Fréttasafn
3. júlí 2008
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um leigulínumarkaði
Nánar
Þann 1. júlí 2008 staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í úrskurðum sínum nr. 5, 6, 7 og 8/2007 ákvörðun PFS nr. 20/2007 um leigulínumarkaði frá 14. september 2007. Um var að ræða eftirtalda markaði: Markað 7 – lágmarksframboð af leigulínum, Markað 13 – heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína, Markað 14 – heildsölumarkað fyrir stofnlínuhluta leigulína Leigulínur eru notaðar til að flytja tal og gögn milli stöðva í fjarskiptanetum. Leigulínur tákna fjarskiptabúnað sem gefur kost á gagnsærri flutningsgetu milli nettengipunkta sem innifelur ekki skiptingu lína að ósk notenda. Flutningsmiðill leigulína getur verið með ýmsum hætti, t.d. koparheimtaug, ljósleiðari og þráðlaust örbylgusamband. Útnefning Símans með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð á leigulínum og álagðar kvaðirÍ ákvörðun sinni komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum (markaður 7). Um er að ræða leigulínur, hliðrænar og stafrænar, með allt að 2 Mbit/s afkastagetu. PFS lagði á félagið skyldu til að veita aðgang að tilteknum leigulínum um land allt. Félagið skyldi tryggja að sú þjónusta, sem hefði verið í boði, stæði áfram til boða í hæfilegan tíma og einungis væri heimilt að fella niður þjónustu að höfðu samráði við hlutaðeigandi notendur og með fyrirfram samþykki PFS. Jafnframt voru lagðar kvaðir á félagið um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Útnefning Símans og Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumörkuðum fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína og álagðar kvaðirÍ ákvörðun sinni komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn og Míla hefðu hvort um sig umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumörkuðum fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína (markaðir 13 og 14) varðandi þá leigulínuþjónustu sem félögin veittu. Markaðurinn fyrir lúkningu leigulína nær til þjónustu á aðgangsmarkaði á heildsölustigi en markaðurinn fyrir stofnlínuhlutann nær yfir alla leigulínuþjónustu á stofnlínukerfinu á heildsölustigi. Hér undir heyra hefðbundnar leigulínur (SDH/PDH) ásamt flutningi á rásum í fjölrása flutningakerfum samkvæmt ýmsum samskiptareglum (t.d. Ethernet, Frame Relay, DWDM, ATM og IP-MPLS) ásamt svörtum ljósleiðara (ljósleiðarasamband án endabúnaðar). Míla veitir alla ofangreinda heildsöluþjónustu nema ATM og IP-MPLS þjónustu sem er í höndum Símans. PFS lagði á félögin skyldu til að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína og þjónustu á heildsölustigi. Jafnframt voru lagðar kvaðir á félögin um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá á viðkomandi heildsölumörkuðum. Áhrif markaðsgreiningar PFS á leigulínumörkuðumMeð úrskurðum þessum er það von PFS að veigamiklum hindrunum sé rutt úr vegi þess að keppninautum samstæðu Símans (Síminn og Míla) verði gert kleift að byggja upp og þróa alhliða fjarskiptaþjónustu í samkeppni við samstæðuna með því að fá aðgang að innviðum fjarskiptakerfa samstæðunnar á heildsöluverði. Þetta er sérlega mikilvægt varðandi aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að ATM og IP netum Símans á kostnaðartengdu verði en fram til þessa hefur sú þjónusta ekki staðið öðrum fjarskiptafyrirtækjum til boða á heildsöluverði. Aðgangur að leigulínum á kostnaðartengdu verði er grundvallaratriði varðandi eflingu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins, t.d. mörkuðum fyrir talsíma, farsíma, gagnaflutning og sjónvarps- og útvarpsdreifingu. Markmið fjarskiptalöggafarinnar og PFS með markaðsgreiningunum er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki nægjanlega virk eins og þær niðurstöður sem nú liggja fyrir gefa til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á fjarskiptamörkuðum eflast, neytendum til hagsbóta. Sjá úrskurðina í heild (pdf) Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2007 Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2007 Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 7/2007 Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 8/2007 Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 20/2007
2. júlí 2008
