Fréttasafn
22. júní 2011
Ákvörðun PFS um framlengingu á MMDS tíðniheimild Fjarskipta ehf. (Vodafone).
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 18/2011 um framlengingu á MMDS tíðniheimild Fjarskipta ehf. (Vodafone). Er um að ræða tíðnileyfi, sem fyrirtækið (þá OgVodafone ehf., nú Fjarskipti ehf.) hefur haft leyfi fyrir frá árinu 2003, til reksturs stafræns sjónvarps á MMDS rásum (MMDS 2500-2684MHz). Tíðnileyfi þetta rennur út þann 27. júní 2011 og óskaði Fjarskipti ehf. (Vodafone) eftir því að Póst og fjarskiptastofnun (PFS) framlengdi tíðniheimildir félagsins vegna stafræns sjónvarps þannig að þær tíðniheimildir sem gilda annarsvegar á SV-horni (Suðurnes til Akraness) og hins vegar á Suðurlandi austur að Kirkjubæjarklaustri yrðu framlengdar um 9 ár, eða fram til ársins 2020. Í ákvörðun stofnunarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að gildistími MMDS tíðniheimildar Fjarskipta ehf. verði framlengdur til þriggja ára með möguleika á því að framlengja gildistímann lengur, m.t.t. til niðurstöðu samráðs um tíðnistefnu stofnunarinnar þar sem m.a verður kannað hvort eftirspurn er eftir 2.6 GHz tíðnisviðinu. Helgast þessi niðurstaða af því að umrætt tíðnisvið hefur verið skilgreint til nota sem framtíðar tíðnisvið fyrir fjórðu kynslóða farnetsþjónustu með samræmingarákvörðun ESB nr. 2008/477/EB. Telur Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðunina taka mið af þeim markmiðum og verkefnum sem stofnuninni eru falin og að með henni sé gætt hófs hvað varðar tímalengd framlengingarinnar, þar sem hagsmunir og réttindi allra fjarskiptarekenda á íslenskum fjarskiptamarkaði eru hafðir að leiðarljósi með tilliti til framþróunar á markaði neytendum til hagsbóta. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 18/2011 um framlengingu á MMDS tíðniheimild Fjarskipta ehf. (Vodafone). (PDF)
20. júní 2011
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um skráningu á kóðum í gagnagrunn HÍN
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þann 10. júní sl. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 40/2010 um skráningu á tilteknum kóðum í gagnagrunn Hins íslenska númarafélags ehf. (HÍN). Í ákvörðun sinni hafði PFS hafnað skráningunni af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi að skráningin gengi gegn því fyrirkomulagi sem gildir um aðgreiningu á annars vegar endursöluaðila og hins vegar sýndarnetsaðila samkvæmt fyrri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 4/2007, sbr. og ákvörðunum nr. 19 og 20/2009. Í öðru lagi væri hún í andstöðu við 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta, sem kveður á um í allri fjarskiptaþjónustu, sem sækir skipulag númera og vistfanga til tilmæla ITU, eigi eingöngu að nota númer, kóða og vistföng sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað. Í þriðja lagi væri um að ræða ólögmætt framsal á réttindum samkvæmt 7. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og a.-lið 2. mgr. 11. gr. fyrrnefndra reglna nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta. Í úrskurði úrskurðarnefndar var ekki fallist á frávísunarkröfu PFS og talið að kærandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um skráningu á umræddum kóðum, þó svo að númerin sem stæði til að merkja væri í umráðum annars fjarskiptafyrirtækis, en aðgangur að þeim var veittur á grundvelli endursölusamnings. Ekki var vikið sérstaklega að því hvort skráningin fæli í sér ólögmætt framsal á réttindum til umræddra númera. Hins vegar féllst úrskurðarnefndin á þann lagaskilning PFS að skráning á kóðum í HÍN, sem bætast við símanúmer og mynda samfelldan talnastreng, falli undir eftirlitsvald stofnunarinnar, en hún úthlutar númerum og kóðum til nota í fjarskiptaþjónustu innan lögsögu íslenska ríkisins, sbr. 15. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og reglur nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta. Þá tók nefndin undir það sjónarmið PFS að umrædd skráning væri andstæð þeirri aðgreiningu sem rétt er að gera milli annars vegar endursöluaðila, sem ekki býr yfir viðeigandi búnaði og aðstöðu til að veita farsímaþjónustu á eigin vegum, og hins vegar sýndarnetsaðila, sem hefur yfir að ráða símstöð fyrir farsímaþjónustu, en í úrskurðinum segir m.a. eftirfarandi: „Úrskurðarnefnd tekur undir sjónarmið PFS um að með því að endursöluaðili fái sérstakan auðkenniskóða í gagnagrunni HÍN sé gefið til ákveðið sjálfstæði sem hann nýtur ekki í raun, þar sem hann er ekki sýndarnetsaðili. Með vísan til framgreinds telur úrskurðarnefnd að með sérstökum auðkenniskóða kæranda í HÍN sé farið gegn aðgreiningu endursölu- og sýndarnetsaðila á fjarskiptamarkaði. Kærandi virðist með skráningu eigin kóða í HÍN vera að koma sér í stöðu sýndarnetsaðila, án þess að hafa símstöð í farsímakerfi og þar með að vissu leyti torvelda eftirlit með fjarskiptastarfseminni.“ Með vísan til framangreinds og sjónarmiða sem nánar eru tilgreind í úrskurðinum var ákvörðun PFS nr. 40/2010 staðfest. Sjá úrskurðinn í heild: Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 1/2011 (PDF)
20. júní 2011
Ákvörðun PFS um viðmiðunartilboð og kostnaðargreiningu Símans fyrir smásölumarkaði talsímaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2011 varðandi viðmiðunartilboð og kostnaðargreiningu Símans fyrir smásölumarkaði talsímaþjónustu.Stofnunin samþykkti viðmiðunartilboð og kostnaðargreiningu verðskrár Símans með tilteknum breytingum. Málið varðar fyrst og fremst verð og skilmála fyrir nýja aðgangsleið viðsemjenda Símans á heildsölustigi sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 30/2008. Um er að ræða aðgang fjarskiptafyrirtækja að talsímalínu hjá Símanum á heildsölustigi í formi eins heildstæðs reiknings fyrir bæði aðgangslínu að almenna talsímanetinu og fjarskiptanotkun. Fjarskiptafyrirtæki sem veitir viðskiptavini sínum fjarskiptaþjónustu getur nú sent honum einn reikning fyrir bæði fjarskiptaþjónustuna og aðgangsgjald fyrir línuna sem Síminn hefur hingað til sent reikning fyrir. Umrætt fjarskiptafyrirtæki stendur síðan skil á aðgangsgjaldi fyrir línuna gagnvart Símanum. Með þessu er skorið á beint samband Símans við þá einstaklinga og fyrirtæki sem kaupa fjarskiptaþjónustu Símans í gegn um önnur fjarskiptafyrirtæki. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 19/2011 um viðmiðunartilboð og kostnaðargreiningu Símans á mörkuðum 1 og 2 (PDF)
16. júní 2011
PFS kallar eftir samráði: Fyrirhuguð útnefning Já upplýsingaveitna með alþjónustuskyldur vegna útgáfu símaskrár og upplýsingaþjónustu um símanúmer
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar útnefningar Já upplýsingaveitna ehf. með skyldu til að gefa út símaskrá og reka upplýsingaþjónustu um símanúmer, ásamt því að verða við öllum sanngjörnum kröfum hagsmunasamtaka öryrkja um aðgang að þessari þjónustu. Frestur til að koma með athugasemdir við hina fyrirhuguðu útnefningu er til og með 24. júní n.k. Umsagnir og athugasemdir óskast sendar með tölvupósti á netfangið fridrik(hjá)pfs.is. Sjá samráðsskjal: Útnefning alþjónustuveitanda, samkvæmt lögum nr. 81/2003 um fjarskipti (PDF)
14. júní 2011
