Fréttasafn
16. júlí 2010
Ákvörðun PFS um útnefningu á farsímamarkaði 7
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir í dag ákvörðun sína varðandi heildsölu á farsímamarkaði. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka verð heildsöluþjónustu um 50% til 67% úr 7,49 krónum annars vegar og 12 krónum hins vegar í 4 krónur í þrepum á næstu tveimur og hálfu ári. Upphafsgjöld verða afnumin. Ákvörðunin nær til allra farsímanetrekenda hérlendis, þ.e. Símans, Vodafone, Nova og IMC/Alterna, en tvö síðastnefndu fyrirtækin báru ekki sérstakar kvaðir áður. Í lok tímabilsins munu öll félögin hafa sama hámarksverð á heildsöluverði farsímaþjónustu (s.k. lúkningarverði). Þessi breyting leiðir m.a. til þess að ein meginforsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu þegar hringt er í annað farsímafélag verður ekki lengur til staðar. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM (2G og 3G) og NMT farsímanet, Vodafone í eigin GSM farsímanet (2G og 3G), Nova í eigin GSM farsímanet (3G) og IMC/Alterna í eigin GSM farsímanet (2G). Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi mörkuðum má fyrst og fremst rekja til þess að farsímafyrirtækið sem ræður yfir netinu sem símtalinu er lokið í, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Flest samkeppnisvandamálin tengjast lúkningarverði. Að mati PFS á sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum er þannig velt yfir á þá notendur sem eru tengdir öðrum farsíma- eða fastlínunetum. PFS hefur ákveðið að leggja kvaðir á Símann vegna 2G og 3G farsímanets félagsins um aðgang, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald. Sömu kvaðir eru lagðar á Vodafone að undanskyldri kvöð um kostnaðarbókhald. Þá eru lagðar kvaðir á Nova og IMC/Alterna um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá í GSM/UMTS farsímanetum hefur PFS ákveðið að leggja þær skyldur á farsímafélögin að lækka og jafna gjaldskrá fyrir lúkningarverð í eigin GSM/UMTS farsímanetum úr 7,49-12 kr. í 4 kr. í fjórum þrepum fram til ársloka 2012, sbr. neðangreinda töflu. Lækkun lúkningarverða í GSM/UMTS farsímanetum fram til 1. janúar 2013 Fyrirtæki Eining Verð fráákvörðun Verð frá1.9.2010 Verð frá1.1.2011 Verð frá1.1.2012 Verð frá1.1.2013 Síminn kr./mín. 7,49 6,5 5,5 4,5 4,0 Vodafone kr./mín. 7,49 6,5 5,5 4,5 4,0 Nova kr./mín. 12,0 10,3 8,3 6,3 4,0 IMC/Alterna kr./mín. 12,0[1] 10,3 8,3 6,3 4,0 [1] Lúkningarverð IMC er 12 kr. gagnvart öðrum en Símanum. Lúkningarverð gagnvart Símanum er 7,49 kr. vegna símtala sem eiga sér upphaf í talsímaneti og/eða NMT neti Símans, en símtöl úr farsímaneti Símans sem enda í kerfi IMC eru verðlögð eins og um sé að ræða innankerfissímtöl í farsímaneti Símans, þ.e. upphaf og lúkning símtals er verðlagður á 6,53 kr. Um verður að ræða hámarksverð og er félögunum því heimilt að bjóða lægri verð ef slíkt er í boði fyrir alla aðila (jafnræðiskvöð). Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er á milli neta annars vegar og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með því að jafna lúkningarverð er ein meginforsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnasæja verðfyrirkomulagi ekki lengur til staðar. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem þarf ekki að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði en að mati PFS eru allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einfaldari gjaldskrár á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast enn frekar, neytendum til hagsbóta. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. Markaður fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum næstur í röðinni. Ákvörðun nr. 18/2010 Viðauki A - Greining á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum(Markaður 7) Viðauki B - Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)
16. júlí 2010
PFS framlengir samráðsfrest vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu sem tilkynnt var um 29. júní s.l. Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni eigi síðar en þriðjudaginn 3. ágúst n.k.
