Fréttasafn
20. desember 2013
PFS afléttir alþjónustukvöðum af Já upplýsingaveitum og afturkallar númerið 118
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 31/2013, varðandi endurskoðun alþjónustukvaða á Já upplýsingaveitur hf. (Já). Með ákvörðuninni eru felldar niður þær alþjónustukvaðir sem lagðar voru á félagið með ákvörðun PFS nr. 22/2011, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr. 4/2011. Samkvæmt núgildandi alþjónustukvöðum bar félaginu annast útgáfu símaskrár, bæði prentaðrar og vefútgáfu, annast rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer og annast varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur á Íslandi.
19. desember 2013
PFS heimilar Íslandspósti að loka póstafgreiðslustöðum á Suðureyri og Þingeyri
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir þar sem stofnunin samþykkir beiðnir Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslustöðum. Um er að ræða annars vegar póstafgreiðslu á Suðureyri sem rekin hefur verið samstafi við Sparisjóð Bolungarvíkur og hins vegar póstafgreiðslu á Þingeyri sem rekin hefur verið í samstarfi við Landsbankann. Í stað afgreiðslustaðanna mun póstbíll frá Íslandspósti sinna þjónustu við íbúa þessara bæjarfélaga. Er það mat stofnunarinnar að sú þjónusta fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.
12. desember 2013
Ársskýrsla PFS fyrir árið 2012 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2012. Í skýrslunni er að finna helstu áherslur í starfsemi stofnunarinnar, farið er yfir það sem einkenndi þróun fjarskipta- og póstmarkaðar á Íslandi á árinu og litið til framtíðar.
11. desember 2013
Skýrsla PFS um jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2012
Nánar
Út er komin skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar um álagningu, breytingar, afskriftir og innheimtu jöfnunargjalds fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð alþjónustu fyrir árið 2012. Með skýrslunni er einnig birtur ársreikningur sjóðsins. Jöfnunarsjóður alþjónustu - skýrsla fyrir árið 2012 (PDF) Jöfnunarsjóður alþjónustu - ársreikningur ársins 2012 (PDF)
9. desember 2013
Framlengdur frestur til að skila umsögnum í samráði um endurskoðun á alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest hagsmunaaðila til að skila inn umsögnum og athugasemdum í samráði sem auglýst var þann 22. nóvember sl. um endurskoðun á alþjónustu. Snýst samráðið um þá fyrirætlan stofnunarinnar að útnefna ekki fjarskiptafyrirtæki með alþjónustuskyldur að því er varðar talsímaþjónustu, gagnaflutningsþjónustu, og rekstur almenningssíma.
3. desember 2013
Persónuupplýsingar í fjarskiptanetum - spurt og svarað
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið saman á vef sínum svör við ýmsum þeim spurningum sem vaknað hafa um lög og reglur varðandi persónuupplýsingar í fjarskiptanetum. Sjá Spurt og svarað um persónuupplýsingar í fjarskiptanetum. Einnig er hnappur hér til hliðar á síðunni. PFS vill einnig ítreka mikilvægi þess að fólk skipti um lykilorð sín sem víðast í framhaldi af netárásinni á vef Vodafone s.l. laugardag. Góð ráð um lykilorð er að finna undir fyrrnefndum hnapp hér til hliðar og á vef okkar Netöryggi.is.
2. desember 2013
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um viðbótarafslætti vegna reglubundinna viðskipta fyrir magnpóst
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 3/2013 staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 14/2013 frá því í júlí sl. um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts, viðbótarafsláttur vegna reglubundinna viðskipta fyrir magnpóst. Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 felldi nefndin úr gildi þann hluta af ákvörðun PFS nr. 16/2012, sem fjallaði um viðbótarafslátt vegna reglubundina viðskipta, með þeim rökum að skort hafi nægjanlegan rökstuðning fyrir þeim afsláttarprósentum sem ákveðnar voru.
27. nóvember 2013
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á leigulínumörkuðum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á tveimur leigulínumörkuðum. Annars vegar er um að ræða heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) og hins vegar smásölumarkað fyrir lágmarksframboð af leigulínum (markaður 7 skv. eldri tilmælum ESA). Þriðji og síðasti leigulínumarkaðurinn, þ.e. heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (markaður 14 skv. eldri tilmælum ESA), verður greindur á næstu mánuðum og er áætlað að hann fari í innanlandssamráð á fyrsta ársfjórðungi 2014. Umræddir markaðir voru síðast greindir með ákvörðun PFS nr. 20/2007 frá 14. september 2007. Þá voru Síminn og Míla útnefnd sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á umræddum heildsölumörkuðum, en Síminn eitt fyrirtækja á umræddum smásölumarkaði. Viðeigandi kvaðir voru lagðar á félögin til að freista þess að leysa úr þeim samkeppnisvandamálum sem greind höfðu verið á umræddum mörkuðum.