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir leigulínur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir leigulínur (markaðir 13-14). Hin nýja verðskrá tekur gildi þann 1. ágúst nk. ásamt nýju fyrirkomulagi vegalengdarmælinga og afsláttarkjara. Með ákvörðuninni er fyrirkomulagi um vegalegndarmælingar breytt þar sem miðað er við beina loftlínu í staða núverandi raunlínumælingar, sem fækkar kílómetrum um að jafnaði 40% þegar kílómetragjöld eru reiknuð. Núverandi afsláttarfyrirkomulag stofnlína Mílu verður lagt niður og þess í stað þess koma afsláttarflokkar sem byggja á samningslengd en ekki magni. Nýir afslættir verða 5%, 10% eða 15% miðað við að lengd samnings sé 2, 3 eða 5 ár hvert um sig, en hægt er að segja upp samningi á samningstíma með 2-4 mánaða fyrirvara eftir samningslengd. Þetta þýðir m.ö.o. að binditími er að hámarki 2-4 mánuðir miðað við 1-3ja ára samaninga. Fast verð á mánuði hækkar fyrir sambönd 2 Mb/s og minni, en lækkar fyrir stærri sambönd. Almennt hækkar einingarverð á hvern km. en þegar tillit hefur verið tekið til beinlínumælinga þá hækka gjöld fyrir bandmjórri sambönd (2 Mb/s og minni), en bandbreið sambönd lækka og þá sérstaklega sambönd sem eru 155 Mb/s og stærri.Þegar hins vegar hefur verið tekið tillit til nýrra afláttarkjara (5-15%) sem verða í boði í kjölfar ákvörðunarinnar þá geta verð lækkað í flestum tilfellum frá því sem nú er. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 14/2011 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á gjaldskrá fyrir leigulínur (markaðir 13-14) (PDF)
10. júní 2011
PFS birtir ákvörðun um kostnaðargreiningu fyrir talsímanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (markaðir 8-10). Samkvæmt endurskoðaðri kostnaðargreiningu Símans hækka upphafs- og lúkningarverð um rúmlega 46% og umflutningsgjöld lækka um rúmlega 14%. Miðað er við mínútuverð m.v. þriggja mínútna símtal. Vodafone er heimilt að hækka lúkningarverði sín í samræmi við heimild Símans, sbr. tl. 5.4 í ákvörðun PFS nr. 29/2008. Samkvæmt ákvörðuninni skal afnema skipting mínútuverða í dagtaxta annars vegar og kvöld-, nætur- og helgartaxta (KNH) hins vegar. Þess í stað komi eitt mínútuverð. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (Markaðir 8 - 10) (PDF)
8. júní 2011
Ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu
Nánar
Birt hefur verið í Stjórnartíðindum ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu, nr. 526/2011. Reglugerðin tekur til reikningagerðar fjarskiptafyrirtækja fyrir talsíma-, farsíma- og netþjónustu. Hún nær ekki til reikningagerðar fyrir virðisaukandi þjónustu (aukakostnaður s.s. vegna símakosningar eða leikjanotkunar) eða aðra þjónustuþætti sem kann að vera gjaldfært fyrir samhliða reikningi fyrir fyrrnefnda þjónustuflokka. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru taldir upp þeir þættir sem að lágmarki skulu koma fram á almennum reikningum til áskrifenda fyrir fjarskiptanotkun: Reikningstímabil Þjónustuveitanda Heiti þjónustu Aðferð og einingar gjaldtökumælingar Fast mánaðargjald Seðilgjald Önnur þjónustu- og umsýslugjöld Aukaleg mánaðagjöld, t.a.m. vegna leigu búnaðar, læsinga, númerabirtinga og annarrar sérþjónustu. Öll eingreiðslugjöld, s.s. vegna tengikostnaðar, stofngjalda, uppsagna eða annarra breytinga á þjónustu Sundurgreindan heildarkostnað eftir tegund notkunar, þ.m.t. símtal í talsíma, farsíma, símtöl til útlanda, internetsímtöl og símtöl í númer með yfirgjaldi, SMS og MMS Sundurliðuð notkunargjöld skv. 6. gr. og 7. gr. reglugerðarinnar (sjá