Fréttasafn
27. ágúst 2010
PFS kallar eftir aukasamráði vegna viðmiðunartilboðs Mílu fyrir leigulínur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir aukasamráði um viðmiðunartilboð Mílu á stofnlínumarkaði (markaður 14). Er þetta vegna tillögu Mílu um breytingu á viðmiðunartilboðinu þar sem um er að ræða nýja þjónustu sem sérstaklega er sniðin að þörfum minni sveitafélaga þar sem Míla er ein á stofnlínumarkaði. Á þeim stöðum sem taldir eru upp í Viðauka 7 hér fyrir neðan, hyggst Míla bjóða upp á gagnasambönd frá næsta hnútpunkti leigutaka að búnaði þeim sem tengist heimtaugum. Hin nýja verðskrá er viðbót við gildandi verðskrá Mílu.Ekki liggur fyrir samþykki PFS á þessari nýju þjónustu Mílu á þessu stigi.Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til 14. september n.k.Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Samráðsskjal: Viðauki 7 sérlausnir á etherneti (PDF) Upphaflegt samráð í nóvember 2009Upphaflegt samráð PFS við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans og Mílu fyrir leigulínur var haft í nóvember 2009. Er nú um að ræða nýjan viðauka við þau samráðsskjöl sem þar voru sett fram. Sjá frétt hér á vefnum frá 6. nóvember 2009: PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Mílu og Símans fyrir leigulínur
23. ágúst 2010
PFS birtir ákvörðun um höfnun þjónustuleiðar í Reiknivél PFS
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2010 um að hafna þjónustuleið í Reiknivél PFS. Reiknivél PFS er verkfæri fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð fyrir sambærilega þjónustu fjarskiptafyrirtækja. Stofnunin hafnaði því að taka þjónustuleið Vodafone, Talsímafjelag Valda&Freys (V&F), með í útreikningum reiknivélar PFS. Höfnunin byggði á því að þjónustuleiðin V&F væri ekki samanburðarhæf við aðrar þjónustuleiðir sem teknar væru með í útreikningum reiknivélarinnar vegna þeirra skilmála og kjara sem þjónustuleiðin býður upp á. Í ákvörðun PFS segir m.a.: Til að útreikningur reiknivélarinnar sé marktækur og gagnsær er mikilvægt að þær þjónustuleiðir sem þar eru bornar saman eru séu samanburðarhæfar. Þó svo þjónustuleiðin sé í boði fyrir alla verða viðskiptavinir þjónustuleiðarinnar V&F að skuldbinda sig til að taka á móti auglýsingum í símann sinn og fá í staðinn 1000 kr. inneign mánaðarlega. Inneignin er því í boði auglýsenda, eins og segir í skilmálum fyrir þjónustunni, og viðskiptavinir verða að samþykkja að fá auglýsingar í símann sinn vilji þeir nýta sér þjónustuleiðina V&F. Inneignin sem viðskiptavinur fær mánaðarlega er í boði þriðja aðila og er því í raun endurgjald fyrir að taka á móti auglýsingum. Slíku fyrirkomulagi er ekki fyrir að fara varðandi aðrar þjónustuleiðir sem bornar eru saman í reiknivélinni. Það er því mat PFS að ef þjónustuleiðin V&F yrði tekin með í útreikninga reiknivélarinnar myndi það gefa skakka mynd í samanburðinum við önnur farsímafyrirtæki vegna þeirrar inneignar sem viðskiptavinur fær greidda inn á síma sinn mánaðarlega gegn því að taka á móti auglýsingum í símann, þar sem það myndi hvergi koma fram í reiknivélinni að inneignin sé í boði þriðja aðila. Og fjarskipti ehf. (Vodafone) óskaði eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin tæki formlega og kæranlega ákvörðun varðandi þessa afstöðu stofnunarinnar og hefur hún nú verið birt. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 19/2010 um höfnun þjónustuleiðar í Reiknivél PFS
16. ágúst 2010
PFS gefur út nýjar reglur um forval og fast forval í talsímanetum
