Fréttasafn
12. nóvember 2012
Ný skýrsla frá PFS: Tölfræði um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2012
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú nýja tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi áranna 2010 – 2012. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Sjá skýrsluna í heild:Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2012 (PDF) Sjá einnig eldri skýrslur og bakgrunnsupplýsingar hér á vefnum
6. nóvember 2012
Samráð við ESA um markaðsgreiningu á mörkuðum 2, 3 og 10 (upphaf, lúkning og flutningur símtala í talsímanetum)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðunum um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf (markaður 2), lúkningu (markaður 3) og flutning (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA) í föstum almennum talsímanetum. PFS hyggst útnefna Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum (markaður 2) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, þ.m.t. kvöð um aðgang og eftirlit með gjaldskrá. Þá hyggst PFS útnefna Símann, Vodafone, Nova, Hringdu og Símafélagið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir lúkningu símtala (markaður 3) í eigin talsímanetum félaganna og leggja viðeigandi kvaðir á þau. Auk aðgangskvaðar, hyggst PFS m.a. leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á félögin, þannig að lúkningarverð allra félaganna skuli orðin jöfn þann 1. mars n.k. PFS mun síðan ákvarða verð á umræddum markaði með verðsamanburði við þau ríki á EES-svæðinu sem beita nánar tilgreindum kostnaðargreiningaraðferðum við ákvörðun lúkningarverða. Að lokum hyggst PFS afnema kvaðir á Símann á markaði fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA), þar sem stofnunin telur að virk samkeppni ríki á þeim markaði. Drög að ofangreindum ákvörðunum voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Sjá nánar hér á vefnum: Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA Upplýsingar um markaðsgreiningu
6. nóvember 2012
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vegna breytinga á gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar, afsláttarskilmálum og viðskiptaskilmálum því tengdu.
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 5/2012, þann 31. október sl., úrskurðað í máli Póstmarkaðarins, Íslandspósts og Póstdreifingar gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Fyrirtækin kærðu ákvörðun PFS nr. 16/2012, frá 24 maí 2012, um breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, afsláttarfyrirkomulagi og viðskiptaskilmálum. Í hinni kærðu ákvörðun var samþykkt ný verðskrá Íslandspósts innan einkaréttar. Auk þess var kveðið á um nýtt afsláttarfyrirkomulag fyrir svokallaðan magnpóst. Þessu tengt var lagt fyrir Íslandspóst að gera tilteknar breytingar á viðskiptaskilmálum félagsins. Markmið breytinganna á uppbyggingu verðskrár Íslandspósts var m.a. að tengja betur saman en áður kostnað Íslandspósts af einstökum þjónustuleiðum. Helstu breytingar á verðskrá Íslandspósts voru þær að verðskrá fyrir almenn bréf (A þjónusta, dreifing daginn eftir) fór úr 97 kr. í 120 kr. Samhliða var kveðið á um svokallaða B þjónustu sem felur í sér dreifingu innan 3ja daga frá póstlagningu, en gjaldið fyrir slíka þjónustu var ákveðið 103 kr. Verðskrá fyrir magnpóstsaðila tók einnig nokkrum breytingum. Sett voru tvö grunnverð eftir því hvaða þjónusta keypt er hverju sinni, þ.e. A þjónusta eða B þjónusta. Grunnverð fyrir A þjónustu var ákveðið 88 kr. og fyrir B þjónustu 71 kr. Þessu til viðbótar var kveðið á um magnafslætti fyrir afhent magn í hvert sinn og á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið viðmiðunartímabil. Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum forsendur PFS í hinni kærðu ákvörðun, aðrar en þær sem vörðuðu afslátt á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið tímabil. Einnig felldi nefndin úr gildi skilmála sem heimilaði 2% frávik frá því að ekki mætti blanda saman pósti til útlanda við innanlandspóst. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 (PDF)
