Fréttasafn
15. mars 2012
Umfjöllun um öryggi á internetinu – www.netöryggi.is
Nánar
Í vikunni hefur verið mikil og þörf umfjöllun um netöryggi á Íslandi í þættinum Kastljós á RÚV. Þar kom ítrekað fram sú staðreynd að því miður hefur umræða og vitund um öryggismál á internetinu verið allt of lítil í samfélaginu, miðað við hversu mikilvægur þáttur netnotkun er í daglegu lífi almennings, viðskiptum og stjórnsýslu. Með mikilli aukningu snjallsímaeignar Íslendinga auk fjölgunar fartölva og spjaldtölva hafa bæði samskipti og umferð gagna á Netinu aukist gríðarlega. Það er því mjög brýnt að vitund og þekking á grundvallaratriðum netöryggis aukist samhliða notkuninni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur um árabil haldið úti vefnum www.netöryggi.is þar sem almenningur getur leitað upplýsinga og leiðbeininga um hvernig hægt er að efla öryggi í netnotkun. Á vefnum eru einnig upplýsingar fyrir lítil fyrirtæki sem ekki hafa bolmagn til að vera með tölvu- og netsérfræðinga innanborðs. Stofnunin hvetur þá sem telja sig þurfa fræðslu og upplýsingar til að leita þeirra á vefnum www.netöryggi.is. Notkun á þráðlausum netum og mikilvægi sterkra lykilorðaUpplýsingar á vefnum www.netöryggi.is eru miðaðar við þarfir almennings og þeirra sem ekki eru sérfræðingar um tækni. Þar má t.d. nefna leiðbeiningar um netnotkun á þráðlausum netum, bæði svokölluð heimanet og einnig „heita reiti“ eða opin þráðlaus net t.d. á kaffihúsum, en þar eru ýmsar hættur sem fólk þarf að þekkja. Einnig eru á vefnum góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að efla öryggi sitt með notkun sterkra lykilorða. Sérstök upplýsingasíða um netöryggi snjallsíma, spjaldtölva og fartölva hefur einnig verið sett á vefinn.Auk vefsins www.netöryggi.is er PFS einnig aðili að vefnum Netsvar.is í samstarfið við SAFT verkefnið hjá Heimili og skóla sem vinnur að netöryggi barna og ungmenna, og fleiri aðila. Öryggi samfélagsins – netöryggis og viðbragðshópurinn CERT-ÍSInnan PFS hefur nýlega verið myndaður netöryggis- og viðbragðshópurinn CERT-ÍS. Stofnuninni var falið að mynda þann hóp skv. tilmælum þáverandi samgönguráðherra í lok árs 2010. (Þess má geta að CERT er skammstöfun á enska heitinu Computer Emergency Response Team) Í starfsemi hópsins verður lögð höfuðáhersla á vernd ómissandi upplýsingainnviða Íslands, meðal annars með því að lágmarka það tjón sem hljótast kann af netárásum og öðrum ógnum sem beinast að mikilvægum innviðum upplýsingasamfélagsins. Ennfremur verður hlutverk hópsins að stjórna, samhæfa og samræma aðgerðir þegar neyðarástand skapast, auk þess að vera landstengiliður við sambærilega erlenda CERT hópa. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á fjarskiptalögum þar sem settar eru nauðsynlegar lagastoðir fyrir starfsemi CERT-ÍS. Póst- og fjarskiptastofnun telur mjög brýnt að frumvarpið nái fram að ganga sem fyrst svo formleg starfsemi hópsins geti hafist. Reglur PFS um öryggi og vernd í fjarskiptumPóst- og fjarskiptastofnun hefur sett reglur fyrir fjarskiptafyrirtæki um öryggi í fjarskiptum, vernd neta og upplýsinga sem um þau fara og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Reglurnar tóku gildi um mitt ár 2008. Stofnunin fylgist reglulega með því að farið sé eftir þessum reglum. Hægt er að kynna sér reglurnar á vef Stjórnartíðinda: Reglur um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum nr. 1221/2007 Reglur um virkni almennra fjarskiptaneta nr. 1222/2007 Reglur um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu nr. 1223/2007 Fæðsla og vitundarvakning um netöryggi skiptir sköpumÍslenskt samfélag, eins og heimsbyggðin öll, verður sífellt háðari því að fjarskiptakerfi og internetumferð séu ótrufluð og varin eins og kostur er gagnvart hugsanlegum árásum og glæpastarfsemi. Margar rannsóknir hafa þó sýnt að veikasti hlekkurinn þegar kemur að öryggismálum er oft á tíðum manneskjan sjálf. Því er ljóst að fræðsla og vitundarvakning um netöryggi fyrir almenning og starfsfólk fyrirtækja, stofnana og innan stjórnsýslunnar er einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja öryggi samfélagsins alls.
