Fréttasafn
30. janúar 2014
Nýjung á vef PFS: Fjarskiptakort - hvar nærðu sambandi?
Nánar
Meðal nýjunga á vef Póst- og fjarskiptastofnunar eru gagnvirk fjarskiptakort yfir Ísland. Kortin sýna dreifingu GSM, 3G og 4G fjarskiptamerkja. Tvö kortanna, GSM skuggakort og 3G skuggakort, sýna skuggasvæði í útbreiðslu, þ.e. svæði þar sem erfitt eða ómögulegt er að ná sambandi. Þriðja kortið, 4G kortið, sýnir hins vegar hvar líklegast er að ná sambandi með þeirri tækni. Hafa ber í huga að kortin sýna merkjasendingar allra fjarskiptafyrirtækjanna og að upplifun notenda getur því verið mismunandi eftir því hjá hvaða fjarskiptafyrirtæki þeir eru. Hægt er að stækka kortin, allt niður í mælikvarðann 1:50 þúsund. Skuggasvæði sem eru innan við 500 m., þ.e. minnstu götin í dreifikerfum sjást þó ekki.
28. janúar 2014
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir aðstöðuleigu (hýsingu)
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir aðstöðuleigu í húsum og möstrum og kallar eftir samráði um niðurstöðu kostnaðargreiningarinnar. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjal). Kostnaðargreiningin nær til hýsingar í húsum og möstrum. Leiga á aðstöðu í húsum er í samræmi við ákvörðun PFS nr. 41/2010 varðandi kostnaðargreiningu Mílu á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu). Í samræmi við þá ákvörðun var fyrirkomulagi við ákvörðun á leigu í möstrum endurskoðað og er nú leigueiningum skipt í fjóra flokka eftir stærð þeirra í fermetrum og staðsetningu í mastri. PFS samþykkir niðurstöðu Mílu hvað varðar breytingu á forsendum og aðferðarfræði vegna gjaldskrár fyrir leigu í möstrum. Þau afsláttarkjör sem gilda fyrir húsnæði skulu einnig gilda fyrir möstur.
6. janúar 2014
PFS framlengir samráðsfrest vegna markaða 6 og 7
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest hagsmunaaðila til að skila inn umsögnum og athugasemdum í samráði sem auglýst var þann 27. nóvember sl. um frumdrög að markaðsgreiningu á tveimur leigulínumörkuðum. Annars vegar er um að ræða heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) og hins vegar smásölumarkað fyrir lágmarksframboð af leigulínum (markaður 7 skv. eldri tilmælum ESA).
23. desember 2013
Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2013 þar sem stofnunin samþykkir, að hluta til, beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá bréfpósts innan einkaréttar nam á bilinu 21-32% eftir því um hvaða þjónustuflokk var að ræða. Það er á hinn bóginn mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi og því geti stofnunin ekki samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Niðurstaða stofnunarinnar er að forsendur séu fyrir því að gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækki sem nemur u.þ.b. 9% sé litið til vegins meðaltals þjónustuflokka.
20. desember 2013
PFS efnir til afmarkaðs aukasamráðs á mörkuðum 4 og 5
Nánar
Þann 7. mars 2013 efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (markaður 4) og bitastraumsaðgang í heildsölu (markaður 5). Samráðsfrestur rann út þann 7. maí sl. Athugasemdir bárust frá Mílu, Símanum, Vodafone, Tali og Inter. PFS hefur nú yfirfarið þær athugasemdir sem fram hafa komið. Frá því að efnt var til framangreinds samráðs hefur það m.a. gerst að sátt var undirrituð á milli Samkeppniseftirlitsins og Skipta hf., dags. 26. mars sl., þar sem ýmis verkefni voru flutt frá Símanum til Mílu, þ.m.t. xDSL þjónustan sem fjallað er um á markaði 5. Ýmsar aðrar breytingar hafa ennfremur átt sér stað á umræddum mörkuðum á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan efnt var til umrædds samráðs.
20. desember 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3
Nánar
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3 Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3. Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang.
20. desember 2013
PFS hafnar að svo stöddu umsókn Mílu um alþjónustuframlag vegna reksturs koparlínukerfis í strjálbýli
Nánar
Með ákvörðun nr. 29/2013, dags. 17. desember sl., hafnar Póst- og fjarskiptastofnun að svo stöddu umsókn Mílu um tæplega 200 millj. kr. framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2013 vegna taps á rekstri koparlínukerfis félagsins í strjálbýli. Að mati PFS er það grundvallaratriði að litið sé á Mílu og Símann sem eina efnahagslega einingu við mat á umræddri umsókn og að sú framlegð sem Síminn hefur vegna umræddra tenginga í strjálbýli komi til frádráttar þeim kostnaði sem Míla telur að felist í veitingu umræddrar þjónustu á umræddum stöðum, þ.m.t. tekjur vegna síma-, internet- og sjónvarpsþjónustu.
20. desember 2013
Ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með skyldu til að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 30/2013 um útnefningu Mílu ehf. með skyldu til að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið. Útnefningin gildir til 31. júní 2014, með heimild til framlengingar til 31. desember 2014. Ákvörðunin kemur í framhaldi af samráði við hagsmunaaðila sem kallað var eftir þann 22. nóvember sl. Ástæða hins skamma útnefningartímabils er sú að stofnunin áætlar að birta í byrjun næsta árs umræðuskjal um framtíðarfyrirkomulag þeirra skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið.