Fréttasafn
13. júlí 2011
Nova braut gegn trúnaðarskyldum sínum með því að hagnýta sér samtengiupplýsingar frá Símanum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga. Málið varðaði kvörtun Símans vegna meintra brota Nova á trúnaðarskyldum félagsins með því að nota fjarskiptaumferðarupplýsingar í öðrum tilgangi en gert er ráð fyrir í 26. gr. fjarskiptalaga og samtengisamningi félaganna. Nova safnaði saman upplýsingum um fjölda símtala úr þjónustuveri Símans í viðskiptavini Nova á hálfs árs tímabili og afhenti Samkeppniseftirlitinu sem innlegg í rannsókn stofnunarinnar á meintu broti Símans á samkeppnislögum. Nova hafði öðlast umræddar upplýsingar í tengslum við framkvæmd samtengisamnings félaganna. Niðurstaða PFS var sú að Nova hefði brotið gegn 26. gr. fjarskiptalaga, 3. mgr. 9. gr. samtengisamnings Símans og Nova og jafnræðiskvöð þeirri sem lögð hefði verið á félagið með ákvörðun PFS nr. 18/2010, með því að hagnýta sér fjarskiptaumferðarupplýsingar sem vörðuðu heildsölusamskipti fyrirtækjanna í öðrum tilgangi en þar væri til ætlast. Nova hefði verið óheimilt að vinna og nýta upplýsingarnar í ofangreindum tilgangi þar sem tilgangurinn með veitingu þeirra hefði aðeins verið sá að gera samtengingu á heildsölustigi mögulega, ásamt eftirfarandi greiðsluuppgjöri. Því hafi Nova verið óheimilt að vinna og veita Samkeppniseftirlitinu aðgang að umræddum upplýsingum, en sú stofnun hafði ekki óskað eftir umræddum upplýsingum í samræmi við eftirlitsheimildir sínar. PFS fyrirskipaði Nova að eyða öllum gögnum um fjarskiptaumferð sem safnað hefði verið um símtöl úr þjónustuveri Símans í símanúmer í farsímaneti Nova og setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja. Reglurnar skulu bornar undir PFS til samþykktar eigi síðar en 1. október n.k. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga
13. júlí 2011
Ákvörðun PFS um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 22/2011 um útnefningu Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer. Sjá nánar
11. júlí 2011
Um hámarksverð fyrir símtöl í reikiþjónustu
Nánar
Evrópusambandið setti reglur árið 2007 sem lögðu kvaðir á hámarkssmásöluverð sem farsímafyrirtækin mega innheimta af viðskiptavinum sínum vegna reikis og tóku þau verðþök gildi frá og með júlí 2009. Reglurnar gilda einungis um farsímafyrirtæki innan Evrópusambandsins og landa sem eru aðilar EES samningsins og reiki viðskiptavina á milli þeirra. Reikisímtöl sem viðskiptavinir hringja utan landa evrópska efnahagssvæðisins falla því utan gildissviðs reglnanna. Reglurnar setja verðþak í evrusentum, án virðisaukaskatts, á smásöluverð reikisímtala. Farsímafyrirtækjum er því óheimilt að innheimta hærri gjöld af viðskiptavinum sínum fyrir reikisímtöl sem hringd eru innan evrópska efnahagssvæðisins. Farsímafyrirtæki hvers lands bæta virðisaukaskatti á þessi verðþök samkvæmt lögum viðkomandi lands. Núgildandi verðþak tók gildi frá og með 1. júlí 2011 og gildir í 1 ár. Verðþakið er 35 evrusent á mínútu fyrir hringd reikisímtöl sem hringt eru í símanúmer innan gistilands eða til annarra landa innan EES. Fyrir móttekin símtöl er þakið 11 evrusent á mínútu. Fyrir það að senda SMS skeyti er þakið 11 evrusent og móttaka SMS skeyta er gjaldfrjáls. Lönd sem nota ekki evrur sem gjaldmiðil skulu nota gengi evru þann 1. júní 2011 sem viðmiðunargengi og gildir það verð í 1 ár. Verðþak er því fest í íslenskum krónum miðað við miðgengi evru hjá Seðlabanka Íslands, 1. júní 2011, kr. 165,10 og gildir það út júní 2012. Í íslenskum krónum að virðisaukaskatti meðtöldum er verðþakið því kr. 72,52 fyrir hringd símtöl, fyrir móttekin símtöl kr. 22,79 og fyrir að senda SMS skeyti kr. 22,79. Farsímafyrirtækjunum er að sjálfsögðu heimilt að hafa verð sín lægri en þessi hámörk. Verðþak fyrir gagnamagn sem notað er í reiki er sett sem 50 Evru hámark á gjaldtöku í mánuði. Viðskiptavini skal sent SMS þegar 80% af hámarkskostnaði er náð og aftur þegar lokað er fyrir gagnanotkun vegna þess að hámarki hefur verið náð. Viðskiptavinur skal þá staðfesta samþykki sitt fyrir því að notkun sé haldið áfram. Ekki er sett sérstök verðskrá fyrir smásöluverð fyrir hvert MB gagnamagns, eingöngu sett ofangreint hámark á heildarkostnað til að koma í veg fyrir háa reikninga sem komið geta neytendum á óvart. Ofangreindar reglur ljúka gildistíma sínum í lok júní 2012 eftir þriggja ára tímabil lækkandi hámarksverða. Í umræðu innan ESB eru nú nýjar reglur sem leggja það til að hámörk lækki í 24 evrusent fyrir hringd símtöl, 10 evrusent fyrir móttekin símtök og 10 sent fyrir SMS í þremur árlegum skrefum til ársins 2014. Nýtt verðþak verði sett á smásölu gagnamagns í reiki, fyrst 90 evrusent fyrir hvert MB árið 2012 og lækki í 70 og 50 evrusent árin 2013 og 2014. Áréttað er að þetta eru enn tillögur sem ekki hafa hlotið samþykki. Ítarefni um núgildandi reglur :http://ec.europa.eu/information_society/activities/roaming/regulation/archives/current_rules/index_en.htm Ítarefni um tillögur að nýjum reglum :http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/11/835
7. júlí 2011
Hefurðu kíkt á Reiknivél PFS nýlega ?