Nýjar reglur um fyrirkomulag númerabirtingar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út nýjar reglur um fyrirkomulag númerabirtingar, nr. 629/2008. Reglurnar voru unnar í samráði við hagsmunaaðila og tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 30. júní sl. Reglur um fyrirkomulag númerabirtingar, nr. 629/2008
25. júní 2008
PFS kallar eftir samráði vegna markaðsgreiningar á markaði 18
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna markaðsgreiningar á heildsölumarkaði útsendingarþjónustu fyrir útvarpssendingar til notenda (markaði 18). PFS hefur greint samkeppni á heildsölumarkaði útsendingarþjónustu fyrir útvarpssendingar til notenda, markaður. Frumdrög greiningar og niðurstaða PFS um framangreinda markaði eru nú lögð fram til samráðs og PFS býður fjarskiptafyrirtækjum og öðrum sem áhuga hafa á að gera athugasemdir við þau, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Vakin er athygli á því að PFS áætlar að birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og þá mun stofnunin leggja mat á þá beiðni. Þegar athugasemdir hafa borist mun PFS endurskoða drögin með hliðsjón af þeim og útbúa drög að ákvörðun sem send verður ESA til samráðs þegar þau hafa verið þýdd yfir á ensku ásamt greiningunum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003. Geri ESA ekki athugasemdir við markaðsgreiningar og niðurstöður PFS verða ákvarðanirnar birtar hlutaðeigandi fyrirtækjum. Frestur til að skila athugasemdum rennur út þriðjudaginn 25. ágúst n.k. Frekari frestur verður ekki veittur. Bréf til hagsmunaaðila og frumdrög að markaðsgreiningu Nánar um markaðsgreiningu Nánari upplýsingar um markaðsgreiningar veita starfsmenn PFS, Óskar Hafliði Ragnarsson, s: 510-1523, netfang: oskarh(hjá)pfs.is og Guðmann B. Birgisson, s: 510-1504, netfang: gudmann.birgisson(hjá)pfs.is
24. júní 2008
ESA kallar eftir samráði hagsmunaaðila um endurskoðun tilmæla sinna vegna vöru- og þjónustumarkaða á sviði fjarskipta.
Nánar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur kallað eftir almennu samráði vegna endurskoðunar á tilmælum sínum nr. 194/04/COL frá 2004 , um viðkomandi vöru- og þjónustumarkaði á sviði fjarskipta.Tilmælin frá 2004 voru sá grunnur sem notaður var til að skilgreina þá markaði fjarskiptageirans þar sem ástæða var talin fyrir sértækar reglur og fyrirframkvaðir til að efla samkeppni. Í samræmi við samkeppnislög sem gilda innan EES ríkjanna voru skilgreindir 18 slíkir markaðir. Eftirlitsstofnanir innan EFTA ríkjanna á sviði fjarskipta byggja markaðsgreiningar sínar á þessum tilmælum sem nú eru í endurskoðun. Auk eftirlitsstofnana á borð við PFS innan EFTA ríkjanna er fjarskiptafyrirtækjum, neytendum og öðrum hagsmunaaðilum boðið að senda inn umsagnir og athugasemdir. Umræðuskjalið og aðrar upplýsingar má nálgast á fréttatilkynningu á vefsíðu ESA. Frestur til að senda inn umsagnir/athugasemdir er til 16. júlí 2008. Beðið er um að þær séu á ensku og skal senda þær á netfangið ecom@eftasurv.int Nánari upplýsingar veita Björn Geirsson forstöðumaður lögfræðideildar PFS (netfang: bjorn(hjá)pfs.is) eða Óskar Hafliði Ragnarsson lögfræðingur hjá PFS (netfang: oskarh(hjá)pfs.is)
13. júní 2008
PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um viðmiðunartilboð Símans um aðgang til endursölu og sýndarnetsaðgang að farsímaneti
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun barst í maí sl. afrit af viðmiðunartilboðum Símans um sýndarnetsaðgang og endursöluaðgang að farsímaneti fyrirtækisins. Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaði 15), var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang til endursölu í almennum farsímanetum og heildsölumarkaði fyrir aðgang fyrir sýndarnet í almennum farsímanetum. Áður en PFS tekur afstöðu til þess hvort að þau viðmiðunartilboð sem nú hafa verið birt af hálfu Símans, uppfylla þær kvaðir sem koma fram í ákvörðun stofnunarinnar nr. 4/2007, sem og hvort þau samrýmast ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti, óskar stofnunin eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðsins. Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til 21. júlí n.k. Sjá bréf PFS til hagsmunaaðila, 12. júní 2008 Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/ eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið ingahelga (hjá) pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar.
