Fréttasafn
14. apríl 2011
PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum vefsíðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 8/2011 í kvörtunarmáli vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum. Alls höfðu stofnuninni borist þrjár kvartanir vegna þess að Síminn og Vodafone höfðu lokað fyrir umferð um vefsíðuna www.slembingur.org, auk þess sem sú lokun hafi einnig hamlað umferð um aðrar vefsíður. Forsaga málsins er sú að Ríkislögreglustjóri, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Samtökin Barnaheill, Heimili og skóli, SAFT, Lýðheilsustöð, Umboðsmaður barna og Stígamót skoruðu á fjarskiptafyrirtækin að loka fyrir aðgang að vefsíðunni þar sem hún innihéldi ólöglegt efni. Samkvæmt lögum nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun er stofnuninni falið að annast framkvæmd laga um fjarskipti nr. 81/2003. Í ákvörðun sinni kemst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að stofnunin sé ekki til þess bær að skera úr um það hvort umræddar lokanir, sem gerðar voru vegna efnisinnihalds vefsíðunnar www.slembingur.org, hafi farið í bága við lög og stjórnarskrárvarin réttindi um tjáningarfrelsi. Þessi niðurstaða er í samræmi við 5. mgr. 1. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti þar sem segir að fjarskiptalög gildi ekki um innihald efnis sem sent er eða móttekið á fjarskiptanetum. Á hinn bóginn hafa fjarskiptalögin að geyma tilteknar öryggis- og gæðakröfur t.d. hvað varðar umferðarstýringar fjarskipta. Í samræmi við lögin voru árið 2007 settar reglur nr. 1223/2007 um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Þar er gerður sá fyrirvari að réttur til aðgangs að efni á almennum fjarskiptanetum feli í sér notkun á löglegri þjónustu. Mat á því hvað telst löglegt efni er hins vegar ekki í höndum PFS. Ákvæði fjarskiptalaga og reglna sem settar hafa verið á grundvelli þeirra standa því ekki í vegi fyrir því að lokað sé fyrir efni á almennum fjarskiptanetum eða aðgangur takmarkaður, enda séu skilyrði fyrir takmörkun tjáningarfrelsis uppfyllt, samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, og farið eftir upplýsinga- og tilkynningaskyldu samkvæmt 21. gr. reglna nr. 1223/2007. Sjá nánar:Ákvörðun PFS nr. 8/2011 - Kvörtun vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum (PDF)
13. apríl 2011
Samráð um markaðsgreiningu á markaði 7 framlengt til 26. apríl nk.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að skilafrestur umsagna og athugasemda í áður auglýstu samráði um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, verði framlengdur til þriðjudagsins 26. apríl nk. Sjá nánar um samráðið í auglýsingu hér á vefnum frá 18. mars sl.
13. apríl 2011
PFS birtir ákvörðun nr. 9/2011, um rétt til tengingar talsíma
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 9/2011, um rétt umsækjanda til tengingar talsíma við Sæból að Hvallátrum, 451 Patreksfirði. Í september sl. barst stofnuninni erindi frá eigendum jarðarinnar Sæból að Hvallátrum, 451 Patreksfirði, þess efnis að hún hlutaðist til um að Míla tengi talsíma í húsið Sæból sem sé skráð lögbýli. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu á sviði fjarskipta nr. 1356/2007 um að eiga skráð lögheimili að Sæbóli, Hvallátrum. Af því leiðir að Mílu er ekki skylt að svo stöddu að verða við beiðni um aðgang að almenna talsímanetinu um nettengipunkt. Sjá nánar:Ákvörðun PFS nr. 9/2011 um rétt umsækjanda til tengingar talsíma við Sæból að Hvallátrum (PDF)
12. apríl 2011
