Fréttasafn
18. desember 2009
Reiknivél PFS fyrir neytendur á vefinn snemma á næsta ári.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur undanfarna mánuði unnið að gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð á síma- og netþjónustu. Tilgangur reiknivélarinnar er að auðvelda neytendum að leggja mat á hvaða síma- og netþjónusta hentar þeim best. Fyrirmynd slíkrar reiknivélar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur. Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða þar með neytendur við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar. Við undirbúning reiknivélarinnar hefur verið lögð áhersla á samráð og upplýsingar til markaðsaðila, bæði fjarskiptafyrirtækja og fulltrúa neytenda, svo sem Neytendastofu, Talsmanns neytenda og Neytendasamtakanna. Í júlí sl. voru fjarskiptafyrirtækin upplýst bréflega um að stefnt væri að því að koma reiknivélinni á Netið í lok ársins. Þar kom m.a. fram að ekki væri ráðgert að taka tillit til pakkatilboða, vinaafslátta né samþættingu heimasíma, internets og farsímanotkunar. Þann 10. nóvember sl. fengu fjarskiptafyrirtækin send gögn um reiknivélina til samráðs. Þar voru kynntar forsendur hennar og hvernig hún yrði upp byggð. Fengu fyrirtækin frest til 27. nóvember til að senda inn athugasemdir. Í lok samráðstímans barst talsvert af athugasemdum. Vega þar einna þyngst ábendingar varðandi áhrif mismunandi markaðshlutdeildar fjarskiptafyrirtækja og hringimynstur notenda á virkni reiknivélarinnar. Þær athugasemdir sem bárust eru nú til skoðunar hjá stofnuninni. Þegar þeirri vinnu ásamt tæknivinnu við gerð vélarinnar verður lokið, væntanlega snemma á næsta ári, verður reiknivélin sett í loftið. Birting reiknivélarinnar og aðgengi verður auglýst með skýrum hætti af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar þegar þar að kemur.
17. desember 2009
Nýjar reglur um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett nýjar reglur um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum. Reglurnar tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 14. desember sl.Markmiðið með reglunum er að stuðla að auknu gagnsæi með því að kveða skýrt á um þau atriði sem ávallt skal fjallað um í viðmiðunartilboði um aðgang að heimtaug og tengdri aðstöðu Reglur um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum, nr. 993/2009, á vef Stjórnartíðinda.
15. desember 2009
Tilmæli PFS til fjarskiptafyrirtækja um viðskiptaskilmála gagnvart neytendum
Nánar
Nokkurs misræmis hefur gætt í aðferðum fjarskiptafyrirtækja við birtingu og innihald viðskiptaskilmála. Einnig hefur gætt misræmis í því hvernig fyrirtækin tilkynna viðskiptavinum sínum breytingar á skilmálum. Vegna þessa telur Póst- og fjarskiptastofnun ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til fjarskiptafyrirtækjanna um birtingu og lágmarks innihald viðskiptaskilmála þeirra fyrir fjarskiptaþjónustu. Er þetta í samræmi við eitt af lögbundnum verkefnum PFS; að stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir neytendur og krefjast gagnsæi gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskiptaþjónustu.(Sjá d-lið 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun). Tilgangur þessara tilmæla er að vekja athygli þjónustuveitenda og neytenda á að í fjarskiptalögum er neytendum tryggt ákveðið lágmarks réttaröryggi þegar kemur að samningsbundnum tengslum þeirra við þau fyrirtæki sem þeir kaupa fjarskiptaþjónustu hjá. Réttur allra neytenda er jafn vel tryggður í lögunum hvað þetta varðar, hvort sem samningur þeirra við þjónustuveitendur er skriflegur eða ekki. Markmið tilmælanna er að tryggja gagnsæi, að því er varðar verð, gjaldskrár, skilmála og skilyrði og efla þannig neytendavernd og möguleika neytenda á því að meta hvað felst í þeirri þjónustu sem fyrirtækin bjóða upp á. Neytendur geta þannig að fullu notið þeirra hagsbóta sem samkeppni veitir. Tilmælin byggja á bindandi ákvæðum fjarskiptalaga og almennri túlkun PFS á þeim. Lítur stofnunin því svo á að þjónustuveitendum fjarskiptaþjónustu beri að virða þau í hvívetna í samskiptum sínum við neytendur á fjarskiptamarkaði. Helstu atriði tilmælanna eru eftirfarandi: 1. Upptalning á helstu þáttum sem viðskiptaskilmálar fyrir fjarskiptaþjónustu skulu að lágmarki innihalda2. Þjónustuveitendum ber að birta gjaldskrá og skilmála fyrir alla sína þjónustu á skýran og aðgengilegan hátt fyrir neytendur3. Gjaldskrá er hluti af skilmálum fjarskiptaþjónustu og því gilda sömu reglur um breytingar á gjaldskrá og um breytingar á skilmálum.