30. júní 2010
PFS efnir til samráðs um reglur um forval og fast forval í talsímanetum
Nánar
PFS hefur gert drög að nýjum reglum um forval og fast forval í talsímanetum í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun óskar stofnunin hér með eftir umsögnum hagsmunaaðila vegna ofangreinds. Reglunum er ætlað að leysa af hólmi eldri reglur um sama efni nr. 280/2002. Frestur til þess að koma að rökstuddum tillögum eða athugasemdum við meðfylgjandi drög er gefinn til 21. júlí n.k. Sérstakar fyrirspurnir vegna ofangreinds má senda á netfangið oskarh@pfs.is en athugasemdir og rökstuddar tillögur skulu sendar formlega til PFS fyrir ofangreindan svarfrest. Drög að reglum um forval og fast forval í talsímanetum (PDF) Drög að reglum um forval og fast forval í talsímanetum - Skjal með sýnilegum breytingum (PDF)
29. júní 2010
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar Póst- og fjarskiptastofnun fyrir hönd Jöfnunarsjóðs alþjónustu
Nánar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi, dags. 25. júní s.l. sýknað Póst- og fjarskiptastofnun f.h. Jöfnunarsjóðs alþjónustu, af kröfu Símans um greiðslu dráttarvaxta af ákvörðuðu framlagi til handa fyrirtækinu vegna veitingar gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu. Hið ákvarðaða framlag var til komið vegna alþjónustukvaðar á fyrirtækið á árinu 2005. Sjá dóminn í heild:Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Símans gegn Póst- og fjarskiptastofnun f. h. Jöfnunarsjóðs alþjónustu (PDF)
29. júní 2010
PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) efnir til samráðs við hagsmunaaðila vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur boðað á skilmálum fyrirtækisins um póstþjónustu Með bréfi, dags. 28. júní 2010 tilkynnti Íslandspóstur Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hyggðist breyta vöruframboði fyrirtækisins frá því sem nú er. Breytingin er m.a. fólgin í því að boðið verður upp á tvo vöruflokka innan einkaréttar (0-50 gr.), sbr. 7. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sbr. 11. gr. rekstarleyfis Íslandspósts, dags. 3. desember 2007, „Almennur póstur“ og „Magnpóstur“. Með tilkynningu Íslandspósts fylgdu afrit af fyrirhuguðum skilmálum og verðskrá fyrir almennan póst og magnpóst, ásamt greinargerð um kostnaðargrundvöll breytinganna. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 skulu póstrekendur birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustuna gilda. Nýja og breytta skilmála skal senda Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Ákvæðið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að PFS samþykki fyrirfram nýja eða breytta skilmála áður en þeir taka gildi, sbr. ákvörðun PFS nr. 1/2010. Stofnunin getur hins vegar hvenær sem er krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfis. Þá er og kveðið á um í 6. mgr. 16. gr. laganna að rekstarleyfishafa sem falinn er einkaréttur ríkisins skuli gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Gjaldskrána skal leggja fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykkis eigi síðar en 15 virkum dögum fyrir gildistöku. Óljóst er á þessari stundu hvaða áhrif boðaðar breytingar Íslandspósts munu hafa á markaðinn hér á landi, sérstaklega á það við um þá viðskiptavini Íslandspósts, sem njóta þeirra kjara sem kveðið er á um í 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, sbr. núgildandi skilmála Íslandspósts, Magnafslættir – stórnotendur. Vegna þessa hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaðila varðandi þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hálfu Íslandspósts. Helstu breytingar eru t.d. að fært er inn í skilmála ákvæði um tímalengd útburðar varðandi þann póst sem fellur undir fyrirtækjapóst, skilyrði um frágang á honum og kveðið er á um ný afsláttarskilyrði fyrir slíkan póst. Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni fyrir 20. júlí n.k. Til að auðvelda vinnu PFS við yfirferð athugasemda skal vísa til viðeigandi skilmála með númeri og/eða til þess orðalags skilmála sem verið er að gera athugasemdir við í hvert sinn. Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldinu fara yfir þær athugasemdir sem fram kunna að koma og taka formlega ákvörðun um efnisatriði þeirra skilmála sem nú hafa verið birtir af hálfu Íslandspósts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Rétt er að geta þess að samkomulag hefur náðst við Íslandspóst um að boðaðar breytingar muni ekki taka gildi fyrr en að lokinni formlegri málsmeðferð stofnunarinnar. Tilkynning Íslandspósts um breytingu á skilmálum og verðskrá, dags 28. júní 2010 (PDF) Fyrirhugaðir viðskiptaskilmálar Íslandspósts (PDF) Fyrirhuguð verðskrá Íslandspósts (PDF)
