Fréttasafn
7. júní 2012
RÚV þarf ekki að greiða Vodafone fyrir flutning á dagskrá
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2012 varðandi beiðni Fjarskipta ehf. (Vodafone) um íhlutun PFS til að kostnaðargreina flutning félagsins á dagskrárefni RÚV á fjarskipaneti sínu á sínu, sbr. 47. gr. fjölmiðlalaga. RÚV taldi sér ekki skylt að greiða fyrir flutninginn þar sem félagið hafði ekki óskað eftir slíkum flutningi. PFS kemst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur, á grundvelli 47. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, til að stofnunin ákvarði endurgjald RÚV fyrir flutning Vodafone á sjónvarpsútsendingum RÚV á dreifikerfi sínu þar sem ekki hefur verið óskað eftir slíkum flutningi af hálfu RÚV, sbr. 44. gr. fjölmiðlalaga. Í ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að við túlkun flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæða nýrra fjölmiðlalaga verði að beita þröngri lögskýringu. Út frá skýrum ákvæðum laganna, lögskýringargögnum og almennum lögskýringarsjónarmiðum verði ekki annað talið en að beiðni verði að koma fram af hálfu þess sem óskar aðgangs að dreifikerfi eða efni, svo að til greiðsluskyldu geti komið á grundvelli laganna. Ákvæðin séu sjálfstæð í beitingu en ekki svo samofin að til greina komi að aðili geti krafist endurgjalds án þess að fyrir liggi ósk um slíkt frá gagnaðila líkt og málatilbúnaður Vodafone byggir m.a. á. Þá kemst PFS að þeirri niðurstöðu að krafa 46. gr. fjölmiðlalaga um jafnræði við gerð og framkvæmd samninga fyrir flutning sjónvarpsútsendinga, skv. flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæðum laganna, verði ekki túlkuð með þeim hætti að hún ryðji úr vegi skýrri kröfu framangreindra ákvæða um að beiðni um flutning verði að koma fram af hálfu greiðsluskylds aðila. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 19/2012 - Beiðni Fjarskipta ehf. um íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 47. gr. laga, nr. 38/2011, um fjölmiðla
1. júní 2012
PFS samþykkir beiðnir Íslandspósts um heimildir til að loka póstafgreiðslum að Laugarvatni og í Mjóafirði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur með ákvörðunum nr. 17 og 18/2012, samþykkt beiðnir Íslandspósts um heimildir til að loka póstafgreiðslum fyrirtækisins að Laugarvatni og í Mjóafirði Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 17/2012 um lokun póstafgreiðslu að Laugarvatni (PDF) Ákvörðun PFS nr. 18/2012 um lokun póstafgreiðslu í Mjóafirði (PDF)
31. maí 2012
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað 2011 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn árin 2009 - 2011. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2011 (PDF) Sjá einnig eldri tölfræði um fjarskiptamarkaðinn
29. maí 2012
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um að Tal skuli lækka verð sitt fyrir að ljúka símtölum úr öðrum kerfum
Nánar
Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 2/2012, dags. 25. maí 2012, staðfesti nefndin ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 3/2012 frá því janúar sl. þar sem IP-fjarskipti ehf. (Tal) var útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímaneti félagsins. Voru viðeigandi kvaðir lagðar á fyrirtækið, m.a. um lækkun lúkningarverðs. Lúkningarverð er það verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. Tal hóf að veita lúkningarþjónustu haustið 2010 og höfðu kvaðir ekki hvílt á fyrirtækinu fram að töku hinnar kærðu ákvörðunar. Tal hafði boðið lúkningarþjónustu á tæpar 13 kr./mín frá upphafi og því ljóst að verulegur munur var orðinn á lúkningarverði félagsins og annarra farsímafyrirtækja, en