2. mars 2012
PFS kallar eftir samráði: Umsókn RÚV um tíðniheimild fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Póst og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna umsóknar Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) um tíðniheimild fyrir stafrænt sjónvarp. Með minnisblaði dagsettu 27. febrúar 2012 sótti RÚV um tíðni á VHF og UHF tíðnisviðinu fyrir fyrirhugaðar stafrænar sjónvarpsútsendingar RÚV. Í lögum um fjarskipti nr. 81/2003 segir m.a. um úthlutanir tíðna og númera: „Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gegnsærri málsmeðferð án mismununar, enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda“, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í umsókn RÚV sem hér er til umsagnar kemur fram að fyrirhugað er að koma upp dreifikerfi fyrir stafræna sjónvarpsendingu á næstu tveimur árum. Póst og fjarskiptastofnun (PFS) hefur í framhaldi af móttöku umsóknar RÚV ákveðið að efna til opins samráðs áður en ákvörðun um úthlutun tíðna til RÚV verður tekin til þess að tryggð verði gagnsæ málsmeðferð. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 15. mars 2012. Umsagnir berist til til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS. Sjá nánar: Samráðsskjal (PDF) Minnisblað RÚV sem efnislega gildir sem umsókn RÚV um tíðniheimild (PDF)
29. febrúar 2012
PFS kallar eftir samráði um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að efna til samráðs við hagsmunaaðila um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema.Samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 81/2003, hefur PFS það hlutverk að annast skipulag tíðnirófsins þannig að hagnýting þess í þágu fjarskipta sé skilvirk, hagkvæm og truflanalaus. Í lok síðasta árs birti stofnunin niðurstöður sínar að loknu samráði um tíðniskipulag. Ákveðið hefur verið að stærsti hluti tíðnisviðsins 790 – 862 MHz verði notað í framtíðinni fyrir farnetsþjónustu. Tíðnisviðið hefur verið notað fyrir hliðræna sjónvarpssenda og jafnframt hafa verið veitt leyfi fyrir notkun þráðlausra hljóðnema á þessu tíðnisviði, en ávallt á víkjandi forsendum. Síðustu árin hefur verið gerð krafa um að hljóðnemarnir séu stillanlegir hvað varðar tíðni. PFS hefur ekki heimilað notkun nýrra þráðlausra hljóðnema á þessu tíðnisviði í nokkur ár og hefur nú ákveðið að þeir sem hafa haft heimildir til notkunar á þráðlausum hljóðnemum á þessu tíðnisviði þurfi að flytja sig á önnur tíðnisvið fyrir 31. desember 2012. Einnig hefur komið hefur í ljós að þó nokkuð af hljóðnemum hefur verið tekið í notkun á þessu tíðnisviði án þess að sótt hafi verið um heimild fyrir þeirri notkun. Þegar farnetsþjónusta er orðin virk á tíðnisviðinu verða hljóðnemar ónothæfir. Þessi breyting er í samræmi við þróunina í nágrannalöndum okkar, en notkun umrædds tíðnisviðs er að breytast um alla Evrópu úr því að notast fyrir sjónvarpsþjónustu yfir í farnetsþjónustur. Evrópusambandið vinnur að því að á árinu 2013 verði það orðin skylda hjá aðildarlöndum að nota þetta tíðnisvið fyrir farnetsþjónustur. PFS óskar eftir umsögnum hagsmunaaðila um tillögur sínar varðandi ofangreindar breytingar, sem fram koma í samráðsskjali hér fyrir neðan. Frestur til að skila inn upplýsingum, umsögnum og athugasemdum er til og með 15. mars 2012. Umsagnir berist til til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS. Sjá nánar:Samráðsskjal um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema (PDF)
28. febrúar 2012
Ákvörðun PFS varðandi ágreining um uppgjör samtengireikninga
Nánar
PFS birtir nú ákvörðun sína nr. 7/2012 varðandi ágreining Símans og Vodafone um uppgjör samtengireikninga. Varðaði álitamálið tímasetningu á gildistöku kostnaðargreindra verða. Niðurstaða PFS er sú að verð Vodafone skuli taka gildi á sama tíma og breytt verðskrá Símans. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 7/2012 um gildistöku kostnaðargreindra verða (PDF) Sjá einnig: Ákvörðun 15/2011 varðandi kostnaðargreiningu á heildsöluverðum Símans hf. fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstu almennu talsímaneti (markaðir 8 - 10) (PDF) Ákvörðun PFS nr. 29/2008 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8 - 10)
