Fréttasafn
3. nóvember 2011
Ákvörðun PFS vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum. Er það niðurstaða ákvörðunarinnar að ákvæði í verklagsreglum Símans um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna sé ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti sem kveður á um hámarksvarðveislutíma fjarskiptaumferðarupplýsinga. Samkvæmt ákvæði í verklagsreglum Símans eru upplýsingar varðandi fjarskiptaumferð viðskiptavina Símans varðveittar í 12 mánuði, óháð því hvort reikningur fyrir þjónustuna hafi verið greiddur eða ekki. Er það í samræmi við þann skilning sem Síminn hefur lagt í ofangreint ákvæði fjarskiptalaga að fyrirtækinu sé heimilt að geyma þessar upplýsingar þar til ekki sé lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist, óháð því hvort reikningur hafi verið greiddur eða ekki. Hvaða tímamark eigi að gilda sem almennur hámarks varðveislutími er að nokkru leyti matskennt en Póst- og fjarskiptastofnun telur að Símanum beri að afmarka varðveislutíma upplýsinganna á sjálfstæðan hátt, eingöngu með tilliti til brýnnar nauðsynjar þess að geta brugðist við vefengingu reiknings innan hæfilegs tíma frá því hann var greiddur, en geti ekki horft til almenns fyrningartíma viðskiptakrafna. Telur stofnunin að 6 mánaða varðveislutími fjarskiptaumferðarupplýsinga vegna reikningagerðar og mögulegrar vefengingar á þeim sé nægjanlegur, hófsamur og sanngjarn. Með ákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Símans að aðlaga verklagsreglur fyrirtækisins um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna til samræmis við ofangreinda túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar á ákvæði 42. gr. fjarskiptalaga. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 29/2011 vegna varðveislutíma upplýsinga um fjarskiptaumferð hjá Símanum (PDF)
28. október 2011
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um framlengingu á MMDS tíðniheimild Vodafone
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 18/2011. Málið varðar tíðniheimild, sem fyrirtækið (þá Og Vodafone ehf., nú Fjarskipti ehf.) hefur haft frá árinu 2003, til reksturs stafræns sjónvarps á MMDS rásum (2500-2684 MHz), annarsvegar á SV-horni (Suðurnes til Akraness) og hins vegar á Suðurlandi austur að Kirkjubæjarklaustri. Tíðniheimild þessi rann út þann 27. júní 2011 og óskaði Fjarskipti ehf. (Vodafone) eftir því að Póst og fjarskiptastofnun framlengdi hana um 9 ár, eða fram til ársins 2020. Í ákvörðun PFS er komist að þeirri niðurstöðu að gildistími MMDS tíðniheimildar Fjarskipta ehf. verði framlengdur til þriggja ára með möguleika á því að framlengja gildistímann lengur, m.t.t. til niðurstöðu samráðs um tíðnistefnu stofnunarinnar þar sem m.a verður kannað hvort eftirspurn er eftir 2.6 GHz tíðnisviðinu. Helgast þessi niðurstaða af því að umrætt tíðnisvið hefur verið skilgreint til nota sem framtíðar tíðnisvið fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu með samræmingarákvörðun ESB nr. 2008/477/EB. Fjarskipti ehf. kærði ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði hennar segir m.a. nefndin hafi farið yfir þann lagagrundvöll sem hin kærða ákvörðun er byggð á og þær málsmeðferðarreglur sem til álita koma en sú könnun leiði ekki til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Ekki sé grundvöllur til þess að hnekkja mati PFS um nauðsyn á notkun tíðnisviðsins fyrir fjórðu kynslóða farnetsþjónustu. Staðfesta beri því hina kærðu ákvörðun hvað varðar framlengingu tíðniheimildar kæranda til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum komi til greina að Vodafone fái leyfi til að halda smærri eða stærri hluta 2.6 GHz tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu verði þess óskað og ef tíðnistefna PFS og úttekt á hagsmunum neytenda og fjarskiptafyrirtækja leiðir í ljós að slíkt leyfi sé réttlætanlegt. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)
27. október 2011
Drög að nýrri fjarskiptaáætlun til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu
Nánar
Innanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja nýja fjarskiptaáætlun fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi nú í haust. Verkefnið var unnið í innanríkisráðuneytinu með aðkomu Póst- og fjarskiptastofnunar auk vinnuhópa úr stjórnkerfinu í umsjón verkefnisstjórnar um endurskoðun fjarskiptaáætlunar. Sjá nánar á vef innanríkisráðuneytisins.
