Fréttasafn
18. apríl 2008
Síminn hf. útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði 12, heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang. Á grundvelli niðurstöðu úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Símann hf. með umtalsverðan markaðsstyrk á markaðinum. Með heimild í 28. gr. fjarskiptalaga leggur PFS kvöð á Símann hf. um að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu á koparheimtaugum á heildsölustigi. Netaðstaðan sem hér um ræðir er aðgangur að bitastraumi sem fer um efri tíðnihlutann á koparheimtaugum í þeim tilgangi að gera öðrum fjarskiptafyrirtækjum kleift að veita notendum sínum aðgang að ýmis konar bandbreiðri þjónustu. Jafnframt leggur stofnunin kvaðir á Símann hf. um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og Póst- og fjarskiptastofnunar með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Ákvörðun PFS nr. 8/2008 (PDF) Viðauki A - Greining á markaði 12 (PDF) Viðauki B - Niðurstöður úr samráði (PDF) Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF)
7. apríl 2008
Fjármálaráðuneytið úrskurðar í máli vegna innflutnings á Apple iPhone án CE merkingar
Nánar
Þann 26. mars sl. úrskurðaði fjármálaráðuneyti í stjórnsýslukæru varðandi innflutning á Apple iPhone án CE-merkingar. Tækið kom í pósti til landsins og tók Tollstjórinn í Reykjavík ákvörðun um að synja innflytjanda tollafgreiðslu á sendingunni þar sem hún innihélt vöru sem ekki ber svokallaða CE-merkingu. Skv. lögum um fjarskipti nr. 81/2003 eru tæki fyrir þráðlaus fjarskipti og notendabúnaður fyrir fjarskipti sem ekki eru CE merkt ólögleg á Íslandi. Kærandi taldi að samkvæmt þeim gögnum sem hann hefði frá framleiðanda uppfyllti tækið öll tæknileg skilyrði til CE-merkingar og þar af leiðandi mætti hann merkja tækið sjálfur og fá það afgreitt úr tollafgreiðslu á þeim forsendum. Í úrskurði sínum vitnar fjármálaráðuneytið m.a. í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar um málið frá 18. mars sl. Þar kemur fram að þar sem CE-merking sé ófrávíkjanlegt skilyrði innflutnings fjarskiptabúnaðar sé það álit stofnunarinnar að þau gögn sem stafi frá framleiðanda og kærandi vísar til verði ekki talin ígildi CE-merkingar Í úrskurðarorðum fjármálaráðuneytisins segir: Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um að stöðva afhendingu sendingar nr CP244330301US er staðfest ásamt því að krafa kæranda um að fá að CE-merkja tækið sjálfur er hafnað. Úrskurður fjármálaráðuneytis í heild (PDF)
1. apríl 2008
Samráð um markaðsgreiningu á mörkuðum 8 - 10
Nánar
PFS hefur sent hagsmunaaðilum til umsagnar frumdrög að markaðsgreiningu á mörkuðum 8 - 10, þ.e. heildsölumörkuðum fyrir aðgang, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum. PFS mun endurskoða markaðsgreininguna með hliðsjón af þeim athugasemdum sem berast áður en greiningin er send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Að teknu tilliti til umsagnar ESA verður ákvörðun stofnunarinnar birt hlutaðeigandi fyrirtækjum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur greint samkeppni á heildsölumörkuðum fyrir aðgang, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum, þ.e. mörkuðum 8 - 10.Frumdrög greiningar og niðurstaða PFS um framangreinda markaði eru nú lögð fram til samráðs og PFS býður fjarskiptafyrirtækjum og öðrum sem áhuga hafa á að gera athugasemdir við þau, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Sjá nánar: Bréf til hagsmunaaðila og samráðsskjal um markaðsgreiningu á mörkuðum 8 - 10 Sjá nánar um markaðsgreiningu PFS
7. mars 2008
Samráð um markaðsgreiningu á mörkuðum 1 - 6
Nánar
PFS hefur sent hagsmunaaðilum til umsagnar frumdrög að markaðsgreiningu á mörkuðum 1 - 6, þ.e. smásölumörkuðum fyrir aðgang að almennu talsímaneti og almenna talsímaþjónustu á fastaneti. PFS mun endurskoða markaðsgreininguna með hliðsjón af þeim athugasemdum sem berast áður en greiningin er send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Að teknu tilliti til umsagnar ESA verður ákvörðun stofnunarinnar birt hlutaðeigandi fyrirtækjum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur greint samkeppni á smásölumörkuðum fyrir aðgang að almennu talsímaneti og almenna talsímaþjónustu á fastaneti, markaðir 1-6. Frumdrög greiningar og niðurstaða PFS um framangreinda markaði eru nú lögð fram til samráðs og PFS býður fjarskiptafyrirtækjum og öðrum sem áhuga hafa á að gera athugasemdir við þau, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Sjá nánar: Bréf til hagsmunaaðila og samráðsskjal um markaðsgreiningu á mörkuðum 1 - 6 Sjá nánar um markaðsgreiningu PFS
3. mars 2008
Vodafone hækkar verð fyrir fastasíma- og farsímanotkun
Nánar
