Fréttasafn
18. desember 2007
Frétt frá Samgönguráðuneyti: Fjarskiptasjóður semur við Vodafone um síðari áfanga GSM-verkefnis
Nánar
Samið hefur verið við Vodafone um að fyrirtækið taki að sér verkefni vegna síðari áfanga á uppbyggingu GSM þjónustu á Íslandi. Snýst það um uppbyggingu á þjónustu á völdum svæðum þar sem markaðslegar forsendur standa ekki undir rekstri slíks kerfis. Þessi síðari áfangi farsímaverkefnisins varðar styrkingu GSM farsímaþjónustu á stofnvegum og ferðamannasvæðum þar sem GSM þjónusta er takmörkuð í dag. Alls eru þjónustusvæðin í þessum áfanga 32. GSM þjónustan verður bætt á vegum á Vestfjörðum, Norðausturlandi, í Fljótum, víða á Snæfellsnesi, á Bröttubrekku, Dölunum og Suðurstrandarvegi svo dæmi séu tekin. Ferðamannasvæðin eru til dæmis þjóðgarðarnir við Snæfellsjökul og í Jökulsárgljúfrum. Sjá nánar á vef samgönguráðuneytisins
6. desember 2007
Síminn, Míla og Já upplýsingaveitur útnefnd með skyldu til að veita alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 25/2007 um útnefningu fjarskiptafyrirtækja með skyldu til að veita alþjónustu. Stofnunin birti þann 16. maí s.l. samráðsskjal þar sem öllum hagsmunaaðilum var boðið að tjá sig. Athugasemdir bárust frá Símanum, Félagi heyrnarlausra og Bændasamtökunum. Í ákvörðuninni er þeim skyldum sem falla undir alþjónustu í lögum um fjarskipti skipt upp á milli Mílu ehf. sem hefur skyldu til að veita aðgang að almenna fjarskiptanetinu, Símans hf., sem hefur skyldu til að veita talsímaþjónustu, gagnaflutningsþjónustu með 128 kb/s flutningsgetu og reka almenningssíma um land allt. og Já upplýsingaveitna ehf., sem hefur skyldu til að gefa út símaskrá og reka upplýsingaþjónustu um símanúmer í númerinu 118. Þá er einnig kveðið á um að Síminn og Já upplýsingaveitur skuli verða við öllum sanngjörnum kröfum hagsmunasamtaka öryrkja sem leitast við að jafna aðgang félagsmanna þeirra að þeirri þjónustu sem fellur undir alþjónustu. Útnefningarnar taka til alls landsins. Ákvörðun PFS nr. 25/2007 - Útnefning fjarskiptafyrirtækja með skyldu til að veita alþjónustu (PDF)
4. desember 2007
Nýtt rekstrarleyfi Íslandspósts - Fyrirtækið áfram með skyldu um alþjónustu í póstþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun gaf í gær, þann 3. desember 2007, út nýtt rekstrarleyfi til Íslandspósts hf. Drög að leyfinu voru birt á vef stofnunarinnar þann 18. október s.l. og öllum sem láta sig þjónustu Íslandspósts varða gefinn kostur á að koma með athugasemdir eða ábendingar um efni leyfisins. Engar athugasemdir bárust. Í rekstarleyfinu er fjallað um skyldu fyrirtækisins til veitingar alþjónustu í póstþjónustu um allt land. Auk þess er fyrirtækinu falið að fara með einkarétt ríkisins á dreifingu áritaðra bréfa allt að 50 g á þyngd. Leyfið gildir til 31. desember 2010. Rekstrarleyfi Íslandspósts (PDF)
27. nóvember 2007
PFS samþykkir umsókn Neyðarlínunnar um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2008
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Neyðarlínunnar hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2008. Mun framlagið nema rúmum 30 milljónum króna og skal greiðast með fyrirvara um stöðu jöfnunarsjóðs. Í jöfnunarsjóð greiða fjarskiptafyrirtæki skv. 22. gr laga um fjarskipti nr. 81/2003 .Póst- og fjarskiptastofnun er vörsluaðili jöfnunarsjóðs og er fjárhagur hans algerlega aðskilinn frá fjárhag stofnunarinnar að öðru leyti. Framlög úr honum verða því að fara eftir stöðu sjóðsins hverju sinni. Ákvörðun PFS nr. 23/2007 - Umsókn Neyðarlínunnar hf. um framlag úr jöfnunarsjóði fyrir árið 2008
22. nóvember 2007
Netsvar.is - hjálparvefur fyrir almenning um örugga netnotkun opnaður
Nánar
Nýr hjálparvefur fyrir almenning um örugga netnotkun, www.netsvar.is var opnaður á blaðamannafundi sem haldinn var í Póst- og fjarskiptastofnun í dag. Vefurinn er samstarfsverkefni SAFT verkefnisins hjá Heimili og skóla, Póst- og fjarskiptastofnunar og Barnaheilla . Með honum er komið öflugt hjálpartæki fyrir almenning til að leita svara og spyrja spurninga um hvaðeina sem tengist öryggi á Netinu og mun vefurinn þannig stuðla að ánægjulegri og gagnlegri netnotkun allrar fjölskyldunnar. Í nýrri könnun sem Capacent gerði fyrir samstarfsaðila vefsins töldu rúm 74% allra aðspurðra mjög eða frekar mikla þörf fyrir vefsíðu þar sem á einum stað er hægt að leita sér ráðgjafar um tæknileg,uppeldisleg og lögfræðileg málefni tengd netnotkun. www.netsvar.is er efnisflokkaður vefur með spurningum og svörum um hvaðeina sem sem snýr að því að gera netnotkun örugga, ánægjulega og gagnlega. Vefurinn verður lifandi vettvangur þar sem almenningi gefst kostur á að senda inn fyrirspurnir um hvaðeina sem tengist öryggi í netnotkun og fá svör frá sérfræðingum. Við þetta tækifæri kynntu þau Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS, María Kristín Gylfadóttir formaður Heimilis og skóla og Petrína Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla vefinn og samstarf þessara aðila til að efla almenna vitund um öryggi í netnotkun. Tvö ungmenni úr Lækjarskóla í Hafnarfirði, þau Birgitta Björg Jónsdóttir og Alexander Arason afhjúpuðu vefinn.