27. október 2011
Samráð um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu
Nánar
Í opinberu samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Stofnunin mun eftir sem áður halda fráteknum tíðnum fyrir skammtímaúthlutun til útsendinga hljóðvarps, t.d. á vegum skóla og félagasamtaka.Eftirfarandi tíðnir eru lausar:89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5 MHz, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz laus þann 1. desember 2011. Stofnuninni hefur borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, 100.5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. Í framhaldi af samráðinu um tíðnistefnu PFS og þeim umsögnum sem bárust hefur stofnunin ákveðið að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir því að áhugasamir sendi umsóknir um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli er vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðna til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd. Að loknum umsóknarfresti (samráði) hyggst stofnunin úthluta tíðnum til þeirra umsækjenda sem sótt hafa um og hafa fengið hljóðmiðlunarleyfi. Komi til þess að fleiri en einn aðili óski eftir sömu tíðninni mun stofnunin efna til samkeppni milli viðkomandi aðila til að skera úr um hver hlýtur tíðnina. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson, thorleifur(hjá)pfs.is
27. október 2011
PFS efnir til aukasamráðs um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum
Nánar
Þann 18. mars s.l. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Athugasemdir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Símanum hf., Fjarskiptum ehf. (Vodafone), Nova ehf. og IP-fjarskiptum ehf. (Tal). Er PFS var að leggja lokahönd á uppfærslu greiningarinnar m.t.t. framkominna athugasemda í maí s.l. og verið var að undirbúa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) bárust fregnir um fyrirhugaðan samruna Vodafone og Tals. PFS ákvað að fresta ákvörðun í málinu þar til Samkeppniseftirlitið hefði lagt mat sitt á samrunann. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2011 frá 4. október s.l. ógilti stofnunin umræddan samruna. Eftir það tók PFS þráðinn upp að nýju við umrædda markaðsgreiningu. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins kallar ekki á sérstakt aukasamráð þar sem aðstæður breyttust ekki á farsímamarkaði í kjölfar hennar. Þann 13. apríl s.l., eftir að frumdrög PFS fóru í innanlandssamráð, birti ESA tilmæli um kvaðir varðandi lúkningarverð. Þar er kveðið á um ýmis atriði sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir skulu hafa í huga við útfærslu kvaðar um eftirlit með gjaldskrá, þ.m.t. útreikning á lúkningarverðum. Þar kemur m.a. fram sú meginregla að kostnaðargreining vegna lúkningargjalda skuli gerð á grundvelli „bottom-up" LRIC aðferðar (langtíma viðbótarkostnaður). Fjarskiptaeftirlitsstofnunum er veittur almennur aðlögunarfrestur til 31. desember 2012 til að undirbúa LRIC kostnaðarlíkan. Farsímafélögin hafa sama frest til að aðlaga viðskiptaáætlanir sínar að slíkri kostnaðargreiningaraðferð. Fjarskiptaeftirlitsstofnunum sem búa við takmörkuð aðföng (fjárhagsleg og fagleg) er veittur lengri aðlögunarfrestur eða til 1. júlí 2014 eða jafnvel lengur á gildistíma umræddra tilmæla. Heimilt er að beita t.d. verðsamráði (benchmark) í stað LRIC aðferðar. Verð skal ekki vera hærra en meðalverð þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð við útreikning lúkningargjalda í farsíma. Reynslan á EES-svæðinu sýnir að kostnaður við gerð LRIC líkana hleypur á tugum milljóna fyrir hvert líkan og hverja uppfærslu. Gera þyrfti líkan fyrir íslenska farsímamarkaðinn með tilheyrandi kostnaði fyrir markaðsaðila. Ekki þykir rétt að svo stöddu að mæla fyrir um slíkt þar sem kostnaðaraukinn myndi að líkindum á endanum lenda á neytendum í formi hærri gjalda. PFS hefur því í hyggju að nýta sér ofangreinda undanþágu, sbr. 4. mgr. 32. gr. fjarskiptalaga, og mæla fyrir um kostnaðargreiningaraðferð á viðkomandi markaði sem sem byggist á verðsamanburði og aflétta kvöð á Símann um árlega uppfærslu á kostnaðargreiningum og kostnaðarbókhaldi. PFS hyggst framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Fyrsta verðsamanburðinum skal lokið eigi síðar en 1. nóvember 2012. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð, m.v. lúkningarverð þann 1. júlí á samanburðarári. Verð sem ákvörðuð verða í umræddum verðsamanburði skulu síðan gilda frá 1. janúar árið eftir í eitt ár, í fyrsta sinn frá og með 1. janúar 2013. Verðaðlögunarferli það sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 18/2010 gildi þó áfram til 1. janúar 2013. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 14. nóvember nk. Þar sem um er að ræða afmarkað aukasamráð og mikilvægt er að málið tefjist ekki meira en orðið er verður ekki unnt að veita frekari frest. Hinn tiltölulega stutti samráðsfrestur helgast af því að aukasamráð þetta er mjög afmarkað. Sérstaklega er tekið fram að samráðið nær ekki til annarra þátta frumdraganna svo sem um fjárhæð lúkningarverða hinna ýmsu fjarskiptafyrirtækja eða lengd aðlögunarfrestsins. Ítarlegar athugasemdir hafa borist PFS um þau atriði og mun stofnunin vega þær og meta m.t.t. hugsanlegra breytinga á frumdrögunum áður en endanleg drög að ákvörðun verða send til ESA til samráðs. Sjá nánar: Aukasamráð um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (PDF) Upphaflegt samráð um frumdrögin: Frétt hér á vefnum 18. mars s.l. Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.
