Fréttasafn
23. júní 2005
Farsímanotkun i útlöndum - kynntu þér kjörin
Nánar
Rétt að benda farsímanotendum á að mikill munur getur verið á gjaldskrám fyrir símnotkun erlendis og heima fyrir. Því er skynsamlegt að kynna sér vel verð fyrir reikiþjónustu og aðra símþjónustu í því landi sem ferðast er til. Nokkrar ábendingar Í útlöndum greiðir farsímanotandinn hvort heldur er fyrir þau símtöl sem hann hringir sjálfur og þau símtöl sem honum berast. Öll símtöl fara í gegnum símgátt þjónustufyrirtækins á Íslandi, líka ef hringt er í vin eða ættingja sem eru með notandanum á ferðalagi og eru með honum í vinaáskrift. Gjaldskrá þess fyrirtækis sem íslenska símafyrirtækið hefur gert reikisamning við gildir fyrir alla símnotkun að viðbættu 20 % þjónustugjaldi og 24,5% virðisaukaskatti. Það kostar því töluvert meira að hringja erlendis frá til Íslands, en það kostar að hringja innanlands. Það kostar líka meira að taka á móti skilaboðum úr símsvaranum heima þegar dvalið er erlendis og jafngildir það millilandasímtali að hringja í talhólfið. Því er rétt að kynna sér fyrirfram á hvaða kjörum hægt er að nýta símsvarann á meðan dvalið er í útlöndum. Það kostar jafnan meira að senda textaskilaboð frá útlöndum og heim heldur en innanlands. Hægt er að nota flest fyrirframgreidd símkort í útlöndum, en það getur þurft að skrá sig fyrir slíkri þjónustu áður en lagt er í ferðalag. Því er mælt með því að notendur fyrirframgreiddra korta kynni sér kjörin og gangi úr skugga um það hjá þjónustufyrirtækinu hvort þeir geti notað þau í því landi sem ferðast er til. Í mörgum tilfellum getur komið sér vel fyrir farsímnotendur að velja sjálfir hvaða þjónustufyrirtæki þeir vilja nota á meðan þeir dveljast erlendis. Það gildir ekki síst um þá sem ferðast utan Evrópu. Forsendan er þó að þjónustufyrirtækið heima hafi gert reikisamning við fleiri en eitt símafyrirtæki í því landi sem ferðast er til. Því er rétt að kynna sér reikisamninga þjónustufyrirtækisins og bera saman gjaldskrá þeirra erlendu símafyrirtækja sem það hefur samið við. Í leiðbeiningum um notkun flestra farsíma eru upplýsingar um hvernig hægt er að velja farsímanet í útlöndum, telji notandinn að sú reikiþjónusta sem sjálfkrafa kemur upp, sé ekki sú ódýrasta. Kynntu þér vel á hvaða kjörum þú getur notað farsímann þinn í útlöndum. Á vefsíðum íslensku símafyrirtækjanna eru upplýsingar um alla reikisamninga og gjaldskrár þeirra símafyrirtækja sem þau hafa samið við og sérkjör sem hægt er að skrá sig fyrir þegar ferðast er erlendis.
22. júní 2005
Ársskýrsla PFS fyrir 2004 er komin út - endurmeta þarf fjarskiptaeftirlit
Nánar
Ör þróun í tækni og viðskiptum krefst endurmats á fjarskiptaeftirliti. Íslendingar standa á tímamótum í fjarskiptum með einkavæðingu Símans, hraðfleygum tækniframförum og samruna fjarskipta, upplýsingatækni og fjölmiðlunar. Þetta kallar á endurmat á grunnþáttum eftirlits á fjarskiptamarkaði og skýra þarf betur hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu PFS fyrir árið 2004 sem er komin út. Þá segir í ávarpi Hrafnkels V. Gíslasonar forstjóra, að lög og reglur um fjarskipti annars vegar, og fjölmiðla hins vegar, séu ekki nógu skýr og taki ekki á samnýtingu í fjölmiðlun og fjarskiptaþjónustu. Miklar breytingar urðu í eignarhaldi fjarskiptafyrirtækja á árinu 2004 og tvö þau stærstu, Síminn og Og fjarskipti, keyptu sjónvarpsstöðvar. Skráðum fjarskiptafyrirtækjum fjölgaði töluvert og voru þau 55 í árslok. Tölfræðiyfirlit í ársskýrslu endurspeglar líka örar breytingar í samskiptamynstri landsmanna með stórauknum áskriftum að háhraðatengingum og vaxandi farsímanotkun. Þá kemur fram í ársskýrslu að tvíkeppni ríki enn á símamarkaði með 74% markaðshlutdeild Símans á innanlandssímtölum á fastaneti og 64,5% hlutdeild á farsímamarkaði, miðað við fjölda viðskiptavina. Póst- og fjarskiptastofnun tekur virkan þátt í alþjóðasamstarfi og samráði evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Á árinu 2004 fengu Íslendingar aðild að nýrri Evrópustofnunu um net- og upplýsingaöryggi sem samræma mun staðla og lagaumhverfi á evrópska efnahagssvæðinu. Sjá ársskýrslu PFS fyrir árið 2004 (pdf-snið 1,66 MB) Sjá einblöðung um íslenskan fjarskiptamarkað í tölum 2004 (pdf-snið 1 MB)
