Fréttasafn
28. nóvember 2011
PFS áframsendir Já-málið til Samkeppniseftirlitsins
Nánar
Með úrskurði sínum nr. 4/2011 frá 17. nóvember 2011 felldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úr gildi 4. tölulið í þeim alþjónustukvöðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði lagt á Já upplýsingaveitur ehf. með ákvörðun PFS nr. 22/2011 þess efnis að fyrirtækinu væri skylt að veita aðgang að gagnagrunni símanúmera á kostnaðarverði að viðbættri hæfilegri álagningu. Póst- og fjarskiptastofnun telur að þessi niðurstaða hafi afar óæskileg áhrif á þróun samkeppni í miðlun símaskrárupplýsinga og gangi gegn markmiði alþjónustukvaða, samkvæmt fjarskiptalögum, um að tryggja samræmdan og heildstæðan gagnagrunn um öll símanúmer. Þar sem aðgangskvöðin er ekki lengur í gildi er hugsanlegt að áhugasamir þjónustuveitendur komi sér upp eigin símskrárgagnagrunni með samningum við fjarskiptafyrirtæki, en það kann að ógna heildstæði skrárhaldsins, t.d. með tilliti til bannmerkinga. Að öðrum kosti þurfa þjónustuveitendur að kaupa aðganginn af Já upplýsingaveitum sem frumniðurstöður kostnaðargreiningar PFS hafa leitt í ljós að sé verðlagður langt umfram kostnaðarverð og gefi því ekki möguleika á eðlilegum heildsöluviðskiptum. Af úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála má hins vegar ráða að sú staða sem nú er uppi varðandi gagnagrunn Já upplýsingaveitna ehf. kunni hugsanlega að brjóta í bága við samkeppnislög, en nefndin vísar til þess að hugsanlega sé hægt að mæla fyrir um aðgangskvöð að gagnagrunni Já upplýsingaveitna ehf. á grundvelli samkeppnislaga, að vissum skilyrðum uppfylltum. Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af 6. gr. sameiginlegra reglna Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins nr. 265/2001 um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að áframsenda kvörtunum málsaðila, ásamt viðeigandi málsgögnum, til meðferðar og úrlausnar Samkeppniseftirlitsins. Er það í samræmi við þá leiðbeiningaskyldu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga sem felst í því að koma málum til úrlausnar rétts aðila innan stjórnsýslunnar. Sjá tengd skjöl: Ákvörðun PFS nr. 22/2011 - Útnefning Já upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer (PDF) Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2011 (PDF) Reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála nr. 265/2001 (PDF)
25. nóvember 2011
PFS kallar eftir samráði: Fyrirhuguð útnefning Símans hf. og Mílu ehf. með skyldu til að veita alþjónustu á starfsvæði sínu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar útnefningar Símans hf. og Mílu ehf. með skyldu til að veita alþjónustu á starfsvæði sínu. Frestur til að senda inn athugasemdir við hina fyrirhuguðu útnefningu er til og með 9. desember n.k. Umsagnir og athugasemdir óskast sendar með tölvupósti á netfangið fridrik(hjá)pfs.is. Sjá samráðsskjal: Fyrirhuguð ákvörðun PFS um endurútnefningu núverandi alþjónustuveitenda (PDF)
23. nóvember 2011
Niðurstöður samráðs um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu
Nánar
Í samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Eftirfarandi tíðnir eru lausar: 89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz einnig laus þann 1. desember 2011. Stofnuninni hafði borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, tíðnina 100,5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. PFS ákvað því að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað var eftir því að áhugasamir sæktu um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli var vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðni til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd. Þegar samráðið var auglýst tilkynnti stofnunin jafnframt að þegar umsóknarfrestur (samráð) væri liðinn hygðist hún úthluta til þeirra umsækjenda sem sæktu um tíðnir og hefðu fengið hljóðmiðlunarleyfi. Kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð. Niðurstaða PFS að loknu samráðiPóst- og fjarskiptastofnun hafa borist tvær umsóknir í tíðnina 100.5 MHz, annars vegar frá Lýðræðishreyfingunni vegna hljóðvarps Lýðvapsins og hins vegar frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. vegna hljóðvarps Kanans. Þá barst umsókn um tímabundna úthlutun frá Vodafone fyrir hljóðvarp Léttbylgjunnar. Sækir fyrirtækið um tíðni fyrir sendi staðsettan á þaki hússins Fannborg 1, Kópavogi. PFS hafði áður lýst því yfir að kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð. Hefur stofnunin fengið leyfi innanríkisráðherra til að nota uppboðsaðferð vegna slíkrar samkeppnisúthlutunar. Stofnunin hyggst úthluta Vodafone tímabundinni heimild fyrir 100W FM sendi á áðurnefndum stað til 1. febrúar 2012. Varðandi tíðnina 100.5 MHz hefur PFS ákveðið að nýta áðurnefnt leyfi innanríkisráðherra og halda uppboð á tíðninni. Skilmálar uppboðsins verða birtir þann 30. nóvember 2011 á heimasíðu stofnunarinnar og uppboðið verður haldið fjórum vikum síðar eða föstudaginn 30. desember nk., sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna.
21. nóvember 2011
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellir úr gildi hluta af alþjónustukvöðum sem PFS hafði lagt á Já upplýsingaveitur ehf.
