Fréttasafn
6. september 2005
Íslendingar greiða lægstu gjöld fyrir heimilissíma samkvæmt nýrri OECD-skýrslu
Nánar
Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um fjarskipti kemur fram að Íslendingar greiða enn lægstu gjöldin fyrir heimilissíma ef miðað er við kaupgetu, eða um þriðjung af því sem símnotendur greiða almennt í dýrustu OECD-ríkjunum. Er þá miðað við meðalnotkun þegar hringt er innanlands, milli landa og í farsíma. Sjá nánar um samanburð á gjöldum fyrir símnotkun. OECD birtir einnig lista yfir verð fyrir ADSL-notkun í flestum aðildarríkjum, en þar sem aðferðarfræði er enn í mótun liggur ekki fyrir samanburður í töflum. Sjá nýja skýrslu OECD um fjarskipti Sjá gjaldskrá og kannanir
2. september 2005
Kennt í fjarskiptarétti í fyrsta sinn hér á landi
Nánar
Löfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar munu á haustönn 2005 kenna meistaranemum í lögfræði við Háskólann í Reykjavík meginreglur í fjarskiptarétti. Er þetta í fyrsta sinn að fjarskiptaréttur er kenndur við íslenskan háskóla. Á námskeiðinu verður fjallað um tengsl fjarskiptaréttar og samkeppnisréttar og skoðað hvernig evrópskt laga- og regluverk hefur verið innleitt í íslensk lög. Í námskeiðslýsingu segir m.a.: Fjárskiptamarkaður er í örri þróun og það sama má segja um þær réttarreglur sem um hann gilda. Markaðurinn hefur þá sérstöðu, að á honum ríkti einkaréttur allt fram til ársins 1998. Þegar samkeppni var gefin frjáls höfðu fyrrum einkaréttarhafar yfirburðastöðu á markaði, bæði vegna mikillar markaðshlutdeildar og ómissandi aðstöðu eins og fjarskiptanet, sem nýjum fyrirtækjum var ómögulegt að koma sér upp. Til þess að gefa nýjum fyrirtækjum möguleika á að koma inn á markað þurfti að mæla fyrir um aðgang að fjarskiptanetum fyrrum einkaréttarhafa. Evrópusambandið innleiddi af þeim sökum löggjöf, sem ætlað var að stuðla að samkeppni í fjarskiptum á innri markaði ESB og er mikil áhersla lögð á samræmda innleiðingu og framkvæmd hennar í aðildarríkjum. Námskeiðið í fjarskiptarétti er þrjár einingar og verður m.a. farið yfir verklag við greiningu á fjarskiptamarkaði og þau úrræði sem kveðið er á um í lögum til að efla samkeppni og tryggja jafnræði. Kennarar eru Sigurjón Ingvason forstöðumaður lagadeildar PFS, Friðrik Pétursson forstöðumaður þjónustudeildar og Jóhanna H. Halldórsdóttir. Háskólinn í Reykjavík býður í haust í fyrsta sinn upp á meistaranám í lögum. Nemendur geta valið um áherslur og námsleiðir og sérhæft sig á ýmsum sviðum.
24. ágúst 2005
Gjöld fyrir alþjónustu innan eðlilegra marka - ný verðkönnun
Nánar
Samkvæmt 20. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) skylt að hafa eftirlit með gjaldskrám fyrir alþjónustu. Stofnunin á að sjá til þess að alþjónusta sé veitt á eðlilegu og viðráðanlegu verði og fylgjast með því að verðþróun sé í samræmi við kaupmátt innan lands. Auk þess má hafa hliðsjón af verðlagningu í viðmiðunarríkjum. Til alþjónustu í fjarskiptum heyrir m.a. talsímaþjónusta, rekstur almenningssíma og upplýsingaþjónusta um símanúmer 118 og hvílir sú kvöð á Símanum sem fyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild að veita þessa þjónustu. Til að framfylgja eftirlitsskyldunni gerði PFS í sumarbyrjun verðsamanburð á gjaldskrám fyrir talsímaþjónustu, símtölum úr almenningssímum og símtölum í 118 hér á landi og í viðmiðunarríkjum. Í ljós kom að verð fyrir þessa þjónustu hér á landi er innan eðlilegra marka. Gjaldskrá fyrir almenningssíma er töluvert lægri hér á landi en í Noregi og Svíþjóð og gildir þá einu hvort hringt er úr almenningssíma í fastanetssíma eða farsíma. Þá kemur fram að einnar mínútu símtal í upplýsingaþjónustuna 118 er ódýrari hér á landi en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en meira en helmingi dýrari en á Írlandi og Grikklandi. Í ljósi þessarar niðurstöðu sér PFS ekki ástæðu til að ákveða hámarksverð fyrir talsímaþjónustu, símtöl úr almenningssímum eða símtöl í 118, eins og heimild er til í 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga. Sjá verðsamanburð (pdf-snið 25,0 KB) Sjá verðsamanburð breska greiningarfyrirtækisins Teligen á símkostnaði á Norðurlöndum og í OECD-löndum. Maí 2005 (pdf-snið 116 KB). Sjá verðskrá Símans fyrir almenningssíma
23. ágúst 2005
Breiðband er búhnykkur - Evrópuverkefni
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun tekur þátt í einu af þeim mörgu verkefnum sem unnin eru undir hatti Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Verkefnið, sem gengur undir skammstöfunni BIRRA (Broadband in Rural and Remote Areas) og nær til fjögurra landa á norðurslóð, miðar að því afla gagna um hvernig nýta megi betur fjarskipta- og upplýsingatækni í dreifbýli. Fræðimenn við Tækniháskólann í Kemi Tornio í Finnlandi stýra verkefninu, en þátttakandur hér á landi auk PFS eru Byggðastofnun, Landsími Íslands, og bæjarfélögin á Ísafirði og á Sauðárkróki. Bændasamtökin og ráðgjafafyrirtækið IMG leggja líka til gögn og rannsóknarniðurstöður. Markmiðið með Birra-verkefninu er að sýna fram á að markviss uppbygging fjarskiptakerfa getur dregið til muna úr jaðaráhrifum, stuðlað að sérhæfingu í dreifbýli og styrkt samkeppnisstöðu byggða á norðurslóð. Liður í þessu er að kortleggja stöðuna, greina þarfir fyrir frekari uppbyggingu á innviðum fjarskiptakerfa og skoða hvernig samnýta megi tækni. Þessa dagana er verið að taka saman gögn um breiðbandsvæðingu á Ísafirði og á Sauðárkróki og helstu byggðarkjörnum í kringum þessi sveitarfélög. Stefnt er að því að taka viðtöl við sveitarstjórnarmenn og fulltrúa þróunarfélaga og fyrirtækja. Verðlagning á breiðbandsþjónustu verður einnig könnuð svo og notkunarmynstur og teknar verða saman upplýsingar um hvaða áætlanir eru uppi um frekari tækniuppbyggingu. Þá verður dregin upp mynd af því hvernig breiðbandið nýtist í daglegu lífi og störfum íbúa. Leitað verður svara við því hvernig bæta megi stjórnsýslu og þjónustu fyrirtækja og kannað verður hvort þau séu markvisst að nýta breiðbandstæknina. Sams konar þarfagreining verður gerð hjá sveitarfélögum í Lapplandi og Kainuu héraði í Finnlandi, í Västernorrlandi í Svíþjóð og á Skotlandseyjum. Þá verður reynslusögum af svæðunum safnað saman til að draga megi af þeim almennan lærdóm. Ari Jóhannsson er fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar í Birra-verkefninu. Sjá frekari upplýsingar um Birra-verkefnið Meira um breiðband
16. ágúst 2005
FM útvarp fyrir MP3 og iPod spilara - nýjar reglur í smíðum
Nánar
Evrópska samstarfsnefndin um fjarskipti (European Communications Committe, ECC) hefur til skoðunar hvort og þá hvaða reglur skuli gilda um nýja notkun FM-hljóðvarpstíðna (87,5-108 MHz), svo hlusta megi á tónlist og annað efni úr nýjum stafrænum spilurum s.s. iPOD í venjulegu FM-útvarpi. Um nokkurt skeið hefur í Bandaríkjunum verið seldur búnaður sem gerir fólki kleift að tengja spilara við útvarpsviðtæki t.d. í bílum og senda út á FM-tíðnum með mjög lítilli orku, þannig að það trufli ekki móttöku annarra útvarpssendinga. Sala á slíkum búnaði hefur verið bönnuð á evrópska efnahagssvæðinu, en engu að síður er talið að hann sé fluttur þangað í stórum stíl. Á fundi Evrópsku samstarfsnefndarinnar um fjarskipti í Reykjavík í júní s.l. var ákveðið að leita eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila fram til 15. september áður en lögð yrðu fram drög að reglum um notkun lágaflsbúnaðar á umræddu FM-tíðnisviði. Gert er ráð fyrir að útsent afl þessara mikró-senda sé 50 nW e.r.p. Vonir standa til þess að nýjar reglur verði samþykktar á næsta fundi ECC, sem haldinn verður í október n.k. Gefst þá tækifæri fyrir framleiðendur að setja á markað löglegan CE-merktan búnað á EES-svæðinu. Eigendur iPod og MP3 spilara ættu þá jafnframt að geta notað FM útvarpstækin í stað höfuðheyrnartóls til þess að njóta tónlistar.
28. júlí 2005
Síminn seldur til Skipta ehf.