22. júní 2005
Farsímaþjónusta næstdýrust hér á landi í norrænum samanburði
Nánar
Nokkur munur er á verði á farsímaþjónustu á Norðurlöndum. Samkvæmt könnun sem breska greiningarfyrirtækið Teligen gerði í maí á þessu ári er dýrast að nota farsíma í Noregi, en næstdýrast hér á landi. Finnland er í þriðja sæti, Svíþjóð í því fjórða og ódýrast er að nota farsíma í Danmörku. Miðað var við meðalnotkun þeirra sem voru með eftirágreiddar áskriftir og fyrirframgreidd kort. Könnunin sýndi jafnframt að árlegur kostnaður fyrir meðalnotkun á heimilissíma var lægstur hér á landi borið saman við OECD-lönd - og árlegur kostnaður fyrirtækja af notkun fastlínusíma sá næstlægsti. Sjá niðurstöður könnunar Teligen frá því í maí 2005. (pdf-snið 116 KB) Könnun frá finnska samgönguráðuneytinu sem sænska viðskiptablaðið Dagens Industri greindi frá 21. júní 2005 sýnir svipaðar niðurstöður. Kannaður var kostnaður við að hringja úr farsíma í 18 Evrópulöndum. Miðað var við að einstaklingur með farsímaáskrift, talaði í 150 mínútur og sendi 25 SMS-skeyti á mánuði. Samkvæmt könnuninni kostar þetta 354 sænskar krónur í Noregi eða 3064 íslenskar krónur, 304 sænskar krónur á Íslandi eða 2630 íslenskar krónur, 282 sænskar krónur í Svíþjóð, 235 krónur í Danmörku og 184 krónur í Finnlandi. Bæði Ísland og Noregur eru þó undir meðaltali í Evrópu. Dýrast er að hringja úr farsíma í Sviss, en þar er sambærilegur kostnaður 523 sænskar krónur eða jafnvirði 4527 íslenskra króna. Sjá gjaldskrár ísl. fjarskiptafyrirtækjanna og nýjustu símakönnun IMG-Gallup
16. júní 2005
Evrópufundur um fjarskipti í Reykjavík 20-24 júní.
Nánar
Evrópska samstarfsnefndin um fjarskipti (European Communications Committe) fundar á Hótel Nordica dagana 20-24 júní. Fulltrúar 40 ríkja og hagsmunahópa sitja fundinn og hafa meira en 80 manns skráð þátttöku. Eitt meginverkefni fundarins er að samræma notkun tíðnisviða í Evrópu og setja reglur sem tryggja einn innri markað í Evrópu, bæði fyrir fjarskiptatæki og þjónustu.Meðal mála sem rædd verða á fundinum eru samræmdar reglur um notkun GSM-síma um borð í flugvélum og skipum, notkun FM útvarpstíðna fyrir ýmsan lágaflsbúnað, háhraða þráðlaus aðgangskerfi (WiMAX) og notkun 5 GHz tíðnisviðsins í Evrópu. Niðurstöður vinnuhópa á hinum ýmsu sviðum verða kynntar og ræddar og þess freistað að ná sem víðtækustu samkomulagi um niðurstöður.46 ríki eiga aðild að samstarfsvettvangi evrópskra stjórnvalda á sviði fjarskipta og einskorðast hann ekki við Evrópusambandsríki og þau ríki sem eiga aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Ólafsson forstöðumaður tæknisviðs hjá Póst- og fjarskiptastofnun í síma 510-1524 Fréttatilkynning 16. júní 2005
14. júní 2005
Síminn breytir tímamælingum fyrir gjaldtöku
Nánar
Póst - og fjarskiptastofnun vill vekja athygli á að Síminn hefur tilkynnt um breytingar á gjaldtöku símtala og tóku þær gildi 2. júní s.l. Þær fela í sér að ekki verður lengur innheimt samkvæmt sekúndumælingu í einstaklingsáskriftum farsíma (Frístundaáskrift, Ásinn og Almenn áskrift) heldur sem hér segir: - Innan GSM kerfis Símans er fyrsta mínútan gjaldfærð og síðan hverjar 10 sekúndur.- Út fyrir GSM kerfi Símans eru fyrstu 20 sekúndurnar gjaldfærðar og síðan hverjar 10 sekúndur. Engin breyting er gerð á gjaldtöku fyrir áskrift að Frelsi. Í framhaldi af tilkynningu Símans óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir upplýsingum um afleiðingar þessara breytinga fyrir neytendur og hvernig þeim yrði gerð grein fyrir þeim. Í svarbréfi frá Símanum dagsettu 8. júní segir m.a. að þessar breytingar samhliða nýjum sparnaðarleiðum muni leiða til lækkunar á símreikningum viðskiptavina sem eru skráðir fyrir slíkum afsláttarkjörum. Hins vegar muni breytingin leiða til hækkunar ef einungis er horft á breytingu á sekúndumælingu símtala. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum mun þessi breyting á gjaldtöku leiða til þess að gjöld farsímanotenda með einstaklingsáskrift, sem ekki nýta sér sparnaðarleiðir, hækka að meðaltali um 2880 kr. á ári. Breytingin snertir tugi þúsunda farsímanotenda. Tilkynnt var um téða breytingu á gjaldtöku símtala á vefsíðu Símans. Telur Póst- og fjarskiptastofnun ólíklegt að neytendur fylgist að öðru jöfnu með verðbreytingum sem birtar eru með þeim hætti.Í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun segir að hún eigi að stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæi gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskipta- og póstþjónustu. Frekari uppl. veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunarí s. 510-1500 Fréttatilkynning 14. júní 2005
10. júní 2005
Leitað eftir sjónarmiðum um framtíðarnotkun NMT-tíðnisviðs
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hyggst á næstu mánuðum afla upplýsinga um heppilegustu framtíðarnotkun þess tíðnisviðs sem notað hefur verið fyrir NMT-450 farsímaþjónustuna. Síminn hefur rekið NMT-kerfið frá árinu 1986, en að öllu óbreyttu rennur rekstrarheimild fyrir það út 31. desember 2007. Samkvæmt rekstrarleyfi Símans getur Póst- og fjarskiptastofnun frestað lokun NMT-kerfisins í allt að tvö ár, ef það þykir þjóna hagsmunum neytenda. PFS telur þó ekki rétt að taka ákvörðun um rekstrarlok fyrr en kallað hefur verið eftir sjónarmiðum hagsmunaðila um framtíðarnotkun tíðnisviðsins. Það verður m.a. gert með því að birta umræðuskjal á vef stofnunarinnar. Jafnramt verður unnið að frekari gagnaöflun. Vonast er til að hægt verði að taka ákvörðun um hvenær NMT-kerfið verður lagt niður fyrir árslok 2005. Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Ólafsson forstöðumaður tæknideildar PFS í síma 510-1500 Fréttatilkynning 10. júní 2005
6. júní 2005
Netsíma-ráðstefna á vefnum
Nánar
Allt efni ráðstefnunnar Netsími- ný tækifæri, sem Póst- og fjarskiptastofnun stóð fyrir á Grand-Hóteli 17. maí síðastliðinn er nú aðgengilegt á vefnum. Markmið ráðstefnunnar var að mynda umræðugrundvöll um nýjar talsímalausnir og skapa tengsl milli starfsmanna fjarskiptafyrirtækja, sérfræðinga og stjórnvalda. Vel tókst til, en um sjötíu manns sátu ráðstefnuna. Með því að gera allt efni ráðstefnunnar aðgengilegt geta enn fleiri haft gagn af þeim upplýsingum sem fram komu. Sjá vefsíðu um ráðstefnuna.
31. maí 2005
Ríkisútvarpið og 365 ljósvakamiðlar ehf. bjóða í UHF-rásir fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Tilboð í UHF-rásir fyrir stafrænt sjónvarp á landsvísu skv. DVB-T staðli voru opnuð hjá Póst- og fjarskiptastofnun kl. 13.00 í dag. Tvö fyrirtæki buðu í rásirnar; Ríkisútvarpið og 365 ljósvakamiðlar ehf. Ríkisútvarpið bauð í þrjár rásir til að dreifa 7 sjónvarpsdagskrám til 98% landsmanna fyrir 1. október 2007. Að auki hyggst Ríkisútvarpið dreifa háskerpusjónvarpi á einni rás. 365 ljósvakamiðlar ehf. bauð í tvær sjónvarpsrásir til að dreifa 7-15 sjónvarpsdagskrám. Fyrirtækið hyggst ljúka uppbyggingu á dreifikerfi fyrir 98% landsmanna 1. maí 2007.Ekki var sótt um rás til að dreifa háskerpusjónvarpi. Með því að bjóða út UHF-rásir er stefnt að því að sem flestir landsmenn eigi innan tveggja ára kost á að taka á móti stafrænum sjónvarpssendingum með DVB-T tækni. Í úboði voru gerðar þær kröfur að dreifinet bjóðenda næðu að lágmarki til 40 sveitarfélaga innan árs frá úthlutun réttinda og til 98% heimila í landinu innan tveggja ára. Ekki verður krafist gjalds fyrir réttindi til að nota UHF-rásirnar, heldur munu aðrir þættir ráða vali á milli bjóðenda s.s. útbreiðsla sendinga og þjónusta við notendur. Tilkynnt verður um niðurstöðu útboðsins eigi síðar en 27. júní. Fundargerð frá opnun tilboða í UHF-rásirnar. Frekari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS s. 510 1500