Fréttasafn
8. október 2012
Samevrópsk æfing í viðbrögðum við netárásum
Nánar
Eftir því sem netárásir í heiminum verða umfangsmeiri og víðtækari verður alþjóðleg samvinna mikilvægari til að hægt sé að bregðast við og verjast truflunum og tjóni sem slíkar árásir geta valdið. Þann 4. október síðastliðinn var haldin samevrópsk æfing í samhæfingu aðgerða gegn alvarlegum og útbreiddum netárásum í Evrópu. Í æfingunni voru sviðsettar víðtækar og útbreiddar netárásir víða í álfunni. Æfingin var skipulögð af Net- og upplýsingaöryggisstofnun Evrópu, ENISA, og var henni fyrst og fremst ætlað að koma á og prófa samskipti og samvinnu viðbragðsaðila milli landa og innan hvers lands, við þær aðstæður sem geta skapast þegar um alvarlegar og umfangsmiklar netárásir er að ræða. Öll lönd Evrópusambandsins og EFTA löndin (Ísland, Noregur, Lichtenstein og Sviss) tóku þátt í æfingunni með einum eða öðrum hætti. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS, skipulagði framkvæmd æfingarinnar hérlendis og tók þátt í henni fyrir Íslands hönd ásamt fyrirtækjum úr einkageiranum. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar taka virkan þátt í slíkri æfingu en árið 2010 var haldin fyrsta samevrópska æfingin gegn netárásum. Þetta var einnig í fyrsta sinn sem bæði opinberir aðilar og aðilar úr einkageiranum tóku sameiginlegan þátt í æfingu af þessu tagi. Þátttaka í æfingunni og skipulagning hennar hér innanlands er fyrsta stóra verkefni netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar, sem tekur formlega til starfa í nóvember nk. Sveitin mun starfa samkvæmt sérstöku ákvæði sem innleitt var í fjarskiptalög með lagabreytingu í júní sl. (Sjá 8. gr. laga nr. 62/2012)Í innanríkisráðuneytinu er nú unnið að reglugerð sem ætlað er að setja nánari fyrirmæli um starfsemi sveitarinnar. Upplýsingar um hlutverk og markmið netöryggissveitarinnar er að finna á heimasíðu hennar, www.cert.is. Sjá einnig frétt um samevrópsku æfinguna, Cyber Europe 2012, á vef Net- og upplýsingaöryggisstofnunar Evrópu, ENISA.
2. október 2012
Ísland kemur vel út í skýrslu um stöðu fjarskipta og upplýsingatækni í Evrópu.
Nánar
Fyrir skömmu kom út skýrsla sem Evrópusambandið lét vinna um stöðu fjarskipta og upplýsingatækni í þeim löndum sem nú teljast taka þátt í stækkunarferli Evrópusambandsins, þ.á.m. á Íslandi. Skýrslan var unnin af alþjóðlega rannsóknarfyrirtækinu Cullen International og er hluti af þriggja ára verkefni (2011 – 2013) sem fyrirtækið vinnur fyrir ESB. Þessi skýrsla er önnur í röðinni af fjórum slíkum skýrslum sem áætlað er að gefnar verði út á þeim þremur árum sem verkefnið stendur, þ.e. til 2013 Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir stöðu hinna ýmsu þátta fjarskipta og upplýsingatækni í löndunum sem fjallað um og samanburð við löndin innan ESB, auk þess sem tilhögun eftirlits og staða eftirlitsstofnana er skoðuð. Almennt séð gefur skýrslan jákvæða mynd af stöðu Íslands á þessu sviði. Tiltekið er að Íslendingar séu langt komnir með að laga fjarskiptaumhverfi sitt að lögum og regluverki ESB og í samanburði við ESB löndin og önnur lönd í stækkunarferlinu kemur Ísland vel út á nær öllum sviðum. Auk þess að birta samanburð og fjalla um stöðuna á sviði fjarskipta og upplýsingatækni er horft til framtíðar og þess sem leggja þarf áherslu á varðandi fjarskiptamarkaðinn á næstunni. Varðandi Ísland er í þessari skýrslu lögð áhersla á vinnu við aðra umferð markaðsgreininga, sem nú er í fullum gangi innan PFS. Einnig er sérstaklega talað um endurskipulagningu tíðnimála en PFS setti fram nýja tíðnistefnu á síðasta ári og fyrir dyrum standa útboð á tíðnum á 800 MHz og 1800 MHz, eða svokölluðum 4G tíðnum. Í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn þess að eftirlitsstofnanir hafi fjárhagslegt sjálfstæði og valdheimildir til að fylgja eftirlitshlutverki sínu eftir. Varðandi Ísland er sérstaklega bent á að styrkja þurfi þessa tvo þætti hjá eftirlitsstofnuninni, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun. Upplýsingum sem fram koma í skýrslu Cullen var safnað hér á landi með aðstoð ýmissa aðila, m.a. Póst- og fjarskiptastofnunar. Skýrsluna má nálgast á vef Cullen International. Þar er einnig að finna fyrri skýrsluna sem kom út haustið 2011.
1. október 2012
Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli vegna uppsetningar og frágangs Gagnaveitu Reykjavíkur á ljósleiðaralögnum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 26/2012, vegna kvörtunar um frágang ljósleiðaralagna Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR). Taldi kvartandi m.a. að frágangi og uppsetningu fjarskiptalagnanna væri verulega ábótavant og krafðist þess að PFS tæki til skoðunar hvort frágangur væri í samræmi við gildandi lög og afleiddar heimildir auk þess sem kvartandi óskaði eftir áliti PFS á málinu í heild. PFS leitaði til faggilds og óháðs skoðunaraðila, til þess að skoða og meta hvort umræddar fjarskiptalagnir og frágangur á þeim væru í samræmi við lög og reglur og gildandi staðla um fjarskiptalagnir, sbr. ÍST 150:2009 og TS 151:2009. Með tilliti til skýrslu skoðunaraðila og fyrirliggjandi gagna í málinu, kemst PFS að þeirri niðurstöðu, að ýmsa vankanta sé að finna á frágangi lagnar og leggur fyrir GR að bæta úr þeim. Hins vegar bendir PFS á að tiltekin atriði, er ekki varða öryggi, séu frávíkjanleg að því gefnu að samkomulag um það náist á milli GR og viðeigandi aðila. Ennfremur kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að inntak ljósleiðara fyrir umræddar íbúðir og staðsetning húskassa, sem tengja skal við hvert inntak, sé ekki í samræmi við kröfur ákvæða 4. og 6. gr. reglna nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir, sbr. ÍST 150:2009 og TS 151:2009. Stofnunin telur hins vegar að þótt staðsetning fjarskiptainntaks og húskassa sé ekki í samræmi við reglur og gildandi staðla að öllu leyti, verði að horfa til nokkurra þátta í þeim efnum, s.s. að skv. TS 151:2009 er verkkaupa í sjálfsvald sett hversu ítarlega tæknireglunum er fylgt við uppbyggingu fjarskiptakerfis hans. Að mati stofnunarinnar felur umrædd undantekning það í sér að heimilt sé að víkja frá gildandi staðli og reglum með því skilyrði að verkkaupi (íbúðareigandi) veiti upplýst samþykki sitt fyrir slíkum frávikum, að því gefnu að ekki sé um nýbyggingu að ræða. Einnig verði að horfa til þess að um eldri byggingu er að ræða, þar sem kröfur um búnað og lagnaleiðir miðast við tækni byggingartímans. Þetta kann að leiða til þess að erfitt sé eða mjög kostnaðarsamt að fylgja staðlinum og reglunum eftir í hvívetna. Það er því niðurstaða PFS að þrátt fyrir að inntak ljósleiðara fyrir umræddar íbúðir og staðsetning húskassa sé ekki í samræmi við fyrrgreindar reglur og staðla sé ekkert því til fyrirstöðu að samþykkis verði aflað eftir á, eða að gerðar verði breytingar á núverandi fyrirkomulagi innanhússlagnanna sem aðilar þessa máls yrðu ásáttir um. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 26/2012 (PDF)
27. september 2012
Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða á markaði 7 (lúkning símtala í farsímanetum)
Nánar
Þann 26. september 2012 sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um verðsamanburð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðarins verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals frá og með 1. júlí 2013, í stað kostnaðargreiningar Símans sem PFS samþykkti árið 2010. Samkvæmt umræddri kostnaðargreiningu Símans eiga hámarks lúkningarverð allra farsímafyrirtækjanna að verða jöfn í 4 kr./mín þann 1. janúar n.k. Það verð gildir því til 1. júlí 2013 þegar verðin lækka í 1,66 kr./mín í samræmi við niðurstöðu ofangreinds verðsamanburðar. Í ákvörðun PFS nr. 3/2012, dags. 13. janúar s.l., um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7), var kveðið á um að PFS myndi framkvæma