Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptaáætlanir

Hlutverk Fjarskiptastofu er að hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins. Í lögum um fjarskipti númer 70/2022 er fjallað um stjórn fjarskiptamála. Þar segir m.a.:

  • Ráðherra fer með yfirstjórn fjarskipta.
  • Fjarskiptastofa skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins og hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.
  • Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu tólf árin. Í fjarskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og leggja þannig grunn að framþróun íslensks samfélags. Markmiðin skulu stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt skal í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
  • Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
  1. ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
  2. styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
  3. tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
  4. ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
  5. ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum,
  6. stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.
  • Í fjarskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára, og leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, en það skal gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Fjarskiptaáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.

Þann 29. nóvember 2012 voru samþykktar þingsályktanir um fjarskiptaáætlanir til tólf ára annars vegar, þ.e. fyrir 2011 - 2022 og hins vegar til fjögurra ára, þ.e. fyrir árin 2011 - 2014.  Þingsályktanirnar má nálgast á vef Alþingis:

Þingsályktun um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011-2014

Þingsályktun um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011-2022

Samkvæmt lögum um fjarskiptasjóð er sjóðnum ætlað að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum.

Upplýsingar um fjarskiptasjóð og stöðu verkefna hans er að finna á vef sjóðsins, [www.fjarskiptasjodur.is](http://www.fjarskiptasjodur.is/