Fréttasafn
15. apríl 2010
PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 6/2010 í máli þriggja einstaklinga sem kærðu fjarskiptafyrirtækið IP-fjarskipti ehf. (Tal) fyrir óumbeðin fjarskipti. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi brotið gegn 5. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 sem hljóðar svo: Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Áskrifandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar. Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 6/2010 í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti (PDF) Lög um fjarskipti nr. 81/2003
15. apríl 2010
Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli: Öll fjarskiptakerfi í lagi en staðbundnar truflanir á póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun fylgist með stöðu fjarskiptakerfa og póstþjónustu á landinu í tengslum við þær náttúruhamfarir sem nú standa yfir í Eyjafjallajökli. Stofnunin er í sambandi við þá aðila sem sinna fjarskipta- og póstþjónustu. Skv. upplýsingum þeirra hefur ekki orðið nein truflun á fjarskiptakerfum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Hins vegar hefur öskufall og lokanir vega í för með sér nokkrar truflanir á póstþjónustu á þeim stöðum þar sem það á við. Ljóst er að öskufall getur haft áhrif á tímasetningar og þjónustu í pósti víða um land meðan eldgosið varir, eftir því sem veður og vindar breytast. Einnig hefur öskufallið áhrif á póstflutning milli landa þar sem flugsamgöngur hafa stöðvast víða í norður Evrópu vegna ösku í lofti. Á vefsíðu Íslandspósts, www.postur.is er hægt að fylgjast með stöðu mála varðandi póstflutninga.
30. mars 2010
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur í samráði við fjarskiptafyrirtæki unnið að endurskoðun á reglum nr. 949/2008 um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum með það að markmiði að stytta afgreiðslutíma flutningsbeiðna. Er það m.a. gert með hliðsjón af kröfu um meiri skilvirkni númeraflutnings samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2009/136/EB um breytingu á tilskipun nr. 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu. Við þessa endurskoðun hefur einnig verið horft til breytinga sem eru til þess fallnar að skýra réttindi neytenda og réttindi og skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi framkvæmd númera- og þjónustuflutnings og afmarka nánar eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar þar að lútandi. PFS kallar eftir frekara samráði við hagsmunaaðila um þær breytingar sem stofnunin hyggst gera á númera- og þjónustuflutningsreglum. Af því tilefni þykir rétt að gera grein fyrir helstu breytingum sem áformaðar eru og forsendum að baki þeim. Hagsmunaaðilum er hér með gefinn kostur á því að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning. Liggja regludrögin fyrir í tveimur eintökum, eitt sem sýnir fyrirhugaðar breytingar (track changes) og annað á pdf. formi sem sýnir hvernig reglurnar munu koma til með að líta út samkvæmt þeim. Geri hagsmunaaðilar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar er þess óskað að vísað sé með skýrum hætti til hvaða ákvæða regludraganna þær taka til. Umsagnarfrestur er til 21. apríl 2010. Sjá samráðsskjöl hér fyrir neðan: Drög að endurskoðuðum reglum með breytingum sýnilegum (Word skjal með "track changes") Drög að endurskoðuðum reglum skv. tillögu PFS (PDF skjal) Skýringar við fyrirhugaðar breytingar á reglum um númera- og þjónustuflutning (PDF)
18. mars 2010
PFS afturkallar tíðniheimild IceCell fyrir GSM 1800 farsímanet
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðun sinni nr. 5/2010 þann 11. mars 2010, afturkallað tíðniheimild farsímafyrirtækisins IceCell fyrir GSM 1800 farsímanet, dags. 27. júní 2007. Tíðniheimildin er afturkölluð vegna vanefnda fyrirtækisins á að standa við skilmála heimildarinnar, sem kvað á um uppbyggingu farsímanets í áföngum fyrir tiltekin tímamörk. Um rökstuðning fyrir afturkölluninni vísast til ákvörðunarinnar sjálfar sem nálgast má hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr. 5/2010 Afturköllun á tíðniheimild IceCell ehf. fyrir GSM 1800 farsímanet (PDF)
17. mars 2010
Nýjar reglur PFS um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett nýjar reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu. Reglurnar voru settar í tengslum við undirbúning stofnunarinnar að gerð reiknivélar fyrir neytendur um fjarskiptakostnað sem birt verður á Netinu innan tíðar. Markmið reglnanna og Reiknivélar PFS er að auka gagnsæi í verðlagningu á fjarskiptaþjónustu með því að birta opinberlega og gera aðgengilega heildstæða samantekt á verðskrám starfandi fjarskiptafyrirtækja, draga fram mismunandi þætti í samsetningu verðs og gefa notendum sjálfum kost á því að gera með gagnvirkum hætti marktækan samanburð á verði með tilliti til eigin notkunar. Póst- og fjarskiptastofnun væntir þess að Reiknivél PFS og reglurnar um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu verði til hagsbóta fyrir neytendur á fjarskiptamarkaði um leið og þeim er ætlað að stuðla að bættri neytendavernd og aukinni verðvitund almennings. Reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu nr. 220/2010 tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 16. mars sl. Birting Reiknivélar PFS og aðgengi að henni verður auglýst með skýrum hætti af hálfu stofnunarinnar þegar þar að kemur.