lúkningarverð Símans og Vodafone er 4,5 kr./mín. og Nova og Alterna 6,3 kr./mín. Í hinni kærðu ákvörðun var Tali gert að lækka lúkningarverð sitt niður í 5,5 kr./mín. frá og með 1. mars 2012. Í ákvörðuninni kom einnig fram að lúkningarverð allra íslenskra farsímafyrirtækja skuli síðan vera orðið jafnt þann 1. janúar 2013, þ.e. 4 kr./mín., eða önnur upphæð sem PFS kann að ákvarða fyrir þann tíma. Ofangreindar breytingar leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu, þegar hringt er í annað farsímafélag, verður ekki lengur til staðar. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á viðkomandi markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. Að mati PFS hefur átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa og hefur kostnaðinum verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- og talsímanetum. Með ákvörðun PFS sem nú hefur verið staðfest sér loks fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli. Borið hefur á kvörtunum og óánægju frá neytendum um að þeir eigi erfitt með að greina kostnað fyrir farsímaþjónustu þegar hringt er á milli kerfa annars vegar og innan neta viðkomandi farsímafélags hins vegar, en síðarnefndu símtölin eru oft án endurgjalds. Með þessari ákvörðun hverfur því ein megin forsendan fyrir mismunandi verðlagningu fyrir símtöl innan og utan kerfa farsímafélaganna og hinu flókna og ógagnsæja verðfyrirkomulagi. Þess skal þó getið að um er að ræða heildsöluverðlagningu milli farsímafélaganna sem ekki þarf að endurspeglast alfarið á smásölumarkaði. Að mati PFS eru þó allar forsendur til staðar fyrir verðlækkanir og einföldun á gjaldskrám á smásölumarkaði í kjölfar lækkana lúkningarverða á heildsölustigi. Tal byggði kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar PFS m.a. á því að stofnunin hefði brotið gegn hinum ýmsu form- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins, eins og rannsóknarreglu, andmælarétti, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu. Eins og að ofan greinir féllst úrskurðarnefnd ekki á málatilbúnað Tals. Tal hélt því m.a. fram að félagið hefði fengið mun skemmri frest en önnur farsímafyrirtæki hafa fengið til að lækka lúkningarverð sín í fyrri ákvörðunum PFS. PFS byggði á því að þar sem Tal væri aðeins sýndarnetsaðili, þ.e. hefði aðgang að farsímasendum Símans gegn gjaldi, en ekki netrekandi þyrfti félagið ekki eins mikla meðgjöf í formi hærri lúkningargjalda og félög sem hefðu byggt upp farsímanet sín frá grunni og lagt út í miklar fjárfestingar, eins og t.d. Nova. Úrskurðarnefnd staðfesti þennan skilning PFS, auk þess sem nefndin taldi stofnunina ekki hafa gengið of langt við útfærslu á lækkunarferli Tals, eins og félagið hélt fram í kæru sinni. Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2012 (PDF)
25. maí 2012
Breyting á leyfilegum tíðnisviðum fyrir þráðlausa hljóðnema
Nánar
Þann 29. febrúar sl. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs við hagsmunaaðila um fyrirhugaða breytingu á tíðnisviðum sem leyfð eru fyrir þráðlausa hljóðnema. Ákveðið hefur verið að efsti hluti UHF sjónvarpsbandsins verði notaður fyrir farnetsþjónustu og er stefnt að uppboði á tíðnisviðinu 791-821 / 832-862 MHz fyrir slíka þjónustu síðar á þessu ári. Hingað til hefur verið heimilt að nota ónotaðar sjónvarpsrásir á þessum tíðnisviðum fyrir þráðlausa hljóðnema, þó þannig að þær heimildir hafa ávallt verið víkjandi. Þar sem nú er búið að skilgreina þessi tíðnisvið eingöngu fyrir farnetsþjónustu þurfa þeir sem hafa notað áðurnefnd tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema að færa notkun sína. Miðað er við að búið verði að færa þráðlausu hljóðnemana yfir á önnur tíðnisvið um næstu áramót. Þau tíðnisvið sem heimiluð eru fyrir þráðlausa hljóðnema koma fram í í sam-evrópsku tilmælunum ERC/REC T/R 70-03 (viðauka 10 á bls. 20). Sjá nánar í niðurstöðuskjali PFS að loknu samráði um tíðnisvið fyrir þráðlausa hljóðnema (PDF)
