Fréttasafn
15. febrúar 2008
Laus staða hjá PFS: Forstöðumaður tæknideildar
Nánar
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun er laus staða forstöðumanns tæknideildar. Verksvið tæknideildar PFS: Skipulagning númeramála og tíðnirófsins á Íslandi, úthlutun tíðna og númera, ásamt upplýsingagjöf um notkun. Net- og upplýsingaöryggi er mikilvægur og vaxandi þáttur í starfi deildarinnar Ráðgjöf um tæknilega þætti fjarskiptaneta og tæknilega eiginleika í vöruframboði fjarskiptafélaga er á verksviði deildarinnar, einnig markaðseftirlit og skoðun fjarskiptabúnaðar Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði fjarskipta er veigamikill þáttur í starfsemi deildarinnar, þar sem fylgst er með og gerð grein fyrir alþjóðlegri þróun varðandi tækni í fjarskiptum, öryggi neta, skipulagi og nýtingu tíðna og númera ásamt því að móta tillögur um þær reglur sem gilda skulu á Íslandi. Starfssvið forstöðumannsForstöðumaður ber ábyrgð á daglegri starfsemi deildarinnar og leiðir hóp sérfæðinga í samstarfi við aðrar fageiningar. Hann ber ábyrgð á áætlanagerð ásamt eftirfylgni með verkefnum á verksviði deildarinnar. Starf forstöðumanns tæknideildar heyrir undir forstjóra og situr hann í framkvæmdastjórn PFS. Menntun og reynslaUmsækjendur skulu hafa lokið háskólanámi í verkfræði eða raungreinum. Sérmenntun eða starfsreynsla á sviði fjarskipta er kostur. Aðrar hæfniskröfur: Drifkraftur, frumkvæði, jákvæðni og metnaður til að ná árangri Hæfni til að vinna í hópi og leiða samvinnu og breytingar þar sem sjónarmið lögfræði, hagfræði og tækni mynda saman lausn Færni til að tjá sig í rituðu og mæltu máli á íslensku og ensku Stjórnunarreynsla Í boði eru samkeppnishæf kjör í síbreytilegu og spennandi umhverfi, þar sem gerðar eru miklar fagkröfur. Vinnuumhverfið er aðlaðandi og aðbúnaður starfsmanna góður. Umsóknarfrestur er til og með 25. febrúar 2008. Gengið verður frá ráðningu fljótlega. Umsóknir ásamt ferilskrá og viðeigandi prófgögnum skal senda á netfangið anna.gudmundsdottir@pfs.is Umsóknir eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verður öllum svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Nánari upplýsingar veitir Anna Dóra Guðmundsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri PFS, í síma 510 1500. Auglýsing (PDF)
14. febrúar 2008
PFS birtir ákvörðun í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 3/2008 í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf. Í máli þessu var kvartað til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þess að Síminn hafði takmarkað hraða á nettengingu kvartanda vegna óhóflegs erlends niðurhals þrátt fyrir að hann væri áskrifandi að ADSL-þjónustu sem Síminn auglýsti að fæli í sér ótakmarkað niðurhal. Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a.: Í því máli sem hér er til umfjöllunar er það álit Póst- og fjarskiptastofnunar að ekki hefur tekist að sýna fram á að skilmálar Símans vegna umræddrar þjónustu fari að einhverju leyti í bága við lög nr. 81/2003, um fjarskipti. Af þessum sökum er það mat Póst- og fjarskiptastofnunar að með framsendingu erindis kvartanda til Neytendastofu sé stofnunin að tryggja sem best hag kvartanda og annarra notenda í ADSL-þjónustu Símans. Er það einkum í ljósi þess að úrræði Neytendastofu til þess að bregðast við þeim starfsháttum fjarskiptafyrirtækja er varða villandi upplýsingar í auglýsingum eru mun ríkari en þau úrræði sem Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að beita. Til að mynda, geti auglýsandi ekki sýnt fram á að fullyrðingar í auglýsingum sínum séu réttar, brjóta auglýsingarnar í bága við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Getur Neytendastofa þá lagt fyrir fyrirtæki að breyta auglýsingum, bannað birtingu þeirra og sektað umrædd fyrirtæki, (...). Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki heimildir til þess að beita fjarskiptafyrirtæki stjórnvaldssektum. Í ákvörðunarorðum segir: Sú takmörkun sem kveðið er á um í 14. gr. internetskilmála Símans hf. um að lækka tímabundið hraða á tengingu áskrifenda vegna erlends niðurhals sem fer umfram 20 Gb á 7 daga tímabili felur ekki í sér brot á ákvæðum laga um fjarskipti nr. 81/2003. Póst- og fjarskiptastofnun er ekki bært stjórnvald til þess að skera úr um hvort kynningar og auglýsingar Símans fyrir ADSL þjónustu sína fela í sér óréttmæta viðskiptahætti. Kvörtun þar að lútandi, ásamt kröfu kvartanda um að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun um að Síminn standi við fullyrðingar um ótakmarkað erlent niðurhal og aflétti hömlum á netaðgangi hans ásamt því að bæta honum það tjón sem takmarkaður netaðgangur hefur valdið honum, er vísað frá Póst- og fjarskiptastofnun og áframsend til Neytendastofu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Afrit ákvörðunar þessarar er sent Neytendastofu. Hér má lesa ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 3/2008 í kvörtunarmáli um ótakmarkað erlent niðurhal í ADSL þjónustu Símans hf. (PDF)
6. febrúar 2008
PFS birtir drög að reglum um númerabirtingar og drög að breytingum á reglum um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga
Nánar
Í ljósi tíðra breytinga á fjarskiptamarkaði undanfarin ár telur Póst- og fjarskiptastofnun nauðsynlegt að endurskoða reglur nr. 318 frá árinu 2003, um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga. Hefur stofnunin því gert drög að breyttum reglum um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga og hafa þau nú verið birt á heimasíðu stofnunarinnar og er öllum hagsmunaaðilum frjálst að senda inn athugasemdir og umsagnir við drögin. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun jafnframt gert drög að reglum um númerabirtingu í samræmi við 51. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, er kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem reka almenna talsímaþjónustu til að bjóða notendum númerabirtingu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að setja reglur um fyrirkomulag númerabirtinga.Stofnunin hefur gert drög að slíkum reglum. Drögin taka mið af 8. gr. tilskipunar 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta. Í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, óskar stofnunin hér með eftir umsögnum hagsmunaaðila, vegna ofangreinds.Svarfrestur til þess að koma að rökstuddum tillögum eða athugasemdum við meðfylgjandi drög er gefinn til 3. mars nk. Umsagnir verða birtar nafnlaust á heimasíðu stofnunarinnar. Sérstakar fyrirspurnir vegna ofangreinds má senda á netfangið ingahelga@pfs.is en sérstakar athugasemdir og rökstuddar tillögur skulu sendar formlega til Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir ofangreindan svarfrest. Drög að reglum um númerabirtingar (PDF) Drög að reglum um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga (PDF)
18. janúar 2008
PFS hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2008 um ágreining Símans hf. og Nova ehf. um samtengingargjöld
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun tók þann 11. janúar s.l. ákvörðun þess efnis að ágreiningur Símans hf. og Nova ehf. um samtengingargjöld þess síðarnefnda heyrði undir Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, sbr. 24. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Ákvörðunin (pdf)
17. janúar 2008
PFS hefur birt ákvörðun sína nr. 1/2008 um birtingu tölfræðiupplýsinga um fjarskiptamarkaðinn
Nánar
PFS hefur birt ákvörðun sína nr. 1/2008 um birtingu tölfræðiupplýsinga um fjarskiptamarkaðinn. Að kröfu Og fjarskipta ehf. tók Póst- og fjarskiptastofnun kæranlega ákvörðun um fyrirætlun sína að birta tölfræðiupplýsingar um íslenska fjarskiptamarkaðinn. Áður hafði fyrirtækið Og fjarskipti ehf. óskað eftir því að PFS birti ekki neinar tölfræðiupplýsingar sem ekki hafa áður birst þar sem Og fjarskipti ehf. töldu nauðsynlegt að farið yrði leynt með tilteknar tölfræðiupplýsingar sem stofnunin hafði áður aflað. Í ákvörðunarorðum segir m.a.: "Birtar verða tölfræðiupplýsingar um Og fjarskipti ehf. samkvæmt áðurnefndu bréfi stofnunarinnar, dags. 23. nóvember sl., í ritinu Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2006, að undanskildum þeim upplýsingum sem greinir um í töflum T11 og T12 samkvæmt ákvörðun þessari."