Nánar
Landsíminn verður seldur Skiptum ehf., félagi í eigu Bakkavararbræðra, KB-banka og lífeyrissjóða, fyrir tæpa 67 milljarða króna. Þrjú tilboð bárust í Símann, öll frá innlendum félögum og voru þau öll metin gild. Fyrirtækið Skipti ehf, átti hæsta tilboðið, 66,7 milljarða króna, og fær að kaupa Símann. Fjárfestingarfélag Bakkavararbræðra Exista á 45% hlut í Skiptum, KB banki 30%, 4 lífeyrissjóðir eiga fimmtung oa aðrir minna. Kaupin eru fjármögnuð að mestu með eigin fé en einnig lánsfé sem KB banki sér um að útvega. Skrifað verður undir kaupsamning í Þjóðmenningarhúsinu á 5. ágúst, en hlutabréf og fé skipta um hendur að lokinni athugun Samkeppniseftirlits. Söluandvirði Símans verður að hluta til varið til að treysta innviði upplýsingasamfélagsins og framfylgja nýrri fjarskiptaáætlun.
12. júlí 2005
Frumdrög greiningar Póst- og fjarskiptastofnunar á farsímamörkuðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt frumdrög að greiningu farsímamarkaðaðarins á Íslandi. Þeir markaðir sem hafa verið greindir eru: Heildsölumarkaður fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum. Heildsölumarkaður fyrir lúkningu (endagjöld) símtala í einstökum farsímanetum. Greiningin leiðir í ljós að Síminn hefur umtalsverðan markaðsstyrk á GSM og NMT mörkuðum fyrir upphaf símtala. Til þess að efla samkeppni á þessum mörkuðum hyggst PFS leggja á Símann nýjar kvaðir sem eiga að tryggja að fyrirtækið verði við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang að farsímanetum og -þjónustu. Hvað varðar lúkningu símtala, þá hefur PFS komist að þeirri niðurstöðu að bæði Síminn og Og Vodafone eru með umtalsverðan markaðsstyrk í eigin farsímanetum. Því hyggst PFS leggja á fyrirtækin kvaðir sem tryggja eiga sanngjarnt heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og til lengri tíma litið draga úr þeim mun sem er á lúkningargjöldum fyrirtækjanna tveggja. Markaðsgreiningin er helsta verkfæri eftirlitsstofnana á fjarskiptasviði til að skapa evrópskum fjarskiptafyrirtækjum sambærileg starfsskilyrði og stuðla að virkri og heilbrigðri samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur. Markaðsgreiningin er stærsta einstaka verkefni PFS. Við gerð hennar var safnað viðamiklum upplýsingum um markaðinn og hegðun neytenda á markaðnum. Unnið er að frekari greiningu fjarskiptamarkaðarins og munu 18 undirmarkaðir verða greindir í heild. Má þar nefna símaþjónustu í fastaneti, breiðband, heimtaug, leigulínur og útvarpsdreifingu. Nú eru lögð fram frumdrög að greiningu tveggja farsímamarkaða og er fjarskiptafyrirtækjum, og öðrum sem áhuga hafa, boðið að gera athugasemdir við þau og koma að sjónarmiðum sínum áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Endanleg ákvörðun verður tekin þegar samráðsferli gagnvart markaðinum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er lokið. Frestur markaðsaðila til að skila athugasemdum er til 15. september 2005. Í framhaldi af því mun PFS taka afstöðu til athugasemda og síðan senda uppfærða markaðsgreiningu til ESA til endanlegrar samþykktar. Sjá kynningarrit um markaðsgreiningu - uppfært í ágúst 2005. (pdf-410 KB)
27. júní 2005
Ríkisútvarpið og 365 ljósvakamiðlar fá tíðnir fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gengið að tilboðum Ríkisútvarpsins og 365 ljósvakamiðla ehf. í UHF-tíðnir fyrir stafrænt sjónvarp á landsvísu. Tíu rásir voru boðnar út til útsendinga samkvæmt DVB-T staðli og rann tilboðsfrestur út 31. maí. Einungis þessi tvö fyrirtæki lögðu fram tilboð. Ríkisútvarpið fær úthlutað þremur rásum og verður ein rásanna alfarið notuð til að dreifa háskerpusjónvarpi. 365 ljósvakamiðlar ehf. fá úthlutað tveimur rásum. Í útboðslýsingu voru settar fram kröfur um að bjóðendur skyldu tryggja að uppbygging á dreifikerfi til 98% landsmanna yrði lokið innan tveggja ára. Tilboð beggja fyrirtækja þóttu uppfylla skilyrði um útbreiðslu sendinga og þjónustu við notendur og var því gengið að þeim báðum. Frekari upplýsingar veitir Sigurjón Ingvason forstöðumaður lögfræðideildar PFS í síma 510-15000Fréttatilkynning 27. júní 2005 Meira um UHF-útboðið.