24. maí 2012
Ný verðskrá Íslandspósts innan einkaréttar, nýir viðskipta- og afsláttarskilmálar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 16/2012 þar sem samþykkt er ný verðskrá Íslandspósts innan einkaréttar. Auk þess hefur stofnunin yfirfarið forsendur Íslandspósts að því er varðar afsláttarfyrirkomulag fyrir svokallaðan magnpóst. Þessu tengdu er lagt fyrir Íslandspóst að gera tilteknar breytingar á viðskiptaskilmálum félagsins vegna umræddra breytinga. Markmið breytinganna á uppbyggingu verðskrár Íslandspósts er að tengja betur saman, en verið hefur hingað til, kostnað Íslandspósts af einstökum þjónustuleiðum. Samhliða því sem þjónustuframboð er aukið. Helstu breytingar á verðskrá Íslandspósts og viðskiptaskilmálum eru þær að verðskrá fyrir almenn bréf (A þjónusta, dreifing daginn eftir) fer úr 97 kr. í kr. 120. Hins vegar á almenningur nú kost á að kaupa svokallaða B þjónustu sem felur í sér dreifingu innan 3ja daga frá póstlagningu, en gjaldið fyrir slíka þjónustu mun verða 103 kr. Fyrirkomulag af þessu tagi, þ.e. að hægt er að kaupa mismunandi þjónustustig, hefur verið við lýði í flestum nágrannalöndum okkar um nokkurt skeið. Verðskrá fyrir magnpóstsaðila hefur einnig tekið nokkrum breytingum frá því sem nú er. Sett eru 2 grunnverð eftir því hvaða þjónusta keypt er hverju sinni, þ.e. A þjónusta eða B þjónusta. Grunnverð fyrir A þjónustu verður 88 kr. og fyrir B þjónustu 71 kr. Þessu til viðbótar fá magnpóstsaðilar afslætti í samræmi við afhent magn í hvert sinn og á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið viðmiðunartímabil. Breytingarnar í heild fela í sér um 8% hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar miðað við vegið meðaltal. Gert er ráð fyrir að hin nýja verðskrá sem og skilmálar henni tengdir taki gildi 1. júlí 2012. Ný verðskrá Íslandspósts (linkur) Ákvörðun PFS nr. 16/2012 Viðauki A, samráðsskjal PFS, dags. 9. desember 2011 Viðauki B, svör við athugasemdum hagsmunaaðila Viðauki C, yfirferð PFS á útreikningum Íslandspósts á grunnverðum í gjaldskrá innan einkaréttar Viðauki D, svör við athugasemdum vegna skilmálabreytinga Nýir Viðskiptaskilmálar
18. maí 2012
PFS kveður á um breytingar á viðmiðunartilboðum um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímakerfi Símans
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 15/2012 þar sem stofnunin kveður á um tilteknar breytingar á viðmiðunartilboðum Símans um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímakerfum félagsins. Auk þess kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn gagnsæiskvöð á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum (markaður 15) sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 4/2007 með því að fjarlægja umrædd viðmiðunartilboð af heimasíðu félagsins á tímabilinu janúar 2010 til apríl 2011. Ákvörðun þessi tengist ákvörðun PFS nr. 13/2012, frá 7. maí s.l., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að símtöl á milli viðskiptavina Símans og viðskiptavina Tals væru utankerfissímtöl en ekki innankerfissímtöl eins og Síminn hafði haldið fram. Því bæri að innheimta gagnkvæma lúkningu á milli félaganna. Sýndarnet Tals, sem hýst er í farsímakerfi Símans, var því talið sjálfstætt farsímakerfi. Með ákvörðunum PFS nr. 19/2009 og nr. 20/2009 hafði PFS samþykkt viðmiðunartilboð Símans fyrir endursölu- og