Fréttasafn
21. október 2010
Ný reglugerð um yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum
Nánar
Birt hefur verið í Stjórnartíðindum ný reglugerð um yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum, nr. 780/2010. Reglugerðin gildir um símtöl, SMS-skilaboð, MMS-skilaboð og aðra yfirgjaldsþjónustu í tal- og farsímanetum á sértilgreindum númerum og númeraröðum. Yfirgjaldsþjónusta er virðisaukandi þjónusta með yfirgjaldi í tal- og farsímanetum sem boðin er af þjónustuveitanda og notandi tengist með símtali eða SMS/MMS-skilaboðum í sértilgreind símanúmer eða stuttnúmer í almennu tal- eða farsímaneti. Markmið reglugerðarinnar er að auka neytendavernd í tal- og farsímaþjónustu að því er varðar yfirgjaldsþjónustu og jafnframt fyrirbyggja eins og kostur er hugsanlega misnotkun og svikastarfsemi í tengslum við slíka þjónustu. Neytendaverndin felst m.a. í því að hægt sé að læsa fyrir tiltekna flokka númera með yfirgjaldi, auk þess sem gert er ráð fyrir að tengingar á yfirgjaldssímtali séu rofnar komi ekki til samþykkis eða aðgerðar af hálfu kaupanda þjónustunnar eftir ákveðinn tíma meðan tengingin varir. Sjá nánar: Reglugerð nr 780/2010
21. október 2010
PFS birtir nýjar lágmarkskröfur um alþjónustu í fjarskiptum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ný viðmið varðandi lágmarkskröfur um alþjónustu í fjarskiptum. Skjalið má nálgast hér: Lágmarkskröfur til alþjónustu (PDF) Sjá nánar um alþjónustu í fjarskiptum
15. október 2010
Ákvörðun PFS vegna póstþjónustu í Æðey og Vigur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2010 um póstþjónustu í Æðey og Vigur. Í ákvörðuninni var komist að þeirri niðurstöðu að Íslandspósti bæri ekki skylda til að greiða ábúendum sérstaklega fyrir að nálgast sinn eigin póst. Vísað var m.a. til 16 . gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003 er fjallar um staðsetningu bréfakassa. Þá var einnig horft til þess að íbúar fá samgöngustyrk frá Vegagerðinni til að sækja sér vörur og þjónustu eftir hentugleika. Taldi PFS að það ætti að vera viðurhlutalítið fyrir ábúendur að nálgast póstsendingar sem til þeirra berast í tengslum við þær ferðir sem íbúar teldu nauðsynlegar vegna búsetu á eyjunum. Ákvörðun nr. 29/2010 (pdf)
8. október 2010
Nýjar kröfur um alþjónustuskyldur Símans varðandi almenningssíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt kröfur um fjölda almenningssíma sem alþjónustuveitanda er skylt að starfrækja undir merkjum alþjónustu. Samkvæmt þeim kröfum sem nú taka gildi er Símanum heimilt að loka þeim almenningssímum þar sem bókfærðar tekjur ná ekki kr. 50.000 á ári. Ávallt skal þó reka almenningssíma í flughöfnum, ferjuhöfnum, umferðarmiðstöðvum, sjúkrahúsum, fangelsum, háskólum og framhaldsskólum. Undantekning er gerð ef tekjur af almenningssímum á þessum stöðum eru óverulegar, t.d. undir kr. 30.000 á ári. Er Símanum þá einnig heimilt að loka þeim. Miðað við þær kröfur sem nú eru settar fram af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar falla alls 147 almenningssímar undir kvöð um alþjónustu. Sjá kröfur um almenningssíma Sjá einnig lista yfir almenningssíma á Íslandi
6. október 2010
