettengingu í gegnum fastanet eins og t.d. ljósleiðara geta keypt eða leigt sérstakt loftnet sem koma má fyrir t.d. á þaki húsa og geta þannig í flestum tilfellum tekið við farnetsmerki frá 4G eða 5G þjónustu sem síðan tengist við þráðlaust heimanet (WiFi) inni í húsnæði viðkomandi notenda. Þessi búnaður er einnig algengur til þess að ná háhraðanetstengingu í sumarhúsum.

Notendum er bent á að hafa samband við sinn þjónustuaðila (fjarskiptafélag) varðandi kaup eða leigu á þessum búnaði.

Endurvarpar/magnarar

Endurvarpar eða magnarar gegna svipuðu hlutverki og loftnetsbúnaðurinn hér að ofan nema hvað þessi búnaður tekur við farnetsmerki og endurvarpar því innanhúss. Hann hefur verið hægt að kaupa hjá nokkrum söluaðilum hér á landi en notkun hans er háð heimild fjarskiptafélaganna sem eru þeir aðilar sem hafa heimild Fjarskiptastofu til þess að dreifa farnetsmerki á Íslandi. Endurvarpar eru mest notaðir um borð í skipum og í undantekningartilvikum í dreifbýli þar sem minni hætta er á að notkun þeirra trufli önnur fjarskipti.

Nauðsynlegt er að hafa samband við sinn þjónustuaðila (fjarskiptafélag) ef þörf er á að nota endurvarpa.

Kvartanir vegna óeðlilegra truflana á farsímasambandi

Fjarskiptastofa  tekur við kvörtunum vegna truflana á fjarskiptum. Stofnunin leitast við að finna orsakir þeirra eins fljótt og verða má og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bætt verði þar úr.

Hægt er að senda inn kvörtun rafrænt  eða með tölvupósti í netfang fjarskiptastofa@fjarskiptastofa.is og senda okkur skilaboð á Facebooksíðu stofnunarinnar.