Fréttasafn
14. júní 2010
PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang, með fyrirmælum um breytingar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2010, frá 19. maí 2010, um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs Símans hf. um bitastraumsaðgang (markaður 12). Með ákvörðun PFS nr. 8/2008, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang, var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 12 auk þess sem kvöð var lögð á Símann um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð um bitastraumsaðgang og tengda aðstöðu og þjónustu.Síminn birti viðmiðunartilboð sitt um bitastraumsaðgang þann 1. júlí 2009. Bárust PFS athugasemdir vegna viðmiðunartilboðsins sem áframsendar voru Símanum og fyrirtækinu gefinn kostur á að skila inn umsögn til stofnunarinnar um þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við. Bárust stofnuninni athugasemdir Símans með bréfi þann 19. október 2009. Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og endurskoðun PFS á viðmiðunartilboðinu var niðurstaða PFS sú að óhjákvæmilegt væri að gera breytingar á einstaka ákvæðum viðmiðunartilboðsins til að það yrði í samræmi við skilgreind markmið samkvæmt ákvörðun PFS nr. 8/2008. Með ákvörðun nr. 12/2010 samþykkir PFS viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í viðauka við ákvörðunina. PFS hafnar kröfu Símans um að verðskrá skuli bundin trúnaði og leggur fyrir fyrirtækið að birta hana sem hluta af viðmiðunartilboðinu.Verðskrá Símans (Viðauki 1) skal vera í samræmi við ákvörðun PFS nr. 7/2010 frá og með 1. maí s.l. auk þess að innihalda heildsöluverð fyrir þær vörur sem í boði eru samkvæmt fyrirmælum PFS í kafla 5.3.1, þ.m.t. VDSL, G.SHDSL og Annex-M. Skal Síminn uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðuninni og birta það á aðgengilegan hátt á vefsíðu sinni. Ákvörðun PFS í heild:Ákvörðun PFS nr. 12/2010 um viðmiðunartilboð Símans um bitastraumsaðgang. (PDF)
14. júní 2010
Samráð við ESA vegna markaðsgreiningar á markaði 7
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. sé með umtalsverðan markaðsstyrk á mörkuðum fyrir lúkningu símtala í GSM/UMTS og NMT farsímanet sín og hyggst útnefna félagið með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim. PFS hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að Og fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf. og IMC Ísland ehf. séu með umtalsverðan markaðsstyrk á mörkuðum fyrir lúkningu símtala í GSM/UMTS farsímanet sín. Drög að ákvörðun á markaði 7 voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir EES hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markað nema fram komi óskir hjá ESA um að draga ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum Nánari upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
31. maí 2010
Ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2010 um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur sf. (OR) og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR). Í ákvörðun stofnunarinnar er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að GR þurfi að fá fyrirfram samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningum sem OR, eða annað fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðunnar, er greiðandi að. PFS samþykkir því aðeins slíka hlutafjáraukningu að hún rúmist innan eðlilegs fjárhagslegs aðskilnaðar og feli ekki í sér að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi. Ennfremur að skammtímaskuldir GR við OR, eða önnur félög innan samstæðunnar, megi ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur tveggja mánaða eðlilegum viðskiptum milli aðilanna á hverjum tíma, eins og um ótengda aðila sé að ræða. Eftirlit með fjárhagslegum aðskilnaði hjá ofangreindri fyrirtækjasamstæðu, og öðrum sambærilegum aðilum, er viðvarandi verkefni stofnunarinnar, sbr. 36. gr. fjarskiptalaga. Ofangreind ákvörðun er sú þriðja í röðinni sem snýr að fjarskiptastarfsemi samstæðunnar. Hinar voru frá árunum 2006 og 2008. Í ákvörðun PFS nr. 14/2010 leggur PFS ofangreindar kvaðir á GR þar sem niðurstaða stofnunarinnar var á þá leið að framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði á fjarskiptastarfsemi OR, sem rekin er í dótturfélaginu GR, frá annarri og sérleyfisbundinni starfsemi samstæðunnar, væri ófullnægjandi varðandi umrædd tvö atriði. PFS mun í framhaldi af ákvörðun þessari kanna hvort uppfærð arðsemiskrafa OR/GR, frá því í mars 2010, og áætlanir félaganna um þróun hennar á næstu árum teljist eðlileg miðað við aðstæður og samræmist eðlilegri fjárhagslegri aðgreiningu. Ennfremur mun stofnunin rannsaka og leggja mat á hvort hlutafjáraukning sú sem samþykkt var á hluthafafundi í GR í desember 2008 brjóti í bága við 36. gr. fjarskiptalaga um fjárhagslegan aðskilnað og/eða tilmæli þau sem PFS hefur beint að fyrirtækjunum í fyrri ákvörðunum sínum. Þá mun PFS skoða önnur atriði er varða fjárhagslegan aðskilnað innan samstæðunnar eftir því sem þurfa þykir um leið og ástæða þykir til. Ákvörðun PFS í heild:Ákvörðun PFS nr. 14/2010 Um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur s.f. og Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (PDF) Eldri ákvarðanir PFS varðandi fjarskiptastarfsemi OR (PDF skjöl): 2006: Ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, 13. nóvember 2006 2008: Ákvörðun nr. 32/2008 - Um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur - ásamt Viðauka - 30. desember 2008
28. maí 2010
Ákvörðun PFS um afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpssendinga
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 13/2010 um afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpsendinga. Í ákvörðun stofnunarinnar er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að réttur Lýðræðishreyfingarinnar til afnota af tíðninni hafi fallið niður og stofnuninni hafi því verið heimilt að endurúthluta henni til Concert-KEF. (Kaninn) Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 13/2010 um afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpssendinga (PDF)
27. maí 2010
Ákvörðun PFS: Neyðarlínan fær framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Í dag, 27. maí 2010, samþykkti Póst- og fjarskiptastofnun umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2010 að fjárhæð kr. 38.230.601. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita. Ákvörðun PFS nr. 15/2010: Umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2010
20. maí 2010
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað 2009
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn árin 2007 – 2009. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2007 - 2009 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræðiskýrslur PFS
19. maí 2010
Ákvörðun PFS varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 11/2010 um trúnað tiltekinna upplýsinga við birtingu á ákvörðun nr. 7/2010. Með ákvörðun PFS nr. 7/2010 varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang (markaður 12) reis upp ágreiningur við Símann um það hvaða upplýsingar í ákvörðuninni skyldu njóta trúnaðar. Leiddi fyrrnefndur ágreiningur til ákvörðunartöku af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar sbr. ákvörðun PFS nr. 11/2010. Taldi Póst- og fjarskiptastofnun að þær takmarkanir á birtingu upplýsinga í ákvörðun nr. 7/2010 sem Síminn gerði kröfu um, umfram það sem stofnunin lagði til, gengi lengra en undanþáguheimildir leyfðu skv. 2. mgr. 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, sbr. og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Niðurstaða ákvörðunar nr. 11/2010 var því sú að ákvörðun nr. 7/2010 verði birt með þeim takmörkunum sem er að finna í útgáfu ákvörðunarinnar sem er að finna hér að neðan. Sjá má ákvarðanir nr. 7/2010 og nr. 11/2010 í heild hér fyrir neðan: Ákvörðun PFS nr. 11/2010 um trúnað tiltekinna upplýsinga við birtingu ákvörðunar PFS nr. 7/2010 - 5. maí 2010 Ákvörðun PFS nr. 7/2010 varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang. (Markaður 12) - 26. mars 2010
28. apríl 2010
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall að almenningssímum Símans
Nánar
PFS hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2010 í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall ehf. að almenningssímum Símans hf. Í ákvörðunarorðum segir m.a.: Síminn hf. skal eftir því sem það er tæknilega mögulegt opna fyrir innhringingar inn í 800 númer GlobalCall úr þeim almenningssímum sem fyrirtækið þjónustar fyrir BBG GLOBAL AG. Síminn skal leita leiða til að auka möguleika notenda til að hringja í 800 númer annarra þjónustuveitenda, t.d. með uppsetningu nýrra almenningssíma í flugstöðinni. Við endurnýjun á almenningssímum sem og við uppsetningu á nýjum almenningssímum skal þess gætt að opið sé fyrir hringingar inn í öll fjarskiptanet sem og þá þjónustu sem veitt er í viðkomandi netum. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 10/2010 í ágreiningsmáli um aðgang GlobalCall ehf. að almenningssímum Símans hf. (PDF)