Fréttasafn
9. mars 2011
Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 5/2011 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta. Kvörtunin var tilkomin vegna tölvupósts sem kvartandi hafði fengið sendan í markaðslegum tilgangi á netfang sem honum hafði verið úthlutað í gegnum starf sitt. Niðurstaða ákvörðunarinnar er sú að kvartandi getur ekki talist aðili að málinu fyrir stofnuninni þar sem ákvæði 1. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti veitir aðeins áskrifanda tölvupóstþjónustu vernd fyrir óumbeðnum tölvupóstsendingum, en ekki notendum slíkrar þjónustu. Þar sem vinnuveitandi kvartanda var áskrifandi tölvupóstþjónustunnar í skilningi ákvæðisins hefði hann þurft að leggja fram kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna hinna óumbeðnu fjarskiptasendinga. Tekið skal fram að þessi niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar kemur þó ekki í veg fyrir að vinnuveitandi sem áskrifandi að tölvupóstþjónustu geti gripið til viðeigandi úrræða til að stemma stigu við óumbeðnum fjarskiptum sem beint er að starfsmönnum. Sjá ákvörðun PFS nr. 5/2011 varðandi óumbeðin fjarskipti (PDF skjal, trúnaðarupplýsingar fjarlægðar)
3. mars 2011
Laust er til umsóknar starf sérfræðings í tæknideild Póst- og fjarskiptastofnunar
Nánar
Við leitum að öflugum sérfræðingi til liðs við tæknideild PFS. Sérfræðingur vinnur með öflugu teymi starfsmanna deildarinnar sem vinna náið saman að net- og upplýsingaöryggi ásamt skipulagi tíðnimála, úthlutun tíðna og númera, eftirliti með ljósvakanum o.fl. StarfssviðEftirlit með reglum um net- og upplýsingaöryggi, skipulag tíðnimála, eftirlit með ljósvakanum ásamt stuðningi við störf annarra deilda. Þátttaka í innleiðingu gæðaferla tæknideildar er einnig mikilvægur þáttur í starfinu. Menntunar og hæfniskröfurHáskólapróf í verk – eða tæknifræði eða sambærileg menntun. Framhaldsnám eða starfsreynsla á sviði fjarskipta er kostur. Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku og ensku, búa yfir ríkulegri samskiptafærni ásamt öguðum og skipulögðum vinnubrögðum. Viðkomandi þurfa jafnframt að eiga auðvelt með að starfa sjálfstætt sem og í hópi og búa yfir sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er í samstarfi við fjarskiptafélög á Íslandi. Um er að ræða krefjandi starf í síbreytilegu og spennandi umhverfi þar sem gerðar eru miklar fagkröfur. Umsóknarfrestur er til og með 20. mars n.k. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt viðeigandi prófgögnum í viðhengi. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Póst- og fjarskiptastofnun lítur svo á að umsókn gildi í 6 mánuði frá dagsetningu hennar, nema umsækjandi ákveði umsókninni skemmri gildistíma.Nánari upplýsingar um starfið veitir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar, í síma 510 1505, thorleifur@pfs.is Sækja um
2. mars 2011
PFS kallar eftir samráði vegna viðmiðunartilboðs Mílu fyrir hýsingu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði um nýtt viðmiðunartilboð Mílu um hýsingu. Með ákvörðun PFS nr. 41/2010 samþykkti PFS endurskoðaða kostnaðargreiningu Mílu ehf. á aðstöðuleigu í húsum og möstrum, dags. 17. nóvember 2010. Niðurstaða PFS var sú að verðskrá fyrir leigu á aðstöðu í húsum skuli hækka miðað við vegið meðaltal um 2,8% og verðskrá mastra um 12%. Núverandi afsláttarfyrirkomulag hýsingar Mílu verður lagt niður og þess í stað þess koma afsláttarflokkar sem byggja á samningslengd en ekki magni. Nýir afslættir verða 5%, 10% eða 15% miðað við að lengd samnings. Hin nýja verðskrá og afsláttarfyrirkomulag Mílu skyldi ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. mars 2011, enda tilkynnti félagið leigutökum um verðskrárbreytinguna með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Með bréfi Mílu til leigutaka, dags. 28. febrúar 2011, tilkynnti Míla að hin nýja verðskrá myndi taka gildi 1. apríl 2011. Í ákvörðunarorðum var tiltekið að hin nýja verðskrá og afsláttarfyrirkomulag Mílu skyldi verða hluti af nýju viðmiðunartilboði Mílu fyrir aðstöðuleigu þegar PFS hafði samþykkt viðmiðunartilboðið. Að öðrum kosti frestist gildistaka viðmiðunartilboðsins þar til stofnunin hafi samþykkt viðmiðunartilboðið. PFS lítur svo á að hin nýja verðskrá sem Míla hefur nú tilkynnt leigutökum og byggir á niðurstöðu PFS, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 41/2010 skuli taka gildi þann 1. apríl n.k. Sá fyrirvari er þó gerður af hálfu PFS að hugsanlegar athugasemdir við skilmála viðmiðunartilboðsins breyti ekki forsendum verðlagningarinnar. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir vegna viðmiðunartilboðsins er til 2. apríl n.k. Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is. Jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar. Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan: Viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF) Viðaukar við viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF) Tilkynning Mílu um verðskrá (PDF)
25. febrúar 2011
Ákvörðun PFS um endurákvörðun rekstrargjalds RÚV ohf.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2011 um endurákvörðun rekstrargjalds Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) vegna rekstraráranna 2008 og 2009. Málið varðaði ágreining um það hvort rekstrartekjur RÚV af aðstöðuleigu (hýsingu) í tengslum við útvarpsdreifikerfi fyrirtækisins sem notað er til sjónvarps- og hljóðvarpsútsendinga tilheyrði fjarskiptastarfsemi þess í skilningi fjarskiptalaga nr. 81/2003 og myndaði þannig stofn til rekstrargjalds í samræmi við ákvæði 4. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. PFS komst að þeirri niðurstöðu að svo væri og ákvarðaði rekstrargjald RÚV að nýju með stoð í 10. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 fyrir rekstrarárin 2008 og 2009. Ákvörðun PFS nr. 4/2011 varðandi endurákvörðun rekstrargjalds RÚV vegna rekstraráranna 2008 og 2009 (PDF)
24. febrúar 2011
Ákvarðanir PFS um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboða Símans og Mílu á mörkuðum 7, 13 og 14
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 2/2011 og nr. 3/2011 um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs Mílu og Símans á mörkuðum 7 (smásölumarkaður) og mörkuðum 13 og 14 (heildsölumarkaðir fyrir leigulínur). Með ákvörðun PFS nr. 20/2007 var m.a. lögð á fyrirtækin kvöð um gagnsæi og að útbúa og birta opinberlega viðmiðunartilboð á viðkomandi mörkuðum. Síminn birti viðmiðunartilboð sín þann 21. ágúst 2009 og Míla sína endanlegu útgáfu þann 5. nóvember 2009. Með tilkynningu á heimasíðu PFS þann 6. nóvember 2009 voru viðmiðunartilboð Símans og Mílu sett í samráð við hagsmunaaðila. Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum var það niðurstaða PFS að óhjákvæmilegt væri að gera breytingar á einstaka ákvæðum viðmiðunartilboðsins. Þær breytingar sem voru gerðar má sjá í viðauka með ákvörðununum sem finna má aftast í skjölunum. Síminn og Míla skulu uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðuninni og birta það á vefsíðu sinni fyrir 1. mars. 2011. Sjá nánar Ákvörðun PFS nr. 2/2011 varðandi viðmiðunartilboð Mílu ehf. fyrir leigulínur, markaðir 13 og 14. Ákvörðun PFS nr. 3/2011 um breytingar á viðmiðunartilboðum Símans á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð á leigulínum (markaður 7), á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 13) og á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14).
18. febrúar 2011
Könnun PFS á eiginleikum IP fjarskiptaneta og gæðum netþjónustu í dreifbýli
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert könnun á eiginleikum IP fjarskiptaneta og gæðum netþjónustu meðal þeirra aðila sem veita slíka þjónustu í dreifbýli. Könnunin er liður í eftirlitshlutverki PFS og er ætlað að stuðla að því að fjarskiptafyrirtæki hlíti reglum þeim er stofnunin hefur sett. Við úrvinnslu skilagagna kom fram að víða er úrbóta þörf. Verður fyrirtækjunum gefinn frestur til 1. júlí 2011 til að bæta úr því sem á vantar til að öllum reglum sé fylgt. Ef svo verður ekki mun stofnunin grípa til aðgerða gagnvart viðkomandi fjarskiptafyrirtækjum í samræmi við heimildir í fjarskiptalögum. PFS leggur áherslu á að efla upplýsingar til neytenda á fjarskiptamarkaði og birtir því niðurstöður könnunarinnar hér á vefnum. Birting