Fréttasafn
29. janúar 2007
Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar í ágreiningsmáli um gildistíma frelsisnúmers
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun í ágreiningsmáli um gildistíma frelsiskorts. Þann 21. nóvember 2006 barst Póst og fjarskiptastofnun kvörtun þess efnis að Og fjarskipti ehf. (Vodafone) áskilji sér rétt til þess að loka frelsisnúmeri, án þess að endurgreiða hugsanlega inneign notanda, ef ekki er lagt inn á kortið í þrjá mánuði. Í ákvörðuninni kemur fram að PFS telur skilmála Og fjarskipta ehf. um gildistíma talfrelsis, eins og honum hafi verið beitt, ekki brjóta gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003. Hins vegar beri fyrirtækinu að endurskoða orðalag hans í samræmi við þau sjónarmið Póst- og fjarskiptastofnunar sem fram koma í forsendum ákvörðunarinnar. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun nr. 1/2007 í ágreiningsmáli um gildistíma frelsisnúmers (PDF) Allar ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar eru birtar í tímaröð undir tenglinum Ákvarðanir og úrskurðir hér til vinstri.
16. janúar 2007
Ákvörðun PFS um framlag til Símans úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Þann 7. desember 2006 kynnti Póst- og fjarskiptastofnun Símanum ákvörðun sína um framlag til Símans hf. úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna ársins 2005. Framlagið er vegna veitingar gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu og skv. ákvörðun PFS nemur það kr. 18.880.079, fyrir árið2005. Í ákvörðun PFS er tiltekið að hún er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Síminn hefur kært ákvörðunina og er hún til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Ákvörðun PFS um framlag til Símans hf. úr jöfnunarsjóði alþjónustu (PDF)
4. janúar 2007
Ný skýrsla um áhrif sambandsrofa í millilandasamskiptum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur látið vinna skýrslu um áhrif sambandsrofa í millilandasamskiptum. Skýrslan var unnin í desember sl. af ParX Viðskiptaráðgjöf IBM. Skýrsluhöfundum var falið að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif þess að rof verði á fjarskiptasamböndum Íslands við umheiminn og hagkvæmni tímasetningar lagningar nýs strengs, FARICE-2. Í dag tengjast fjarskipti Íslands við umheiminn tveimur sæstrengjum, CANTAT-3 og FARICE-1. CANTAT-3 er byggður upp á gamalli tækni og er dýr í rekstri. Megin niðurstaða skýrsluhöfunda er að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðist verði í lagningu nýs sæstrengs fyrr en síðar og að hagkvæmara væri fyrir Íslendinga að standa nú þegar að uppbyggingu á nýjum streng, frekar en fresta lagningu hans. Sjá skýrsluna í heild:Áhrif sambandsrofa í millilandasamskiptum og tímasetning lagningar nýs strengs. (PDF)
3. janúar 2007
Nýjar reglur um innanhússfjarskiptalagnir
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett reglur um innanhússfjarskiptalagnir sem birtar voru í Stjórnartíðindum 29. desember sl. Reglur um innanhússfjarskiptalagnir nr. 1109/2006 (PDF)
29. desember 2006
Útboð á tveimur tíðniheimildum fyrir GSM 1800 farsímakerfi innan skamms
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun mun bjóða út tíðnisvið fyrir GSM 1800 farsíma innan skamms.Gert er ráð fyrir að tíðniheimildir verði gefnar út í byrjun annars ársfjórðungs 2007.Haft verður samráð við hagsmunaaðila og hafa þeir frest til kl. 12, miðvikudaginn 17. janúar 2007 til að skila inn umsögnum, athugasemdum og ábendingum. Samráðsgögnin má nálgast hér neðar. Tilgangur með þessu útboði er að auglýsa eftir umsóknum frá aðilum, sem ekki hafa tíðniheimildir á GSM 1800 tíðnisviðinu. PFS telur að útgáfa tíðniheimilda til nýrra aðila sé til þess fallin að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði hér á landi. Því er ekki gert ráð fyrir að núverandi rétthafar tíðniheimilda fyrir GSM farsímakerfi á Íslandi taki þátt í útboði þessu. Allt að tveimur bjóðendum verður úthlutað tíðnum. Sett verða skilyrði um hraða uppbyggingarinnar í 2 áföngum. Tíðniheimildir munu gilda í 10 ár. Samráðsgögn vegna útboðs (PDF) Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500, t-póstur:hrafnkell@pta.is
28. desember 2006
Útboðsauglýsing - Útgáfa tíðniheimilda fyrir þriðju kynslóð farsíma, IMT-2000
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun mun, með heimild í lögum um þriðju kynslóð farsíma nr. 8/2005, gefa út tíðniheimildir til starfrækslu þriðju kynslóðar farsímakerfa skv. IMT-2000 stöðlum Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU), þ.m.t. UMTS-stöðlum, að undangenginni auglýsingu og vali milli umsækjenda sem byggt verður á skilmálum sem fram koma hér á eftir. Allt að fjórum bjóðendum verður úthlutað tíðnum. Sérhver tíðniheimild gildir fyrir allt landið og mun fela í sér eitt eftirtalinna fjögurra tíðnisviða, sem hvert um sig er samtals 2 x 15 MHz FDD og 5 MHz TDD, samtals 35 MHz: 1) 1920-1935MHz / 2110-2125MHz og 1915-1920MHz2) 1935-1950MHz / 2125-2140MHz og 1900-1905MHz3) 1950-1965MHz / 2140-2155MHz og 1905-1910MHz4) 1965-1980MHz / 2155-2170MHz og 1910-1915MHz Afhenda skal umsóknir í afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar bæði á pappírs- og tölvutæku formi. Nánari upplýsingar og skilmála er að finna í útboðslýsingu - sjá neðar Einnig má fá útboðslýsingu á skrifstofu Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík. Hér fyrir neðan má sækja Excel-skjal, sem reiknar út stigafjölda tilboða sem fall af útbreiðslu og hraða uppbyggingar, sem bjóðandi skuldbindur sig til að ná með tilboði sínu. Tilboðum skal skila á skrifstofu Póst- og fjarskiptastofnunar, eigi síðar en mánudaginn 12. mars 2007 kl 11:00. Verða tilboð þá opnuð að viðstöddum fulltrúum bjóðenda, sem þess óska. Lesin verða upp nöfn bjóðenda ásamt tilboðsblaði með stigaútreikningi, sbr. viðauka 1 í útboðslýsingu. Útboðslýsing (PDF) Útreikningur stiga í útboðslýsingu (Excel - skjal) Samráð vegna útboðs - samantekt á svörum (PDF) Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500, t-póstur:hrafnkell@pta.is
27. desember 2006
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um markað 16
Nánar
Þann 22. desember 2006 staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í úrskurði sínum nr. 12/2006 ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá 20. júlí 2006 um markað 16, um lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Úrskurðinn má lesa hér í heild sinni (PDF)
14. desember 2006
Ákvörðun um aðgang að málsgögnum.
Nánar
Þann 11. desember sl. tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun í ágreiningsmáli milli Símans og Orkuveitu Reykjavíkur um aðgang Símans að gögnum í máli vegna ákvörðunar stofnunarinnar um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi OR frá öðrum rekstri fyrirtækisins. Skv. ákvörðun PFS verða Símanum afhent öll málsgögn, með þeim takmörkunum sem leiða af 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um aðgang Símans hf. að málsgögnum (PDF)