Nánar
Nýjar reglur Póst- og fjarskiptastofnunar um forval og fast forval í talsímanetum hafa tekið gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 12. ágúst sl. Nýju reglurnar leysa af hólmi fyrri reglur frá árinu 2002. Forval er möguleiki sem gerir notendum í talsímaþjónustu kleift að velja milli mismunandi þjónustuveitenda fyrir ákveðin símtöl þrátt fyrir að þeir séu fasttengdir talsímaneti tiltekins fjarskiptafyrirtækis.Fast forval er möguleiki sem áskrifendum í talsímaþjónustu er boðinn og gefur þeim kost á að velja að ákveðnum flokkum símtala sé beint til ákveðins þjónustuveitanda, sem valinn er fyrirfram, án þess að nota þurfi forskeyti viðkomandi þjónustuveitanda. Reglur nr 655/2010 um forval og fast forval í talsímanetum
13. ágúst 2010
Síminn hættir rekstri NMT farsímakerfisins hér á landi
Nánar
Þann 1. september næstkomandi mun Síminn hætta rekstri NMT farsímakerfisins hér á landi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á GSM og UMTS (3G) kerfum fjarskiptafélaganna á undanförnum árum en það eru þau kerfi sem taka munu við þeirri þjónustu sem NMT farsímakerfið hefur þjónustað hingað til á landi og sjó. Þar sem eðli hinnar nýju þjónustu er á margan hátt annað en NMT þjónustunnar er næsta víst að einhver örfá svæði ná ekki sömu dekkun og áður, á hinn bóginn er ljóst að í heildina er dekkun GSM og 3G kerfanna miklum mun viðameiri en NMT kerfisins nokkru sinni var til lands og sjávar sé miðað við handsímaþjónustu. PFS vill benda notendum NMT kerfisins á að hægt er að flytja númerin sem hafa verið í notkun í NMT kerfinu yfir í GSM eða 3G þjónustu fjarskiptafélaganna. Upplýsingar um þjónustusvæði fjarskiptafélaganna (í stafrófsröð) er að finna á eftirfarandi slóðum: Nova: http://www.nova.is/content/thjonusta/thjonustusvaedi/Innanlands.aspx?startpage=true Síminn: http://siminn.is/servlet/file/dreifikerfi_20jun2010-3G_3GL_sjoaskrift.pdf?ITEM_ENT_ID=146748 Vodafone (Og fjarskipti): http://www.vodafone.is/live/staersta Í ljósi þess að NMT tíðnisviðið losnar frá 1. September er það laust til umsóknar.
12. ágúst 2010
Vegna umfjöllunar um úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um reiki
Nánar
Á vefsíðu Neytendasamtakanna birtist nýlega niðurstaða úttektar samtakanna á framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna á reglugerðum Evrópuþingsins og -ráðsins um reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins. Um er að ræða reglugerð nr. 717/2007/EB, og reglugerð til breytingar á henni nr. 544/2009. Ber niðurstöðu Neytendasamtakanna ekki að öllu leyti saman við sambærilega úttekt sem Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmdi fyrr í sumar. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) taka fram eftirfarandi: Aurajöfnun. Þegar virðisaukaskattur (vsk.) hefur verið lagður ofan á verðþak Evrópugjaldskrárinnar námunda sum fjarskiptafyrirtæki upp í næstu heilu tölu, þ.e. í þeim tilvikum sem brot úr evru-senti (e. euro-cent = 1 hundraðasti af evru) stendur nær næsta heila evru-senti fyrir ofan en því fyrir neðan, sbr. almennar námundunarreglur. Leiðir þetta til þess að í sumum tilvikum fer hámarksverð án vsk. upp fyrir verðþakið sem tiltekið er í Evrópugjaldsskránni. Þetta getur numið nokkrum hundraðshlutum af evru-senti. Í slíkum tilvikum er um svo óverulega hækkun að ræða að venjubundnar sveiflur á gengi evru ráða mun meira um endanlegt verð til neytenda. Þá telur PFS að horfa verði til þess að aurajöfnun er almenn og