hér fyrir neðan) Upphæð afsláttar skv. viðkomandi þjónustuleið Virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld Heildarfjárhæð reiknings með virðisaukaskatti. Í 6. og 7. gr. reglugerðarinnar er tiltekið hvernig sundurliða skal upplýsingar vegna tal-, farsíma- og netþjónustu. Varðandi tal- og farsímanotkun skulu koma fram upplýsingar um: fjölda símtala í talsíma og farsíma upphafsgjöld raunlengd og gjaldfærð lengd gjaldfærð upphæð símtala símtöl til útlanda upplýsingar um fjölda texta- og myndskilaboða (SMS/MMS) eða aðrar gerðir gagnaskilaboða sundurliðuð eftir gerð. Varðandi netþjónustu skal sundurliða reikninga þannig að fram komi hvert er raunmagn þeirra mælieininga, gagna eða tíma, sem notaðar voru á gjaldtímabilinu. Einnig magn innifalið í áskrift, og magn og upphæð vegna gjaldfærðrar umframnotkunar. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að neytendavernd með aukinni upplýsingagjöf um hvað liggur að baki gjaldtöku og auðvelda neytendum að fylgjast með fjarskiptanotkun sinni. Um leið aukast möguleikar neytenda á að taka upplýstar ákvarðanir um val á þjónustu og njóta þeirra hagsbóta sem samkeppni á þessum markaði veitir. Reglugerðin tekur gildi þann 1. júlí nk. Sjá reglugerðina í heild á vef Stjórnartíðinda: Reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu nr. 526/2011
7. júní 2011
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 17/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Með erindi, dags. 29. mars sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á hækkun á einkaréttarpósti um 27%, vegna magnminnkunar, aukinna afslátta og þess að kostnaður hafi ekki lækkað til samræmis við lækkandi tekjur. Það er mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Á það við um þann hluta hækkunarbeiðninnar sem rökstuddur er með auknum afslætti til stórnotenda. En stofnunin fellst ekki á þau rök Íslandspósts að auknir afslættir til stórnotenda geti verið grundvöllur undir hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar. PFS telur efni standa til þess að samþykkja 20% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta versnandi afkomu á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðar- og magnþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts. Samhliða verðhækkun er óhjákvæmilegt að Íslandspóstur leiti áfram leiða til að hagræða í rekstri innan einkaréttar sem og á öðrum sviðum til að mæta tekjulækkun vegna minnkandi magns, sem er m.a. tilkomið vegna aukinna rafræna samskipta fyrirtækja og stofnana við viðskiptavini sína auk þess sem leiða má líkum að því að fjármálakreppan hér á landi hafi einnig haft áhrif á minnkandi póstmagn. En heildarmagn pósts hefur minnkað um 20% frá árinu 2008 til ársins 2010 og fyrirsjáanlegt að sú þróun muni halda áfram. Sama þróun hefur orðið í öðrum löndum í Evrópu. Nýleg innleiðing XY-dreifikerfis, með tilheyrandi sparnaði fyrir Íslandspóst, var að mati PFS nauðsynleg aðgerð til að mæta minnkandi magni bréfapósts innan einkaréttar, en án hennar er ljóst að hækkun á bréfum innan einkaréttar hefði þurft að vera meiri en ella ( sjá ákvörðun PFS nr. 16/2011). Engar breytingar voru gerðar á núgildandi afsláttarkjörum til stórnotenda. Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 75 kr. í 90 kr. með þeirri hækkun sem nú er samþykkt. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum. Nánari rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr. 17/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 29. mars 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar