Hoppa yfir valmynd

Gervihnattaþjónusta

Veiting gervihnattaþjónustu

Fyrirtæki sem hyggjast veita gervihnattafjarskiptaþjónustu á Íslandi þurfa að skrá sig hjá Fjarskiptastofu.

ECC ákvarðanir um notkun tíðnirófsins, þ.m.t. fyrir gervihnattafjarskipti, eru innleiddar með birtingu í íslenska tíðniskipulaginu (NTFA, National Table of Frequency Allocation), sjá nánar undir tíðnimál.

Skráningar gervihnattatíðna

Tíðnir sem gervihnattafyrirtæki óska eftir að nota í starfsemi sinni þarf að skrá hjá Alþjóðafjarskiptastofnuninni (ITU). Fjarskiptastofa sér um slíkar skráningar fyrir Íslands hönd. Um meðferð skráninga hjá Fjarskiptastofu fer skv. reglugerð um skráningu gervihnattatíðna nr. 305/2019.

Umsækjendur um skráningu skulu vera skráð fyrirtæki á Íslandi, en geta haft höfuðstöðvar í öðru ríki, að uppfylltum nánari skilyrðum sem fram koma í reglugerðinni.

Samkvæmt reglugerðinni getur Fjarskiptastofa falið hæfum aðila að framkvæma skoðun og mat á umsóknum og umsýslu varðandi skráningar. Slíkur aðili skal hafa víðtæka reynslu af skráningum gervihnattatíðna og skal hafa tæknilega og fjárhagslega getu til þess að framkvæma slíkt verkefni með skilvirkum og áreiðanlegum hætti. Með vísan til þessarar heimildar hefur Fjarskiptastofa gert samstarfssamning við fyrirtækið ManSat sem hefur áratuga reynslu af skráningum gervihnattatíðna. Dótturfyrirtæki ManSat, IceSat ehf., annast verkefnið; og eru fyrirtæki sem óska eftir skráningum beðin um að hafa samband við IceSat ehf.

Allar skráningar eru háðar endanlegu samþykki Fjarskiptastofu.

Skráning tíðna hjá ITU fer eftir ákvæðum Alþjóðlegu radíóreglugerðarinnar og málsmeðferðarreglum ITU-R.

Fjarskiptastofa hefur gefið út verklagsreglur um móttöku og meðferð skráningarumsókna.

Jarðstöðvar

Jarðstöðvar gervihnattakerfa eru leyfisskyldar, skv. 62. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Sækja skal um leyfi hjá Fjarskiptastofu: Umsóknareyðublað

Árlegt gjald fyrir starfrækslu jarðstöðvar er ISK 25.100,- skv. 22. gr. laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021.