27. febrúar 2012
Síminn tilkynnti notanda ekki um að upplýsingar um símnotkun hans hafi verið skoðaðar án heimildar
Nánar
Með ákvörðun sinni nr. 5/2012 frá 15. febrúar s.l. komst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn sbr. 1. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga með því að taka ekki til rannsóknar ábendingu frá notanda um hugsanlega ólögmæta hlerun fjarskipta fyrr en um ári eftir að hún barst félaginu. Hafi það falið í sér ámælisvert athafnaleysi. Einnig hafi Síminn brotið gegn sama ákvæði og 15. gr. reglna nr. 1221/2007, um vernd upplýsinga á almennum fjarskiptanetum, með því að tilkynna ekki umræddum notanda að fjarskiptaleynd hafði verið rofin gagnvart honum eftir að rannsókn innan fyrirtækisins leiddi í ljós að starfsmaður þess hafði með ólögmætum hætti kynnt sér upplýsingar um símnotkun notandans. Aðdragandi málsins er sá að í september 2008 kvartaði kona til Símans vegna grunsemda um að fyrrverandi eiginmaður hennar, sem væri starfsmaður fyrirtækisins, væri að hlera símasamskipti hennar. Engin viðbrögð bárust frá Símanum við þessari kvörtun. Kvörtunin var síðan ítrekuð í september 2009. Í október sama ár berst svar frá Símanum þar sem segir m.a. að til þess að rannsókn á því hvort að starfsmaður fyrirtækisins hafi brotið fjarskiptalög með ólögmætri hlerun þurfi að koma beiðni um það frá lögreglu ásamt tilvísun í tilheyrandi lagastoð. Í júní 2010 leggur konan fram kvörtun við PFS og óskar eftir því að stofnunin hlutist til um það að Síminn taki ábendingu hennar til rannsóknar og veiti henni svör um hvort að sími hennar hafi verið hleraður. Við skoðun PFS á málinu kom fljótlega í ljós að torvelt væri að rannsaka ábendingu kvartanda til hlítar þar sem að svo langt var liðið síðan meint hlerun átti að hafa farið fram. Þannig væru ekki lengur fyrir hendi aðgangsskráningar í viðeigandi tækjabúnaði Símans, en slíkum upplýsingum er jafnan eytt eftir 12 mánaða varðveislutíma. Því til viðbótar fullyrti Síminn að viðkomandi starfsmaður hefði ekki haft þann nauðsynlega aðgang að kerfum fyrirtækisins til þess að geta framkvæmt hlerun. Í framhaldi af þessu einskorðaði PFS meðferð málsins við það hvort Síminn hefði brugðist rétt við ábendingu konunnar á sínum tíma, þ.e. að taka ábendinguna ekki strax til rannsóknar og tilkynna henni niðurstöðu rannsóknarinnar. Í tilefni af þessu hófust bréfaskipti við Símann þar sem m.a. var óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvenær rannsókn hefði verið framkvæmd af Símanum og hverjir hefðu komið þar að verki. Kom þá í ljós að rannsókn hafði farið fram innan fyrirtækisins eftir að kvartandi hafði ítrekað kvörtun sína í september 2009, en niðurstaða hennar hafi bent til þess að viðkomandi starfsmaður væri saklaus af ásökunum konunnar um hlerun. Taldi PFS að svör Símans væru misvísandi þar sem konunni hafði verið tilkynnt að rannsókn myndi ekki fara fram fyrr en beiðni um það kæmi frá lögreglunni. Vegna misvísandi og mótsagnakenndra svara frá Símanum hélt PFS rannsókn sinni áfram. Það var síðan á fundi með PFS í nóvember 2011 sem starfsmaður Símans upplýsir óvænt að við rannsókn á ábendingu konunnar hafi komið í ljós að umræddur starfsmaður, sem kvörtunin beindist að, hafði í reynd skoðað upplýsingar um símnotkun hennar án heimildar og hafi hann fengið áminningu fyrir athæfið. Nánar tiltekið voru þær upplýsingar sem starfsmaðurinn skoðaði um kvartanda svokallaðar fjarskiptaumferðarupplýsingar, þ.e. aðallega upplýsingar um hvaða símanúmer símtæki konunnar tengdust, bæði þau sem hringt var í og tekið á móti, tímasetningar og lengd símtala. Þetta teljast til persónuupplýsinga sem sérstaklega verndaðar eru í 42. gr. fjarskiptalaga og teljast njóta fjarskiptaleyndar samkvæmt 47. gr. laganna. Á grundvelli þessara upplýsinga telur PFS ljóst að Síminn hafi brotið gegn 1. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga, sbr. og 15. gr. reglna nr. 1221/2007 með því að tilkynna konunni ekki um að fjarskiptaleynd hefði verið rofin gagnvart henni, eftir að rannsókn innan fyrirtækisins staðfesti að starfsmaður þess hafði skoðað upplýsingar um símnotkun hennar án heimildar. PFS átelur Símann harðlega fyrir að veita stofnuninni ófullnægjandi, misvísandi og rangar upplýsingar og fyrir að gæta fyrst og fremst að einkahagsmunum viðkomandi starfsmanns fyrirtækisins, í stað þess að upplýsa umræddan kvartanda um að fjarskiptaleynd hefði verði rofin gagnvart honum. Verður mál þetta tilkynnt lögreglu. Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 5/2012 vegna meðferðar öryggisatviks hjá Símanum (PDF)
23. febrúar 2012
Íslandspóstur sameinar afgreiðslustaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um að loka póstafgreiðslu fyrirtækisins í Mjódd og sameina hana afgreiðslustað fyrirtækisins að Dalvegi í Kópavogi. Sjá Ákvörðun nr. 8/2012 - Beiðni Íslandspósts um að sameina póstafgreiðsluna í Mjódd við póstafgreiðslu fyrirtækisins í Kópavogi (PDF)
20. febrúar 2012
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á markaði 15 (aðgangur og upphaf símtala í almennum farsímanetum)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun um niðurfellingu kvaða á Símann á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15 í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2004). Fyrirhuguð niðurstaða PFS er sú að ekkert fyrirtæki njóti umtalsverðs markaðsstyrks á viðkomandi markaði og hyggst PFS því afnema kvaðir á Símann á 6-12 mánuðum frá töku endanlegrar ákvörðunar. Drög að ákvörðun á markaði 15 eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir á EES-svæðinu hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS tekið ákvörðun um viðkomandi markað nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
16. febrúar 2012
PFS endurúthlutar tíðniheimildum fyrir farsímaþjónustu til næstu 10 ára
Nánar
Þann 14. febrúar sl. endurútgaf PFS tíðniheimildir fyrir farsímaþjónustu á 900 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum til næstu tíu ára, með ákveðnum undantekningum. Um er að ræða heimildir til Símans hf. og Fjarskipta ehf., á báðum tíðnisviðum og Nova ehf. og IMC Íslands ehf. á 1800 MHz tíðnisviðinu. Í nýjum tíðniheimildum fyrir 1800 MHz er opnað á þann möguleika að tíðnisviðið nýtist jafnframt fyrir fjórðu kynslóðar farsímaþjónustu (LTE). Slíkt mun þó ekki verða mögulegt fyrr en að afloknu uppboði á lausum tíðnum á tíðnisviðinu. Stefnir stofnunin að því að halda slíkt uppboð á 1800 MHz og 800 MHz tíðnisviðunum síðar á árinu.Tíðniheimildirnar á 1800 MHz tíðnisviðinu nú eru því gefnar út með fyrirvara um frekari skilyrði um útbreiðslu með tilliti til fjórðu kynslóðar farsímaþjónustu. Skal hún vera í samræmi við lágmarkskröfur sem mótaðar verða í skilmálum áætlaðs uppboðs. Í tíðniheimildum fyrir 900 MHz tíðnisviðið er nýtingin bundin við GSM og UMTS þjónustu, þ.e. þriðju kynslóðar farsímaþjónustu. Með endurútgáfu tíðniheimildanna nú er innheimt gjald á grundvelli bráðabirgðaákvæðis III í lögum, nr. 81/2003, um fjarskipti, sbr. lög, nr. 146/2010, um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003, sem Alþingi samþykkti í desember 2010. Alls er um að ræða 115.700.000,- kr. sem renna munu í fjarskiptasjóð. Nánari skýringar á forsendum PFS um framtíðarskipulag framangreindra tíðnisviða er að finna í niðurstöðuskjali samráðs sem fram fór á síðasta ári. Útgefnar tíðniheimildir má skoða í töflu yfir skráð fjarskiptafyrirtæki með tíðniheimild hér á vefnum.