Nánar
Með úrskurði sínum nr. 4/2011 frá 17. nóvember 2011 hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellt úr gildi 4. tölulið í þeim alþjónustukvöðum sem Póst- og fjarskiptastofnun lagði Já upplýsingaveitur ehf. með ákvörðun PFS nr. 22/2011 þess efnis að fyrirtækinu væri skylt að veita aðgang að gagnagrunni símanúmera á kostnaðarverði að viðbættri hæfilegri álagningu. Taldi úrskurðarnefnd að ákvæði fjarskiptalaga hefðu ekki að geyma nógu skýra og ótvíræða lagastoð fyrir svo íþyngjandi ákvörðun. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2011 (PDF)
17. nóvember 2011
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2011
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2009 – 2011. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2011 (PDF)
16. nóvember 2011
Ný reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum
Nánar
Ný reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum nr. 1047/2011 hefur öðlast gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 14. nóvember s.l. Með setningu reglugerðarinnar er verið að stuðla að skilvirku skipulagi á skráningu og úthlutun tíðna með það að markmiði að nýting tíðna verði bæði hagkvæm og skynsamleg. Jafnframt er verið að styrkja ákvarðanatökuferli Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi skipulag og úthlutun tíðniréttinda, sérstaklega með útboðs- og uppboðsaðferðum. M.a. er fjallað um þau sjónarmið sem geta verið grundvöllur mats við úthlutun tíðniréttinda og um þau skilyrði sem binda má notkun slíkra réttinda. Má ætla að reglugerðin stuðli að gagnsæi stjórnsýslu tíðnimála og auki jafnframt fyrirsjáanleika þess regluumhverfis sem snýr að hagsmunaaðilum. Sjá nánar á vef Stjórnartíðinda:Reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum
8. nóvember 2011
Ný útgáfa Reiknivélar PFS um fjarskiptakostnað fyrir neytendur
Nánar
Ný útgáfa Reiknivélar PFS er komin á Netið. Reiknivélin (www.reiknivél.is ) er verkfæri fyrir neytendur til að bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir síma og netþjónustu. Tilgangur hennar er að aðstoða fólk við að gera sér grein fyrir hvaða þjónustuleiðir henta þeim miðað við ákveðna notkun fyrir síma og netþjónustu. Með þessari nýju útgáfu nær Reiknivél PFS til allrar algengrar fjarskiptanotkunar heimila og einstaklinga. Nýjungar eru í meginatriðum þrjár: Nettengingar.Áður voru eingöngu ADSL tengingar í reiknivélinni sem voru í boði alls staðar á landinu þar sem reiknað var með gagnamagni frá 1 GB upp í 40 GB.Nú bætast við tengingar um ljósleiðara og VDSL og hægt er að reikna með gagnamagni frá 1 GB upp í 150 GB. Einungis gagnamagn sem sótt er erlendis frá er mælt, enda er ekki greitt fyrir innlent niðurhal eða það sem sent er í fastlínuáskriftum. 3G NetlyklarReiknivélin miðast við gagnamagn frá 1 GB upp í 30 GB. Þetta nær utan um þær áskriftir sem eru í boði á markaðnum. Hér er reiknað með öllu notuðu gagnamagni, innlendu og erlendu, sóttu og sendu. Þessar áskriftarleiðir eru fyrir USB netlykla, spjaldtölvur og annan svipaðan búnað. 3G Netið í símannReiknivélin miðast við gagnamagn frá 100 MB upp í 6000 MB. Þjónustuleiðir og áskriftir fyrir gagnamagn í símtæki miða við mun minni notkun en þegar um er að ræða sérstök tæki sem tengjast 3G, svo sem spjaldtölvur. Sjá www.reiknivél.is Sjá einnig spurningar og svör um Reiknivél PFS hér á vefnum
7. nóvember 2011
Ný skýrsla PFS: Greining kvartana til Neytendasamtakanna vegna fjarskiptamála
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur tekið saman skýrslu þar sem greind eru þau umkvörtunarefni vegna fjarskiptamála sem komu inn á borð Neytendasamtakanna á árinu 2010. Í ársskýrslu Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna fyrir árið 2010 sem út kom í byrjun árs kom fram að fyrirspurnir til hennar vegna fjarskiptamála voru í 4. sæti hvað varðaði fjölda erinda. Í framhaldi af útgáfu ársskýrslunnar setti PFS sig í samband við Neytendasamtökin og óskaði eftir sundurgreiningu á eðli þeirra kvartana sem höfðu borist samtökunum vegna fjarskiptamála árið 2010. Var því erindi vel tekið og fékk lögfræðingur PFS sendan lista yfir helstu tegundir þessara kvartana til greiningar. Við greininguna voru ýmsir þættir skoðaðir s.s hvort um væri að ræða brot á fjarskiptalögum, skort á vernd í lögum, skort á upplýsingum o.s.frv. Í skýrslunni sem nú er birt er greiningunni á kvörtunarefnum skipt í þrjá efnisflokka; kvartanir vegna reikninga, kvartanir sem snúa að markaðssetningu og kvartanir vegna þjónustu og aðgengis að upplýsingum. Sjá nánar:Greining á kvörtunum neytenda til Neytendasamtakanna vegna fjarskiptamála árið 2010 (PDF) Nánari upplýsingar um skýrsluna gefur Guðmunda Áslaug Geirsdóttir lögfræðingur PFS, gudmunda(hjá)pfs.is