• Þjónustuveitendum ber að tilkynna viðskiptavinum á sannanlegan hátt um breytingar á skilmálum fyrir þjónustu sína með a.m.k. mánaðar fyrirvara og um leið upplýsa þá um rétt sinn til að segja upp samningi (þjónustunni) að skaðlausu vilji þeir ekki samþykkja hina nýju skilmála.4. Áréttaður er skilyrðislaus réttur rétthafa símanúmera/tengingar til númera- og þjónustuflutnings5. Þjónustuveitendur verða að upplýsa rétthafa símanúmera um það hvaða breytingar það hefur í för með sér að gera annan aðila að greiðanda þjónustunnar6. Áréttuð er skylda fjarskiptafyrirtækja til að verða við ósk neytenda um að læsa fyrir símtöl/SMS í símanúmer sem bera yfirgjald. Sjá tilmæli PFS í heild (PDF) Neytendastofa og Talsmaður neytenda hafa gefið álit sitt á þessum tilmælum og eru álit þeirra aðgengileg hér fyrir neðan. Álit Neytendastofu (PDF) Álit Talsmanns neytenda (PDF)
8. desember 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um verðmat á eignarhlut í Hinu íslenska númerafélagi.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 21/2009, í ágreiningsmáli á milli SIP ehf. og Símans hf., Og fjarskipta ehf. og Nova ehf. um verðmat á eignarhlut í Hinu íslenska númerafélagi (HÍN). Málsatvik eru þau að kaupsamningur var undirritaður á milli eigenda HÍN (Síminn, Og fjarskipti og Nova) og SIP ehf. (SIP) um kaup hins síðarnefnda á fjórðungshlut í HÍN. Höfðu samningsaðilar mismunandi sýn á það hvernig bæri að verðmeta umræddan fjórðungshlut í félaginu. Vildu eigendur félagsins verðleggja hlutinn miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs frá því félagið var stofnað 2001. SIP var ekki sammála því, en til að tefja ekki fyrir aðild að félaginu var gengið frá kaupsamningi með þeim fyrirvara að kaupverð gæti breyst að fenginni umsögn frá PFS. Barst PFS bréf frá HÍN þar sem óskað var eftir umsögn PFS um hvernig bæri að reikna verðmæti hluta í HÍN og í kjölfarið bárust PFS sjónarmið SIP og annarra eiganda HÍN vegna ágreiningsins . SIP setti einnig fram þá kröfu að PFS endurskoðaði rekstur HÍN og/eða yfirtæki hann. Í ákvörðunarorðum PFS segir: Rekstur Hins íslenska númerafélags ehf. (HÍN) og reglur og kjör um aðgang að félaginu eru ekki í andstöðu við ákvæði laga um fjarskipti nr. 81/2003. Ágreiningur er lýtur að verðmati á eignarhlutum í HÍN heyrir ekki undir verkssvið Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem valdheimildir skortir. Aðalkröfu SIP ehf. um að verð fyrir eignarhlut fyrirtækisins, ásamt eignarhluta Nova ehf., lækki um 25% er hafnað. Þá er varakröfu SIP ehf. um að kaupverð á eignarhlutum SIP ehf. og Nova ehf. standi óhreyft hafnað. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 21/2009 (PDF)
4. desember 2009
PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans hf. um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með fyrirmælum um breytingar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 19/2009 og 20/2009, frá 26. nóvember 2009, um viðmiðunartilboð Símans um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, (markaður 15 í eldri tilmælum ESA). Málsatvik eru þau að með ákvörðun PFS nr. 4/2007, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (Markaður 15), lagði stofnunin m.a. þá skyldu á Símann að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að GSM farsímaneti fyrirtækisins og þjónustu á heildsölustigi, þar á meðal endursölu- og sýndarnetsaðgang. Með ákvörðun þessari og með heimild í 29. gr. fjarskiptalaga var lögð kvöð á Símann um gagnsæi og að útbúa og birta viðmiðunartilboð fyrir innanlands reiki, endursölu og sýndarnet og birta upplýsingar um einkenni netsins, skilmála og skilyrði fyrir afhendingu og notkun, verðskrá og bókhaldsupplýsingar fyrir GSM farsímasvið sitt. Birti Síminn viðmiðunartilboð um endursöluaðgang og sýndarnetsaðgang að farsímaneti sínu fyrst þann 28. apríl 2008 og voru endurskoðuð tilboð birt þann 1. júní 2008. Stuttu síðar var helstu fjarskiptafyrirtækjum tilkynnt um viðmiðunartilboð Símans og óskað eftir afstöðu þeirra til tilboðanna. Þá var frétt þessa efnis jafnframt birt á heimasíðu stofnunarinnar þann 13. júní 2008 og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að senda inn umsagnir eða athugasemdir vegna viðmiðunartilboðanna. Í kjölfar breytinga á viðmiðunartilboðum Símans birti Síminn uppfærð viðmiðunartilboð 1. janúar 2009 og þótti PFS því rétt að efna til samráðs hagsmunaaðila að nýju. Drög að ákvörðunum PFS um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboða Símans voru kynnt Símanum þann 26. júní 2009 og Símanum þá veitt færi á að koma að athugasemdum við fyrirhugaðar ákvarðanir PFS. Upphaflegur svarfrestur var framlengdur til 16. september 2009 að beiðni Símans. Með ákvörðun nr. 19/2009 samþykkti PFS viðmiðunartilboð Símans um endursöluaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Síminn skal uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og birta á aðgengilegan hátt á vefsíðu fyrirtækisins eigi síðar en 1. janúar 2010. Með ákvörðun nr. 20/2009 samþykkti PFS viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Síminn skal uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og birta á aðgengilegan hátt á vefsíðu fyrirtækisins eigi síðar en 1. janúar 2010. Sjá ákvarðanirnar á PDF formi: Ákvörðun PFS nr. 19/2009 um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs um endursöluaðgang að farsímaneti Símans hf. Ákvörðun PFS nr. 20/2009 um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboðs um sýndarnetsaðgang að farsímaneti Símans hf. Taka skal fram að ákvarðanir PFS eru birtar án tiltekinna upplýsinga er varða verð fyrir aðganginn (kafli 6.1.2 í ákvörðun PFS) þar sem Síminn óskaði eftir undanþágu frá birtingu þeirra með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. fjarskiptalaga. PFS hefur ekki tekið afstöðu til beiðnar Símans um trúnað. Sjá frétt PFS um seinna samráð á heimasíðu PFS þann 20. janúar 2009 Sjá einnig frétt um fyrra samráð á heimasíðu PFS þann 13. júní 2008
30. nóvember 2009
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2008.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt skýrslu um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2008. Skýrslan hefur einnig að geyma upplýsingar um meðferð umsókna í jöfnunarsjóð, sagt er frá lyktum dómsmála sem vörðuðu hagsmuni sjóðsins og þeim ágreiningi sem nú er uppi við Símann um hvort það eigi að greiða dráttarvexti af ákvörðuðu framlagi úr sjóðnum. Með skýrslunni er einnig birtur ársreikningur jöfnunarsjóðs alþjónustu fyrir árið 2008, áritaður af ríkisendurskoðanda. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla 2008 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur 2008 (PDF) Eftirfarandi ákvarðanir PFS eru í gildi um skyldu til að veita alþjónustu í fjarskiptum hér á landi: Ákvörðun nr. 25/2007, alþjónustuskyldur Símans, Mílu og Já upplýsingarveitna. (PDF) Ákvörðun nr. 17/2009, alþjónustuskyldur Neyðarlínunnar ohf. (PDF)
27. nóvember 2009
Yfirlýsing frá Póst og fjarskiptastofnun
Nánar
Vegna frétta sem birtar hafa verið á Stöð 2 og Vísi.is og auglýsinga Símans undanfarna daga þar sem vitnað er til úttektar og reiknivélar Póst- og fjarskiptastofnunar vill stofnunin taka fram: Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki birt úttekt um verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna nema þann mánaðarlega verðsamanburð sem birtur er á vef stofnunarinnar sem PDF skjöl. Sá verðsamanburður byggist eingöngu á verðskrám fyrirtækjanna. Fréttir og auglýsingar um slíka úttekt eru rangar og ekki á ábyrgð PFS. Hið rétta er að PFS vinnur að gerð og birtingu reiknivélar fyrir neytendur. Sú reiknivél er ekki tilbúin og hefur ekki verið birt. Stofnunin hefur haft samráð við fjarskiptafyrirtækin um gerð hennar. Fengu fyrirtækin send vinnugögn um uppbyggingu hennar til umsagnar þann 10. nóvember sl. og frest til að skila athugasemdum til 24. nóvember. Athugasemdir hafa þó borist eftir að fresturinn rann út og við endanlega gerð reiknivélarinnar verður metið hvort tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem berast stofnuninni þar til í dag, föstudaginn 27. nóvember. Þegar þeirri vinnu og tæknivinnu er lokið mun reiknivélin verða sett í loftið. Áætlað er að það verði nú í desember, með fyrirvara um umfang athugasemda. Birting hennar og aðgengi verður auglýst með skýrum hætti af hálfu stofnunarinnar þegar þar að kemur. Fyrirhuguð reiknivél er hugsuð neytendum í landinu til hagsbóta.Fyrirmynd hennar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur. Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar. Nánari upplýsingar er að finna í þessari frétt hér á vefnum sem birt var í gær, fimmtudaginn. 26. nóvember.