24. febrúar 2010
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS í kvörtunarmáli um óumbeðin fjarskipti
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur birt úrskurð sinn í máli nr. 5/2009 þar sem farið var fram á að nefndin sneri við ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 22/2009 um óumbeðin fjarskipti. Málið varðaði tölvupóstsendingar sem sendar voru kvartanda frá vefsíðunni www.hinhlidin.com og hann kærði sig ekki um að móttaka. Hafði kvartandi árangurslaust reynt að frábiðja sér endurteknar sendingar. Taldi hann sendingarnar varða við ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga sem fjallar um óumbeðin fjarskipti og kvartaði til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Í ákvörðun sinni nr. 22/2009 taldi PFS að umræddir tölvupóstar uppfylltu ekki skilyrði 46. gr. fjarskiptalaga um að teljast bein markaðssetning. Af þeim sökum bryti sending tölvupóstanna ekki í bága við umrætt ákvæði fjarskiptalaga. Kærandi vísaði þá málinu til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði sínum kemst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu, með tilliti til allra lögskýringargagna sem lágu fyrir í málinu, að túlka bæri hugtakið bein markaðssetning rúmt. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segir m.a.: „Hins vegar telur nefndin ekki fært að líta fram hjá því að ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga og afskipti fjarskiptayfirvalda vegna þess ákvæðis, eru bundin við það að hin óumbeðnu fjarskipti feli í sér beina markaðssetningu á einhvern hátt. Hlutverki heimasíðunnar www.hinhlidin.com er þannig lýst á síðunni sjálfri að henni sé ætlað að vera „baráttusíða fyrir réttindum barna á Íslandi“. Heimasíðan hefur að geyma umfjöllun um úrskurði yfirvalda og eftir atvikum dómstóla í málefnum barna, tiltekinna einstaklinga sem tjáð hafa sig um málefni barna, eftir atvikum starfs síns vegna, önnur félagasamtök sem starfa eða hafa starfað að málefnum barna, hvort heldur sem er á sviði ofbeldis gegn börnum, forsjár- eða umgengnismálefnum. Þá eru tilteknir aðilar taldir upp á svokölluðum „svörtum lista“ á heimasíðunni, þar sem m.a. er að finna nafngreinda kennara, skólastjórnendur og blaðamenn. Þá virðast póstsendingar þeirra sem frábiðja sér tölvupóst þeirra er standa að síðunni, vera birtar á heimasíðunni, án þess að tekið sé tillit til óska þeirra um að verða fjarlægðir af póstlista. Tölvupóstar og eftir atvikum heimasíðan sjálf fela ekki í sér beiðni eða tilboð til viðtakenda um að styðja þá er standa að síðunni á neinn hátt, né heldur málstað þeirra. Hin óumbeðnu fjarskipti er lúta að kæranda virðast fyrst og fremst snúast um það að þvinga sjónarmiðum aðstandenda síðunnar upp á kæranda og jafnframt gefa þá mynd af honum á heimasíðunni að hann standi fyrir ákveðin viðhorf um réttindi barna sem séu aðstandendum síðunnar ekki þóknanleg. Notkun tölvupóstfangs kæranda með þessum hætti getur hins vegar að mati úrskurðarnefndar ekki fallið undir hugtakið beina markaðssetningu í skilningi 46. gr. fjarskiptalaga, þrátt fyrir rúma skýringu þess hugtaks sbr. framangreint og þrátt fyrir að umræddar póstsendingar séu óumbeðnar. Með vísan til alls framangreinds ber því að hafna kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun.“ Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í heild: Úrskurður í máli nr. 5/2009 (PDF)
24. febrúar 2010