2. nóvember 2012
Ákvörðun PFS vegna kvartana um reikningagerð Hringdu ehf.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2012, vegna tveggja kvartana um reikningagerð Hringdu ehf. Töldu báðir kvartendur að reikningagerð á vegum fyrirtækisins uppfyllti ekki kröfur reglugerðar nr. 526/2011 um reikningagerð, þar sem þeim bærust ekki sundurliðaðir reikningar frá félaginu og væri því ókleift að sjá hvað lægi að baki þeirri heildarfjárhæð sem þeim væri gert að greiða fyrir þjónustu félagsins. PFS benti Hringdu m.a. á að út frá skýru orðalagi 38. gr. fjarskiptalaga væri ljóst að áskrifendur tal- og farsímaþjónustu ættu rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða, frá þeim fjarskiptaþjónustuaðila sem þeir eiga viðskipti við. Vísaði stofnunin í því sambandi til áðurnefndrar reglugerðar nr. 526/2011. Taldi PFS það því engum vafa undirorpið að í gildi væru skýrar reglur fyrir fjarskiptafyrirtæki um birtingu, fyrirkomulag og gerð reikninga fyrir fjarskiptaþjónustu, enda hljóti það að teljast grundvallarforsenda allra viðskipta að fyrirtæki sendi reikning til viðskiptamanna sinna vegna aðkeyptrar þjónustu, þar sem fram kemur með skýrum hætti fyrir hvað viðkomandi reikningur stendur, og viðskiptavinurinn sé þannig upplýstur um sín kaup og kjör hverju sinni. Það er því m.a. niðurstaða PFS að sú háttsemi Hringdu ehf. að sundurliða ekki reikninga kvartenda hafi brotið gegn 1. mgr. 38. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sbr. 6. gr. og 7. gr. reglugerðar nr. 526/2011, um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu. Er fyrirtækinu gert að endurskoða reikingagerð sína með tilliti til ofangreindrar reglugerðar. Ennfremur skal fyrirtækið upplýsa Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirkomulag félagsins að því er varðar birtingarhátt reikninga til viðskiptavina sinna almennt, auk þess sem því ber að afhenda stofnuninni almenna og staðlaða fyrirmynd að reikningum félagsins fyrir 30. desember n.k Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 28/2012 vegna kvartana um reikningagerð Hringdu ehf. (PDF)
1. nóvember 2012
Ákvörðun PFS um lækkun lúkningarverðs bætir hag neytenda á farsímamarkaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2012 varðandi heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Þær breytingar sem kveðið er á um í ákvörðuninni leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu verður ekki lengur til staðar, þ.e. þegar hringt er í annað farsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á þessum markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á því neti. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur í sumum tilvikum átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með ákvörðuninni nú og ákvörðun PFS nr. 3/2012 frá 13. janúar sl. sér nú fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli. Í dag eru lúkningarverð farsímafélaganna með þeim hætti að hámarksverð Símans og Vodafone er 4,5 kr./mín, Tals 5,5 kr./mín og Nova og IMC/Alterna 6,3 kr./mín. Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 32/2012, sem birt er í dag, verða lúkningarverð allra fyrirtækjanna jöfnuð þann 1. janúar nk. í 4 kr./mín. Þann 1. júlí nk. lækkar verðið svo í 1,66 kr./mín. Með ákvörðuninni telur PFS að mikilvægum áfanga sé náð varðandi jöfnun og lækkun lúkningarverða á íslenskum farsímamarkaði, sem ættu að koma neytendum til góða.