gagnanna auðveldar neytendum að átta sig á gæðum þeirrar netþjónustu sem í boði er og að velja þá þjónustu sem hentar þeim. Þar geta nokkrir þættir skipt máli, svo sem eiginleikar undirliggjandi fjarskiptaneta, hvernig og á hve skjótan hátt fjarskiptafyrirtækin bregðast við bilunum og hvernig öryggisskipulag fyrirtækin setja sér. Það er von stofnunarinnar að með þessu eflist almenn vitund um þá þætti sem skipta máli um gæði netþjónustu og upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækjanna til viðskiptavina sinna. Könnunin var framkvæmd þannig að bréf ásamt spurningalista var sent til allra netþjónustuaðila í dreifbýli í lok desember 2010 og þeim gefinn frestur fram í miðjan janúar til að skila svörum. Meðal þeirra atriða sem spurt var um má nefna öryggisstefnu og upplýsingagjöf til viðskiptavina, sem og áætluð tímasetning á því hvenært fyrirtækið ætlar að vera búið að gera úrbætur þar sem þeirra er þörf. Meðal þeirra atriða þar sem úrbóta er víða þörf má nefna: Oft er óskýrt hvaða flutningstækni er notuð. Öryggisstefna viðkomandi fyrirtækis um virkni og öryggi fjarskiptanetanna er óvíða gerð opinber, þ.e.a.s. ef hún er þá til. Hraðamælingar eru víða ófullnægjandi og ekki í samræmi við reglur stofnunarinnar um eigið kerfi fjarskiptafyrirtækja til slíks brúks fyrir viðskiptavini sína. Gerð er sú krafa að mælingar séu sem marktækastar og mælingakerfið sé því innan heildar-fjarskiptanets viðkomandi fjarskiptafyrirtækis. Það skal ekki vera vistað í netum annars aðila þar sem fjarskiptafyrirtækið hefur engja stjórn á hraða viðkomandi neta, en þetta virðist oft vera raunin. Sama gildir um pakkatöf (töf gagnapakka í flutningi), sem og breytileika tafarinnar, sem hvort tveggja skiptir t.d. leikjaunnendur og aðra notendur töluverðu máli svo sem við Skype símtöl. Birtingu ýmissa annarra gagna um gæði netumferðarflæðis er oft ábótavant, svo sem um meðal umferðarálag í samtengingum við önnur fjarskiptanet og í útlandasamböndum. Aukið umferðarálag skýrir m.a. hæga umferð. Atburðaskrá sem sýnir sögu bilana og truflana Víða vantar dagsetningu um hvenær viðkomandi fjarskiptafyrirtæki hyggst lagfæra þau atriði sem eru ekki í lagi skv. reglum stofnunarinnar. > Sjá svör einstakra fjarskiptafyrirtækja. Svörin eru flokkuð eftir svæðum og flutningstækni. Sjá einnig nánari skýringar á hugtökum og spurningum í spurningalistanum. Eins og fyrr segir er þessi fyrsta könnun PFS eingöngu gerð meðal netþjónustuaðila í dreifbýli. Könnunin verður endurtekin á þessu ári og einnig er gert er ráð fyrir að sams konar könnun verði gerð á meðal netþjónustuaðila í þéttbýli á árinu.
14. febrúar 2011
Breyttur afgreiðslutími hjá PFS
Nánar
Frá og með þriðjudeginum 15. febrúar 2011 verður afgreiðsla Póst- og fjarskiptastofnunar opin virka daga frá kl. 10:00 til kl. 14:00.
14. febrúar 2011
Hópstjóri öryggis- og viðbragðsteymis vegna netöryggismála ráðinn til PFS
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gengið frá ráðningu í starf hópstjóra öryggis- og viðbragðsteymis vegna netöryggismála (CERT/CSIRT hópur), sem auglýst var til umsóknar í desember sl. Átta umsóknir bárust og var ákveðið að ráða Stefán Snorra Stefánsson til starfans. Stefán Snorri er tæknifræðingur að mennt og hefur starfað sem sérfræðingur í net- og upplýsingaöryggi hjá stofnuninni frá árinu 2006. Hlutverk öryggis- og viðbragðsteymisins verður m.a. að samstilla aðgerðir og veita stuðning þegar að steðja öryggisógnir í fjarskipta- og upplýsinganetum, sem og stuðla að skjótri endurreisn kerfa í kjölfarið, ef svo ber undir. Hópnum verður ætlað að greina vandamál, veita ráðgjöf og mæla fyrir um úrbætur. Tilgangurinn með myndun hans er að koma í veg fyrir, eða minnka, margs konar óþægindi og tjón sem hlotist getur af netárásum eða öðrum öryggisatvikum. Hópurinn mun hafa samvinnu við marga aðila innanlands og sambærilega hópa annarra landa. Hann verður tengiliður Íslands (PoC-point of contact) varðandi öryggisatvik sem upp koma á Netinu og annað er snertir starfsemina.Í framhaldi af ráðningu hópstjórans verður haldið áfram undirbúningi að myndun teymisins og fleiri starfsmenn ráðnir á árinu.