rótgróin viðskiptavenja sem tíðkast hér á landi eins og í öðrum Evrópulöndum. Treystir PFS sér ekki til þess að slá því föstu, án frekari skoðunar, að slík framkvæmd brjóti í bága við umrædda reglugerð. Leiði ítarlegri skoðun á því í ljós að úrbóta sé þörf mun PFS koma því á framfæri við fjarskiptafyrirtækin. Verðþak fyrir móttekin símtöl í smásölu þann 1. júlí 2010. Komið hefur í ljós að í spurningalista, sem PFS sendi fjarskiptafyrirtækjunum í tengslum við úttekt sína, var í spurningu um hámarksverð fyrir móttekin símtöl í smásölu frá og með 1. júlí 2010 vísað til eldra verðþaks, þ.e. 0,22 evra í stað nýja verðþaksins sem skyldi vera 0,15 evrur. Í ljósi þessarar meinlegu villu var ekki gerð athugasemd við það að Vodafone (og einnig Tal, sbr. hér að neðan) skyldi styðjast við hið ranga verðþak. Hefur tilmælum þegar verið beint til Vodafone að leiðrétta verðskrá sína til samræmis við gildandi verðþak. Reikigjaldskrá Tals. Fjarskiptafyrirtækið Tal sem hefur endursölusamning við Vodafone hefur notað sama verð og Vodafone í reikningum til viðskiptavina sinna. Þegar Vodafone hefur lagfært verð hjá sér, sbr. framangreint, mun verð Tals einnig leiðréttast samhliða. Upplýsingar á vefsíðu Tals um reikiverð, hafa ekki verið réttar og ekki í samræmi við þá framkvæmd sem um þetta hefur gilt hjá fyrirtækinu. Hefur þetta verið staðfest við PFS af hálfu Tals og mun fyrirtækið leiðrétta reikiverðskrá á heimasíðu sinni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur uppfært úttekt sína á framkvæmd reikireglugerða nr. 717/2007/EB og nr. 544/2009/EB til samræmis við framangreint. Sjá Úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum – 12. ágúst 2010 (PDF)
27. júlí 2010
Nýjar reglur nr. 617/2010 um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum
Nánar
Með birtingu í stjórnartíðindum þann 22. júlí s.l. hafa tekið gildi endurskoðaðar reglur nr. 617/2010 um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum. Meginmarkmið breytinganna var að auka skilvirkni og hraða við framkvæmd númeraflutnings, m.a. í samræmi við kröfur tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2009/136/EB um breytingu á tilskipun nr. 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu. Við endurskoðun reglnanna horfði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) einnig til breytinga sem eru til þess fallnar að skýra réttindi neytenda og réttindi og skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi framkvæmd númera- og þjónustuflutnings og afmarka nánar eftirlitsúrræði PFS. Helstu nýmæli reglnanna eru eftirfarandi: Afgreiðslutími flutningsbeiðna í far- og talsímanetum verður að meginreglu til einn virkur dagur. Áfram mun gilda undantekningarregla varðandi talsímanetið við tilteknar aðstæður. Formskilyrði sett fyrir rétthafabreytingum á númerum. Upplýsingaskylda fjarskiptafyrirtækja til neytenda um framkvæmd flutnings. Ítarlegra ákvæði um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja til PFS, t.d. um skil á gögnum á stöðluðu formi, sem einnig nær til Hins íslenska númerafélags ehf. (HÍN). Heimild til að synja um númeraflutning vegna vanskila, nema um sé að ræða notanda á einstaklingsmarkaði. Rýmra svigrúm fjarskiptafyrirtækja til að hafa samband við fráfarandi viðskiptavini sína í númeraflutningsferli eftir að tiltekin takmörkun þar að lútandi var felld brott. Reglurnar eru birtar í Stjórnartíðindum. Skýringar sem fylgdu reglubreytingunum í samráðsferli við markaðsaðila þann 30. mars sl.
19. júlí 2010
Úttekt á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum
Nánar
Þann 1. júlí 2010 tóku gildi ákvæði reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins sem gengur enn lengra en fyrri reglugerð um sama efni frá árinu 2008. Helstu nýmæli eru þau að sett er hámarksverð, € 0,15, á SMS smáskilaboð auk þess sem fjarskiptafyrirtækjum er gert að upplýsa neytendur um gjaldskrá fyrir gagnatengingar og setja sjálfvirkt hámark á reikigagnaþjónustu. Samkvæmt reglugerðinni er einnig óheimilt að innheimta gjald fyrir að taka á móti talhólfsskilaboðum. Auk þess er verð fyrir símtöl sem hringd eru í reikiþjónustu innan EES-svæðisins lækkuð úr € 0,46 í € 0,39 og heildsöluverð á reikigagnaþjónustu í farsíma eða með 3G nettengli úr € 1 í € 0,8 fyrir hvert MB. Þá er farsímafyrirtækjum einnig gert skylt að breyta tímamælingum símtala í farsíma milli landana þannig að fyrst er leyfilegt að taka gjald fyrir 30 sekúndna lágmarksnotkun og síðan skal taka gjald fyrir hverja sekúndu eftir það. Kostnaður við símtöl milli landa getur verið afar hár og hefur oft verið erfitt fyrir neytendur að fylgjast með verðlagningu þeirra. Í október 2008 tók gildi á Íslandi reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki innan EES-svæðisins sem hafði það markmið að tryggja að notendur almennra farsímaneta á ferðalagi innan EES-svæðisins greiði ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum í farsímaþjónustu. Þann 1. júlí 2010 tók síðan gildi ákvæði reglugerðar nr. 183/2010 um breytingar á reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins sem gengur enn lengra í þessum efnum. Í reglugerðinni er vikið að allmörgum atriðum sem fyrirtækjum á farsímamarkaði er gert skylt að uppfylla og gildir hún bæði um samskipti á milli fjarskiptafyrirtækjanna, þ.e. á heildsölumarkaði, sem og varðandi ýmsa þjónustu sem fyrirtækjum er gert skylt að veita notendum þjónustunnar, þ.e. á smásölumarkaði. Þau skilyrði sem sett eru fram í reglugerðinni höfðu sum hver verið uppfyllt af farsímafyrirtækjunum áður en reglugerðin tók gildi en til þess að fá skýra mynd af stöðunni eins og hún er í dag gerði Póst- og fjarskiptastofnun úttekt á því hvernig fyrirtækin hafa staðið að því að uppfylla þær skyldur sem lagðar eru á þau með reglugerðinni. Niðurstöður úttektarinnar má sjá hér. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um ákvæði reglugerðarinnar. Almennt má segja að íslensku farsímafyrirtækin séu langt á veg komin með að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Síminn og Vodafone uppfylla ákvæði hennar að fullu og önnur félög eru komin langleiðina í þeim efnum. Í þeim tilvikum þar sem ákvæði reglugerðarinnar hafa ekki verið innleidd að fullu hjá viðkomandi farsímafyrirtæki verður fyrirtækið sjálft að bera hallan af því, en óheimilt er að innheimta hærra gjald af neytendum en kveðið er á um í reglugerðinni. Úttekt á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum (pdf)
16. júlí 2010
Ákvörðun PFS um útnefningu á farsímamarkaði 7
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir í dag ákvörðun sína varðandi heildsölu á farsímamarkaði. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka verð heildsöluþjónustu um 50% til 67% úr 7,49 krónum annars vegar og 12 krónum hins vegar í 4 krónur í þrepum á næstu tveimur og hálfu ári. Upphafsgjöld verða afnumin. Ákvörðunin nær til allra farsímanetrekenda hérlendis, þ.e. Símans, Vodafone, Nova og IMC/Alterna, en tvö síðastnefndu fyrirtækin báru ekki sérstakar kvaðir áður. Í lok tímabilsins munu öll félögin hafa sama hámarksverð á heildsöluverði farsímaþjónustu (s.k. lúkningarverði). Þessi breyting leiðir m.a. til þess að ein meginforsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu þegar hringt er í annað farsímafélag verður ekki lengur til staðar. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann með umtalsverðan markaðsstyrk í lúkningu símtala í eigin GSM (2G og 3G) og NMT farsímanet, Vodafone í eigin GSM farsímanet (2G og 3G), Nova í eigin GSM farsímanet (3G) og IMC/Alterna í eigin GSM farsímanet (2G). Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi mörkuðum má fyrst og fremst rekja til þess að farsímafyrirtækið sem ræður yfir netinu sem símtalinu er lokið í, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Flest samkeppnisvandamálin tengjast lúkningarverði. Að mati PFS á sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum er þannig velt yfir á þá notendur sem eru tengdir öðrum farsíma- eða fastlínunetum. PFS hefur ákveðið að leggja kvaðir á Símann vegna 2G og 3G farsímanets félagsins um aðgang, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald. Sömu kvaðir eru lagðar á Vodafone að undanskyldri kvöð um kostnaðarbókhald. Þá eru lagðar kvaðir á Nova og IMC/Alterna um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. Á grundvelli kvaðar um eftirlit með gjaldskrá í GSM/UMTS farsímanetum hefur PFS ákveðið að leggja þær skyldur á farsímafélögin að lækka og jafna gjaldskrá fyrir lúkningarverð í eigin GSM/UMTS farsímanetum úr 7,49-12 kr. í 4 kr. í fjórum þrepum fram til ársloka 2012, sbr. neðangreinda töflu. Lækkun lúkningarverða í GSM/UMTS farsímanetum fram til 1. janúar 2013 Fyrirtæki Eining Verð fráákvörðun Verð frá1.9.2010 Verð frá1.1.2011 Verð frá1.1.2012 Verð frá1.1.2013 Síminn kr./mín. 7,49 6,5 5,5 4,5 4,0 Vodafone kr./mín. 7,49 6,5 5,5 4,5 4,0 Nova kr./mín. 12,0 10,3 8,3 6,3 4,0 IMC/Alterna kr./mín. 12,0[1] 10,3 8,3 6,3 4,0 [1] Lúkningarverð IMC er 12 kr. gagnvart öðrum en Símanum. Lúkningarverð gagnvart Símanum er 7,49 kr. vegna símtala sem eiga sér upphaf í talsímaneti og/eða NMT neti Símans, en símtöl úr farsímaneti Símans sem enda í kerfi IMC eru verðlögð eins og um sé að ræða innankerfissímtöl í farsímaneti Símans, þ.e. upphaf og lúkning símtals er verðlagður á 6,53 kr. Um verður að ræða hámarksverð og er félögunum því heimilt að bjóða lægri verð ef slíkt er í boði fyrir alla aðila (jafnræðiskvöð). Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er á milli neta annars vegar og innan nets viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með því að jafna lúkningarverð er ein meginforsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnasæja verðfyrirkomulagi ekki lengur til staðar. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem þarf ekki að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði en að mati PFS eru allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einfaldari gjaldskrár á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast enn frekar, neytendum til hagsbóta. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. Markaður fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum næstur í röðinni. Ákvörðun nr. 18/2010 Viðauki A - Greining á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum(Markaður 7) Viðauki B - Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)