Nánar
Guðmann Bragi Birgisson, sérfræðingur hjá PFS Auðvelt að bera saman síbreytileg verð á fjarskiptamarkaði. Fjarskiptamarkaðurinn og þá sérstaklega farsímamarkaðurinn er á töluvert mikilli hreyfingu þar sem nýjar áskriftir koma fram oft á ári og verð áskriftarleiða og mínútuverð taka örum breytingum. Þetta gerir markaðinn ógegnsæjan og neytendur sem vilja fylgjast með því hvaða þjónustuleið er ódýrust og hentar best fyrir þá hafa þurft að hafa talsvert fyrir því að afla sér upplýsinga til að bera saman verð á þessum markaði. Auk stöðugra breytinga á þjónustuleiðum bætast fyrirtæki við og á síðustu mánuðum hafa ný fyrirtæki komið inn á markað netþjónustu, heimasíma og farsíma. Reiknivél PFS (www.reiknivél.is) sem opnuð var á síðasta ári gjörbreytti aðstöðu neytenda til að fylgjast með og bera saman verð á fjarskiptaþjónustu. Reiknivélin er vefur á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar sem reiknar út verð fyrir þrjár algengustu tegundir fjarskiptaþjónustu; heimasíma, farsíma og ADSL nettengingar, út frá forsendum sem notandi velur í hvert sinn sem reiknað er. Reiknivélin tekur ekki tillit til persónubundna sérkjara svo sem vinaafslátta, né heldur pakkaafslátta, heldur er gengið út frá uppgefnu einingaverði á hverri tegund þjónustu. Ástæða þess að ekki er tekið tillit til pakkaafslátta í reiknivélinni er að samsetning pakka er mjög fjölþætt og illa samanburðarhæf. Neytendur sem eru að huga að því hvað hentar þeim best ættu því að skoða notkun sína á einstökum þáttum fjarskiptaþjónustu, t.d. hversu mikil heimasímanotkunin er, hve mikil og hvernig farsímanotkunin er og hversu mikið gagnamagn er raunverulega verið að nota. Síðan má nota reiknivélina til að reikna út hagkvæmasta verð á hverjum þætti fyrir sig. Algengt er t.d. að fólk kaupi þjónustuleið fyrir ADSL nettengingu með inniföldu gagnamagni sem er ýmist of mikið eða of lítið fyrir hina raunverulegu notkun heimilisins. Neytendur eru hvattir til að skoða reikninga sína fyrir fjarskiptaþjónustu og kynna sér hvernig hin raunverulega notkun þeirra er og hvort sú áskriftarleið sem verið er að nota er sú sem er hagkvæmust. Í þessu sambandi skal þó tekið fram að ekki er hægt að nota Reiknivél PFS til að sannreyna einstaka símareikninga. Til þess eru of margir þættir í þjónustu og notkun persónubundnir einstökum notendum. Reiknivél PFS er uppfærð reglulega með þeim breytingum sem verða á áskriftum og verði þeirra, svo ætíð má nálgast mat á því hvaða áskriftarleið er hagkvæmust fyrir notandann hverju sinni. Ég hvet íslenska neytendur til að kynna sér það góða verkfæri sem Reiknivél PFS er og nota það sér til hagsbóta þegar hugað er að vali á fjarskiptaþjónustu.