umræddan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember n.k., sem myndi vera grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja frá og með 1. janúar 2013. PFS skyldi síðan framkvæma slíkan verðsamanburð árlega fyrir umrædd tímamörk vegna lúkningarverða næsta árs á eftir. Í kjölfar innanlandssamráðs sem lauk þann 14. september 2012 ákvað PFS að fresta innleiðingu hins nýja verðs um hálft ár eða til 1. júlí 2013. Þetta er gert til að koma að nokkru leyti til móts við athugasemdir farsímafyrirtækjanna. Drög að ofangreindri ákvörðun voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í gær með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum
29. ágúst 2012
PFS framlengir samráðsfrest vegna gjaldskrár fyrir lúkningu símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna gjaldskrár fyrir lúkningu símtala í farsímanetum.Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni á netfangið hulda(hjá)pfs.is, eigi síðar en föstudaginn 14. september n.k. Ekki verður unnt að veita frekari frest til að koma með athugasemdir. Sjá tilkynningu um samráðið hér á vefnum frá 22. ágúst sl.
28. ágúst 2012
Reglur um hámarksverð á farsíma- og netlyklanotkun milli landa á EES svæðinu - Nýjar reglur bíða innleiðingar á Íslandi
Nánar
Sumarið 2007 setti Evrópusambandið fyrst reglur um hámarksverð á smásöluverð símtala í farsíma milli landa innan þess. Nauðsynlegt þótti að setja slíkar reglur því ljóst var að verðsamkeppni var ekki nægileg á þessum markaði og verð fylgdu ekki almennum lækkunum á verðum farsímasímtala. Reglurnar tóku gildi á Íslandi gegnum EES samninginn og náðu til þeirra símtala sem íslenskir farsímanotendur hringdu á meðan þeir voru staddir í Evrópulöndunum. Talsverðan tíma tók að innleiða reglurnar hér á landi en það var gert haustið 2008 og giltu þær til sumarsins 2009. Reglur voru settar í annað sinn þá um sumarið og voru fljótlega innleiddar hér. Þær voru í gildi til 30. júní 2012. Reglurnar eru settar til skamms tíma í hvert sinn og er síðan metið hvort samkeppni sé nægjanleg til að ekki þurfi að setja ný verðþök. Farsímafyrirtæki um alla Evrópu hafa hins vegar haft verðlag sitt alveg við hámarkið og því ekki keppt sín á milli í að bjóða hagstæð reikiverð. Reglur ESB um verðþök á farsímanotkun sem einnig giltu á EES svæðinu öllu, 2009 – 30. júní 2012: Að hringja Að svaraSent SMSMóttaka SMS Sumarið 2009 0,43 €/mín. 0,19 €/mín. 0,11 € frítt Sumarið 2010 0,39 €/mín. 0,15 €/mín. 0,11 € frítt Sumarið 2011 0,35 €/mín. 0,11 €/mín. 0,11 € frítt Upphæðirnar voru reiknaðar yfir í íslenskar krónur samkvæmt gengi 1. júní hvers árs, tóku gildi þann 1. júlí sama ár og giltu í eitt ár. Hámarksverð var þannig fest í íslenskum krónum í eitt ár í senn. Verðþök á farsímanotkun í Evrópu fyrir íslenska notendur frá 1. júlí 2011 – 30. júní 2012: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMS 72,52 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. 22,79 kr. frítt Nýjar reglur innan ESB frá 1. júlí 2012 – Hafa ekki verið innleiddar á ÍslandiÞriðju reglurnar um reikiverð tóku gildi innan ESB nú í sumar. Þar kemur inn sú nýjung að verðþak er sett á gagnanotkun í farsíma eða með netlyklum. Þessar reglur bíða þess að verða innleiddar á Íslandi og því hafa ekki gilt reglur um hámarksverð á reikisímtölum hjá íslenskum símafyrirtækjum síðan 1. júlí í sumar. Hámarksverð í evrum frá 1. júlí 2012: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn 0,29 €/mín. 0,08 €/mín. 0,09 €/mín. frítt 0,70 €/MB Ef búið væri að innleiða reglurnar hér væru hámarksverð fyrir íslenska neytendur á ferð í Evrópu