Samantekt PFS að loknu samráði um framlengingu á MMDS tíðnileyfi Fjarskipta ehf. (Vodafone)
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) gaf þann 20. janúar síðastliðinn út samráðsskjal vegna beiðni Og fjarskipta ehf. (nú Fjarskipti ehf.) um framlengingu á MMDS 2,6 GHz tíðnileyfi félagsins til níu ára. Um er að ræða tíðni sem fyrirtækið hefur m.a. notað til dreifingar á Fjölvarpinu. Að teknu tilliti til þeirra umsagna og athugasemda sem bárust við samráðsskjalið gerir PFS ráð fyrir að framlengja tíðnileyfi félagsins til næstu þriggja ára. Þegar horft er til framtíðar er ljóst að auknar kröfur eru gerðar um meiri bandbreidd fyrir þráðlausar farnetsþjónustur (þráðlaus háhraðanet) og því er að mati PFS mikilvægt að losa sem fyrst þau tíðnisvið sem nú þegar hafa verið samræmd fyrir þessa þjónustu. Þetta kemur enda skýrt fram í umsögnum hagsmunaaðila um samráðsskjalið og er 2,6 GHz nefnt í því sambandi. Það tíðnisvið er eitt af þeim fyrstu sem úthlutað hefur verið fyrir farnetsþjónustur í Evrópu og því ber PFS að stefna að því að losa tíðnisviðið fyrir slíka þjónustu. Í nokkrum löndum Evrópu hefur verið sett upp á 2,6 GHz svonefnt LTE (enska: Long Term Evolution) sem er þráðlaus farnetstækni. Vegna þess að LTE býður upp á verulega framför frá eldri stöðlum, t.d GSM, vísa sumir til að þess sem 4G (fjórðu kynslóðar) tækni. Fyrirhuguð niðurstaða PFS er því að framlengja tíðniheimild Vodafone til þriggja ára með möguleika á frekari framlengingu ef samráð um tíðnistefnu PFS, sem fram fer á árinu 2011, leiðir í ljós að ekki verði sóst eftir 2,6 GHz tíðnisviðinu fyrir farnetsþjónustur. Að loknum þessum þremur árum kemur einnig til greina að Vodafone fái að halda hluta 2,6 GHz tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu sem þá gæti borið færri dagskrár til þeirra sem svo óska á höfuðborgarsvæðinu og víðar (t.d. þar sem ekki væru uppbyggð línukerfi) auk þess sem það gæti þá þjónað sumarhúsabyggðum til einhverrar framtíðar. Hefur Fjarskiptum verið tilkynnt um þessa fyrirhuguðu ákvörðun PFS með formlegum hætti og fyrirtækinu gefinn kostur á andmælum. Sjá nánar:Samantekt umsagna úr samráði – niðurstaða PFS (PDF)
6. apríl 2011
Könnun PFS á dreifingu Íslandspósts á magnpósti
Nánar
Með ákvörðun sinni nr. 36/2010 þann 10. nóvember sl. veitti Póst- og fjarskiptastofnun Íslandspósti heimild til að dreifa magnpósti frá stórnotendum á allt að 1-5 dögum frá póstlagningu. Í framhaldi af ákvörðun sinni ákvað stofnunin að kanna hvernig innleiðing hins nýja dreififyrirkomulags hafi gengið eftir, m.a. með tilliti til jafnræðis viðskiptavina Íslandspósts. Einnig var kannað hvernig Íslandspóstur stæði að dagstimplun þeirra póstsendinga sem flokkast sem magnpóstur. Íslandspósti voru send bréf, dags. 24. janúar og 17. febrúar s.l., þar sem spurt var út í ákveðna þætti hins nýja fyrirkomulags. Íslandspóstur sendi sín svör með bréfum, dags. 26. janúar og 22. febrúar s.l. Þá fóru fulltrúar PFS í fyrirvaralausa vettvangsferð þann 2. mars 2011 til Íslandspósts. Könnunin var einnig fólgin í því að á tímabilinu 21. febrúar til 4. mars s.l. voru starfsmenn PFS, beðnir um að skrá allan áritaðan póst sem bærist til heimilismanna. Skráð var póstnúmer heimilisins, nafn sendanda (valkvætt), dagsetning póststimpils, dagsetning útburðar og greinanleiki stimpils (t.d. ólæsilegur, vantar). Það er mat PFS að þrátt fyrir að tilteknir hnökrar hafi komið fram við innleiðingu hins breytta dreifikerfis bendi fyrstu niðurstöður könnunarinnar ekki til þess að um viðvarandi misbresti sé að ræða. Stofnunin mun halda áfram að fylgjast með framkvæmd dreifingar samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi eftir því sem ástæða er til. Sjá nánar: Könnun Póst- og fjarskiptastofnunar á vinnuferlum og framkvæmd Íslandspósts á dreifingu magnpósts frá stórnotendum (PDF)