6. júlí 2011
Norrænn samanburður á fjarskiptanotkun 2010
Nánar
Útbreiðsla fastra nettenginga með miklum afköstum mest á Íslandi sem og vöxtur í gagnaflutningum yfir farsímanet. Farsímaþjónusta með minnsta útbreiðslu og Íslendingar senda fæst SMS. Nú hafa eftirlitsstofnanir á Norðurlöndunum tekið saman skýrslu um samanburð á notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu í löndunum fimm og þróun nýliðinna ára. Er þetta í annað sinn sem samantektarskýrsla sem þessi hefur verið gerð. Í skýrslunni kemur margt forvitnilegt fram. Sítengd internetþjónusta er um margt sambærileg á milli landanna en það vekur þó athygli að tengingar með yfir 10Mbps afköstum eru útbreiddastar á Íslandi þó svo tengingar um ljósleiðara séu ekki teknar með í reikninginn. Þrátt fyrir að Íslendingar noti farsímanetin minnst til gagnaflutnings og séu ekki hálfdrættingar á við Svía og Finna, með um 1,5 GB á ári á hvern notanda á móti yfir 4 GB Svía og Finna, er vöxtur á gagnamagni fluttu yfir farsímanet mestur hér á landi. Ef þessi þróun er borin saman við notkun fyrri ára í Svíþjóð og Finnlandi má leiða að því líkur að Ísland sé um tveimur árum á eftir þeim löndum. Því megi mögulega búast við að notkun gagnaflutninga yfir farsímanet geti nærri þrefaldast hér á landi á næstu tveimur árum. Útbreiðsla farsíma á Norðurlöndunum er minnst á Íslandi en meðalnotkun þeirra er sambærileg, eða um 2000 mínútur á ári á hvern notanda. Danir tala minnst Norðurlandaþjóðanna í farsíma eða ríflega 1500 mínútur að meðaltali en meðallengd símtals í farsíma er hins vegar minnst á Íslandi. Íslendingar senda einnig minnst af SMS skeytum, eða um 500 á ári á hvern notanda á meðan Danir tróna á toppnum með nærri 2000 skeyti á ári. Fjöldi viðskiptavina í fastlínuþjónustu heldur áfram að minnka í öllum löndunum fimm, en þó er minnsta fækkunin milli áranna 2009 og 2010 á Íslandi, líkt og verið hefur síðastliðin ár. Þrátt fyrir að sjá megi mun á notkun og þróun einstakra gerða fjarskipta milli landanna sýnir samanburðurinn þó að á heildina litið eru löndin mjög lík hvert öðru í notkun sinni og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Skýrslan (PDF)
1. júlí 2011
PFS kallar eftir samráði: Tíðnistefna PFS og sérstakt umræðuskjal um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú stefnu sína um stjórnun tíðnisviðsins fyrir árin 2011 – 2014 og kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um skjalið. Með því vill stofnunin hvetja til umræðu og skoðanaskipta um framtíð tíðnimála. Sérstakt umræðuskjal er sett fram um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða sem er einnig fjallað um í tíðnistefnunni. Óskar stofnunin eftir umsögnum hagsmunaaðila um bæði skjölin. Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum er til kl. 12:00 föstudaginn 19. ágúst 2011. Senda skal umsagnir í tölvupósti á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Óskað er eftir að vísað verði til númers þeirra töluliða tíðnistefnunnar sem umsagnir eiga við um. Stofnunin áskilur sér rétt til að birta efni innsendra umsagna, þó án þess að birta nöfn umsagnaraðila. Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan: Tíðnistefna PFS með spurningum (PDF) Umræðuskjal Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir farnetsþjónustu og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða (PDF) Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS, netfang: thorleifur(hjá)pfs.is
27. júní 2011
PFS birtir ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu fyrir aðgang að talsímaneti Símans
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 21/2011 varðandi yfirferð stofnunarinnar á kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir aðgang að föstu almennu talsímaneti fyrir heimili og fyrirtæki (markaðir 1-2). Samkvæmt endurskoðaðri kostnaðargreiningu Símans hækka aðgangsgöld fyrir POTS port um 3,6% og ISDN port um 3,4%, en ISDN stofntengingar (30 rásir) lækka um 13%.Jafnframt eru ákvörðuð heildsöluverð fyrir aðgang að símstöð, fast forval og einn heilstæða reikning (FFER), auk ýmissa stofn- og þjónustugjalda. Sjá samantekt í viðauka sem fylgir ákvörðuninni. Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðauka (PDF skjal): Ákvörðun PFS nr. 21/2011 varðandi kostnaðargreiningu Símans hf. á heildsöluverðum fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir heimili og fyrirtæki. (Markaðir 1-2)
22. júní 2011
Ný reglugerð um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja
Nánar
Ný reglugerð um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja, hefur verið birt í Stjórnartíðindum. Tilgangur bókhaldslegs og fjárhagslegs aðskilnaðar er að gera aðgengilegar upplýsingar sem eru betur sundurliðaðar en upplýsingar í almennum ársreikningum, að sýna afkomu einstakra rekstrareininga eins og þær væru reknar sem sérstök fyrirtæki, að koma í veg fyrir að fyrirtæki mismuni samkeppnisaðilum og að koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur á milli rekstrareininga. Tilgangur með kostnaðarbókhaldi er að tryggja að sanngjörnum, hlutlægum og gagnsæum viðmiðum sé fylgt við útdeilingu kostnaðar á einstakar þjónustutegundir þegar kvaðir um eftirlit með gjaldskrá hafa verið lagðar á fyrirtæki. Sjá nánar á vef Stjórnartíðinda:Reglugerð nr. 564/2011 um um bókhald og kostnaðargreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja