Fréttasafn
9. janúar 2006
Gjaldskrárbreytingum hafnað
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hafnar breytingum sem boðaðar voru á viðmiðunartilboði um samtengingu (RIO), með tilkynningu Símans, dags. 25. nóvember2005.Bréf PFS ( PDF skjal)
3. janúar 2006
Umsagnarfrestur vegna viðmiðunartilboðs Símans framlengdur
Nánar
Ákveðið hefur verið að framlengja frest til að skila umsögn um nýtt viðmiðunartilboð Símans til þriðjudagsins 10. janúar 2006.
2. janúar 2006
Samantekt umsagna um framtíðarnotkun NMT-450 tíðnisviðsins
Nánar
24. október 2005 birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) umræðuskjal um framtíðarnotkun NMT-450 tíðnisviðsins á Íslandi. Tilgangurinn var að kanna áhuga markaðarins og sjónarmið hagsmunaaðila. Óskað var eftir athugasemdum og ábendingum. Skilafrestur rann út þann 8. desember 2005. Alls bárust 9 umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Ericsson Danmark A/S, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neyðarlínunni, Nordisk Mobiltelefon AB, Nortel, Og Vodafone, Orkustofnun, Samtökum ferðaþjónustunnar og Símanum. 3 ofangreindra aðila hyggjast byggja upp nýtt fjarskiptanet, 2 eru framleiðendur tækjabúnaðar og 4 eru aðrir hagsmunaaðilar. Í umræðuskjalinu var sérstaklega óskað eftir umsögnum um eftirfarandi atriði. Sjá hér að neðan samantekt á svörum skáletrað: a) Fjöldi rekstraraðila. Umrætt tíðnisvið er aðeins 2 x 4,5 MHz og má færa rök fyrir því að það sé ekki til skiptanna. 1.mgr. 9.gr. fjarskiptalaga heimilar PFS að takmarka fjölda úthlutana til að tryggja skilvirka notkun tíðna. Óskað er eftir áliti markaðsaðila á því, hvort þeir telji að eftirspurn yrði eftir úthlutun á einungis hluta tíðnisviðsins, t.d. 2 x 1,5 MHz. Á að veita einum aðila heimild fyrir öllu tíðnisviðinu eða á að skipta tíðnisviðinu upp á milli fleiri rekstraraðila? Flestir töldu einsýnt að skynsamlegast væri að úthluta öllu tíðnisviðinu til eins aðila. Þó kom fram að hugsanlega mætti skipta tíðnisviðinu í tvennt, þannig að annar fengi 2/3 hluta og yrðu gerðar ítrustu kröfur um útbreiðslu og þjónustu, en hinn fengi 1/3 og ekki sama krafa um útbreiðslu. Kemur landfræðileg skipting til greina? Samdóma álit að landfræðileg skipting komi ekki til greina. b) Uppbygging fjarskiptanets og sala þjónustu til neytenda Ekki er fyrirfram búið að taka afstöðu til þess, hvort sá, sem fær úthlutað umræddu tíðnisviði, byggi og reki eigið net og verði einn um að selja almenningi þjónustu, eða hvort aðrir aðilar geti fengið aðgang að netinu og selt þjónustu til almennings. Því er spurt: Hyggst umsagnaraðili sækja um tíðniúthlutun til þess að byggja upp eigið net og selja þjónustu til almennings ? 3 aðilar tilkynntu að þeir hygðust nota umrætt tíðnisvið til þess að byggja upp eigið net og selja þjónustu til almennings. Gerir umsagnaraðili ráð fyrir að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að netinu til þess að selja þjónustu til almennings ? Þessari spurningu var eingöngu beint til þeirra, sem hyggjast byggja upp eigið net. Einn þeirra svaraði spurningunni játandi, einn taldi það koma til greina, en sá þriðji tók ekki afstöðu. Hefur umsagnaraðili eingöngu áhuga á að fá aðgang að fjarskiptaneti, sem annar aðili á og rekur, til þess að veita almenna þjónustu ? Enginn umsagnaraðila lýsti yfir að hann hefði slíkan áhuga. c) Þjónusta á NMT-450 MHz tíðnisviðinu Vísað er til áðurnefndrar stefnu stjórnvalda í Fjarskiptaáætlun og þeirra undirmarkmiða varðandi farsambönd og háhraðavæðingu, sem þar koma fram. Hvernig verður NMT-450 MHz tíðnisviðið best notað, til þess að ná fram sem flestum undirmarkmiðum, sem skilgreind eru í fjarskiptaáætlun ? Þeir sem gáfu ákveðin svör við þessari spurningu gerðu það með því að leggja áherslu á að rétt tækni yrði notuð. Meirihluti umsagnaraðila taldi að CDMA-450 tryggði best að markmiðunum yrði náð, en aðrir töldu að rétta tæknin væri GSM-450. Hvernig verður jafnvægi á milli farsambanda annars vegar og háhraðavæðingar best náð ? Þeir sem svöruðu þessari spurningu töldu að tæknin skipti hér meginmáli, líkt