Vodafone hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um breytingar á gjaldskrá sinni frá og með 1. mars 2008. M.a. hækkaði verð þegar talað er milli heimasíma (fastasíma) úr 1,70 kr. í 1,85 kr. á mínútuna, eða um 8,8%. Einnig hækkuðu upphafsgjöld á öllum áskriftarleiðum farsímanotkunar í 3,75 kr. Fleiri breytingar voru gerðar á gjaldskránni, meðal annars lækkuðu verð fyrir MMS skilaboð. Sjá fréttir á heimasíðu Vodafone. Verðskrá Vodafone fyrir heimasíma: http://www.vodafone.is/heimasimi Verðskrá Vodafone fyrir farsíma: http://www.vodafone.is/gsmsamanburdur PFS birtir mánaðarlega verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu hér á vefnum.Sjá verðsamanburð fjarskiptaþjónustu
28. febrúar 2008
Uppbygging háhraðanettenginga boðin út fyrir hönd fjarskiptasjóðs
Nánar
Ríkiskaup hefur auglýst eftir tilboðum í uppbyggingu háhraðanettenginga fyrir hönd Fjarskiptasjóðs. Verkefnið felur í sér stuðning vegna viðbótarkostnaðar við uppbyggingu á háhraðanettengingum á skilgreindum stöðum, sem eru lögheimili með heilsársbúsetu og fyrirtæki með starfsemi allt árið þar sem háhraðanettengingar eru hvorki í boði né fyrirhugaðar á markaðslegum forsendum. Sjá auglýsingu á vef Ríkiskaupa
28. febrúar 2008
Tvær ákvarðanir PFS um heimild Íslandspósts til að fækka dreifingardögum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt tvær ákvarðanir þar sem Íslandspósti er heimilað að fækka dreifingardögum úr fimm í þrjá á tveimur landpóstaleiðum sem farnar eru frá Patreksfirði og Króksfjarðarnesi. Ákvörðunin tekur til 45 heimila á þessum stöðum. Fjöldi heimila og fyrirtækja á landinu er 126.806, af þeim eru nú 121 heimili sem ekki fá fimm daga þjónustu eða 0,095%. Þar af eru 33 í Grímsey og 15 í Mjóafirði.Ef Íslandspóstur ákveður að nýta sér þessa heimild verður fjöldi heimila sem ekki fá fimm daga þjónustu 166 eða 0,131% af öllum heimilum í landinu. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir: ...ákvæði laga um póstþjónustu, einkum 21. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003, feli ekki í sér fortakslausa skyldu, á hendur Íslandspósti til að bera út póstsendingar alla virka daga, án tillits til aðstæðna. Þessi niðurstaða sæki einnig stoð í 3.tl. 3. gr. tilskipunar 67/97/EB um póstþjónustu. Einnig verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að kostnaður við dreifingu á hvert heimili sé hér langtum meiri en almennt gerist í dreifbýli. Auk þess hafi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, með ákvörðun nr. 11/2006, slegið því föstu að íslenskir landshættir geri það að verkum að erfiðara er að þjónusta suma hópa en aðra. Ef þessi sjónarmið eru metin heildstætt þá vega þau þyngra en hagsmunir viðkomandi íbúa á að fá póstsendingar til sín alla virka daga. Einnig ef tekið er tillit til þess að einungis hluta þeirra póstsendinga sem íbúar fá til sín munu seinka um sem nemur einum degi frá því sem verið hefur, ákveði Íslandspóstur að nýta sér þessa heimild Póst- og fjarskiptastofnunar. Hér fyrir neðan má lesa ákvarðanirnar í heild (PDF form) Ákvörðun PFS nr 5/2008 Erindi Íslandspósts hf. um fækkun dreifingardaga á landpóstaleið sem ekin er frá Króksfjarðarnesi - 27. feb. 2008 Ákvörðun PFS nr 6/2008 Erindi Íslandspósts hf. um fækkun dreifingardaga út frá Patreksfirði - 27. feb. 2008 Viðauki við ákvörðun 6/2008
21. febrúar 2008
Bráðabirgðaákvörðun PFS vegna kröfu um afhendingu á verðtilboði í tiltekin sambönd yfir ljósleiðara
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið bráðabirgðaákvörðun í máli Og fjarskipta ehf. (Vodafone) gegn Mílu ehf., þar sem Og fjarskipti ehf. krafðist þess að fá verðtilboð frá Mílu í tiltekin háhraða ljósleiðarasambönd í tengslum við útboð Farice hf. vegna nýs sæstrengs. PFS féllst á það með Mílu að beiðni Vodafone um afhendingu verðtilboðs væri ekki eðlileg og sanngjörn krafa um aðgang að leigulínum, eins og atvikum væri háttað í málinu. Niðurstaða PFS réðst af þeirri staðreynd að Vodafone fór fram á aðgang að ljósleiðarasamböndum sem ekki eru tiltæk enn sem komið er, þar sem Míla hefur ekki enn lagt í þá fjárfestingu sem til þarf. PFS komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðgangur sem þessi gæti talist eðlilegur og sanngjarn hefðu umrædd sambönd verið tiltæk og að slík sambönd féllu undir þær kvaðir sem PFS lagði á Mílu með ákvörðun PFS nr. 20/2007. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar ítarlegrar markaðsgreiningar PFS á leigulínumörkuðum og þar voru m.a. lagðar kvaðir á Mílu um að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að leigulínukerfum sínum, tryggja jafnræði milli tengdra og ótengdra fjarskiptafyrirtækja og að miða verðlagningu aðgangsins við tilkostnað að teknu tilliti til eðlilegs arðs af upphaflegri fjárfestingu. Í ákvörðunarorðum segir m.a.: Þau sambönd sem Míla ehf. hyggst bjóða Farice hf. í tengslum við fyrirhugað útboð, þ.e. 10x10 Gbps bylgjur á STM-64 sniði, falla undir þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu ehf. með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 20/2007. Fallist er á kröfu Mílu ehf. um að beiðni Og fjarskipta ehf. um afhendingu verðtilboðs í slík sambönd feli ekki í sér, eins og hér háttar til, eðlilega og sanngjarna kröfu um aðgang. Ákvörðun til bráðabirgða nr. 4/2008 vegna kröfu um afhendingu á verðtilboði í tiltekin sambönd yfir ljósleiðara (PDF)