18. mars 2011
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í nóvember 2008. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2006 og síðan sumarið 2010. Er þetta því þriðja greining PFS á viðkomandi markaði. Megin ástæða greiningarinnar nú er niðurlagning Símans á NMT-kerfi sínu í september s.l. og innkoma IP-fjarskipta ehf. (Tal) á viðkomandi markað s.l. haust. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað er í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. apríl 2011. Nánari upplýsingar veita Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is) og Óskar Hafliði Ragnarsson (oskarh(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, (Markaður 7) (PDF)(ATH: Skjalið var uppfært þann 22.3.2011 vegna villu í lið 174 bls. 46-47 í upphaflega skjalinu. Villan fólst í að tvívegis var ritað "lúkningagjöld" þar sem standa átti "flutningsgjöld") Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
11. mars 2011
Númerinu 118 úthlutað til Já upplýsingaveitna
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur úthlutað stuttnúmerinu 118 til Já upplýsingaveitna ehf. til að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer. Var fyrirtækinu úthlutað númerinu til næstu fimm ára, eða til 10. febrúar 2016 Með ákvörðun PFS nr. 25/2007 um útnefningu fjarskiptafyrirtækja með alþjónustuskyldur voru lagðar skyldur á Já upplýsingaveitur ehf. til að veita aðgang að símaskrá og upplýsingaþjónustu um símanúmer, auk þess sem fyrirtækið hefur, ásamt Símanum hf., ákveðnum skyldum að gegna við að veita öryrkjum og notendum með sérstakar þjóðfélagsþarfir aðgang að fjarskiptaþjónustu. Þær alþjónustuskyldur áttu að gilda til ársloka 2010, en voru framlengdar til 30. júní 2011 með bréfi PFS þann 29. desember 2010. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að í ljósi sölu á Já upplýsingaveitum ehf. frá Skipta samstæðunni teldi stofnunin rétt að endurskoða útnefningu fyrirtækisins sem alþjónustuveitanda og meta hvort tilefni væri til að útfæra nánar efni og skilmála kvaðanna. Sjá bréf PFS til Já upplýsingaveitna ehf. um úthlutun á númerinu 118 (PDF)
9. mars 2011
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi tvær ákvarðanir PFS varðandi póstþjónustu á Vestfjörðum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi tvær ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar er varða breytingu á póstþjónustu tveggja bæja á Vestfjörðum. Annars vegar ákvörðun 32/2010 er varðar breytingu á póstþjónustu við bæinn Breiðavík og hins vegar ákvörðun 31/2010 um breytingu á póstþjónustu við bæinn Láganúp. Ákvarðanirnar voru ógiltar á þeirri forsendu að Íslandpóstur hefði ekki reynt að ná samkomulagi við ábúendur um staðsetningu bréfakassa með fullnægjandi hætti eins og áskilið er í reglugerð nr. 364/2003 um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. Úrskurðanefndin tók ekki efnislega afstöðu til niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar en beindi því til Íslandspósts að leitast við að ná samkomulagi við notendur póstþjónustu á bæjunum. Sjá úrskurði úrskurðarnefndar: Mál nr. 8/2010 - varðandi póstþjónustu við Breiðavík (PDF) Mál nr. 9/2010 - varðandi póstþjónustu við Láganúp (PDF)