og í spurningunni á undan um besta nýtingu tíðnisviðsins. d) Útbreiðslukröfur nýs kerfisMarkmið um lágmarks útbreiðslukröfur má lesa úr fjarskiptaáætlun. Hvernig er rétt að útfæra þessar kröfur? Almennt var talið að núverandi útbreiðsla NMT-kerfisins væri eðlileg viðmiðun. Hugsanlega mætti gera enn stífari kröfur, en ekki væri raunhæft að gera kröfur um þjónustu “um allt land”, þ.e. hvar sem er á Íslandi, eins og tekið er til orða í Fjarskiptaáætlun. Eru þær raunhæfar eða ganga þær of skammt? Í Fjarskiptaáætlun kemur fyrir á nokkrum stöðum að veita skal tiltekna þjónustu “um allt land”. Af umsögnum má ráða að skilgreina þarf betur, hvað þetta felur nákvæmlega í sér. Væntanlega er hér átt við eftirtalda staði: - Þar sem er föst búseta og sumarhúsabyggð - Vinsælir ferðamannastaðir og leiðir (þarf að skilgreina betur) - Helstu þjóðvegir (þarf að skilgreina betur) Í umsögnum kemur fram að finna þurfi skynslamegt jafnvægi á milli útbreiðslukrafna annars vegar og arðsemi fjárfestingarinnar hins vegar. Á að gera sömu kröfur í þéttbýli og dreifbýli? Merihluti þeirra sem tóku afstöðu töldu að gera ætti sömu kröfur í þéttbýli og dreifbýli. e) Uppbyggingarhraði nýs kerfis Hvað er eðlilegt að nýtt kerfi byggist hratt upp? Af svörum má ráða að markaðsaðilar telji að uppbygging taki 12-18 mánuði eftir að tíðniheimild hefur verið gefin út. Hvenær á að byrja? Þeir sem svöruðu þessu telja að raunhæft sé að stefna að því að loka núverandi NMT-þjónustu á tímabilinu september – desember 2007. Til þess að það gangi eftir þarf að hefja uppbyggingu nýs kerfis 12 mánuðum áður, þ.e. á seinni hluta ársins 2006. Á ef til vill að keyra NMT kerfið tímabundið á hluta tíðnisviðsins áfram samhliða nýju stafrænu kerfi? Allir umsagnaraðilar töldu einsýnt að starfrækja yrði bæði kerfin samhliða í tiltekinn tíma. Fram kom að þessi tími mætti þó ekki vera of langur. Af svörum má ráða að eðlilegur tími sé talinn 6 – 12 mánuðir. f) GjaldtakaÁ að krefjast gjalds fyrir tíðnirnar? Lögð var áhersla á að stilla hugsanlegri gjaldtöku í hóf. Í raun væru stífar útbreiðslukröfur ígildi gjaldtöku. Ef svo er, hve hátt á gjaldið að vera, t.d. sem hlutfall af tíðnigjaldi fyrir hefðbundin 3ju kynslóðar kerfi (UMTS) ? Umsagnaraðilar færðust undan að svara þessari spurningu. Áhrif á önnur fjarskiptakerfiMá ætla að þjónusta á NMT-450 MHz tíðnisviðinu keppi við, spili saman með eða leysi af hólmi aðra þjónustu eða geri uppbyggingu á öðrum sviðum óþarfa/óhagkvæma? Svör umsagnaraðila voru með ýmsu móti. Ekki var talið að mikil samkeppni yrði við farsímaþjónustu í þéttbýli, en hins vegar myndi ný þjónusta leysa mörg vandamál í dreifbýli, bæði varðandi farsímaþjónustu og háhraðatengingar. Bent var á að nýtt kerfi á 450 MHz myndi líklega hamla gegn því að ráðist yrði í uppbyggingu 3ju kynslóðarkerfa á hærri tíðnum, a.m.k. í dreifbýli. Þetta væri kostur það sem uppbygging slíkra kerfi á 2 GHz tíðnisviðinu væri miklu dýrari, enda upphaflega hönnuð fyrir svæði sem eru margfalt þéttbýlli en um er að ræða á Íslandi. Loks var bent á að uppbygging nýs kerfis kynni að tefla frekari uppbyggingu TETRA kerfsins í tvísýnu. Þarf að taka tillit til þessa við tíðniúthlutun? Umsagnaraðilar töldu að taka bæri tillit til ofanritaðs við tíðniúthlutun, án þess að tilgreina í einstökum atriðum, með hvaða hætti það yrði gert. Á að leyfa notkun NMT-450 MHz tíðnisviðsins fyrir uppbyggingu farsímaþjónustu í þéttbýli, þ.e. í beinni samkeppni við væntanleg hefðbundin 3ju kynslóðar farsímakerfi? Tveir af þremur umsagnaraðilum, sem hyggjast byggja upp nýtt fjarskiptanet á 450 MHz, svöruðu spurningunni ákveðið játandi. Sá þriðji hefur ekki gefið upp afstöðu sína. h) Annað Eru önnur atriði sem taka ber mið af þegar ákveðið verður hvernig NMT-450 tíðnisviðið verður notað hér á landi ? Flestir umsagnaraðila töldu að ofangreindar spurningar vörðuðu alla þætti málsins, sem máli skipta. Einn umsagnaraðili lagði þó mikla áherslu á að uppbyggingu nýs kerfis á 450 MHz mætti ekki hafa neikvæð áhrif á uppbyggingu og rekstur neyðar- og öryggiskerfis eins og TETRA.
2. janúar 2006
Lokun NMT-farsímakerfisins frestað: Samfelld þjónusta á NMT-450 tíðnisviði nauðsynleg
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt Símanum að heimild verði nýtt til að fresta lokun NMT kerfisins til 31. desember 2008. Sú ákvörðun byggir m.a. á umsögnum sem bárust við umræðuskjali sem PFS birti þann 24. október um framtíðarnotkun NMT-450 tíðnisviðsins á Íslandi. Alls bárust 9 umsagnir frá hagsmunaaðilum; Ericsson Danmark A/S, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neyðarlínunni, Nordisk Mobiltelefon AB, Nortel, Og Vodafone, Orkustofnun, Samtökum ferðaþjónustunnar og Símanum. Þrír umsagnaraðila hafa áhuga á að byggja upp nýtt fjarskiptanet, 2 eru framleiðendur tækjabúnaðar og 4 eru aðrir hagsmunaaðilar. Í bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar til Símans segir m.a.: “Póst- og fjarskiptastofnun telur nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að stuðla að því að notendum standi ávallt til boða langdræg farsímaþjónusta. Flest bendir til þess að NMT þjónustan muni leggjast af og að við muni taka stafræn farsímaþjónusta innan fárra ára, sbr. umræðuskjal Póst- og fjarskiptastofnunar. Stefnt verður að því að ný þjónusta verði í boði fyrir lok ársins 2007, en á þessari stundu er ekki hægt að segja fyrir um með fullkominni vissu hvort þjónustan verði komin í rekstur á þeim tíma. Því hefur Póst- og fjarskiptastofnun í hyggju að nota heimild sem stofnunin hefur skv. 2. gr. áðurnefndrar heimildar Landssíma Íslands hf. til notkunar á tíðnum fyrir NMT 450 farsímaþjónustu og fresta lokun NMT þjónustu Landssíma Íslands hf. til 31. desember 2008. Hugsanlegt er að þeirri dagsetningu verði breytt og ákveðið verði að leggja þjónustuna niður fyrr ef öruggar upplýsingar liggja fyrir um að ný þjónusta geti tekið við fyrir þennan tíma. Slíkar breytingar yrðu tilkynntar eigi síðar en 31. desember 2006. Ef NMT-450-þjónustan verður starfrækt eftir 31. desember 2007, hyggst Póst- og fjarskiptastofnun gefa út sérstaka tímabundna tíðniheimildvegna þeirrar starfsemi. Sú tíðniheimild yrði þrengri en núgildandi heimild þar sem nauðsynlegt er að samkeyra NMT þjónustuna og hina nýju stafrænu þjónustu í einhvern tíma. Landssíma Íslands hf. er hér með gefinn frestur til 23. janúar 2006 til þess að koma sjónarmiðum sínum varðandi þetta mál á framfæri við Póst- og fjarskiptastofnun. Að þeim tíma liðnum mun stofnunin taka ákvörðun í málinu.” Sjá nánar samantekt svara úr umræðuskjalinu Sjá umræðuskjal Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500. Frétttilkynning 2. janúar 2006
21. desember 2005
Umsagnarfrestur vegna símanúmera fyrir VoIP þjónustu framlengdur
Nánar
Ákveðið hefur verið að veita frest á umsögn um notkun símanúmera fyrir VoIP þjónustu til mánudagsins 9. janúar 2006.
15. desember 2005
Símanúmer fyrir VoIP þjónustu
Nánar
Fyrirhugaðar ákvarðanir PFS um notkun númera fyrir VOIP þjónustu. Ákveðið hefur verið að veita frest á umsögn um notkun símanúmera fyrir VoIP þjónustu til mánudagsins 9. janúar 2006.Sjá skjal (pdf)
12. desember 2005
Nýtt viðmiðunartilboð um samtengingu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur framlengt frest til að skila inn umsögnum um nýtt viðmiðunartilboð um samtengingu. Sjá nánar bréf PFS.
8. desember 2005
Samráð um endurskoðun fjarskiptareglna ESB
Nánar
Framkvæmdastjórn ESB hefur óskað eftir tillögum um væntanlega endurskoðun á tilskipunum ESB um fjarskipti frá 2002 og tilmælum um viðeigandi markaði. Hún hefur lagt fram skjal með helstu álitaefnum sem óskað er eftir tillögum um fyrir 31. janúar 2006. Haldinn verður opinn samráðsfundur um þetta í Brussel þann 24. janúar 2006. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ESB