21. nóvember 2007
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS vegna sundurliðunar símreikninga
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 18/2007 frá 29. ágúst sl. í ágreiningsmáli um sundurliðun talsímareikninga. Í ákvörðun sinni komst PFS að þeirri niðurstöðu að fjarskiptafyrirtækjum væri ekki skylt að sundurliða símreikninga óumbeðið. Í ákvörðunarorðum PFS segir m.a.:"Sú framkvæmd Símans hf. að sundurliða ekki að eigin frumkvæði reikninga áskrifenda sinna í talsímaþjónustu brýtur ekki gegn 1. mgr. 38. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Óski áskrifandi í talsímaþjónustu hins vegar eftir að fá reikninga sína sundurliðaða eftir notkun er Símanum hf. skylt að verða við þeirri ósk án þess að gjald komi fyrir." Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun nr. 18/2007 í kvörtunarmáli vegna ófullnægjandi sundurliðunar talsímareikninga (PDF) Ákvörðun PFS var kærð til Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem nú hefur staðfest hana. Úrskurður úrskurðarnefndar nr. 4/2007 - 19. nóvember 2007 - Hörður Einarsson hrl. gegn Símanum og Póst- og fjarskiptastofnun. (PDF)
14. nóvember 2007
Ákvörðun PFS um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins og um bann á innflutningi og sölu á þráðlausum CT1 símum
Nánar
Efsti hluti GSM 900 tíðnisviðsins hefur fram að þessu verið notaður hér á landi fyrir þráðlausa síma sem byggja á CT1 tækni. Ný starfræn tækni, DECT, sem notar annað tíðnisvið, hefur smám saman verið að leysa CT1 tæknina af hólmi. Þráðlausir símar eru notaðir á takmörkuðu svæði, einkum á heimilum og vinnustöðum og er gerður greinarmunur á þeim og farsímum, t.d. GSM og NMT. Samkvæmt könnun sem PFS gerði fyrr á árinu hafa innflytjendur og söluaðilar síma hvorki flutt inn né selt CT1 þráðlausa síma síðustu 2-5 árin. Líklegt er þó að slíkir símar séu í notkun í einhverjum mæli í dag. Helstu niðurstöður PFS PFS breytir skipulagi tíðnirófsins á þá leið að úthlutun fyrir CT1 tækni á 914-915/959-960 MHz tíðnisviðinu er afturkölluð frá og með 1. janúar 2008. Eftir þann tíma verður umrætt tíðnisvið laust til ráðstöfunar fyrir farsímaþjónustu. PFS bannar innflutning og sölu CT1 síma frá og með 1. janúar 2008. Að svo stöddu hyggst PFS ekki banna notkun CT1 þráðlausra síma. Notkun slíkra síma verður því ennþá heimil hér á landi eftir 1. janúar 2008, svo fremi sem þeir valda ekki skaðlegum truflunum á GSM þjónustu á umræddu tíðnisviði. Frá og með sama tíma nýtur CT1 þráðlaus símnotkun ekki verndar vegna truflana sem kunna að stafa af farsímaþjónustu á umræddu tíðnisviði. PFS getur látið innsigla síma eða bannað notkun þeirra og fengið þá afhenta til geymslu ef þeir trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað. PFS sendi hagsmunaaðilum til umsagnar drög að ofangreindri ákvörðun með bréfi, dags. 11. október s.l. og birti hana á heimasíðu stofnunarinnar. Hagsmunaaðilar, t.d. fjarskiptafyrirtæki, innflytjendur og söluaðilar fjarskiptabúnaðar og almenningur, voru hvattir til að gera athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar, ef þeir sæju einhverja annmarka á henni. Engar efnislegar athugasemdir bárust. Ákvörðun PFS nr. 22/2007: Breyting á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins og bann á innflutningi og sölu CT1 síma (PDF)
18. október 2007
Drög að nýju rekstrarleyfi Íslandspósts hf. til umsagnar
Nánar
Þann 31. desember n.k. fellur núgildandi rekstrarleyfi Íslandspósts hf. úr gildi. Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert drög að nýju rekstrarleyfi fyrir fyrirtækið.Allir sem láta sig þjónustu Íslandspósts varða geta sent athugasemdir eða ábendingar um drögin til Póst- og fjarskiptastofnunar. Skjalið er hægt að nálgast hér fyrir neðan.Frestur til að skila athugasemdum er til og með 8. nóvember n.k. Drög að nýju rekstrarleyfi Íslandspósts hf. (PDF)