Fréttasafn
17. nóvember 2010
PFS birtir ákvörðun um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum. Með bréfi þann 8. september 2010, tilkynnti Íslandspóstur um breytingar á skilmálum fyrirtækisins er varða dreifingu á magnpósti frá stórnotendum sem fá umfram afslætti skv. sérstakri afsláttarverðskrá. Samkvæmt hinum nýju skilmálum fer dreifingin fram á tímabilinu fyrsta til fimmta virka degi eftir móttöku. PFS gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar. Í ákvörðun stofnunarinnar segir m.a. að stórnotendur fái viðbótarafslátt allt að 11 prósentustig ofan á hæstu afsláttarprósentu sem í gildi er fyrir almennan magnpóst. Þessi munur á afsláttarkjörum verður ekki skýrður að öllu leyti nema með lengri dreifingartíma sem fyrirtækið áformar að gera að almennri reglu. Þá horfir stofnunin einnig til þess að þessir viðskiptavinir Íslandspósts geti hér eftir sem hingað til póstlagt bréf samkvæmt hinni almennu verðskrá fyrir magnpóst, sem veiti rétt til afsláttar allt að 30% og tryggir a.m.k. 85% dreifingu daginn eftir póstlagningu. Í niðurstöðu PFS er einnig vikið að því að hvorki 21. gr. laga um póstþjónustu né 10. gr. reglugerðar um alþjónustu verði skýrðar þannig að aðeins sé leyfilegt að bjóða upp á einn vöruflokk hér á landi. Báðar þessar greinar kveða á um að póstur sem fellur undir alþjónustu skuli borinn út alla virka daga. Þá telur stofnunin einnig að þær gæðakröfur sem í gildi eru, um að 85% af innanlandspósti í hraðasta flokki sé borinn út daginn eftir póstlagningu (D+1) komi ekki í veg fyrir að hægt sé að bjóða ódýrari þjónustuleiðir/vöruflokk en A-póst. Íslandspóstur skal, í vinnuferlum sínum, tryggja að allur póstur sem kemur inn til dreifingar hjá fyrirtækinu samkvæmt afsláttarverðskrá fyrir stórnotendur fái samskonar dreifingu, með það að markmiði að tryggja jafnræði viðskiptavina fyrirtækisins. Skal fyrirtækið senda stofnuninni lýsingu á viðeigandi vinnuferlum, áður en boðuð breyting tekur gildi. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum (PDF)
10. nóvember 2010
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2009
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt skýrslu um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2009. Skýrslan hefur einnig að geyma upplýsingar um meðferð umsókna í jöfnunarsjóð og sagt er frá lyktum dómsmáls sem varðaði kröfu Símans um greiðslu dráttarvaxta af ákvörðuðu framlagi úr sjóðnum. Með skýrslunni er einnig birtur ársreikningur jöfnunarsjóðs alþjónustu fyrir árið 2009, áritaður af ríkisendurskoðanda. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla 2009 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur 2009 (PDF) Sjá nánar um alþjónustu í fjarskiptum
8. nóvember 2010
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína í ágreiningsmáli Vodafone og Mílu um aðgang að ljósleiðara NATO
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 34/2010 í ágreiningsmáli Og fjarskipta (Vodafone) og Mílu um aðgang að ljósleiðara NATO.Með bréfi þann 9. ágúst sl. óskaði Vodafone formlega eftir því að PFS mælti fyrir um skyldu Mílu til að veita aðgang að aðstöðu sinni vegna tenginga við ljósleiðara NATO. Míla hafði hafnað slíkri beiðni Vodafone á þeim forsendum að Varnarmálastofnun væri samningsaðili Vodafone og því ætti fyrirtækið að beina kröfu sinni að henni.Í ákvörðuninni er hafnað þeim rökum Mílu að Vodafone hefði átt að beina kröfu sinni að Varnarmálastofnun, sem samningsaðila fyrirtækisins. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kröfu Vodafone væri réttilega beint að Mílu sem umráðaaðila yfir þeirri aðstöðu sem Vodafone þurfti aðgang að til að hægt væri að nýta þann ljósleiðaraþráð sem fyrirtækið hafði leigt af Varnarmálastofnun. Í því sambandi var vísað til þeirrar aðgangskvaðar sem hvílir á Mílu samkvæmt ákvörðun PFS nr. 20/2007. Míla ehf. skal hafa forræði á því hvernig uppsetningu verður háttað og leggja til nauðsynlegar teikningar ef þurfa þykir. Fyrirtækið skal hafa hliðsjón af þeirri lýsingu sem fram kemur í erindi Og fjarskipta ehf. (Vodafone) um tilhögun tenginga sem óskað er eftir. Jafnframt er Mílu heimilt að krefja Vodafone um allan eðlilegan og sanngjarnan kostnað sem til fellur við að gera aðganginn virkan. Miðað skal við að tengingum á þeim stöðum sem sérstaklega voru tilteknir í samningi Vodafone og Varnarmálastofnunar verði lokið fyrir 15. desember 2010. Ef nauðsynlegt er að rjúfa strenginn til að framkvæma tengivinnu þarf Vodafone hins vegar að sækja um heimild til þess frá Varnarmálastofnun. Í þeim tilvikum er miðað við að tengingum skuli lokið innan hæfilegs frests frá því að heimild Varnarmálastofnunar til að rjúfa strenginn liggur fyrir. Þá var og hafnað sjónarmiðum Mílu um að öryggi fjarskipta væri stefnt í hættu vegna vinnu við að gera aðganginn virkan, svo framarlega sem þess er gætt að fylgja venju- og skyldubundnum varúðarráðstöfunum sem viðhafðar eru í sambærilegum tilvikum. Kröfu Vodafone um dagsektir var hafnað. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 34/2010 - Krafa Og fjarskipta ehf. um aðgang að aðstöðu hjá Mílu vegna ljósleiðara NATO (PDF)
8. nóvember 2010
Sameiginleg æfing evrópskra netsérfræðinga í vörnum gegn netvá
Nánar
Fimmtudaginn 4. nóvember sl. stóð Evrópusambandið, í samvinnu við Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA), fyrir fyrstu sameiginlegu æfingunni í vörnum gegn alvarlegum öryggisatvikum í netkerfum álfunnar. Öll ríki ESB ásamt EFTA löndunum Íslandi, Noregi og Sviss tóku þátt í æfingunni, ýmist sem þátttakendur eða áhorfendur. Fleiri en 150 sérfræðingar frá 70 stofnunum tóku þátt í æfingunni og þurftu þeir að bregðast við á fjórða hundrað öryggisatvika af ýmsu tagi. Sérfræðingur Póst- og fjarskiptastofnunar um netöryggi fylgdist með æfingunni fyrir hönd Íslands. Æfingin var mikilvægt fyrsta skref til að styrkja netvarnir í Evrópu með því að byggja upp traust milli aðila á þessu sviði, efla samvinnu og auka skilning á mismunandi aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Settar voru upp ímyndaðar árásir netglæpamanna sem beindust að því að lama mikilvæg netsambönd milli ríkja innan Evrópu. Sjónum var sérstaklega beint að mikilvægum innviðum netkerfanna og sýndarárásirnar látnar beinast að því að netsamband milli ríkjanna myndi rofna eða minnka verulega svo að almenningur, fyrirtæki og stofnanir ættu erfitt með að nálgast þjónustu á Netinu. Öryggis- og viðbragðsteymi um netvarnir (CERT/CSIRT hópar) voru þungamiðjan í æfingunni í hverju landi, en fleiri opinberir aðilar t.d. ráðuneyti, lögregluyfirvöld og leyniþjónustur komu einnig að lausn þeirra vandamála sem sett voru upp. Þátttakendur voru sammála um að æfingin hafi verið mikilvæg fyrir sameiginlegar varnir landanna gegn netvá og mjög gagnleg til að efla samskipti og traust milli landanna. Einnig voru þátttakendur sammála um að framhald þurfi að vera á slíkum æfingum ekki síst til að samhæfa viðbrögð við alvarlegum öryggisatvikum enn frekar og auka skilning milli manna á mismunandi aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Að þessu sinnu tóku eingöngu opinberir aðilar þátt í æfingunni en nauðsynlegt þykir að fulltrúar einkageirans í hverju landi taki þátt í framhaldinu auk opinberra aðila. Póst- og fjarskiptastofnun telur mikilvægt að Ísland taki með virkum hætti þátt í þessari samvinnu og byggi þar með upp traust og tengsl við önnur lönd. Netið er án landamæra og allir bera sinn hluta af ábyrgð á öryggi þess. PFS telur einnig mikilvægt að sambærileg æfing gegn öryggisatvikum í íslenskum fjarskiptanetum verði haldin hér innanlands. Slík æfing þyrfti að ná yfir alla mikilvægustu þættina í netunum og vera með þátttöku bæði opinberra aðila og einkageirans, t.d. fjarskiptafyrirtækja. Sjá einnig fréttatilkynningu Netöryggisstofnunar Evrópu (ENISA) um æfinguna.