26. nóvember 2009
PFS undirbýr reiknivél fyrir neytendur um verð á fjarskiptaþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur um langt skeið birt mánaðarlegan verðsamanburð á þjónustu fjarskiptafyrirtækjanna hér á vefnum. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því innan stofnunarinnar að efla þessa þjónustu enn frekar með gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem þeir geta borið saman verð á síma- og netþjónustu miðað við þrjú fyrirfram gefin notkunarstig; litla, meðal eða mikla notkun. Fyrirmynd slíkrar reiknivélar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur. Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar. Við undirbúning reiknivélarinnar hefur verið lögð áhersla á samráð og upplýsingar til markaðsaðila um fyrirhugaða gerð reiknivélarinnar, bæði fjarskiptafyrirtækja og fulltrúa neytenda. Í júlí sl. voru fjarskiptafyrirtækin upplýst bréflega um að stefnt væri að því að koma reiknivélinni á Netið í lok ársins.Þar kom m.a. fram að ekki væri ráðgert að taka tillit til pakkatilboða, vinaafslátta né samþættingu heimasíma, internets og farsímanotkunar. Þann 10. nóvember sl. fengu fyrirtækin send gögn um reiknivélina til samráðs. Þar voru kynntar forsendur hennar og hvernig hún yrði upp byggð. Bréf sem fylgdi gögnunum er svohljóðandi: Málefni: Reiknivél Póst- og fjarskiptastofnunar. Með vísun í bréf Póst- og fjarskiptastofnunar frá 6. júlí sl., þar sem stofnunin tilkynnti að hún hefði í hyggju með haustmánuðum að setja upp reiknivél á vef stofnunarinnar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú lokið áfanga við gerð reiknivélar sem reiknar út mánaðarlegan kostnað fyrir farsíma, heimasíma og internet fyrir skilgreindan notenda. Miðað er við litla, meðal eða mikla notkun notenda á þjónustu fjarskiptafélaganna. Í fyrstu er gert ráð fyrir að reiknivélin sé einföld í notkun en muni taka breytingum og þróast. Forsendur sem hafðar eru til hliðsjónar við útreikning á kostnaði koma fram í skjali sem inniheldur reiknivélina en þær eru helstar að ekki er gert ráð fyrir pakkatilboðum né skilyrtum afsláttum. Notað er hringimynstur frá Teligen ásamt tölfræðigögnum frá innlendum fjarskiptafyrirtækjum. Miðað er við að notandi hringi samkvæmt markaðshlutdeild fyrirtækja fyrir farsíma og heimasíma. Ódýrasta áskriftarleið í interneti ræðst af magni erlends niðurhals, ekki er enn tekið tillit til gæða internetssambanda í reiknivélinni.Póst- og fjarskiptastofnun óskar eftir staðfestingu á að einingaverð og niðurstöður miðað við gefnar forsendur séu réttar fyrir [nafn fyrirtækis]. Fengu fyrirtækin frest til 24. nóvember sl. til að skila athugasemdum. Nokkrar ábendingar hafa borist stofnuninni og verður farið yfir þær ábendingar sem berast fram á föstudag, 27 nóvember. Áætlað er að vefsíða reiknivélarinnar verði opnuð nú í desember þegar tekið hefur verið tillit til þeirra ábendinga sem borist hafa og tæknivinnu er lokið.