Fréttasafn
31. október 2014
PFS ákvarðar ný heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 24/2014 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum á heildsölumarkaði (markaður 7). Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015. Samkvæmt verðsamanburðinum skal hámarksverðið lækka í 1,52 kr./mín um næstu áramót. Framkvæmd og niðurstöðu verðsamanburðarins er nánar lýst í ákvörðuninni sjálfri. Núverandi lúkningarverð, sem gildir á árinu 2014, var ákvarðað með ákvörðun PFS nr. 25/2013 frá 31. október 2013 en þá kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4 kr./mín. í 1,64 kr./mín., frá og með 1. janúar 2014.
21. október 2014
Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum – ný tölfræðiskýrsla PFS
Nánar
Tvisvar á ári safnar Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækjum hér á landi um ýmsar stærðir í rekstri og þjónustu á sviði fjarskipta. Upp úr þeim tölum vinnur stofnunin tölfræðiskýrslur sem sýna upplýsingar um helstu stærðir og fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði. Markmiðið er að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á þessum markaði og eru skýrslur PFS í samræmi við þær skýrslur sem systurstofnanir PFS í nágrannalöndum okkar gefa út. Skýrslan sem nú er birt sýnir tölfræði um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2014. Hún inniheldur tölulegar upplýsingar um helstu þætti á markaðnum á fyrri hluta ársins og samanburð við stöðuna á fyrri hluta áranna á undan. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði.
14. október 2014
Sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ Vodafone fellur undir fjarskiptalög
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1/2014 um afmörkun gildissviðs fjarskiptalaga vegna vefsvæðis Fjarskipta hf. (Vodafone). Upphaf málsins má rekja til innbrots sem varð í vefsvæði Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013 þar sem gögnum var stolið og þau svo birt opinberlega á internetinu. Í kjölfarið hóf Póst- og fjarskiptastofnun athugun á öryggisatvikinu og óskaði eftir frekari upplýsingum um þau gögn sem stolið var, viðmót vefsvæðisins o.fl. Vodafone andmælti því að valdsvið PFS næði yfir vefsvæði þess og þá þjónustu sem þar væri veitt. PFS tók því sérstaka ákvörðun þess efnis að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ félagsins félli innan gildissviðs fjarskiptalaga og væri þar með innan valdsviðs stofnunarinnar þar sem um væri að ræða almenna fjarskiptaþjónustu sem félagið veitti á almennu fjarskiptaneti sínu. Umrædd ákvörðun PFS laut þannig eingöngu að gildissviði fjarskiptalaga nr. 81/2003, en ekki að þeim gögnum sem stolið var eða hvernig öryggi kerfisins hafi verið háttað. Vodafone kærði þessa ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem nú hefur staðfest ákvörðun stofnunarinnar. Með úrskurði sínum hefur úrskurðarnefndin staðfest að sending smáskilaboða af „Mínum síðum“ á vefsvæði félagsins teljist almenn fjarskiptaþjónusta á almennu fjarskiptaneti þess. Þannig fellur umrædd fjarskiptastarfsemi Vodafone undir ákvæði fjarskiptalaga og reglur nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum.
14. október 2014
Samráð við ESA um heimild Mílu til að innleiða vigrunartækni á Ljósveitutengingum félagsins
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang vegna fyrirhugaðrar vigrunar á VDSL tengingum félagsins til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Hér er um að ræða það sem félagið nefnir Ljósveitutengingar Mílu. PFS hyggst samþykkja beiðni Mílu um viðbót við umrætt viðmiðunartilboð sem yrði viðauki 2a og hefði að geyma upplýsingar um tæknilega útfærslu vigrunar. Vigrun (e. vectoring) er tækni sem minnkar milliheyrsluvandamál (e. crosstalk) í VDSL kerfum sem breidd eru út í götuskápa og eykur þar með afkastagetu VDSL tenginga. Til að stuðla að VDSL væðingu í hinum dreifðari byggðum kvað PFS á um það í ákvörðun nr. 21/2014 að fjarskiptafyrirtæki gætu tryggt sér þriggja mánaða forgangsrétt að hluta heimtaugar (oftast götuskápum) að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ákveði Míla að nýta sér umræddan forgangsrétt þarf félagið að tryggja öðrum fjarskiptafyrirtækjum opinn sýndaraðgang (VULA) að viðkomandi tengingum og hefja vigrun á þeim innan tímamarks umrædds forgangsréttar. Á tímabilinu 23. júlí til 20. ágúst sl. fór fram innanlandssamráð um umrædd vigrunar áform Mílu. Athugasemdir bárust frá Vodafone og Snerpu á Ísafirði. Gerð er grein fyrir umræddum athugasemdum og viðbrögðum PFS við þeim í umræddum ákvörðunardrögum.
25. september 2014
Viðvörun frá netöryggissveitinni CERT-ÍS
Nánar
Netöryggissveitin CERT-ÍS hefur sent frá sér viðvörun vegna veikleika sem getur haft alvarleg áhrif í nokkrum tegundum stýrikerfa. Um er að ræða veikleika í svonefndri Bash skel sem finna má í sumum tegundum stýrikerfa. Dæmi um þessi kerfi eru t.d. Linux og OSX. Sjá nánar á vefsíðu CERT-ÍS
25. september 2014
Skylda Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið - Framlengdur frestur til að skila athugasemdum við boðaða ákvörðun PFS
Nánar
Með tilkynningu hér á vefnum þann 5. september sl. boðaði Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun sína um skyldu Mílu innan alþjónustu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið. Var hagsmunaaðilum gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við hina boðuðu ákvörðun. Að beiðni hagsmunaaðila hefur stofnunin nú ákveðið að framlenga frest til að skila athugasemdum við hina boðuðu ákvörðun til og með 10. október nk. Sjá nánar í tilkynningu hér á vefnum þann 5. september sl.
24. september 2014
Samráð við ESA um verðsamanburð vegna lúkningarverða í farsímanetum (markaður 7)
Nánar
Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. PFS hyggst mæla fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarks lúkningarverða Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2015. Framkvæmd og niðurstaða verðsamanburðarins er nánar tilgreind í ákvörðunardrögunum. Drögin byggja á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Samkvæmt framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi.
23. september 2014
Verðathugun PFS: Öll íslensk fjarskiptafyrirtæki með reikiverð innan marka
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert athugun á því hvort íslensk fjarskiptafyrirtæki hafi lagað verðskrá sína að gildandi reglugerð ESB um hámarksverð á farsíma- og netlyklanotkun milli landa í Evrópu. Reglugerðin gildir á EES svæðinu. Þann 1. júlí sl. tóku gildi ný hámarksverð til neytenda fyrir reiki innan Evrópu. Verðþökin eru samkvæmt reglugerð ESB sem hefur verið innleidd í EES samninginn sem Ísland er aðili að. Því gildir reglugerðin einnig fyrir íslenska neytendur. Hámarksverð á reikiþjónustu hafa verið lækkuð í þrepum allt frá árinu 2007 þegar fyrsta reglugerðin tók gildi. Til að byrja með voru eingöngu sett verðþök á símtöl en æ fleiri þættir reikiþjónustu hafa bæst við, nú síðast gagnamagnsnotkun sem bættist við með reglugerð sem tók gildi í júlí 2012. Síðan þá hafa verðþökin verið lækkuð jafnt og þétt þar til í sumar þegar eftirfarandi verð tóku gildi. Þau verða óbreytt þar til gildistíma reglugerðarinnar lýkur, eða til og með 30. júní 2017.