Fréttasafn
16. september 2010
Yfirlýsing frá PFS vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar varðandi Gagnaveitu Reykjavíkur
Nánar
Vegna fréttaflutnings af birtingu ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2010 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. hafi brotið gegn fyrri ákvörðunum PFS frá 2006 og 2008 varðandi fjárhagslegan aðskilnað GR frá móðurfélagi sínu, Orkuveitu Reykjavíkur vill stofnunin árétta eftirfarandi: Ákvarðanir PFS eru birtar opinberlega. Ef viðkvæmar viðskiptalegar eða persónulegar upplýsingar koma fram í ákvörðunum stofnunarinnar eru þær felldar brott þegar ákvarðanir eru birtar öðrum en þeim sem upplýsingarnar tilheyra. Þetta er í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun þar sem kveðið er á um að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skuli birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd. Einnig kveða upplýsingalög nr. 50/1996 á um að veita skuli almenningi og þ.á.m. fjölmiðlum aðgang að gögnum úr stjórnsýslunni. Sú meginregla sætir þó takmörkunum samkvæmt 5. gr. þeirra laga. Þar segir: Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þau mál sem PFS fjallar um á sviði fjarskipta- og póstmála eru margbreytileg og umfang upplýsinga sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga, eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, misjafnlega mikið. Ákvarðanir sem varða fjárhagslegan aðskilnað fyrirtækja eru almennt þess eðlis að þær innihalda upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, þ.m.t. upplýsingar um fjármögnun (t.d. lánasamninga), arðsemiskröfu, viðskiptaáætlanir o.fl. Því er þess gætt að slíkar upplýsingar séu felldar brott um leið og stofnunin uppfyllir skyldur sínar um opinbera birtingu ákvarðana sinna.
16. september 2010
Ákvörðun PFS vegna synjunar um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2010 í kvörtunarmáli vegna synjunar á númeraflutningi. Með bréfi, dags. 14. júní 2010, barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun frá Símanum hf. vegna synjunar Og fjarskipta ehf. (Vodafone) á númeraflutningi. Hafði Síminn sent beiðni um að fjarskiptaþjónusta tiltekins fyrirtækis yrði flutt yfir til Símans og borist samþykki við flutningunum samdægurs. Vodafone hafnaði því síðan að númeraflutningur gæti átt sér stað þar sem umrætt fyrirtæki væri bundið í samningi við Vodafone til ársins 2012. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Vodafone hafi verið heimilt að synja númera- og þjónustuflutningsbeiðni Símans þar sem bindisamningur var til staðar á milli Vodafone og umrædds fyrirtækis. PFS taldi sig ekki hafa valdheimildir til að leggja mat á skuldbindingargildi upphaflegs samþykkis Vodafone, sem barst sjálfkrafa úr kerfi Hins íslenska númerafélags. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 24/2010 í kvörtunarmáli vegna synjunar á númeraflutningi. (PDF)
16. september 2010
Heimsókn nýs ráðherra samgöngumála.
Nánar
Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra samgöngumála heimsótti Póst- og fjarskiptastofnun í dag til að kynna sér stofnunina og starfsemi hennar. Hrafnkel V. Gíslason forstjóri gekk með ráðherra og fylgdarliði hans um stofnunina þar sem hann heilsaði starfsmönnum og kynnti sér starfssvið þeirra. Að því loknu var haldinn fundur þar sem farið var yfir það sem hæst ber í starfsemi stofnunarinnar um þessar mundir. Á myndinni sjást, f.v.: Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS, Ögmundur Jónasson samgönguráðherra, Bjarni Sigurðsson sérfræðingur í tæknideild og Björn Geirsson forstöðumaður lögfræðideildar.
15. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir tvær ákvarðanir PFS í póstmálum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 16/2010 er varðaði staðsetningu bréfakassa í fjölbýlishúsinu [x]. Málavextir voru þeir að fjölbýlishúsið var hannað með svokölluðum opnum svalagöngum en þrjú sameiginleg hálflokuð stigahús leiða íbúa og gesti hússins inn á svalaganganna. Inngangur var síðan í hverja íbúð frá svalagöngunum. Í málinu var m.a. deilt um það hvort Íslandspósti bæri að ganga upp á allar hæðir hússins og afhenda póst inn um bréfalúgur á hverri hurð fyrir sig. Í málinu lá fyrir umsögn byggingarfulltrúans í Reykjavík um túlkun á grein 80.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í henni kemur m.a. fram að þar sem fleiri en þrjár íbúðir hússins að [x] hafi aðgengi um hvert stigahús eigi bréfakassar að vera staðsettir á jarðhæð í hverju húsi. Með hliðsjón af þessu áliti var það niðurstaða PFS að bréfakassar fyrir fjölbýlishúsið skyldu vera í hinu opna stigarými sem samtengt er og notað sem uppgangur í íbúðir á 2. og 3. hæð hússins. Var sú niðurstaða staðfest fyrir úrskurðarnefnd. Þá tók nefndin einnig undir það sjónarmið PFS að það væri ekki á valdsviði stofnunarinnar að skýra ákvæði byggingarreglugerðar og þar með að meta hvort einstök hús uppfylltu hana eða ekki. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2010 (PDF) Þá hefur úrskurðarnefndin einnig staðfest ákvörðun PFS nr. 17/2010 er varðaði afhendingardrátt á póstsendingu. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2010 (PDF)
15. september 2010
PFS telur Gagnaveitu Reykjavíkur hafa brotið gegn ákvörðunum stofnunarinnar
Nánar
Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 25/2010, frá 7. september s.l., kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) hafi brotið gegn fyrri ákvörðunum PFS frá 2006 og 2008 varðandi fjárhagslegan aðskilnað GR frá móðurfélagi sínu, Orkuveitu Reykjavíkur (OR).Tiltekið ákvæði í lánasamningi GR við fjármálastofnun var talið brjóta í bága við framangreindar ákvarðanir PFS. Umrætt ákvæði í lánasamningnum kvað á um að GR myndi ekki greiða vexti af lánum sínum hjá OR á gildistíma lánasamningsins við umrædda fjármálastofnun. Slíkt fór að mati PFS gegn umræddum ákvörðunum stofnunarinnar og lánasamningi á milli GR og OR frá árinu 2007 og braut þar með í bága við 36. gr. fjarskiptalaga um aðskilnað sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi í rekstri fyrirtækjasamstæðna sem bæði reka fjarskiptastarfsemi og starfsemi sem nýtur einka- eða sérréttinda á öðrum sviðum, t.d. í tengslum við vinnslu, dreifingar og sölu rafmagns eða heits vatns. Ákvörðun PFS nr. 25/2010 vegna lánasamnings Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. við [X] hf. (PDF)
10. september 2010
PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) efnir til samráðs við hagsmunaaðila vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur boðað á skilmálum fyrirtækisins um póstþjónustu.Með bréfi, dags. 8. september 2010 tilkynnti Íslandspóstur Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hygðist breyta bréfadreifingu fyrirtækisins með því að taka upp svokallað XY-fyrirkomulag. Um nánari lýsingu á fyrirkomulaginu vísast til erindis Íslandspósts (sjá neðar). Með tilkynningu Íslandspósts fylgdi afrit af fyrirhuguðum skilmálum. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 skulu póstrekendur birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustuna gilda. Nýja og breytta skilmála skal senda Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Ákvæðið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að PFS samþykki fyrirfram nýja eða breytta skilmála áður en þeir taka gildi, sbr. ákvörðun PFS nr. 1/2010. Stofnunin getur hins vegar hvenær sem er krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfis. Vegna þessa hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaðila varðandi þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hálfu Íslandspósts. Þar sem hagsmunaðilar hafa að einhverju leyti þegar tjáð sig um umræddar breytingar, sbr. samráð PFS frá 29. júní s.l. er frestur gefinn til 24. september n.k. til að koma með athugasemdir við tilkynntar breytingar. Til að auðvelda vinnu PFS við yfirferð athugasemda skal vísa til viðeigandi skilmála með númeri og/eða til þess orðalags skilmála sem verið er að gera athugasemdir við í hvert sinn. Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldinu fara yfir þær athugasemdir sem fram kunna að koma og taka formlega ákvörðun um efnisatriði þeirra skilmála sem nú hafa verið birtir af hálfu Íslandspósts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Bréf Íslandspósts, dags. 8. september 2010 (PDF) Fyrirhugaðir viðskiptaskilmálar Íslandspósts (PDF) (Breytingar í skjalinu eru merktar með gulu)