sýndarnetsaðgang með tilteknum breytingum. Þann 10. janúar 2010 gerðu Síminn og Tal með sér samning um sýndarnetsaðgang Tals að farsímaneti Símans. Umræddur samningur vék í veigamiklum atriðum frá áður samþykktu viðmiðunartilboði um sýndarnetsaðgang. Því lagði PFS fyrir Símann að breyta viðmiðunartilboði sínu til samræmis við umræddan sýndarnetssamning við Tal. Með þeim breytingum sem PFS hefur nú kveðið á um telur stofnunin að fullt jafnræði sé komið á milli umrædds samnings og umrædds viðmiðunartilboðs. Síminn skal birta hin uppfærðu viðmiðunartilboð um endursölu- og sýndarnetsaðgang eigi síðar en 1. júní n.k. PFS vekur þó athygli á því að samkvæmt ákvörðun PFS nr. 11/2012, frá 30. mars sl., nýtur Síminn ekki lengur umtalsverðs markaðsstyrks á ofangreindum markaði 15. Engu að síður gilda kvaðir á Símann á viðkomandi markaði áfram til 30. september n.k., að undanskilinni aðgangskvöð sem gildir til 30. mars 2013. Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðauka:Ákvörðun PFS nr. 15/2012 ásamt viðauka með fyrirmælum PFS um breytingar á umræddum viðmiðunartilboðum (PDF)
16. maí 2012
Fjarskiptabúnaður radíóáhugamanns ekki talinn valda skaðlegri geislun
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2012 vegna kvörtunar um heilsufarslega skaðleg áhrif rafsegulgeislunar frá fjarskiptasendibúnaði. Kvartað var til stofnunarinnar vegna fjarskiptabúnaðs radíóáhugamanns í nágrenni kvartanda sem taldi að rafsegulgeislun frá búnaðinum hefði spillandi áhrif á bæði andlegt og líkamlegt heilsufar hans.Gerði kvartandi þá kröfu að slökkt yrði á búnaðinum og frekari notkun hans bönnuð af hálfu PFS. PFS hefur hlutverki að gegna ef upp koma tilvik um rafsegulmengun. Er stofnuninni þá heimilt að takmarka útgeislað afl sendis. Þessari heimild verður þó ekki beitt nema að uppfylltu því skilyrði að sýnt þyki að heilsu manna geti stafað hætta af geisluninni. Það er ekki á færi Póst- og fjarskiptastofnunar að ákveða slík heilsuverndarmörk og meta hvort umhverfi og aðstæður séu með þeim hætti að mönnum sé hætta búin hvað þetta varðar. Við slíka ákvörðun verður að byggja á sérfræðilegu mati Geislavarna ríkisins sem í þessu tilviki sýndi að rafsegulgeislun inni á heimili kvartanda og í nánasta umhverfi við það væri fyrir innan viðmiðunarmörk Alþjóðaráðsins um varnir gegn ójónandi geislun, ICNIRP, sem ákveðin eru með tilliti þeirra skaðlegu áhrifa sem of mikil geislun kann að hafa á heilsu manna. Reyndust mælingar í flestum tilvikum vera langt fyrir innan umrædd mörk. Er það mat ICNIRP að engar vísindalegar sannanir liggi fyrir um að rafsegulgeislun innan þessara viðmiðunarmarka geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna.Sjálfstæðar mælingar sem PFS framkvæmdi voru í samræmi við niðurstöðu Geislavarna ríkisins. PFS telur því ekki vera forsendur til þess að fallast á kröfu kvartanda um að notkun fjarskiptasendibúnaðar radíóáhugamannsins verði bönnuð. Þá eru heldur ekki forsendur til þess að stofnunin dragi úr leyfilegum sendistyrk sendibúnaðarins eða mæli fyrir um breytta stefnuvirkni loftnetsins. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 12/2012 (PDF) Nánari upplýsingar um geislavarnir og viðmiðunarmörk má finna á vef Geislavarna ríkisins, www.gr.is og á vef ICNIRP (e. International Commission on Non-Ionizing Radiation Protection). ICNIRP er sjálfstætt alþjóðlegt ráð um varnir gegn ójónandi geislun sem hefur aðsetur í Þýskalandi. Meginhlutverk ráðsins er að greina og rannsaka mælingar, útreikninga og önnur gögn með það að markmiði að veita leiðbeinandi ráðgjöf um hvernig megi forðast skaðleg áhrif rafsegulgeislunar á líf og heilsu manna.