Fréttasafn
13. október 2011
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts vegna breytinga á dreifikerfi fyrirtækisins
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þann 10. október sl. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 16/2011. Málið varðar breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts, sem fyrirtækið tilkynnti PFS með bréfi, dags. 3. maí 2011. Með skilmálabreytingunni er tekið upp svokallað XY dreifingarkerfi, sem felur í sér að hverju póstburðarhverfi er skipt í tvennt (XY). Almennum pósti er dreift daglega í allt hverfið, þ.e. bæði X og Y hluta þess, en pósti frá stórnotendum er fyrri daginn dreift í annan helming hverfisins en hinum helmingnum er dreift degi siðar. Póstmarkaðurinn ehf. kærði ákvörðun PFS í málinu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og hefur nefndin nú kveðið upp úrskurð sinn. Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að umframafslættir til stórnotenda séu háðir því skilyrði að skriflegur samningur sé gerður fyrirfram. Að mati nefndarinnar fer það ekki gegn 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 að umframafsláttur sé háður því skilyrði að dreifing fari að jafnaði fram á 2. og 3. virka degi eftir móttöku. Leit nefndin þá einnig til þess að lægri afsláttur er í boði hjá Íslandspósti fyrir dreifingu á skemmri tíma samkvæmt magngjaldskrá. Þá féllst nefndin ekki á þau sjónarmið kæranda að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu PFS á kostnaðarlegu hagræði af lengri dreifingartíma í tilviki stórnotenda, en í úrskurðinum segir m.a.: „… er ljóst af hinni kærðu ákvörðun að stofnunin hefur farið yfir og metið forsendur Íslandspósts fyrir kostnaðarhagræði af XY-dreifikerfinu og metið það sem svo að til þess að ná fram umræddu kostnaðarhagræði, bæði í dreifingu og flokkun, fari flokkun á pósti frá stórnotendum fram degi eftir móttöku og dreifing eigi sér stað á 2. og 3. degi.“ Jafnframt taldi nefndin að umrætt fyrirkomulag færi ekki gegn 3. mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu þar sem fjallað er um dagstimplun póstsendinga og að gæðaviðmiði hinnar kærðu ákvörðunar varðandi póst frá stórnotendum væri ætlað að tryggja jafnræði milli allra stórnotenda, hvort sem þeir stunda póstmiðlun eða skipta beint við Íslandspóst. Með vísan til framangreinds og sjónarmiða sem nánar eru tilgreind í úrskurðinum var ákvörðun PFS nr. 16/2011 staðfest. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)
26. september 2011
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 26/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Með erindi, dags. 8. júní sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á verðhækkun á einkaréttarpósti um 11,1%, vegna kostnaðarhækkana samfara kjarasamningi Íslandspósts og Póstmannafélags Íslands Það er mat stofnunarinnar að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. PFS telur efni standa til þess að samþykkja allt að 7,8% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta kostnaðarauka vegna kjarasamninga á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðarþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts. Í erindi Íslandspósts er þess getið að fyrirtækið hyggst hagræða í rekstri til að mæta hækkunarþörf vegna kjarasamninga. Hugsanlega kann því að verða til svigrúm fyrir fyrirtækið að mæta ekki kostnaðarhækkunum vegna kjarasamninga að fullu með hækkun gjaldskrár. Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 90 kr. í allt að 97 kr. með þeirri hækkun sem nú er heimiluð. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum. Nánari rökstuðningur fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri: Ákvörðun PFS nr. 26/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 8. júní 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar (PDF skjal)
14. september 2011
PFS kallar eftir samráði vegna beiðni Mílu um að leggja niður vöruna „sérlausnir á etherneti“
Nánar
Með bréfi til Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 7. september 2011, tilkynnti Míla ehf. að fyrirtækið hyggist leggja niður vöru sem nefnd hefur verið „sérlausnir á etherneti“. Varan er hluti af leigulínugjaldskrá sem tók gildi 1. ágúst s.l. Að sögn Mílu hafa komið fram gallar í framsetningu vörunnar og túlkun viðskiptavina sem leiða til þess að forsendur fyrir sérlausninni séu brostnar. Einnig telur Míla að ný leigulínuverðskrá hafi það í för með sér að þessi vara þjóni ekki lengur þeim tilgangi sem henni var upphaflega ætlað en verði hins vegar til þess að auka flækjustig. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirætlunum Mílu. Bréf Mílu dags. 7. september 2011 (PDF) Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 28. september 2011. Umsagnir skal senda til Friðriks Péturssonar lögfræðings PFS, (fridrik(hjá)pfs.is). Sjá einnig: Upphaflegt samráð sem PFS kallaði eftir vegna „sérlausna á etherneti“ , dags. 27. ágúst 2010 Kafla 4.1. í ákvörðun PFS nr. 2/2011.