þessi: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn 60,90 kr. /mín. 16,80 kr. /mín. 18,90 kr. /mín. frítt 147,02 kr./MB Sum íslensk fjarskiptafyrirtæki hafa lagað verðskrá sína að nýjum reglumÞó þeim sé það ekki skylt hafa stærstu innlendu farsímafyrirtækin öll fylgt þessari lækkun hámarksverða en minni fyrirtækin hafa ekki gert það. Verðskrár íslenskra farsímafyrirtækja eru nú eftirfarandi: Að hringjaAð svaraSent SMSMóttaka SMSGagnamagn Síminn 59,90 kr. /mín. 16,90 kr. /mín. 18,90 kr. frítt 142,90 kr./MB Vodafone 60,09 kr. /mín. 16,58 kr. /mín. 18,65 kr. frítt 105,52 kr./MB Nova 58,08 kr. /mín. 16,13 kr. /mín. 17,74 kr. frítt 141,98 kr./MB Tal 72,52 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. frítt 290,79 kr./MB Alterna 72,52 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. 21,74 kr. /mín. frítt 282,00 kr. /MB Símafélagið 72,52 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. 21,74 kr. /mín. frítt 282,00 kr. /MB Hringdu 72,52 kr. /mín. 22,79 kr. /mín. 21,74 kr. /mín. frítt 282,00 kr. /MB Af töflunni hér fyrir ofan sést að umtalsverður munur er á verði fyrir reikiþjónustu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa gengið á undan með góðu fordæmi og lagað verðskrá sína að ESB reglunum, þ.e. Nova, Símanum og Vodafone. Þrátt fyrir smávægileg frávik má segja að viðskiptavinir þeirra njóti sambærilegra kjara í notkun farsíma og 3G milli landa í Evrópu og þegnar landanna innan ESB. Þegar reglurnar hafa verið innleiddar hér á landi í gegn um EES samninginn munu íslensku farsímafyrirtækin þurfa að stilla verðskrár sínar að fullu til samræmis við reglurnar. Í innanríkisráðuneytinu hefur reglugerð vegna þessa verið undirbúin en bíður þess að innleiðingarferlinu á EES svæðinu ljúki.
22. ágúst 2012
PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá fyrir lúkningu símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að greiningu á heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Greiningin byggir á ákvörðun nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7), sem birt var þann 13. janúar sl. Samkvæmt ákvörðuninni skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. það verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. PFS skal framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember n.k., að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita aðferðarfræði við kostnaðargreiningu, sem nánar er lýst í frumdrögunum. Niðurstaða frumgreiningar PFS sem hér er lögð fram til samráðs er að frá og með 1. janúar 2013 til og með 31. desember 2013 skuli lúkningargjaldið vera 1,66 kr./mín. hjá öllum íslenskum farsímarekendum, þ.e. Símanum, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og Tali. Framangreint byggist á því að innleiðing hreinna (pure) LRIC kostnaðarlíkana í samræmi við tilmæli ESB og ESA hafa leitt til verulegra lækkana á lúkningarverðum meðal ríkja á EES-svæðinu að undanförnu. Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 7. september n.k. Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög - Heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (Markaður 7) (PDF) Sjá einnig: Ákvörðun nr. 3/2012 Tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 13. apríl 2011 (PDF)
13. ágúst 2012
PFS framlengir samráðsfrest vegna markaðsgreiningar á talsímamörkuðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna markaðsgreiningar á talsímamörkuðum.Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni á netfangið ragnar(hjá)pfs.is, eigi síðar en þriðjudaginn 21. ágúst n.k. Sjá tilkynningu um samráðið hér á vefnum frá 26.júní sl.