12. júní 2008
Álit Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort skilmálar í ákveðnum tilboðum Nova á fjarskiptaþjónustu séu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga um sex mánaða hámarksbinditíma
Nánar
Í ljósi markaðssetningar fyrirtækisins Nova undanfarnar vikur, þar sem fyrirtækið auglýsir m.a. símatilboð með 2000 kr. inneign/afslætti á notkun á mánuði í 12 mánuði og 3G internettilboð, ákvað Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að kanna, í samræmi við 4. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, hvort skilmálar í hlutaðeigandi tilboðum fyrirtækisins séu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 um sex mánaða hámarksbinditíma. Með setningu laga nr. 39/2007, um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, voru samþykktar á Alþingi ýmsar breytingar á lögum um fjarskipti í þeim tilgangi m.a. að auka neytendavernd. Meðal annars var nýrri málsgrein, 2. mgr. 37. gr., bætt við 37. gr. laganna, er fjallar um viðskiptaskilmála áskrifenda fjarskiptaþjónustu á einstaklingsmarkaði. Málsgrein þessi kveður á um hámarksbinditíma sem heimilt er að semja um í samningi milli fjarskiptafyrirtækis og áskrifenda. Ákvæðið hljóðar svo: „Óheimilt er í samningi að kveða á um lengri binditíma áskrifenda en sex mánuði. Eftir þann tíma er áskrifanda heimilt að segja upp samningi með eins mánaðar fyrirvara. (...).“ Eins og leiðir af orðalagi ákvæðisins er tilgangur ákvæðisins sá að fyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu bindi ekki áskrifendur sína í meira en 6 mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 39/2007, um breytingu á lögum um fjarskipti, segir að tilgangur þessa sé að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd. Að mati PFS er mikilvægt að horfa til þessa tilgangs þegar tilboð á fjarskiptaþjónustu eru skoðuð. Þau tilboð Nova sem hér um ræðir eru tvenns konar. Annars vegar símatilboð með 2000 kr. inneign/afslætti á notkun á mánuði í 12 mánuði, þ.e. kaup á símtæki hjá Nova sem hægt er að greiðsludreifa með jöfnum 2.000 kr. greiðslum á mánuði í 12 mánuði eða staðgreiða kr. 24.000. Í þessum tilboði felst jafnframt 2.000 kr. inneign í notkun á mánuði í 12 mánuði, sem samsvarar í raun 2.000 kr. afslætti á mánuði í áskrift (eða 2.000 kr. í inneign á mánuði í frelsi). Hins vegar er 3G internettilboð Nova sem felur í sér kaup á 3G pung fyrir kr. 19.900 sem fylgir internetáskrift í 12 mánuði frítt með, eða greiðslu á kr. 1.990 á mánuði í 12 mánuði og þá fylgir 1.990 kr. mánaðargjald í 12 mánuði frítt með. Að framangreindu má vera ljóst að í raun er um að ræða tvo aðgreinda markaði, annars vegar markað fyrir sölu á tilteknum búnaði tengdum fjarskiptum, þ.e. GSM farsímum eða notendabúnaði til þess að tengjast internetinu, og hins vegar markað fyrir fjarskiptaþjónustu, þ.e. GSM þjónustu eða internetþjónustu fyrir einstaklinga. Er því ljóst að í þessum tilboðum felst í raun að viðskiptavinum Nova er boðinn afsláttur af vöru/þjónustu gegn því að þurfa í raun að kaupa aðra vöru/þjónustu af fyrirtækinu. Í ljósi þess að notendum, sem velja að gerast áskrifendur að þjónustu Nova, er með framangreindum tilboðum veittur afsláttur af þjónustu fyrirtækisins fyrstu 12 mánuðina verður að telja að ákveðin bindiáhrif séu til staðar sem hvetja áskrifendur til þess að bindast lengur en 6 mánuði. Þessu til stuðnings má benda á þá staðreynd að áskrifendur missa umsamda 2.000 kr. inneign sína á mánuði ef þeir segja upp þjónustunni eftir 6 mánuði og innan 12 mánaða. Bindiáhrif tilboða af þessu tagi leiða hins vegar ekki, út af fyrir sig, til þess að tilboðin verði talin brjóta í bága við 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga. Verður því að skoða hvert mál fyrir sig og meta hvort þau bindiáhrif sem um ræðir séu þess eðlis að stríða gegn þeim sjónarmiðum sem búa að baki takmarkana á hámarksbinditíma samkvæmt 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalagi. Í þessu sambandi er því mikilvægt að í skilmálum þessháttar tilboða sé skýrlega kveðið á um að áskrifendur séu ekki bundnir lengur en í 6 mánuði og að þeim tíma liðnum geti þeir sagt upp þjónustunni sér að skaðlausu. Í 2. mgr. 4. gr. viðskiptaskilmála Nova kemur fram að „sé um samning að ræða sem kveður á um binditíma í allt að 6 mánuði, þarf viðkomandi viðskiptavinur að greiða upp það sem eftir er af binditímanum, óski viðskiptavinur þess að segja samningi sínum upp áður en binditíma er lokið.