Fréttasafn
13. janúar 2011
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir aðstöðuleigu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 41/2010 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu). Niðurstaða PFS var sú að verðskrá fyrir leigu á aðstöðu í húsum skuli hækka miðað við vegið meðaltal um 2,8% og verðskrá mastra um 12%.Núverandi afsláttarfyrirkomulag hýsingar Mílu verður lagt niður og þess í stað þess koma afsláttarflokkar sem byggja á samningslengd en ekki magni. Nýir afslættir verða 5%, 10% eða 15% miðað við að lengd samnings sé 2, 3 eða 5 ár hvert um sig.Sjá ákvörðunina í heild: (pdf)
30. desember 2010
PFS birtir ákvörðun varðandi arðsemiskröfu GR og lögmæti hlutafjáraukningar sem fram fór í félaginu í desember 2008
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 39/2010 varðandi arðsemiskröfu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) og lögmæti hlutafjáraukningar sem fram fór í félaginu í desember 2008. Niðurstaða PFS var sú að umrædd hlutafjáraukning sem fram fór í GR þann 16. desember 2008 og móðurfélag þess, Orkuveita Reykjavíkur sf., var greiðandi að hafi ekki brotið í bága við 36. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi frá einkaréttarstarfsemi samstæðunnar. Ennfremur að GR uppfyllti kröfu PFS um eðlilega arðsemiskröfu á eigið fé félagsins sem gera verði til fjarskiptafyrirtækis á samkeppnismarkaði. Til að tryggja að svo yrði áfram er félaginu gert að senda PFS árlega ítarlegar upplýsingar um rekstur og efnahag, ásamt endurskoðaðri viðskiptaáætlun og arðsemiskröfu félagsins í samræmi við nánari fyrirmæli stofnunarinnar þess efnis. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 39/2010 varðandi arðsemiskröfu GR og hlutafjáraukningu í félaginu í desember 2008
7. desember 2010
PFS framlengir rekstrarleyfi Íslandspósts til ársloka 2012
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með bréfi til Íslandspósts framlengt gildistíma rekstrarleyfis fyrirtækisins til 31. desember 2012. Ástæða þess er sú að íslensk stjórnvöld hafa sótt um undanþágu á innleiðingu tilskipunar nr. 2008/6/EC til EFTA, en tilskipunin kveður m.a. á um afnám einkaréttar í póstþjónustu. Ætlun stjórnvalda er að innleiðing tilskipunarinnar í íslenska löggjöf á sviði póstþjónustu verði lokið fyrir lok ársins 2012.
2. desember 2010
PFS auglýsir lausa til umsóknar stöðu hópstjóra öryggis- og viðbragðsteymis vegna netöryggismála
Nánar
Í framhaldi af samþykkt Ríkisstjórnar Íslands í nóvember 2010 um stofnun öryggis- og viðbragðsteymis vegna netöryggismála, auglýsir Póst- og fjarskiptastofnun eftir hópstjóra til að móta verklag fyrir viðbragðsteymið ásamt innleiðingu þess hjá stofnuninni. Hlutverk viðbragðsteymisins er að greina, miðla upplýsingum og koma á samstarfi við hagsmunaaðila hér á landi og erlendis. Starfssvið• Mótun verklags og innleiðing vinnuferla• Greining á spilliforritum og viðbrögð við öryggisatvikum • Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi um öryggi Internetsins• Ráðgjöf og upplýsingagjöf varðandi öryggismál• Koma á samvinnu við netöryggishópa hagsmunaaðila innanlands og stuðla að stofnun slíkra þar sem þörf er á• Leiða atvika-, veikleika- og búnaðargreiningu ásamt því að dreifa upplýsingum um atvik og berskjölduð tölvu- og fjarskiptakerfi• Aðstoð við uppbyggingu þekkingar í meðhöndlun öryggisatvika hjá innlendum netöryggishópum Menntun og reynslaHáskólapróf í verk-, tækni- eða tölvunarfræði eða öðrum raungreinum. Sérmenntun eða starfsreynsla á sviði hugbúnaðargerðar ásamt þekkingu á fjarskiptamarkaðnum er nauðsynleg. Aðrar hæfniskröfurUmsækjendur þurfa að eiga auðvelt með að starfa sjálfstætt sem og í hópi og jafnframt búa yfir þeim sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er til að ná árangri í starfi. Gerð er krafa um mikla greiningarhæfni, öguð og skipulögð vinnubrögð, ríkulega samskiptafærni ásamt getu til ákvarðanatöku við flóknar og krefjandi aðstæður. Umsækjendur þurfa að búa yfir skilningi á internettækni ásamt færni til að meta upplýsingar um áhættu og áhrif ásamt getu til að miðla tæknilegum upplýsingum til annarra. Góð íslensku og enskukunnátta, bæði töluð og rituð, er áskilin. Um er að ræða krefjandi starf í síbreytilegu og spennandi umhverfi þar sem gerðar eru miklar fagkröfur. Umsóknarfrestur er til og með 19. desember n.k. Umsækjendur eru beðnir um að sækja um starfið hér á heimasíðu PFS (sjá neðar). Umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt viðeigandi prófgögnum í viðhengi. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Póst- og fjarskiptastofnun lítur svo á að umsókn gildi í 6 mánuði frá dagsetningu hennar, nema umsækjandi ákveði umsókninni skemmri gildistíma.Nánari upplýsingar um starfið veitir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar, í síma 510 1505, thorleifur@pfs.is Sækja um
26. nóvember 2010
Síminn braut gegn trúnaðarskyldum með því að hagnýta sér upplýsingar um viðskiptavini Nova og Vodafone
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 37/2010 varðandi brot Símans hf. á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga. Málið varðaði kvörtun Nova vegna meintra brota Símans á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt samtengisamningi félaganna með því að nota upplýsingar um fjarskiptaumferð í markaðslegum tilgangi. Við rannsókn PFS á málinu, sem m.a. byggðist á gögnum sem Samkeppniseftirlitið hafði lagt hald á í húsleit hjá Símanum, kom í ljós að Síminn hafði unnið umfangsmikla úthringilista um viðskiptavini annarra fjarskiptafyrirtækja sem höfðu að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavini þeirra. Nánar tiltekið var um að ræða upplýsingar um símanúmer, nöfn, kennitölur, heimilisföng og í sumum tilfellum starfsheiti viðkomandi viðskiptavina, ásamt upplýsingum um fjölda símtala hvers og eins, lengd í sekúndum og lengd meðalsímtals. Á seinni stigum málsins gerðist Vodafone aðili að málinu þar sem hegðun Símans beindist einnig gegn viðskiptavinum þess félags, sbr. ákvörðun PFS nr. 26/2010. Síminn viðurkenndi að smásalan hafi ekki haft heimild til að nýta umræddar upplýsingar í markaðslegum tilgangi en hafnaði því að smásalan gæti ekki átt rétt á slíkum upplýsingum í ýmsum öðrum tilgangi. Með viðurkenningu sinni hefur félagið þannig sýnt viðleitni til að upplýsa málið og ná sáttum. Í 26. gr. fjarskiptalaga er að finna ákvæði sem lýtur að innbyrðis samskiptum fjarskiptafyrirtækja og meðferð þeirra á trúnaðarupplýsingum sem þau öðlast við gerð eða framkvæmd samninga um aðgang eða samtengingu. Þar kemur m.a. fram að fyrirtækin skuli eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi sem þær voru veittar og halda trúnað á öllum stigum. Einnig að óheimilt sé að afhenda upplýsingarnar öðrum, þ.á.m. öðrum deildum fyrirtækisins eða tengdum aðilum. Niðurstaða PFS var sú að Síminn hefði brotið gegn framangreindri lagagrein með því að nota umræddar umferðarupplýsingar í öðrum tilgangi en þær voru fengnar, þ.e. með afhendingu þeirra frá heildsölu til smásölu félagsins með það fyrir augum að nota þær í markaðslegum tilgangi. Með sömu háttsemi braut Síminn gegn ákvörðunum PFS frá árunum 2006 og 2008, viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta og afleiddum samtengisamningum við önnur fjarskiptafyrirtæki. Póst- og fjarskiptastofnun lítur ofangreinda háttsemi mjög alvarlegum augum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir örugga, skilvirka og hagkvæma tilhögun fjarskiptamarkaðarins að ákvæði 26. gr. fjarskiptalaga sé virt af fjarskiptafyrirtækjum í hvívetna. Frávik frá því geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samkeppni og framþróun á fjarskiptamarkaði og skapað skaðlegt vantraust á milli fjarskiptafyrirtækja. PFS mun framkvæma, eða láta framkvæma fyrir sig, úttekt á samskiptum heildsölu og smásölu Símans í kjölfar ofangreindrar