Fréttasafn
14. maí 2012
Síminn braut gegn jafnræðiskvöð á farsímamarkaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 13/2012 þar sem stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn jafnræðiskvöð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum. Með ákvörðun PFS nr. 18/2010 lagði PFS jafnræðiskvöð á Símann á framangreindum markaði þar sem félaginu var gert óheimilt að mismuna fyrirtækjum varðandi innheimtu lúkningargjalda. Á árinu 2010 gerðu Síminn og Tal með sér sýndarnetssamning sem fól í sér að Tal, sem þá hafði komið sér upp eigin símstöð, fékk aðgang að farsímasendum Símans og gat því hafið innheimtu gjalda vegna lúkningar símtala í sýndarneti sínu sem áttu sér upphaf í kerfum annarra fjarskiptafyrirtækja. Í ljós kom að Síminn og Tal innheimtu ekki gagnkvæm lúkningargjöld á milli félaganna, heldur aðeins gagnvart öðrum fjarskiptafyrirtækjum, þ.m.t. Vodafone og Nova. Síminn bar því við að um „innankerfissímtöl“ væri að ræða á milli Símans og Tals sem ekki bæri að innheimta lúkningu fyrir. Því hafi Síminn ekki mismunað og brotið gegn umræddri jafnræðiskvöð. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að um utankerfissímtöl sé að ræða á milli farsímakerfis Símans og sýndarnets Tals og því hafi borið að innheimta lúkningu á milli félaganna frá ágúst 2010 eins og félögin gerðu gagnvart Vodafone og Nova. Símanum er því gert að ná fram samkomulagi við Tal um gagnkvæma leiðréttingu á uppgjöri fyrir farsímaumferð á milli félaganna fyrir tímabilið sem um ræðir, miðað við að um utankerfissímtöl hafi verið að ræða með tilheyrandi lúkningargjöldum. Uppgjör þetta er háð ströngum skilyrðum og skal því lokið innan þriggja mánaða frá birtingu ákvörðunar þessarar. Að öðrum kosti ber Símanum að endurgreiða Vodafone og Nova innheimt lúkningargjöld frá lokum ágúst 2010 þar til félagið hefur látið af umræddri mismunun. Einnig kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Símanum sé óheimilt að veita smásölu félagsins, eða öðrum aðilum sem njóta heildsöluaðgangs að farsímaneti félagsins, hlutdeild í lúkningartekjum heildsölu félagsins. Símanum ber að leiðrétta slíkar millifærslur á milli deilda félagsins allt aftur til desember 2009. Þá skulu allir samningar á milli heildsölu og smásölu félagsins vera skriflegir, auk þess sem deildirnar skulu gera endursölusamning sín á milli í samræmi við gildandi viðmiðunartilboð um endursölusamning. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 13/2012 um brot Símans á jafnræðiskvöð á markaði fyrir lúkningu símtala í farsímaneti félagsins og hlutdeild smásölu Símans í heildsölutekjum (PDF)
8. maí 2012
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2012 að fjárhæð kr. 46.313.868. Skal framlagið greiðast með fyrirvara um stöðu jöfnunarsjóðs og heimild í fjárlögum. Um er að ræða framlag vegna talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og neyðarsímsvörunar sem Neyðarlínunni ohf. hefur verið gert skylt að veita. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 14/2012 - Umsókn Neyðarlínunnar ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2012 (PDF)
27. apríl 2012
PFS kallar eftir samráði: Umsókn iCell ehf. um tíðni á 3,5 GHz tíðnisviðinu vegna reksturs háhraða aðgangsnets
Nánar
iCell ehf. (iCell) hefur sótt um tíðniheimild (2x14 MHz) vegna reksturs háhraða aðgangsnets á 3,5 GHz (3400 – 3600 MHz) tíðnisviðinu . Í umsókninni er óskað eftir að tíðniheimildin nái til alls landsins. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur áður úthlutað iCell tíðniheimild á sama tíðnisviði sem einskorðuð er við Suðurland. Átta tíðniheimildum var úthlutað á 3,5 GHz tíðnisviðinu að undangengnu útboði árið 2006 og voru flestar á landsvísu. Athyglisvert er að af þessum átta aðilum eru aðeins tveir eftir sem ekki hafa skilað inn sínum heimildum Þannig hefur öllum landsdekkandi heimildum verið skilað inn. Þeir sem í dag hafa tíðniheimildir á 3,5 GHz tíðnisviðinu eru Ábótinn ehf., Gagnaveita Suðurlands ehf., Hringiðan ehf., Magnavík ehf., Martölvan ehf. og Síminn hf. Í öllum tilvikum er um að ræða 2x14 MHz staðbundnar tíðniheimildir. Ljóst er af framansögðu að ekki hefur verið mikil eftirspurn eða notkun á þessu tíðnisviði og það mikið tíðnisvið er laust að hægt væri að veita öllum þeim aðilum sem í dag hafa heimild á tíðnisviðinu landsdekkandi heimildir ef eftir því væri óskað, eða veita staðbundnar heimildir til fjölda nýrra aðila. Samkvæmt framangreindu telur PFS því að 2. mgr. 11 gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 svo og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum eigi við um þá umsókn sem hér um ræðir. Engu að síður telur PFS rétt og eðlilegt að viðhafa samráð við markaðsaðila um þá fyrirhuguðu ákvörðun að úthluta iCell umbeðnum tíðnum.Þá hefur PFS kallað eftir uppbyggingaráætlun iCell í framhaldi umsóknarinnar. Frestur til að skila inn umsögnum er til kl. 12 föstudaginn 11. maí 2012. Umsagnir berist til Póst- og fjarskiptastofnunar, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík eða á netfangið thorleifur(hjá)pfs.is. Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson forstöðumaður tæknideildar PFS.
13. apríl 2012
PFS hyggst úthluta RÚV tíðniheimild til stafrænna sjónvarpssendinga
Nánar
Þann 2. mars s.l. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs við hagsmunaaðila á fjarskipta- og sjónvarpsmarkaði um fyrirhugaða úthlutun stofnunarinnar á tíðniheimild til Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) til stafrænna sjónvarpssendinga. Annars vegar væri um að ræða úthlutun á einni rás (8 MHz) á UHF tíðnisviðinu fyrir höfuðborgarsvæðið og hins vegar annarri rás á (8 MHz) á VHF tíðnisviðinu til útsendinga í dreifbýlinu. Var samráðið opið öllum hagsmunaðilum og þeim boðið að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun, svo og almennt um skipulag PFS á umræddum tíðnisviðum til nánustu framtíðar. Athugasemdir bárust frá Fjarskiptum ehf. (Vodafone). Í meðfylgjandi skjali er að finna svör PFS við athugasemdum Vodafone og fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar um að úthluta RÚV tíðniheimild til stafrænna sjónvarpssendinga á UHF og VHF tíðnisviðunum, samkvæmt umsókn félagsins þar að lútandi. Verða drög að tíðniheimild send RÚV til umsagnar á næstu dögum. Sjá nánar: Niðurstaða samráðs PFS um úthlutun tíðniheimildar til RÚV fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar (PDF)
13. apríl 2012
4G tíðnir boðnar upp á Íslandi síðar á þessu ári
Nánar
Undanfarið hefur verið talsverð umræða um næstu kynslóð farnetsþjónustu sem oft er nefnd fjórða kynslóð eða 4G. Spurt er hvenær slík þjónusta verði komin í gagnið hér á landi, ekki síst í tengslum við mikla aukningu í notkun spjaldtölva og snjallsíma. Með 4G margfaldast flutningsgeta og hraði í fjarskiptanetum og einnig mun svokallaður tengitími styttast til muna frá því sem er í 3G þjónustunni. Margir eru því farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar og huga að því að kaupa sér tæki sem geta nýtt þessa tækni. 4G tæki byggð fyrir mismunandi tíðnisvið – ekki hægt að nota sömu tækin allsstaðar Þegar kaupa á tæki sem getur nýtt 4G tækni er nauðsynlegt að hafa í huga að þau tíðnisvið sem nota á fyrir þessa þjónustu eru ekki samræmd um allan heim. Hvert 4G tæki er byggt fyrir notkun á ákveðnum tíðnisviðum og þau svið sem notuð verða eru ekki þau sömu í Evrópu og t.d. í Bandaríkjunum. Ísland fylgir Evrópu hvað varðar skilgreind tíðnisvið fyrir ákveðna notkun. Það verður því ekki hægt að nota 4G tæki hér á landi eða annarsstaðar í Evrópu sem byggð eru fyrir 4G net í Bandaríkjunum eða Kanada. Hins vegar er ekki ólíklegt að þetta breytist á næstu árum og ný tæki verði þróuð og framleidd sem hægt verður að nota á mismunandi tíðnisviðum.Þetta er hið sama og gilti um farsíma þar til fyrir örfáum árum. Venjuleg farsímaþjónusta í Bandaríkjunum hefur verið veitt á öðrum tíðnum en í Evrópu og á Íslandi og áður fyrr þurfti fólk iðulega að verða sér úti um sérstaka síma þegar farið var á milli. Úthlutun á þessu áriSíðar á þessu ári mun Póst- og fjarskiptastofnun úthluta tíðnum fyrir 4G þjónustu á Íslandi. Það verður gert með uppboði og verður 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum úthlutað fyrst. Íslendingar geta því vænst þess að 4G farnetsþjónusta standi til boða hér á landi undir lok þessa árs eða á því næsta.
11. apríl 2012
Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um samstarf Já við Borgarleikhúsið í tengslum við útgáfu símaskrár.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2012 vegna kvörtunar um útgáfu símaskrár. Þjóðleikhúsið lagði fram kvörtunina og laut hún að þeirri ákvörðun Já upplýsingaveitna ehf. (Já) að fela Leikfélagi Reykjavíkur (Borgarleikhúsinu) efnistök í símaskrá og vinnu við myndskreytingar ásamt því að vera nefnt sem samstarfsaðili um útgáfu símaskrár. Taldi Þjóðleikhúsið m.a. markaðslegt ranglæti felast í að Borgarleikhúsinu væri veittur þessi aðgangur að símaskránni og eðlilegt væri að tekið yrði til skoðunar hvort regluverk og lög stæðust í öllum tilfellum. T.d. vildi kvartandi fá skorið úr um hvort Já geti talist fjarskiptafyrirtæki í skilningi laga nr. 81/2003 um fjarskipti og falli undir skilgreiningu þeirra um að teljast fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Í kvörtuninni var þess krafist að umrætt samkomulag milli Já og Borgarleikhússins yrði afturkallað. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Já teljist vera fjarskiptafyrirtæki í skilningi laga um fjarskipti nr. 81/2003 og hafnar kröfu Þjóðleikhússins um ógildingu og afturköllun á ákvörðun PFS nr. 22/2011 um útnefningu Já upplýsingaveitna með alþjónustuskyldur. Ennfremur vísar PFS frá kröfu Þjóðleikhússins um að ógilda samkomulag milli Já og Borgarleikhússins í tengslum við útgáfu símaskrár. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 10/2012 vegna kvörtunar um útgáfu símaskrár(PDF)
30. mars 2012
PFS afléttir kvöðum á Símann fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsölumarkað fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum. Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið, m.a. um að veita aðgang að farsímakerfi sínu. Slíkur aðgangur getur m.a. verið í formi innanlandsreikis, sýndarnetsaðgangs og endursöluaðgangs. Í kjölfar síðastgreindrar ákvörðunar hafa fyrirtæki eins og Tal og Alterna gert heildsölusamninga við Símann um aðgang að farsímaneti Símans, án þess að þurfa að byggja upp eigið dreifikerfi. Sá markaður sem hér um ræðir var talinn upp í tilmælum ESA frá 2004 um viðkomandi markaði sem álitið var að þyrfti að greina af fjarskiptaeftirlitsstofnunum með það fyrir augum að setja viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu, þar sem talið var að almennar samkeppnisreglur dygðu ekki til að efla samkeppni. Í endurnýjuðum tilmælum ESA frá 2008 var umræddur markaður felldur brott. Því þurfti PFS að greina umræddan markað á ný til að meta hvort þar ríkti nú virk samkeppni. Niðurstaða PFS er á þá leið að umræddur markaður stefni í átt að virkri samkeppni og því séu ekki efni til að viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Kvöðum á Símann er því aflétt á tilteknum aðlögunartíma. Aðgangskvöð á Símann skal gilda í 12 mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar og aðrar kvaðir í 6 mánuði. PFS mun áfram fylgjast náið með viðkomandi markaði og grípa inn í, t.a.m. með bráðabirgðaákvörðun, ef aðgangur að umræddum markaði lokast skyndilega. Þá getur Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu gripið inn í ef grunur vaknar um samræmdar aðgerðir netrekenda sem leiða til lokunar umrædds aðgangsmarkaðar. Markmið fjarskiptalaga og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins og leggja á fjarskiptafyrirtæki viðeigandi kvaðir til að efla samkeppnina, sé hún ekki talin nægjanlega virk. Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á árinu 2012. Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum: • Ákvörðun nr. 11/2012 (PDF)• Viðauki A – Greining á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)• Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að greiningu á heildsölumarkaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) (PDF)• Viðauki C – Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF) Sjá nánar um markaðsgreiningar hér á vefnum.
19. mars 2012
Ákvörðun PFS vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 9/2012 vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings. Má rekja upphaf þessarar ákvörðunar til erindis Hringdu ehf. þar sem félagið óskaði m.a. eftir því við PFS að stofnunin framkvæmdi kostnaðargreiningu á númeraflutningum á Íslandi. Var ennfremur lagt til, af hálfu Hringdu, að PFS myndi banna fjarskiptafélögum að rukka fyrir staka númeraflutninga enda fæli sú aðgerð í sér aðgangshindrun inn á markaðinn, auk þess sem að númeraflutningar hefðu ekki beinan kostnað í för með sér. Að lokum óskaði Hringdu eftir því að PFS heimilaði Hringdu að innheimta endurgreiðslu frá fjarskiptafyrirtækjunum fyrir umskráningu. Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að þau gögn sem lögð hafi verið fram í máli þessu geti ekki verið grundvöllur breytinga á gjaldskrá viðkomandi félaga þar sem samræma þurfi forsendur og framkvæmd kostnaðargreininga svo að PFS sé kleift að leggja mat á kostnað við númerflutninga á Íslandi. PFS hyggst hins vegar beita sér fyrir því að gjaldtaka fyrir númeraflutning milli fjarskiptafyrirtækja verði kostnaðargreind á næstu misserum með samræmdum hætti. Telur PFS ennfremur að umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutninga feli ekki í sér aðgangshindrun á markaði né sé það til þess fallið að hindra notendur í að nýta sér númera- og þjónustuflutning. Var kröfu Hringdu um endurgreiðslu á umsýslugjöldum vegna númera- og þjónustuflutnings vísað frá, auk þess sem PFS telur Hringdu óheimilt að synja fjarskiptafyrirtækjum um greiðslu umsýslukostnaðar. PFS fellst hins vegar á þá kröfu Hringdu að fjarskiptafyrirtæki skuli birta gjaldskrá vegna númera- og þjónustuflutnings, ef gjaldið er lagt á áskrifanda með beinum hætti. Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 9/2012 vegna ágreinings um umsýslugjald vegna númera- og þjónustuflutnings (PDF)