Hoppa yfir valmynd

Alþjónusta

Til alþjónustu í fjarskiptum teljast þeir þættir sem boðnir eru öllum neytendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Um alþjónustu er fjallað í 6. kafla laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Skv. reglugerð um alþjónustu í fjarskiptum nr. 1356/2007 er eftirfarandi þjónusta skilgreind sem alþjónusta:

Almenn talsímaþjónusta

Handvirk þjónusta (aðstoð talsímavarðar)

Þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir

Gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningshraða

Aðgangur að símaskrá með öllum símanúmerum og upplýsingaþjónusta um öll símanúmer

Almenningssímar

Aðgangur að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala

Fjarskiptastofa getur sett  lágmarkskröfur um gæði í alþjónustu. Þær kröfur gilda eingöngu í neti þess sem hana veitir. Um skilgreiningar, mælingaraðferðir og kröfur til birtingar á niðurstöðum vísast til ETSI EG 201 769-1 (2000-04).

Lágmarkskröfur PFS um alþjónustu (21. október 2010)

Jöfnunarsjóður alþjónustu

Jöfnunarsjóður alþjónustu er sjóður í vörslu Fjarskiptastofu. Fjarskiptafyrirtæki sem á hafa verið lagðar skyldur til að veita alþjónustu geta sótt um endurgreiðslur úr jöfnunarsjóði. Til að standa straum af endurgjaldi til þeirra er innheimt jöfnunargjald af fjarskiptafyrirtækjum sem starfrækja fjarskiptanet eða -þjónustu.  Skv. lögum um fjarskipti er álagt jöfnunargjald nú 0,10% af bókfærðri veltu fjarskiptafyrirtækja.

Sjá skýrslur Fjarskiptastofu um jöfnunarsjóð alþjónustu á vefnum undir útgefið efni.

Alþjónustuskylda Neyðarlínunnar

Samkvæmt ákvörðun PFS nr.17/2009 hefur Neyðarlínan ohf.skyldu til að veita alþjónustu vegna aðgangs að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala (neyðarsvörun) á sviði talsímaþjónustu.

Útnefningin gildir á meðan Neyðarlínan ohf. er með samning við innanríkisráðuneytið um rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, sbr. 8. gr. laga um samræmda neyðarsvörun nr. 40/2008.