Þess má geta að umrædd ákvörðun er sú fjórða sem PFS tekur á viðkomandi markaði frá árinu 2006. Þegar PFS hóf umrætt lækkunarferli á því ári námu hæstu lúkningarverð 15 kr./mín. Ákvörðunin byggir á ákvörðun PFS nr. 3/2012 frá því í janúar sl. þar sem viðkomandi markaður var greindur. Í þeirri ákvörðun komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn, Vodafone, Nova, Tal og IMC/Alterna væru með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningu símtala í eigin farsímanetum. Viðeigandi kvaðir voru lagðar á félögin, m.a. kvöð um eftirlit með gjaldskrá. Í ákvörðun 3/2012 kom ennfremur fram að PFS myndi framkvæma verðsamanburð á viðkomandi markaði, m.t.t. lúkningarverða á EES-svæðinu, eigi síðar en 1. nóvember 2012. Sá verðsamanburður myndi síðan verða grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja frá og með 1. janúar 2013. PFS skyldi síðan framkvæma slíkan verðsamanburð árlega fyrir umrædd tímamörk vegna lúkningargjalda næsta árs á eftir. Í ágúst sl. efndi PFS til innanlandssamráðs um drög að ofangreindum verðsamanburði. Í kjölfar þess samráðs ákvað stofnunin að fresta innleiðingu hins nýja verðs í 1,66 kr./mín. um hálft ár eða til 1. júlí 2013. Þetta var gert til að koma að nokkru leyti til móts við athugasemdir farsímafyrirtækjanna. Í lok september sl. voru hin uppfærðu drög send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Með bréfi, dags. 26. október sl., bárust athugasemdir ESA. ESA tók fram að þó svo að umrædd frestun væri ekki í fullu samræmi við tilmæli ESA frá 2011 um lúkningarverð, sem kváðu m.a. á um að verð skyldu lækkuð í kostnaðargreind verð eigi síðar en 1. janúar 2013, væri í þessu tilviki unnt að gefa PFS smávægilegt svigrúm til frestunar umræddrar lækkunar. Væri þá horft til þess að um frekari frestun yrði ekki að ræða. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á fyrri hluta næsta árs. Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum: • Ákvörðun nr. 32/2012 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)(PDF)• Viðauki A – Heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)• Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)• Viðauki C – Álit ESA. Sjá nánar um markaðsgreiningar hér á vefnum.
30. október 2012
PFS heimilar Íslandspósti að loka póstafgreiðslustöðum á Flateyri og Bíldudal
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir þar sem stofnunin samþykkir beiðnir Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslustöðum. Um er að ræða annars vegar póstafgreiðslu á Flateyri og hins vegar póstafgreiðslu á Bíldudal. Er það mat stofnunarinnar að sú þjónusta sem Íslandspóstur hyggst bjóða íbúum þessara bæjarfélaga í staðinn fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda. Sjá ákvarðanirnar í heild: Ákvörðun PFS nr. 30/2012 um lokun póstafgreiðslu á Flateyri (póstnúmer 425) (PDF) Ákvörðun PFS nr.31/2012 um lokun póstafgreiðslu á Bíldudal (póstnúmer 465) (PDF)
29. október 2012
Samráð um skilmála vegna rafræns uppboðs á tíðniheimildum á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun mun halda rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir farsíma- og farnetsþjónustu á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum í byrjun árs 2013. Gert er ráð fyrir að tíðniheimildir verði gefnar út á fyrsta ársfjórðungi sama árs.PFS auglýsir hér með eftir samráði við hagsmunaaðila um skilmála vegna uppboðsins. Boðin verða upp 60 MHz (2x30 MHz) í samtals fimm tíðniheimildum á 800 MHz tíðnisviðinu og 50 MHz (2x25 MHz) í fimm tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Tíðniheimildirnar fela í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota en leiða hvorki til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar yfir viðkomandi tíðnisviði. Tíðniheimildir á 1800 MHz