4. nóvember 2010
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um rétthafabreytingu á símanúmeri
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 33/2010 í ágreiningsmáli um rétthafabreytingu á símanúmeri. Í ákvörðuninni var niðurstaðan sú að upphaflegur rétthafi símanúmers sem deilt var um ætti að fá að halda númerinu þar sem flutningur þess á milli Vodafone og Símans var ekki í samræmi við reglur um númera- og þjónustuflutning. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 33/2010 í ágreiningsmáli um rétthafabreytingu á símanúmeri (PDF)
3. nóvember 2010
PFS birtir tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2010
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2008 – 2010. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2010 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræðiskýrslur PFS
28. október 2010
PFS birtir tvær ákvarðanir varðandi staðsetningu bréfakassa
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir varðandi staðsetningu bréfakassa á póstdreifingarsvæðinu 451 Patreksfjörður. Sjá ákvarðanirnar í heild: Ákvörðun PFS nr. 31/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um að minnka þjónustu við bæinn Láganúp, 451 Patreksfirði. (PDF) Ákvörðun PFS nr. 32/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um að minnka þjónustu við bæinn Breiðavík, 451 Patreksfirði. (PDF)
27. október 2010
Póst- og fjarskiptastofnun synjar Íslandspósti hf. um gjaldskrárhækkun
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 30/2010, þar sem hafnað er beiðni fyrirtækisins um hækkun á gjaldskrá bréfa innan einkaréttar. Beiðni Íslandspósts var rökstudd í fjórum liðum: Frestun verðskrárbreytinga frá 1. janúar 2010 til 1. mars 2010, auknir afslættir skv. bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins, hækkun tryggingagjalds á árinu 2010 og frestun innleiðingar svokallaðs XY dreifkerfis með tilheyrandi frestun á lækkun kostnaðar. Í niðurstöðu PFS vísaði stofnunin m.a. til þess að þó svo að gildistaka síðustu verðskrárbreytinga hefði orðið síðar en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir ætti það ekki að leiða til þess að félaginu yrði bættur sá tekjumissir, enda hafi málsmeðferð stofnunarinnar á þeirri hækkunarbeiðni verið innan eðlilegra tímamarka. Þá fæli beiðni um hækkun gjaldskrár í sér að verið væri að bæta Íslandspósti tiltekin afsláttarkjör, sem fyrirtækið taldi sig skylt að veita í kjölfar bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, án þess að sýnt hefði verið fram á þau hefðu skilað sér í auknu kostnaðarhagræði fyrir Íslandspóst. Með því móti væri í raun verið að velta kostnaðinum með beinum hætti yfir á notendur þjónustunnar, þ.á.m. almenning. Einnig vísaði PFS til þess að þegar hefði verið tekið tillit til hækkunar tryggingagjalds með hækkun gjaldskrár samkvæmt ákvörðun nr. 4/2010. Þá taldi PFS að hagræðið af fyrirhuguðum breytingum Íslandspósts á dreifingu pósts yrði ekki metið nema fyrir lægi ítarleg greining á undirliggjandi kostnaði fyrirtækisins, fyrirkomulagi afsláttar o.fl. Með tilliti til alls þessa var beiðni fyrirtækisins hafnað. Á hinn bóginn vísaði stofnunin til þess að verið væri að fara yfir nýja skilmála og gjaldskrá Íslandspósts, sbr. erindi fyrirtækisins, dags. 28. júní 2010.