PFS kallar eftir samráði vegna viðmiðunartilboðs Símans um samtengingu talsímaneta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði um fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunartilboði Símans um samtengingu talsímaneta (RIO). Síðast samþykkti stofnunin viðmiðunartilboð Símans á þessu sviði sem dagsett er 1. júní 2009, í kjölfar markaðsgreiningar á mörkuðum 8-10 (samtengingarmarkaðir) frá desember 2008. Þær breytingar sem nú stendur til að gera og samráð er hér með boðað um eru tvenns konar, sbr. eftirfarandi: 1. Að tillögu Símans eru fyrirhugaðar breytingar er varða nýja þjónustuleið sem felst í því að þjónustuveitendur með fast forval geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning (e. single billing) fyrir bæði aðgengi og símnotkun, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008 (markaðir 1-6). Sjá viðmiðunartilboð Símans og viðauka þess með tillögum Símans til breytinga hér að neðan. Einnig má finna viðmiðunartilboðið og viðauka þess með umræddum breytingum á vef Símans, http://www.siminn.is/um-simann/heildsala/talsimi/. 2. PFS leggur til að neðangreinda breytingu á viðmiðunartilboðinu, sem yrði 9. gr. þess: „Síminn getur krafist þess að viðsemjandi uppfylli lágmarkskröfur um öryggi, samkvæmt reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta, áður en samtengingu neta verði komið á. Í því felst m.a. að viðsemjandi skuli skjalfesta öryggisskipulag sitt í samræmi við 7. gr. reglna nr. 1221/2007 og setja sér öryggisstefnu, útbúa áhættumat og gera viðeigandi lýsingu á öryggisráðstöfunum að því er varðar samtengingu neta, sem og hann viðhaldi órofinni slóð sönnunargagna sem nýst gætu vegna öryggisatburða. Síminn áskilur sér rétt til þess að leita álits Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort öryggisskipulag viðsemjanda teljist fullnægjandi.“ Rökstuðningur PFS fyrir breytingu þeirri sem mælt er fyrir um í 2. lið er eftirfarandi:Í ljósi markmiðs um að tryggja öryggi og heildstæði neta, þ.m.t. að fyrirbyggja ólögmæta misnotkun fjarskipta í hagnaðarskyni, þykir stofnuninni rétt að Síminn geti gert þá kröfu til viðsemjanda síns að hann uppfylli lágmarkskröfur um öryggi að því er varðar samtengingu neta. Er þá horft til þess að skortur á fullnægjandi öryggi hjá viðsemjanda getur dregið úr viðnámsþrótti öryggisvarna í kerfum Símans, auk annarra fjarskiptafyrirtækja sem hafa samtengingu við hann, og þannig stuðlað almennt að veikingu á öryggi almennra fjarskiptaneta hér á landi. Því leggur stofnunin til að nýjum skilmála verði bætt við viðmiðunartilboð Símans. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er til föstudagsins 22. október n.k.Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskarh(hja)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan. Viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, dags. 12. september 2010 (PDF) Viðauki 1a (Verðskrá fyrir samtengingarþjónustu Símans) (PDF) Viðauki 2 (Tækniskilmálar) (PDF) Viðauki 3a (Þjónusta samnings) (PDF) Viðauki 3b (Þjónusta samnings) (PDF) Viðauki 4 (Prófanir) (PDF) Viðauki 5a (Síminn, samtenging og kerfislýsing) (PDF)
28. september 2010
Íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það beri skaðabótaskyldu
Nánar
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 27. september 2010, var íslenska ríkið sýknað af kröfu Mílu ehf. um að það bæri skaðabótaskyldu vegna kostnaðar sem fyrirtækið varð fyrir þegar það þurfti að endurnýja nokkra senda í kjölfar þess að þurfa hætta notkun á tilteknu tíðnisviði. Forsögu málsins má rekja til þess að tiltekin tíðnisvið voru á alþjóðavísu skilgreind til notkunar fyrir þriðju kynslóða farsíma (3G farsímaþjónusta). Voru þessar alþjóðasamþykktir innleiddar í íslenskan rétt, m.a. með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en þar voru þessi sömu tíðnisvið sérstaklega skilgreind fyrir 3G farsímaþjónustu. Hins vegar var ljóst að umrædd tíðnisvið höfðu frá fyrri tíð verið notuð fyrir fastasambönd (e. fixed links) og voru nokkur slík sambönd enn í notkun þegar lögin voru samþykkt. Í ljósi þess að ekki er hægt að starfrækja 3G farsímaþjónustu og nota fastasambönd samhliða á sama tíðnisviði, vegna hættu á skaðlegum truflunum, hóf Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að afturkalla tíðniréttindi til fastasambanda, sem þá voru fyrst og fremst á hendi Símans hf. og síðar Mílu ehf. Var það fyrst gert með gert með ákvörðun nr. 7/2007 og síðan aftur með ákvörðun nr. 10/2008. Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 var ákvörðun PFS nr. 10/2008 felld úr gildi, þar sem talið var að ákvörðun stofnunarinnar um afturköllun réttindanna skorti næga lagastoð. Ekki var fallist á varakröfu PFS um viðurkenningu á því að stofnunin hefði heimild til að breyta umræddum réttindum. Í kjölfar þessa höfðaði Míla ehf. mál gegn íslenska ríkinu þann 6. október 2009 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þess vegna þess kostnaðar sem fyrirtækið hafði orðið fyrir við að endurnýja þau fastasambönd sem það hafði tekið úr notkun samkvæmt hinni ógildu ákvörðun PFS. Um kröfu Mílu ehf. kemst héraðsdómur að eftirfarandi niðurstöðu: „Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau hafa verið rakin hér að framan, verður að telja að til þess hefði ávallt komið að hreinsa þyrfti hin umræddu tíðnisvið af ástæðum sem þegar hefur verið lýst og verða að teljast réttmætar. Hér verður að líta svo á að það hafi verið gert með lögum nr. 8/2005 um þriðju kynslóð farsíma, en í 2. mgr. 1. gr. segir að lögin taki til úthlutunar tíðna til starfrækslu farsímaneta á tíðnisviðum 1900-1980 MHz, 2010-2005 MHz og 2110-2170. Af þessu leiddi að ekki var lengur unnt að nota þau tíðnisvið fyrir fastasambönd, eins og verið hafði, en þau þurfti að rýma vegna þriðju kynslóðar farsíma. Lagasetningin leiddi því til þess að grípa þurfti til breytinga á tækjabúnaði þeirra sem höfðu átt réttindi á þessum tíðnisviðum fyrir fastasambönd. Við þessar aðstæður verður að líta þannig á að þarna hafi verið um eðlilegan kostnað að ræða sem fylgir óhjákvæmilegum breytingum og tæknilegri þróun sem stefndi getur ekki borið skaðabótaábyrgð á gagnvart þeim sem þar áttu hlut að máli. Með vísan til þessa og annars sem liggur fyrir í málinu verður ekki talið að nægileg tengsl séu á milli þess að úrskurðarnefndin taldi hina umdeildu ákvörðun skorta lagastoð og kostnaðar stefnanda. Þar með er ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að kostnaðurinn sé til kominn vegna þess að hin umdeilda ákvörðun, um að afturkalla tíðniréttindi fyrir ákveðin fastasambönd stefnanda, hafi verið ólögmæt. Verður af þessum sökum að hafna því að hin meinta ólögmæta ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda sem varði stefnda skaðabótaskyldu að lögum. Með vísan til þess ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.“ Sjá dóm héraðsdóms í heild Sjá einnig: Ákvörðun PFS nr. 10/2008 - Afturköllun tiltekinna tíðniréttinda Mílu ehf. fyrir fastasambönd á tíðnisviðum fyrir þriðju kynslóð farsíma - 9. maí 2008 (PDF) Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008 (PDF)
21. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um endurúthlutun tíðnar til útvarpssendinga
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 13/2010, er varðaði afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpssendinga. Í málinu var m.a. deilt um heimild PFS til að endurúthluta tíðninni til Concert-KEF (Kaninn) en áður hafði Lýðræðishreyfingin haft umráð yfir tíðninni. Féllst úrskurðarnefnd m.a. á þau rök PFS að tíðniheimild Lýðræðishreyfingarinnar hafi runnið út í samræmi við gildistíma tíðnileyfis og tíðnin þar með laus til endurúthlutunar. Sjá nánar: Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2010 (PDF)
17. september 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli OR og GR
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 14/2010 er varðar tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar fjarskiptareksturs Gagnaveitur Reykjavíkur ehf. (GR) frá sérleyfisstarfsemi fyrirtækjasamstæðu Orkuveitu Reykjavíkur sf. (OR). Í hinni kærðu ákvörðun fyrirskipaði Póst- og fjarskiptastofnun GR að sækja um fyrirfram samþykki stofnunarinnar fyrir hlutafjáraukningu sem OR eða annað fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðunnar væri greiðandi að. Fram kom að PFS myndi því aðeins samþykkja slíka hlutafjáraukningu að hún rúmaðist innan eðlilegs fjárhagslegs aðskilnaðar og fæli ekki í sér að samkeppnisrekstur væri niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi. Þar til slíkt samþykki lægi fyrir væri GR óheimilt að samþykkja hlutafjáraukningu á hluthafafundi eða tilkynna um slíka hækkun til hlutafélagaskrár. Í umræddri ákvörðun kvað PFS ennfremur á um að skammtímaskuldir GR við OR eða önnur félög innan samstæðunnar mættu aldrei nema hærri fjárhæð en sem næmi 2ja mánaða eðlilegum viðskiptum milli aðilanna á hverjum tíma, eins og um ótengda aðila væri að ræða. GR gerði þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd að sá hluti hinnar kærðu ákvörðunar er varðaði fyrirfram samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningu, sem OR væri greiðandi að, ætti einungis við á meðan sérleyfisstarfsemi væri rekin innan OR, en til stæði að færa þá starfsemi frá OR til sérstaks félags innan samstæðunnar frá og með ársbyrjun 2011. Úrskurðarnefnd hafnaði kröfu GR og staðfesti hina kærðu ákvörðun PFS. Vísaði nefndin til þess að ákvæði 36. gr. fjarskiptalaga mælti fyrir um að fjarskiptafyrirtæki, eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet og njóta einkaréttinda á öðru sviði en fjarskiptum, skuli halda fjarskiptastarfseminni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi. Ákvæðið væri skýrt um það að ef fyrirtækjasamstæða stundaði rekstur fjarskipanets og nyti umræddra sérréttinda á öðrum sviðum skyldi samstæðan sjá til þess að fjarskiptastarfsemin væri fjárhagslega aðskilin. Að mati nefndarinnar hefði það engin áhrif á heimildir PFS samkvæmt ofangreindu ákvæði að einkaleyfisreksturinn væri færður í annað fyrirtæki innan samstæðunnar. Ráðstafanir sem vörðuðu einkaleyfisstarfsemi samstæðunnar gætu að mati nefndarinnar ekki skert eftirlitsheimildir PFS með fjarskiptastarfsemi. Það kæmi síðan í hlut PFS hverju sinni að meta þörfina fyrir íhlutun og hversu langt hún skyldi ganga. Að lokum hafnaði úrskurðarnefnd þeirri málsástæðu GR að PFS hefði í hinni kærðu ákvörðun gengið of hart fram gegn GR og brotið þannig gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kom að ljóst væri að gert væri ráð fyrir tiltekinni arðsemi af einkaleyfisstarfseminni og að hin lögbundna gjaldtaka kæmi til með að skila hagnaði. Að mati nefndarinnar væri ekki girt fyrir að sá hagnaður gæti runnið til OR og þaðan til GR, t.d. í formi hagstæðra lána- eða viðskiptaskilmála eða aukins eiginfjárframlags. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 3/2010 í heild (PDF)