18. október 2011
Ákvörðun PFS um aðgang Vodafone að ljósleiðurum Mílu á landsbyggðinni
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu. Málið varðaði ágreining um aðgang Vodafone að leigulínum Mílu á fimm leiðum á landsbyggðinni. Um er að ræða aðgang að svokölluðum svörtum ljósleiðurum en það eru ljósleiðarasambönd án endabúnaðar eða annarrar þjónustu af hálfu þjónustusala. PFS þurfti að leggja mat á það hvort beiðnir Vodafone fælu í sér sanngjarnar, eðlilegar, raunhæfar og framkvæmanlegar beiðnir um aðgang að slíkum ljósleiðurum, í samræmi við þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu með ákvörðun PFS nr. 20/2007 (leigulínumarkaðir). Hér vógust á samkeppnissjónarmið og sjónarmið þjónustuaðila er snúa að svigrúmi hans til að haga þróun og útbreiðslu fjarskiptanetsins með þeim hætti sem hagkvæmast þykir út frá hans sjónarhóli. Annars vegar varðaði málið uppsögn Mílu á ljósleiðarasambandi á milli Egilsstaða og Hafrafells sem er um 7 km. leið. Niðurstaða PFS var sú að Mílu væri óheimilt að segja upp umræddu sambandi nema félagið byði Vodafone upp á tvær nánar tilteknar staðgöngulausnir sem Vodafone getur valið um. Hins vegar varðaði málið synjun Mílu á beiðnum Vodafone um kaup á ljósleiðarasamböndum á fjórum nýjum stöðum. Niðurstaðan var sú að Mílu ber að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Egilsstaða og Fellabæjar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hins vegar er Mílu óskylt að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Keflavíkur og Sandgerðis þar sem ljósleiðarar liggja ekki þar á lausu. Ákvörðun PFS nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu (PDF)
18. október 2011
PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar breytingar Símans á viðmiðunartilboði um samtengingu talsímaneta (RIO)
Nánar
Þann 31. ágúst sl. óskaði Síminn eftir samþykki PFS fyrir breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta. Fyrirhugað væri að bæta við skilgreiningu um beintengingu farsímaneta þar sem fallið yrði frá umflutningsgjöldum gegn því að viðsemjandi hagaði gjaldtöku sinni með sama hætti. Breytingin yrði í viðauka 3a við viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, útgáfu 3.6 frá 1. ágúst 2011 Farið er fram á að eftirfarandi texta yrði bætt við lið 2.2.4 (Umflutningur símaumferðar) í viðauka 3a (Þjónusta samnings): „Skilgreind staðsetning á samtengipunkti fyrir farsímanet Símans er í talsímaneti félagsins. Gefst viðsemjanda þannig kostur á beintengingu farsímaneta. Síminn innheimtir í samræmi við það ekki umflutningsgjöld fyrir umflutning umferðar frá öðrum kerfum til farsímanets Símans um talsímanet félagsins, en áfram verður greitt fyrir umflutning Símans í kerfi þriðja aðila um talsímanet Símans. Ofangreint fyrirkomulag Símans við gjaldtöku fyrir umflutning er þó háð því að viðsemjandi hagi gjaldtöku sinni fyrir umflutning gagnvart Símanum með sama hætti.“ Áður en lengra verður haldið óskar PFS eftir viðbrögðum fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirtætlunum Símans. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 8. nóvember 2011. Umsagnir skal senda til Óskars H. Ragnarssonar lögfræðings PFS (oskarh(hjá)pfs.is). Sjá viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta ásamt viðaukum á vef Símans
13. október 2011
PFS birtir ákvörðun varðandi viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 27/2011 um viðmiðunartilboð Mílu um hýsingu.Með viðmiðunartilboðinu er horft heildstætt á aðstöðuleigu fyrirtækisins en ekki einstakar tegundir þjónustu eða einstaka markaði. Um er að ræða aðstöðuleigu sem spannar heimtaugarmarkað (Markaður 11) og leigulínumarkað (Markaður 13 og Markaður 14) Í ákvörðun PFS er lögð til grundvallar sú flokkun á hýsingarstöðum sem fram kom í ákvörðun PFS nr. 41/2010 varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu), þ.e. hýsingarstöðum er skipt niður eftir staðsetningu þeirra. Einnig voru samþykktir skilmálar Mílu um afsláttarkjör sem og lengd uppsagnarfrestar, en í samráðsferli PFS voru gerðar athugasemdir við umrædda skilmála. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 27/2011 um viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu (PDF)