8. september 2010
Nýlegar ákvarðanir PFS um rétthafabreytingar á símanúmerum og breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birti nýlega tvær ákvarðanir sem varða rétthafabreytingar á símanúmerum. Um er að ræða ákvarðanir PFS nr. 20/2010 og 21/2010 frá 18. og 25. ágúst s.l. Síðustu misseri hefur nokkuð borið á ágreiningsmálum vegna rétthafabreytinga á símanúmerum þar sem vinnuveitendur hafa gerst greiðendur símreikninga starfsmanna sinna. Framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna hefur verið mismunandi og nokkuð hefur borið á því að ekki er gerður greinarmunur á breytingu á greiðanda og rétthafa símanúmers. Til að skýra framkvæmdina og réttarstöðu aðila í málum sem þessum ákvað PFS að gefa út nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum, sbr. reglur nr. 617/2010 frá 6. júlí s.l. Þar er að finna ákvæði í 10. gr. um rétthafabreytingu. Þar kemur m.a. skýrt fram að fjarskiptafyrirtæki sé ekki heimilt að skrá annan aðila sem rétthafa númers nema rafrænt eða skriflegt samþykki þess rétthafa sem afsalar sér númerinu liggi fyrir. Fjarskiptafyrirtæki skal varðveita gögn um slíkt samþykki í a.m.k. 2 ár. Að þeim tíma liðnum ber notandi númers sönnunarbyrðina um að hann sé rétthafi þess, rísi upp ágreiningur um það. Ákvörðun PFS nr. 20/2010Í ákvörðun PFS nr. 20/2010 var niðurstaða PFS sú að framkvæmd Nova við rétthafabreytingu á símanúmeri tiltekins einstaklings (kvartandi) hafi ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum, sbr. og ofangreinda 10. gr. reglna um númera- og þjónustuflutning, þar sem upplýst samþykki kvartanda fyrir rétthafabreytingunni lá ekki fyrir þegar hún var framkvæmd í júlí s.l. Því var kvartandi talinn réttmætur rétthafi umrædds símanúmers. Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að í ljósi þess hve íþyngjandi rétthafabreyting getur verið fyrir viðskiptavini verði að gera miklar kröfur til fjarskiptafyrirtækja um að upplýsa þá um hvað felist í breytingum sem þessum. Ákvörðun PFS nr. 21/2010Í ákvörðun PFS nr. 21/2010 var niðurstaðan hins vegar á þann veg að ósannað þætti að framkvæmd Símans við rétthafabreytingu á tilteknu farsímanúmeri á árinu 2004 hefði ekki verið í samræmi við meginreglur um yfirfærslu á einstaklingsbundnum réttindum í almennum fjarskiptanetum. Því var kröfu kvartanda, sem var upphaflegur rétthafi númersins, um að númerið yrði flutt aftur til hans hafnað. Í máli þessu greindi aðila verulega á um málsatvik og orð stóð gegn orði. Kvartandi fékk umræddu farsímanúmeri úthlutað á árinu 2000 f.h. ólögráða sonar síns. Sonurinn starfaði hjá fyrirtæki nokkru frá árinu 1999 til ársins 2010 þegar hann sagði upp störfum. Óumdeilt var að umræddur vinnuveitandi gerðist greiðandi umrædds símanúmers með vitund og vilja sonar kvartanda en ágreiningurinn stóð um hvort heimild hafi einnig verið veitt fyrir rétthafabreytingu. Eins og að framan greinir tókst ekki að sanna að framangreind rétthafabreyting frá árinu 2004 hafi verið ólögmæt enda langt um liðið. Þá flækti það málið að orð stóð gegn orði og að símanúmerið hafði í tvígang verið flutt á milli þjónustuveitenda eftir umrædda rétthafabreytingu. Númerið er nú vistað hjá fjarskiptafyrirtæki sem enga aðkomu átti að ofangreindum ágreiningi og var í góðri trú.
31. ágúst 2010
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslu á Stöðvarfirði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag með ákvörðun sinni nr. 23/2010 samþykkt beiðni Íslandspósts frá 22. júlí sl. um heimild til að loka póstafgreiðslu á Stöðvarfirði. Sjá ákvörðun PFS í heild: Ákvörðun PFS nr. 23/2010 um lokun póstafgreiðslu á Stöðvarfirði (PDF)