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2010 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Stofnunin hafði áður heimilað fyrirtækinu að sameina þyngdarflokkanna 0-20. gr. og 21-50 gr. í einn þyngdarflokk 0-50 gr. Eftir sameininguna verður burðargjald fyrir bréf innanlands, innan einkaréttar, kr. 75. Hækkunin nemur rúmlega 5% og tekur gildi frá og með 1. mars nk.Rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan. Ákvörðun PFS nr 4/2010 - Erindi Íslandspósts hf. um sameiningu á þyngdarflokkum innan einkaréttar og breyting á gjaldskrá innan einkaréttar - 17. febrúar 2010
22. febrúar 2010
Ákvörðun PFS um bráðabirgðaákvörðun vegna kvartana um meint brot á reglum um númera- og þjónustuflutning
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2010 í ágreiningsmáli á milli Símans hf., Nova ehf. og Og fjarskipta ehf. (Vodafone). Málið varðar meint brot á 14 gr. reglna um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum nr. 949/2008 þar sem m.a. er kveðið á um að þegar rétthafi númers hefur óskað flutnings frá fjarskiptafyrirtæki skuli fyrirtækið ekki viðhafa samskipti við rétthafann sem miða að því að koma í veg fyrir flutninginn. Málsatvik eru þau að PFS bárust kvartanir frá Símanum og Nova vegna meintra brota Vodafone á fyrrgreindri 14. gr. Krafðist Síminn að PFS tæki bráðabirgðaákvörðun sem bannaði Vodafone að hafa samband við viðskiptavini sem óskað hafa eftir flutningi til Símans í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning. Vodafone gerði gagnkröfu um að slíkri ákvörðun yrði þá beint að öllum aðilum á markaði ef fallist yrði á að skilyrði fyrir töku bráðabirgðarákvörðunar væru fyrir hendi. Í ljósi þess að kvartanir Símans og Nova á hendur Vodafone voru samkynja og þess að Vodafone gerði sömu gagnkröfu á hendur báðum gagnaðilum sínum taldi PFS að forsendur væru til þess að taka kröfur aðila að því er varðar töku bráðabirgðarákvörðunar fyrir í einu og sama málinu. Í ákvörðunarorðum PFS segir: Fjarskiptafélögunum Símanum hf., Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) og Nova ehf. er óheimilt að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, meðan á númera- eða þjónustuflutningi stendur, í þeim tilgangi að hafa frumkvæði að því að bjóða þeim tilboð um betri kjör ákveði þeir að hætta við flutning. Fari synjunarhlutafall flutningsbeiðna fráfarandi fjarskiptafyrirtækis upp fyrir 20% á mánaðargrundvelli skal fjarskiptafyrirtækið veita Póst- og fjarskiptastofnun eftirfarandi upplýsingar um alla þá viðskiptavini sem hættu við flutning á því tímabili: a) Nafn, kennitala og heimilisfang viðskipamanns, b) Símanúmer og/eða þjónustutegund viðskiptamanns, c) Ástæður þess að viðskiptamaður hætti við flutning til móttakandi fjarskiptafyrirtækis Fyrstu fjórar vikur frá dagsetningu ákvörðunar þessarar skal synjunarhlutfallið þó mælt vikulega og miðast við tímabilið frá mánudegi til mánudags. Fjarskiptafyrirtæki sem viðhafa gæðaeftirlit í númera- eða þjónustuflutningsferli, með því að hringja í fráfarandi viðskiptavini sína, skulu setja sér verklagsreglur um framkvæmd þess. Skal afrit af slíkum verklagsreglum hafa borist Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar 25. febrúar nk., auk staðfestingar fyrirsvarsmanns fjarskiptafyrirtækis á því að þær hafi verið kynntar hlutaðeigandi starfsfólki þess. Ákvörðun þessi er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Kæran skal berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 2/2010 (PDF)