Fréttasafn
22. ágúst 2013
PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá fyrir lúkningu í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að greiningu á heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Greiningin byggir á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) og tekur mið af úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012 frá 30. júní sl. Samkvæmt framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. Lúkningarverð allra farsímarekenda hér á landi hafa verið jöfn í 4 kr./mín. frá 1. janúar 2013, en höfðu um árabil verið ójöfn og mun hærri. Skv. ákvörðuninni skal PFS framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita þeirri aðferðarfræði við kostnaðargreiningu sem nánari er lýst í frumdrögunum.
21. ágúst 2013
Reiknivél PFS - Berið saman verð á fjarskiptaþjónustu
Nánar
Í framhaldi af umræðu um verðhækkanir á fjarskiptaþjónustu til neytenda vill Póst- og fjarskiptastofnun vekja athygli á vef sínum Reiknivél.is. Á vefnum geta neytendur borið saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir síma og netþjónustu. Þar er reiknað út frá einingaverðum í verðskrám fjarskiptafyrirtækjanna og tekið tillit til algengustu notkunar. Ekki er þó hægt að nota reiknivélina til að sannreyna fjarskiptareikninga einstakra notenda þar sem fjarskiptafyrirtækin bjóða upp á ýmis afsláttarkjör og sérþjónustu sem bundin eru einstökum notendum eða notendahópum og ekki er hægt að taka inn í forsendur reiknivélarinnar.
14. ágúst 2013
Framlengdur festur til að skila gögnum í samráð varðandi Já upplýsingaveitur ehf.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest sem hagsmunaaðilar fengu til að skila inn gögnum vegna samráðs um endurskoðun á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingu á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingu á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur. Var samráðið auglýst hér á vefnum þann 24. júní sl.
1. ágúst 2013
PFS framlengir samráðsfrest vegna breytinga á viðmiðunartilboðum Símans um aðgang að talsímakerfi félagsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja samráðsfrest vegna viðmiðunartilboðs Símans um samtengingu talsímaneta (RIO) og viðmiðunartilboðs um endursöluaðgang að talsímaneti félagsins. Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni á netfangið hulda(hjá)pfs.is, eigi síðar en föstudaginn 16. ágúst n.k. Ekki verður unnt að veita frekari frest til að koma með athugasemdir.
30. júlí 2013
PFS heimilar hækkun á heildsöluverðum Mílu og breytingar á viðmiðunartilboði Símans
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú þrjár ákvarðanir. Í ákvörðun nr. 15/2013 samþykkir stofnunin 8,6% hækkun á heildsöluverðum Mílu fyrir leigu á koparheimtaugum. Verð fyrir fullan aðgang að koparheimtaug verður þá 1.386 kr. Tekur hækkunin gildi þann 1. ágúst nk. í samræmi við það sem fram kom í fyrirhugaðri ákvörðun sem birt var markaðsaðilum til umsagnar þann 5. júní sl. Í ákvörðun nr. 16/2013 samþykkir stofnunin 1,9-8,6% hækkun á heildsöluverðum Mílu fyrir aðgang að lúkningarhluta leigulína. Um er að ræða hækkun sem tengist beint þeirri hækkun á heimtaugaleiguverði sem að framan er rakin. Tekur sú hækkun einnig gildi þann 1. ágúst nk. í samræmi við það sem fram kom í fyrirhugaðri ákvörðun sem birt var markaðsaðilum til umsagnar þann 14. júní sl. Í ákvörðun nr. 17/2013 samþykkir PFS nánar tilteknar breytingar á viðmiðunartilboði Símans um samtengingu talsímaneta (RIO). Um er að ræða smávægilegar breytingar sem fyrst og fremst varða þjónustuleiðina „Fast forval – einn reikningur“ eða FFER. Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 15/2013 um endurskoðun á gjaldskrá Mílu fyrir koparheimtaugar (pdf) Viðauki – Álit ESA (pdf) Ákvörðun PFS nr. 16/2013 um breytingu á gjaldskrá Mílu fyrir lúkningarhluta leigulína (pdf) Viðauki I – Gjaldskrá Mílu (pdf) Viðauki II – Álit ESA (pdf) Ákvörðun PFS nr. 17/2013 um breytingar á viðmiðunartilboði Símans um samtengingu talsímaneta (RIO) (pdf) Viðauki – Álit ESA (pdf)
18. júlí 2013
Ákvörðun PFS um viðbótarafslátt vegna reglubundna viðskipta með magnpóst
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 14/2013, um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts að því er varðar viðbótarafslátt vegna reglubundina viðskipta fyrir magnpóst. Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 felldi nefndin úr gildi þann hluta af ákvörðun PFS nr. 16/2012, sem fjallaði um viðbótarafslátt vegna reglubundina viðskipta með þeim rökum að rökstuðning hafi skorti fyrir þeim afsláttarprósentum sem ákveðnar voru. Í hinni nýju ákvörðun hefur verið bætt úr þeim annmörkum sem nefndin taldi að væri á hinni fyrri ákvörðun um þetta tiltekna atriði.
4. júlí 2013
Ný norræn samanburðarskýrsla um fjarskiptanotkun
Nánar
Í dag kemur út skýrsla sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir á Norðurlöndunum, ásamt Eistlandi og Litháen hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun nýliðinna ára í löndunum sjö. Þetta er fjórða árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman, en nú hafa tvö Eystrasaltslönd bæst í hópinn, þ.e. Eistland og Litháen. Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í Norðurlöndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá einhvern mun á notkun og þróun einstakra þátta. Breiðbandsnotkun með farsímum, spjaldtölvum og netlyklum er minnst útbreidd á Íslandi af Norðurlöndunum fimm, en í því sambandi ber þess að geta að útbreiðsla þriðju kynslóðar farsímaneta hófst tveimur til þremur árum fyrr í hinum löndunum fjórum. Athyglisvert er að Íslendingar virðast nota farsímann minna en samanburðarþjóðirnar til að senda skilaboð því við sendum færri SMS en tíðkast í flestum hinna landanna. Aðeins Eistar nota SMS skilaboð minna en Íslendingar.
2. júlí 2013
Úrskurðarnefnd fellir úr gildi gildistöku lækkunar lúkningarverða
Nánar
Með úrskurði sínum nr. 6/2012, dags. 30. júní sl., hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellt úr gildi þann hluta ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 32/2012 er snéri að lækkun lúkningarverða íslenskra farsímafyrirtækja í heildsölu úr 4 kr./mín. í 1,66 kr./mín. sem taka átti gildi þann 1. júlí sl. og gilda út árið 2013. PFS ákvarðaði umrætt verð með verðsamanburði við þau ríki innan EES sem beittu nánar tiltekinni kostnaðargreiningaraðferð sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mælti fyrir í tilmælum sínum að skyldi notuð í þessu sambandi. Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 3/2012 skyldi PFS framkvæma slíkan verðsamanburð árlega eigi síðar en 1. nóvember ár hvert og skyldu þau verð gilda fyrir næsta ár á eftir. Nova kærði ákvörðun PFS nr. 32/2012 til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Byggði félagið málatilbúnað sinn á því að fjarskiptalög heimiluðu PFS ekki að framkvæma verðsamanburð með þeim hætti sem gert var, auk þess sem stofnunin hefði brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við ákvörðun sína. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar kom fram að með ákvörðun PFS nr. 3/2012 hefði PFS ákveðið að endanleg ákvörðun um lúkningarverð yrði byggð á verðsamanburði. Jafnframt hefði þar verið tekin ákvörðun um hvaða aðferðarfræði skyldi beitt við slíkan samanburð. Kærandi hefði ekki kært þá ákvörðun. Þeim þætti kærunnar var því vísað frá úrskurðarnefnd. Úrskurðarnefnd hafnar því að PFS hafi við umræddan verðsamanburð brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefnd fellir hins vegar úr gildi þann hluta hinnar kærðu ákvörðunar sem snýr að gildistöku hennar 1. júlí sl. þar sem hún telur að PFS hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kom að ákvörðunin hefði miðað að því að færa heildsölugjöld fyrir lúkningu símtala hjá fjarskiptafyrirtækjum hér á landi sem fyrst til samræmis við tilmæli ESB og ESA, svo og athugasemdir ESA. Úrskurðarnefnd er sammála PFS um að það sé lögmætt markmið með stjórnsýslu PFS að færa umrædd lúkningargjöld eins fljótt og auðið er til samræmis við tilmæli ESA. Úrskurðarnefndin telur þó að við ákvörðun um það hvenær lúkningarverð kæmi til framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, hefði skipt máli að á þeim tíma sem verðsamanburðurinn fór fram höfðu aðeins 7 af 30 samanburðarríkjum ákveðið að beita umræddri kostnaðargreiningaraðferð og ákveðið lúkningarverð á grundvelli hennar, með gildistöku fyrir eða frá 1. júlí sl. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem nefndin hafði við vinnslu málsins höfðu þá 20 ríki ákveðið að byggja lúkningarverð á umræddri kostnaðargreiningaraðferð. Af þeim hefðu hin lækkuðu verð tekið gildi í 13 ríkjum þann 1. júlí sl. en myndu taka gildi í 7 ríkjum síðar á árinu 2013 eða á árinu 2014. Skv. framansögðu hefðu því 13 ríki, eða tæplega helmingur EES ríkjanna, tekið upp umrædda kostnaðargreiningaraðferð á sama tíma og hin kærða ákvörðun PFS kvað á um. Í ljósi þess hversu mörg samanburðarríkjanna hafa ákveðið seinni gildistökutíma eða ekki tekið neina ákvörðun um upptöku umræddrar kostnaðargreiningaraðferðar og að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða, telur úrskurðarnefnd að ekki hafi verið nauðsynlegt að láta það lúkningarverð sem ákveðið hefði verið í hinni kærðu ákvörðun taka gildi frá 1. júlí 2013. Því fellir nefndin umræddan gildistökutíma brott í hinni kærðu ákvörðun en gerir ráð fyrir að PFS taki nýja ákvörðun um lúkningarverð fyrir 1. nóvember nk. sem gilda skal frá 1. janúar 2014, í samræmi við framangreinda ákvörðun PFS nr. 3/2012. Úrskurðarnefnd gerir því ekki athugasemdir við fjárhæð þess lúkningarverðs sem PFS hefur ákvarðað, né þá aðferðarfræði sem stofnunin beitti við þann útreikning. Einungis að ekki hafi verið nauðsynlegt að lækkunin tæki gildi þann 1. júlí sl. Af ofangreindum úrskurði úrskurðarnefndar leiðir að einhver bið verður á því að íslenskir neytendur muni njóta góðs af þeim lækkuðu lúkningargjöldum sem PFS hafði mælt fyrir um. Þróunin í Evrópu síðustu misseri er í átt að ört lækkandi lúkningargjöldum þótt einstaka ríki hafi séu styttra komin en önnur í þessum efnum. Sjá úrskurðinn í heild:Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 6/2012 - Nova gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PDF)