28. júní 2010
Norrænn samanburður á fjarskiptanotkun: Netnotkun með farsímum og netlyklum minnst á Íslandi
Nánar
Íslendingar sækja minna af gögnum á Netið í gegn um farsíma og netlykla en aðrar þjóðir á Norðurlöndum og áskrifendur að gagnaflutningi um breiðband (e. mobile broadband) eru einnig fæstir hér miðað við höfðatölu Á sama tíma er útbreiðsla DSL nettenginga (t.d. ADSL) mest hér á landi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu þar sem bornir eru saman fjarskiptamarkaðir á Norðurlöndum. Skýrslan var tekin saman af vinnuhópi um norræna tölfræði vegna fundar forstjóra fjarskiptaeftirlitsstofnananna á Norðurlöndunum. Ein af skýringum þess að Íslendingar eru ekki komnir eins langt í netnotkun með farsímum og netlyklum og aðrar þjóðir á Norðurlöndum er að 3G nettengingar voru fyrst í boði hér á landi á seinni hluta ársins 2007 en hafa verið lengur í boði á hinum Norðurlöndunum. Þegar skýrslan er skoðuð í heild má þó segja að samanburðurinn sýni að ekki er mikill munur á fjarskiptanotkun fólks í þessum löndum. Meðal annars sem fram kemur í skýrslunni er að: Notendum fækkar í fastaneti á öllum Norðurlöndunum og mínútum í heimasíma fækkar einnig. Fjöldi mínútna úr farsíma er síhækkandi hlutfall af öllum mínútum sem talað er í síma á Norðurlöndum. Finnar eru með mestu notkun í farsíma. Meðallengd símtals í farsíma er styst hér á landi en lengst í Finnlandi. Danir senda flest SMS en Íslendingar fæst. Mikil aukning hefur átt sér stað í fjölda SMS sendinga í Svíþjóð. Skýrsluna má skoða í heild hér fyrir neðan. Telecommunication Markets in the Nordic Countries 2010 (PDF) (Á ensku)
22. júní 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir úrskurð PFS um afturköllun á tíðniheimild IceCell fyrir GSM 1800
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvordun PFS frá því í mars sl. um að afturkalla tíðniheimild IceCell ehf. fyrir GSM farsímanet á 1800 MHz tíðnisviðinu. Var tíðniheimildin afturkölluð vegna vanefnda fyrirtækisins á að standa við skilmála heimildarinnar, sem kvað á um uppbyggingu farsímanets í áföngum fyrir tiltekin tímamörk. Sjá nánar: Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 1/2010 (PDF) - 15. júní 2010 Ákvörðun PFS nr. 5/2010 Afturköllun á tíðniheimild IceCell ehf. fyrir GSM 1800 farsímanet (PDF) - 11. mars 2010
22. júní 2010
Reiknivél PFS verður opnuð í dag
Nánar
Kl. 13:30 í dag mun Kristján L. Möller ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála opna nýjan vef Póst- og fjarskiptastofnunar, Reiknivél PFS, að viðstöddum fjölmiðlum og gestum. Tilgangur reiknivélarinnar er að auðvelda neytendum að átta sig á flóknum fjarskiptamarkaði og bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir heimasíma, farsíma og ADSL nettengingar. Reiknivél PFS tekur til algengustu innanlandsnotkunar á heimasíma og farsíma og niðurhals á gögnum erlendis frá með ADSL tengingum. Hægt er að fara tvær leiðir við notkun vélarinnar fyrir heimasíma og farsíma: Nota hreyfanlegan kvarða þar sem gengið er út frá meðalgildum fyrir litla til mikla notkun eða slá inn eigin tölur um notkun. Við útreikning ber reiknivélin saman verðskrár fjarskiptafyrirtækjanna fyrir sambærilegar þjónustuleiðir. Ekki er gert ráð fyrir að reiknivélin verði notuð til að sannreyna símareikninga einstakra notenda. Ástæður þess eru m.a. einstaklingsbundin sérkjör s.s. vinanúmer, dreifing á lengd símtala sem er mjög einstaklingsbundin, auk þess sem reikningar fjarskiptafyrirtækjanna eru mismunandi og misjafnt hvaða upplýsingar koma fram. Á vefnum Reiknivél PFS, eru einnig leiðbeiningar um notkun vefsins, spurningar og svör varðandi virkni reiknivélarinnar, skýringar á forsendum útreikninga og hlekkir á gagnlegan fróðleik fyrir neytendur um ýmislegt sem varðar farsíma-, heimasíma- og netþjónustu.