“ Þá segir í 2. mgr. 10. gr. sömu skilmála „ef viðskiptavinur hefur greiðsludreift símtæki getur hann ýmist greitt eftirstöðvar eða haldið óbreyttum afborgunum ef til uppsagnar þjónustusamnings kemur.“ Að virtum framangreindum ákvæðum í viðskiptaskilmálum Nova, og í ljósi þess að fyrirtækið gerir ekki samninga við áskrifendur sem kveða á um lengri binditíma í 6 mánuði og að áskrifendum er gert kleift að segja upp þjónustusamningi sínum við Nova sér að skaðlausu, verður að telja að umrædd tilboð brjóti ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga. Að þessu sögðu vill PFS þó taka fram að mikilvægt er að skoða hvert tilvik fyrir sig til að komast í raun um hvort það sé í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga, enda verða samningar og tilboð um fjarskiptaþjónustu að uppfylla ströng skilyrði til þess að teljast vera í fullu samræmi við framangreint ákvæði. Í þeim tilgangi að varna gegn bindingaráhrifum tilboða á fjarskiptaþjónustu verður til að mynda að gera þá kröfu til fjarskiptafyrirtækja að viðskiptavinir þeirra séu með skýrum og sannanlegum hætti upplýstir um skilmála og mögulega útgönguleið úr viðskiptunum að 6 mánaða binditíma liðnum og verður slík útgönguleið að vera viðskiptavinum að skaðlausu. Þá verður að gera kröfu um gagnsæi í slíkum samningum og tilboðum, þ.e. að fjarskiptafyrirtæki sem bjóða umrædd tilboð upplýsi notendur sína, með skýrum og sannanlegum hætti, hvert raunverulegt verð vörunnar er og hvert raunverulegt verð þjónustunnar er. Ekki má gera þá kröfu að notendur greiði upp eftirstöðvar símtækis/notendabúnaðar ef til uppsagna kemur að 6 mánuðum liðnum, heldur verður viðkomandi notandi að hafa val um það að halda óbreyttum afborgunum eða greiða upp eftirstöðvar. Auk framangreinds verður ávallt að hafa í huga tilgang 2. mgr. 37. gr., þ.e. að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd. Stríði tilboð á fjarskiptaþjónustu að einhverju leyti gegn framangreindu getur það ekki talist samrýmast ákvæði 2. mgr. 37. gr. um 6 mánaða hámarksbinditíma. Að öllu ofangreindu virtu beinir Póst- og fjarskiptastofnun þeim tilmælum til Nova og annarra fjarskiptafyrirtækja að tekið sé mið af framangreindum sjónarmiðum stofnunarinnar í þeim tilboðum sem fyrirtækin bjóða eða hyggjast bjóða notendum fjarskiptaþjónustu. Að lokum skal það tekið fram að ofangreind umfjöllun Póst- og fjarskiptastofnunar er ekki tæmandi talning á sjónarmiðum og skilyrðum tengdum 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga heldur er hér aðeins um að ræða athugun á skilmálum í framangreindum tilboðum Nova og almenna umfjöllun sem ekki bindur stofnunina varðandi beitingu og túlkun ákvæðisins í einstökum ágreiningsmálum sem upp kunna að koma síðar. Reykjavík, 11. júní 2008
3. júní 2008
Verðbreytingar hjá Símanum og Vodafone þann 1. júní.
Nánar
Bæði Síminn og Vodafone gerðu allnokkrar breytingar á verðskrám sínum þann 1. júní sl. Póst- og fjarskiptastofnun fylgist reglulega með gjaldskrám fjarskiptafyrirtækja og uppfærir upplýsingar um þær mánaðarlega hér á vefnum.Til samanburðar er einnig hægt að skoða gjaldskrárnar eins og þær litu út í mánuðinum á undan. Upplýsingar um gjöld og tímamælingar fjarskiptafyrirtækja í maí og júní 2008 Tilkynning á vefsíðu Vodafone Tilkynning á vefsíðu Símans
2. júní 2008
Tölfræðiskýrsla um íslenskan fjarskiptamarkað 2006
Nánar
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað fyrir árið 2006 hefur verið birt hér á vefnum. Skýrslan sem nú birtist er unnin á árinu 2007 en birting hennar dróst þar sem Og fjarskipti ehf. töldu PFS ekki heimilt að birta tilteknar upplýsingar sem þar er að finna og kærðu ákvörðun PFS um birtinguna til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Nefndin sendi frá sér úrskurð sinn þann 30. maí sl. þar sem ákvörðun PFS er staðfest og tekið fram að PFS sé falið ákveðið mat á því hvaða upplýsingar skuli birtar, í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar, önnur lög og alþjóðasáttmála, góða stjórnsýsluhætti og eðli máls. Hér er um að ræða ítarlegar tölfræðiupplýsingar um fjarskiptamarkaðinn 2006 og verður sams konar skýrsla fyrir árið 2007 birt á næstunni. Stefnt er að því að slíkar skýrslur verði birtar tvisvar á ári. Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2006 (PDF)