27. desember 2007
Bætt öryggi í fjarskiptum - nýjar reglur fyrir fjarskiptafyrirtæki
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið út reglur sem fjalla um öryggi í fjarskiptum, vernd neta og upplýsinga sem um þau fara og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Reglurnar hafa verið birtar í Stjórnartíðindum og taka gildi þann 1. júlí 2008. Um er að ræða þrjá reglubálka sem taka á mismunandi þáttum net- og upplýsingatækni. Eru reglurnar settar í framhaldi af breytingu á lögum um fjarskipti sem gerð var í mars 2007 þar sem PFS er heimilað að setja slíkar reglur. Frá árslokum 2005 hefur verið unnið mikið starf hjá PFS við að stuðla að auknu net- og upplýsingaöryggi, m.a. með því að móta kröfur um ákveðin viðmið í þeim efnum. Með nýju lögunum sem tóku gildi í mars sl. var settur aukinn kraftur í þessa vinnu sem nú hefur skilað sér með birtingu þessara reglna.Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila og tillit tekið til sjónarmiða þeirra. M.a. var sérstakur vinnuhópur settur á laggirnar um gerð reglna um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu. Í þeim hópi sátu fulltrúar PFS, fjarskiptafyrirtækja og neytenda. Reglur um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum nr. 1221/2007 Reglur um virkni almennra fjarskiptaneta nr. 1222/2007 Reglur um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu nr. 1223/2007 Sjá einnig:Lög um fjarskipti nr. 81/2003 og Lög nr.39/2007 um breytingu á lögum um fjarskipti nr.81/2003
27. desember 2007
Míla útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang að koparheimtaugum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði 11, heildsölumarkaði fyrir aðgang að koparheimtaugum. Á grundvelli niðurstöðu úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Mílu ehf. með umtalsverðan markaðsstyrk á markaðinum. PFS hefur ákveðið að leggja á Mílu skyldu til að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang að koparheimtaugum og þjónustu á heildsölustigi. Jafnframt eru lagðar á kvaðir um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Mílu er gert skylt að birta viðmiðunartilboð fyrir aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Míla skal gera kostnaðarlíkan til útreikninga á gjaldskrá og skal gjaldskráin vera sundurliðuð í grunnverð, aukagjald fyrir skiptan aðgang og gjöld fyrir tengda aðstöðu. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og Póst- og fjarskiptastofnunar með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Ákvörðun PFS nr. 26/2007 (PDF) Viðauki A - Greining á markaði 11 (PDF) Viðauki B - Niðurstöður úr samráði (PDF) Viðauki C - Álit ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA ) (PDF)
21. desember 2007
Ákvörðun PFS: Íslandspóstur fær leyfi til að hækka gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag samþykkt beiðni Íslandspósts hf. um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar. Bréf í 20 gr. flokki hækka úr kr. 60 í kr. 65 og bréf í 50 gr. flokki hækka úr kr. 70 í kr. 75. Hækkunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2008. Ákvörðun PFS nr. 27/2007