verða tæknilega hlutlausar. Tíðniheimildirnar á 800 MHz tíðnisviðinu heimila notkun á hlutaðeigandi tíðnum fyrir farnetsþjónustu og eru bundnar ákveðnum lágmarkskröfum um útbreiðslu og uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu. Á 800 MHz tíðnisviðinu verður um að ræða eina tíðniheimild, 2x10 MHz með 25 ára gildistíma, sem kveður á um að 99.5% lögheimila og sama hlutfall vinnustaða, með heilsársstarfssemi, á öllum fyrirfram skilgreindum landssvæðum, skuli eiga kost á tiltekinni háhraðafarnetsþjónustu. Aðrar tíðniheimildir á tíðnisviðinu eru 2x5 MHz, gilda til 10 ára og fela í sér skuldbindingu um að 93,5% lögheimila og vinnustaða, óháð landsvæðum, skuli eigi kost á tiltekinni háhraðafarnetsþjónustu. Gagnaflutningshraði háhraðafarnetsþjónustunnar, fyrir þá aðila sem nú þegar eru handhafar tíðniheimilda til að veita UMTS þjónustu hér á landi og tengdra aðila, skal vera 2 Mb/s fyrir árslok 2014, 10 Mb/s fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s fyrir árslok 2020. Fyrir aðra aðila skal gagnaflutningshraði háhraðafarnetsþjónustunnar vera 10 Mb/s fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s fyrir árslok 2020 Ekki eru gerðar útbreiðslu- eða uppbyggingarkröfur í tíðniheimildum á 1800 MHz tíðnisviðinu. Settar eru ákveðnar takmarkanir á stærð tíðnisviða sem sami aðili getur verið tíðnirétthafi að að afloknu uppboði. Hvað varðar 800 MHz tíðnisviðið getur aðili, og aðilar tengdir honum, ekki verið handhafar að stærra tíðnisviði en sem nemur 2x20 MHz. Á 1800 MHz tíðnisviðinu getur aðili, og aðilar tengdir honum, að afloknu uppboði ekki haft yfir að ráða tíðniheimildum til nýtingar en sem nemur 2x15 MHz í heild. Umsögnum, athugasemdum og ábendingum skal skila til PFS fyrir lok mánudagsins 26. nóvember 2012. PFS mun svara hagsmunaaðilum sem senda inn athugasemdir og í birta endanlega skilmála uppboðsins að því loknu. Mun birting skilmálanna auglýst í blöðum og á heimasíðu stofnunarinnar. Nánari upplýsingar vegna samráðsins veitir Unnur Kr. Sveinbjarnardóttir, netfang: unnur(hjá)pfs.is. Ásamt drögum að skilmálunum sjálfum eru eftirfarandi fylgiskjöl hluti af skjalinu hér fyrir neðan: Fylgiskjal 1 - Þátttökublað Fylgiskjal 2 - Yfirlit yfir 1800 MHz tíðnisviðið Fylgiskjal 3 - Skýrsla Mannvits fyrir PFS: Mat á umfangi vegna uppboðs 4G tíðniheimilda Sjá samráðsskjalið í heild: Drög að skilmálum, ásamt fylgiskjölum, vegna uppboðs á tíðniréttindum fyrir farnetsþjónustu á 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum(PDF, 8,208 MB) Hér fyrir neðan er hægt að skoða fylgiskjal 3, skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits eingöngu:Mat á umfangi vegna uppboðs 4G tíðniheimilda, skýrsla - umfang og kostnaðarmat, unnið fyrir Póst- og fjarskiptastofnun, 29. okt. 2012 (PDF)
9. október 2012
Mælaborð fjarskiptamarkaðarins: Ný og aðgengileg birting tölfræðigagna
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú opnað Mælaborð fjarskiptamarkaðarins á vef sínum. Mælaborðið birtir tölfræðigögn um fjarskiptamarkaðinn á myndrænan og aðgengilegan hátt. Það er fyrirtækið DataMarket sem hefur útbúið gögnin til birtingar en fyrirtækið hefur sérhæft sig í slíkri framsetningu tölfræðigagna. Myndritin sem nú hafa verið birt eru níu talsins. Um er að ræða valda þætti úr tölfræðiskýrslu PFS um íslenska fjarskiptamarkaðinn fyrir árið 2011. Stofnunin vinnur slíkar skýrslur tvisvar á ári, fyrir hálft ár og heilt ár og verður mælaborðið uppfært reglulega þegar ný tölfræðiskýrsla kemur út. Gögnin nú sýna stöðu og þróun fjarskiptamarkaðarins til ársloka 2011. Mælaborðið er undir tölfræðihluta vefsins á slóðinni: http://pfs.is/maelabord.aspx Sjá einnig Tölfræðiskýrslu PFS um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2011 (PDF)