Fréttasafn
30. nóvember 2013
Tilkynning vegna netárásar á vef Vodafone
Nánar
Síðastliðna nótt var gerð netárás og brotist inn á vefsvæðið Vodafone.is. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar vinnur nú að samræmingu viðbragðsaðgerða og greiningu á umfangi innbrotsins í samstarfi við Vodafone og embætti ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone var í árásinni stolið upplýsingum um SMS sem send voru í gegnum vefsíðu fyrirtækisins, ásamt lykilorðum að „Mínum síðum“ á Vodafone.is. Ekki sé um að ræða SMS sem send voru á hefðbundin hátt milli símtækja. Árásin mun hafa einskorðast við vef Vodafone en er ekki sögð hafa haft áhrif á fjarskiptakerfi fyrirtækisins, svo sem farsímakerfið, netkerfi eða heimasíma. Engum gögnum úr fjarskiptakerfum fyrirtækisins, svo sem upplýsingum um símtöl, SMS milli símtækja, tölvupósti eða öðrum fjarskiptagögnum hafi verið stolið.
22. nóvember 2013
PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á alþjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði um þá fyrirætlun stofnunarinnar að útnefna ekki fjarskiptafyrirtæki með alþjónustuskyldur að því er varðar talsímaþjónustu, gagnaflutningsþjónustu, og rekstur almenningssíma. Jafnframt stendur til að viðhalda tímabundið núverandi kvöð á Mílu um skyldu til að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið á meðan unnið er að heildarendurskoðun þeirrar kvaðar sem í dag hvílir á Mílu. PFS áætlar að birta umræðuskjal þar að lútandi fyrir lok ársins.
18. nóvember 2013
Munið CE merkingu á fjarskiptatækjum
Nánar
Fjarskipta- og raftæki eru sífellt stærri þáttur í daglegu lífi og algengt að slík tæki leynist í jólapökkum landsmanna. Margir freistast til að kaupa ódýr fjarskipta- og rafmagnstæki erlendis, s.s. farsíma, talstöðvar (walkie talkie) og fjarstýrðar læsingar og leikföng Nauðsynlegt er þó að allur fjarskiptabúnaður sem fluttur er til landsins sé CE merktur.
14. nóvember 2013
Tölfræðiskýrsla PFS um íslenskan fjarskiptamarkað á fyrri helmingi ársins 2013 komin út
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tölfræðiskýrslu um íslenskan fjarskiptamarkað. Í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2013 og tölulegan samanburð við stöðuna á fyrri hluta áranna á undan. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. Nokkrir mikilvægir þættir tölfræðigagnanna eru settir fram á myndrænan og aðgengilegan hátt á Mælaborði fjarskiptamarkaðarins hér á vefnum (sjá flipann yfir fyrstu 6 mánuði ársins). Þar er hægt að velja einstaka þætti úr gögnunum og skoða sérstaklega eða bera saman við aðra. Mælaborðið er unnið í samstarfi við fyrirtækið DataMarket sem sérhæfir sig í slíkri framsetningu tölfræðigagna.
12. nóvember 2013
Samantekt á athugasemdum í samráði um endurskoðun á alþjónustuskyldum Já og breytingar á skráningarhaldi yfir áskrifendur og númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur
Nánar
Þann 24. júní 2013 kallaði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) eftir samráði við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingar á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingar á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum rann út þann 31. ágúst sl. PFS birtir nú samantekt á athugasemdum hagsmunaaðila en alls tóku fjórir aðilar þátt í samráðinu, þ.e. Já Upplýsingaveitur hf., Loftmyndir ehf., Miðlun ehf. og Síminn hf.
7. nóvember 2013
Undirritun árangursstjórnunarsamnings milli PFS og innanríkisráðuneytis
Nánar
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, heimsótti Póst- og fjarskiptastofnun í dag, 7. nóvember, og kynnti sér starfsemi stofnunarinnar. Við það tækifæri var undirritaður nýr árangursstjórnunarsamningur milli stofnunarinnar og ráðuneytisins sem gildir í fjögur ár.
7. nóvember 2013
Úrskurður úrskurðarnefndar í máli varðandi óumbeðin fjarskipti
Nánar
Með úrskurði sínum í máli nr. 2/2013 hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála komist að þeirri niðurstöðu að Wow Air ehf. hafi brotið gegn ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003, þegar félagið sendi tölvupóst fyrir beina markaðssetningu á tölvupóstfang kæranda í október og nóvember 2012.
4. nóvember 2013
PFS framlengir skilafrest í samráði um nýtingu 2,6 GHz tíðnisviðinu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest hagsmunaaðila til að skila inn athugasemdum og umsögnum í samráð um nýtingu á 2,6 GHz tíðnisviðinu (2.500 – 2.690 MHz). Skilafrestur er nú til og með 14. nóvember nk.