30. ágúst 2011
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 15, heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2004. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2007, sbr. ákvörðun PFS nr. 4/2007. Þar var Síminn útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið um aðgang að farsímanetum sínum. Þar sem viðkomandi markaður er ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2008 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort hann uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Skilyrðin eru í fyrsta lagi að um sé að ræða miklar og viðvarandi aðgangshindranir og er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé uppfyllt. Í öðru lagi að markaðurinn stefni ekki í átt að virkri samkeppni. Er það frumniðurstaða PFS að það skilyrði sé ekki uppfyllt því markaðurinn stefni að mati stofnunarinnar í átt að virkri samkeppni. Því er óþarfi að skoða þriðja skilyrðið sem er að beiting almennra reglna samkeppnisréttar nægi ekki ein og sér til að bæta úr þar sem markaðurinn hefur brugðist. PFS hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi markaði að einu ári liðnu frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í númer skjalsins og þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 11. október 2011. Nánari upplýsingar veita Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is) og Óskar Hafliði Ragnarsson (oskarh(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (Markaður 15) (PDF) Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
18. ágúst 2011
Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2010 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2010. Í henni er að finna greinargott yfirlit yfir verkefni og starfsemi stofnunarinnar á árinu. Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar 2010 (PDF)
12. ágúst 2011
Laust starf lögfræðings hjá PFS
Nánar
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun er laus til umsóknar staða lögfræðings. Lögfræðideild PFS ber ábyrgð á vinnslu stjórnsýslumála, lausn ágreiningsmála, álagningu og eftirfylgni kvaða sem leiða af ákvæðum fjarskipta- og póstlaga, auk þess sem hún veitir ráðgjöf um löggjöf og reglusetningu á fyrrnefndum réttarsviðum. StarfssviðStarf lögfræðings er m.a. fólgið í samningu álitsgerða og stjórnsýsluákvarðana, lögfræðilegri ráðgjöf, samskiptum við póst- og fjarskiptafyrirtæki og undirbúningi stjórnsýslureglna. Menntun og reynsla Embættispróf, ML í lögfræði eða sambærilegt próf. Þekking og starfsreynsla á sviði fjarskiptaréttar, stjórnsýsluréttar eða samkeppnisréttar er æskileg. Almennar hæfniskröfur Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á og færni til að rita vandaðan texta á íslensku og ensku. Gerð er krafa um öguð og skipulögð vinnubrögð auk ríkulegrar samskiptafærni. Umsækjendur þurfa að eiga auðvelt með að starfa sjálfstætt sem og í hópi og jafnframt búa yfir þeim sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er til að ná árangri í samskiptum við markaðsaðila á póst- og fjarskiptamarkaði.Um er að ræða krefjandi starf sem reynir á lögfræðilega getu og kunnáttu. Starfið býður upp á möguleika á þátttöku í samstarfi við alþjóðasamtök og erlendar systurstofnanir í aðildarlöndum EES. Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst nk. Sjá nánar
5. ágúst 2011
Laust er til umsóknar starf sérfræðings í greiningardeild Póst- og fjarskiptastofnunar
Nánar
Sérfræðingur Leitað er að öflugum sérfræðingi til liðs við teymi starfsmanna greiningardeildar sem vinna náið saman að úrlausn verkefna sem lúta að viðskiptalegum þáttum eftirlits á póst- og fjarskiptamarkaði. Helstu verkefni og ábyrgðKostnaðargreiningar og ýmis sérverkefni á verksviði deildarinnar ásamt stuðningi við störf annarra deilda. Verkefnin snúa m.a. að eftirliti með gjaldskrám og bókhaldslegum aðskilnaði fjarskiptafyrirtækja í samræmi við álagðar kvaðir PFS á fyrirtækin. Að jafnaði fela þessar kvaðir í sér að gert er ráð fyrir að kostnaðarviðmiðun gjaldskrár sé langtíma viðbótarkostnaður (LRIC) og að aðskilnaður einstakra rekstrareininga fyrirtækis byggi á kostnaðarverðsreikningsskilum. HæfnikröfurHáskólapróf í viðskiptafræði, hagfræði, verkfræði eða sambærileg menntun. Framhaldsnám eða starfsreynsla á sviði fjarskipta er kostur.Reynsla í gerð ársreikninga, áætlanagerð fyrirtækja og reikningshaldi er æskileg og jafnframt er kostur ef umsækjandi hefur reynslu eða þekkingu í beitingu LRIC aðferðarinnar. Gott vald á íslensku og ensku, ríkuleg samskiptafærni og skipulögð vinnubrögð eru áskilin. Jafnframt geta til að vinna sjálfstætt sem og í hópi auk sveigjanleika og festu sem nauðsynleg er til að ná árangri í samskiptum við markaðsaðila á fjarskiptamarkaði nánar
4. ágúst 2011
Notkun SMS í beinni markaðssetningu talin óheimil
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 25/2011 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta. Kvörtunin var tilkomin vegna SMS sendingar sem kvartandi fékk sent í markaðslegum tilgangi frá Hringiðunni. Taldi fyrirtækið að ákvæði 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti bannaði ekki að send væru SMS skilaboð í markaðslegum tilgangi þegar móttakandi væri ekki bannmerktur í símaskrá en slíkar sendingar væru vægari nálgun en að hringja í viðkomandi aðila. Niðurstaða ákvörðunarinnar er sú að Hringiðan hafi brotið gegn 1. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga með því að senda SMS skilaboð til kvartanda í markaðslegum tilgangi. Gildir sama regla um þetta og á við um sendingu tölvupósts í slíkum tilgangi, þ.e. að afla þurfi fyrirfram samþykkis móttakanda fyrir slíkum sendingum. Sú staðreynd að númerið væri ekki bannmerkt í símaskrá skipti ekki máli, en slíkar merkingar taka til úthringinga í markaðslegum tilgangi. Þá var ekki fyrir að fara viðskiptasambandi á milli kvartanda og Hringiðunnar og því kom því undantekningarákvæði 2. mgr. 46. gr. ekki til álita Ákvörðun