ákvörðunar. Þá varðaði málið ágreining um það hvort ofangreind háttsemi Símans bryti í bága við ákvæði 42. gr. fjarskiptalaga að því er varðar vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs viðskiptavina annarra fjarskiptafélaga en Símans. PFS framsendir Persónuvernd þann hluta málsins þar sem vinnsla Símans á slíkum persónuupplýsingum getur fallið undir almenn ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Engu að síður taldi PFS rétt að mæla fyrir um að Síminn setti sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja. Reglurnar skulu bornar undir PFS til samþykktar eigi síðar en 1. mars 2011. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 37/2010 varðandi brot Símans á trúnaðarskyldum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga
19. nóvember 2010
Ársskýrsla PFS fyrir árið 2009 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ársskýrslu sína fyrir árið 2009. Skýrslan gefur yfirlit yfir starfsemi og verkefni stofnunarinnar á árinu 2009. Ársskýrsla PFS 2009 (PDF)
17. nóvember 2010
Framlenging á skyldum fjarskiptafyrirtækja vegna alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur framlengt gildistíma alþjónustuskyldna sem lagðar voru á Mílu ehf. og Símann hf. með ákvörðun PFS nr. 25/2007.Upprunalega útnefningin er til 31. desember 2010, með sérstöku heimildarákvæði PFS um framlengingu í eitt ár. Tímabil útnefningarinnar tók mið af því Evrópusambandið áætlaði að endurskoða þær alþjónustuskyldur sem í gildi voru innan sambandsins á vormánuðum ársins 2008. Þeirri vinnu lauk hins vegar ekki fyrr en með samþykkt tilskipunnar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/136/EB um breytingu á tilskipun frá árinu 2002 um alþjónustu og réttindi notenda. Breytingin hefur ekki enn verið innleidd hér á landi. Vegna þessa ákvað PFS að nýta sér heimild til að framlengja núverandi skyldur um eitt ár eða til 31. desember 2011.
17. nóvember 2010
PFS birtir ákvörðun um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum. Með bréfi þann 8. september 2010, tilkynnti Íslandspóstur um breytingar á skilmálum fyrirtækisins er varða dreifingu á magnpósti frá stórnotendum sem fá umfram afslætti skv. sérstakri afsláttarverðskrá. Samkvæmt hinum nýju skilmálum fer dreifingin fram á tímabilinu fyrsta til fimmta virka degi eftir móttöku. PFS gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar. Í ákvörðun stofnunarinnar segir m.a. að stórnotendur fái viðbótarafslátt allt að 11 prósentustig ofan á hæstu afsláttarprósentu sem í gildi er fyrir almennan magnpóst. Þessi munur á afsláttarkjörum verður ekki skýrður að öllu leyti nema með lengri dreifingartíma sem fyrirtækið áformar að gera að almennri reglu. Þá horfir stofnunin einnig til þess að þessir viðskiptavinir Íslandspósts geti hér eftir sem hingað til póstlagt bréf samkvæmt hinni almennu verðskrá fyrir magnpóst, sem veiti rétt til afsláttar allt að 30% og tryggir a.m.k. 85% dreifingu daginn eftir póstlagningu. Í niðurstöðu PFS er einnig vikið að því að hvorki 21. gr. laga um póstþjónustu né 10. gr. reglugerðar um alþjónustu verði skýrðar þannig að aðeins sé leyfilegt að bjóða upp á einn vöruflokk hér á landi. Báðar þessar greinar kveða á um að póstur sem fellur undir alþjónustu skuli borinn út alla virka daga. Þá telur stofnunin einnig að þær gæðakröfur sem í gildi eru, um að 85% af innanlandspósti í hraðasta flokki sé borinn út daginn eftir póstlagningu (D+1) komi ekki í veg fyrir að hægt sé að bjóða ódýrari þjónustuleiðir/vöruflokk en A-póst. Íslandspóstur skal, í vinnuferlum sínum, tryggja að allur póstur sem kemur inn til dreifingar hjá fyrirtækinu samkvæmt afsláttarverðskrá fyrir stórnotendur fái samskonar dreifingu, með það að markmiði að tryggja jafnræði viðskiptavina fyrirtækisins. Skal fyrirtækið senda stofnuninni lýsingu á viðeigandi vinnuferlum, áður en boðuð breyting tekur gildi. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum (PDF)