Fréttasafn
17. október 2007
Vodafone hefur lokið uppbyggingu á dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp á UHF tíðnisviði
Nánar
Vodafone hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hafi lokið uppbyggingu á dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp DVB-T, á UHF tíðnisviði. 365 ljósvakamiðlum, nú Og fjarskipti ehf. (Vodafone), var úthlutað tveimur UHF rásum í júní 2005 að loknu útboði. Í útboðslýsingu voru settar fram kröfur um að bjóðendur skyldu tryggja að uppbygging á dreifikerfi til 98% landsmanna yrði lokið innan tveggja ára. Sjá gögn frá Vodafone:Tafla yfir heimili sem ná stafrænu sjónvarpi á UHF (PDF) Mynd af útbreiðslu stafræns sjónvarps á UHF (PDF) (Ath: ein flétta samsvarar einni UHF rás) Sjá einnig:Frétt um útboðið á vef PFS 27. júní 2005
11. október 2007
PFS birtir drög að ákvörðun um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins og um bann á innflutningi og sölu á þráðlausum CT1 símum
Nánar
PFS hefur sent hagsmunaaðilum til umsagnar drög að ákvörðun um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins (914-915/959-960 MHz) og um bann á innflutningi og sölu CT1 þráðlausra síma. Hagsmunaaðilar, t.d. fjarskiptafyrirtæki, innflytjendur, söluaðilar fjarskiptabúnaðar og almenningur, eru hvattir til að gera athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar, sjái þeir einhverja annmarka á henni. Frestur til að skila athugasemdum er til 8. nóvember n.k. Efsti hluti GSM 900 tíðnisviðsins hefur fram að þessu verið notaður hér á landi fyrir þráðlausa síma sem byggja á CT1 tækni. Ný stafræn tækni, DECT, sem notar annað tíðnisvið, hefur smám saman verið að leysa CT1 tæknina af hólmi. Þráðlausir símar eru notaðir á takmörkuðu svæði, einkum á heimilum og vinnustöðum og er gerður greinarmunur á þeim og farsímum, t.d. GSM og NMT. Samkvæmt könnun sem PFS gerði fyrr á árinu hafa innflytjendur og söluaðilar síma hvorki flutt inn né selt CT1 þráðlausa síma síðustu 2-5 árin. Líklegt er þó að slíkir símar séu í notkun í einhverjum mæli í dag. Helstu niðurstöður PFS PFS hyggst frá og með 1. janúar 2008 breyta skipulagi tíðnirófsins þannig að úthlutun fyrir CT1 tækni á 914-915/959-960 MHz tíðnibilinu er afturkölluð og umræddu tíðnisviði verður ráðstafað fyrir GSM þjónustu. Er þetta gert í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir. PFS hyggst frá og með 1. janúar 2008 banna innflutning og sölu CT1 þráðlausra síma. Að svo stöddu hyggst PFS ekki banna notkun CT1 þráðlausra síma. Notkun slíkra síma verður því ennþá heimil hér á landi eftir 1. janúar 2008, svo fremi sem þeir valda ekki skaðlegum truflunum á GSM þjónustu á umræddu tíðnisviði. Frá og með sama tíma nýtur CT1 þráðlaus símnotkun ekki verndar vegna truflana sem kunna að stafa af farsímaþjónustu á umræddu tíðnisviði. PFS getur látið innsigla síma eða bannað notkun þeirra og fengið þá afhenta til geymslu ef þeir trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað. Sjá nánar: Fyrirhuguð ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins (914-915/959-960 MHz) og um bann á innflutningi og sölu CT1 síma (PDF) Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Ólafsson, gudmundur@pta.is
5. október 2007
Málþing um fjarskipti fatlaðra 26.sept
Nánar
Norræni samstarfshópurinn um fjarskipti fyrir fatlaða NFTH hélt samráðsfund í Reykjavík dagana 24. - 25. september 2007. Póst- og fjarskiptastofnun tekur þátt í starfi hópsins fyrir hönd Íslands og var gestgjafi fundarins hér á landi, en hópurinn hittist tvisvar á ári. Í framhaldi af fundi hópsins stóð PFS fyrir opnu málþingi um fjarskipti fatlaðra. Á málþinginu bar hæst umræður um hvernig þriðju kynslóðar farsímar nýtast fötluðum og aðgengi fatlaðra að efni á Netinu. M.a. efnis á málþinginu var kynning Andreas Richter frá Hjálpartækjastofnun Svíþjóðar á prófunum sem gerðar hafa verið þar í landi á þriðju kynslóðar farsímum með tilliti til fatlaðra, Jensína K. Böðvarsdóttir frá Símanum sagði frá verkefni Símans um að gera fötluðum notendum kleift að nýta sér þriðju kynslóðar farsíma, Fríða Vilhjálmsdóttir frá Sjá - vefráðgjöf ræddi um aðgengi fatlaðra að vefsíðum á Netinu, Haukur Vilhjálmsson ræddi um aðgengi heyrnarlausra að Netsíðum og Birkir Rúnar Gunnarsson ræddi um þróun fjarskiptatækninnar og notkunarmöguleika blindra notenda. Sjá einnig:Neytendur/ Fatlaðir notendur
1. október 2007
PFS birtir drög að reglum sem stuðla að bættu öryggi og neytendavernd í fjarskiptum
Nánar
Á síðasta löggjafarþingi Alþingis voru samþykkt lög nr. 39/2007 um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003. Var tilgangur lagabreytinganna einkum að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og að styrkja ákvæði laganna er fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Meðal þess sem breytingarlögin kveða á um er að Póst- og fjarskiptastofnun skuli setja reglur um annars vegar vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og hins vegar um virkni almennra fjarskiptaneta, sbr. b.-lið 9. gr. þeirra. Með bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar, dags. 10. maí 2007, var hagsmunaaðilum á íslenskum fjarskiptamarkaði gefinn kostur á því að tjá sig um drög stofnunarinnar að slíkum reglum. Alls bárust stofnuninni athugasemdir frá 6 aðilum. Hefur Póst- og fjarskiptastofnun nú endurskoðað drög að umræddum reglum með tilliti til þessara athugasemda og hafa endurskoðuð drög að reglunum nú verið birtar á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar. Í áðurnefndum lögum var enn fremur kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að setja reglur um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu, sbr. 6. gr þeirra. Í þeim tilgangi að semja drög að slíkum reglum setti Póst- og fjarskiptastofnun á laggirnar sérstakan samáðs- og vinnuhóp með þátttöku helstu hagsmunaaðila á þessu sviði. Hópurinn, sem starfað hefur frá því um miðjan maí síðastliðinn, hefur nú skilað frá sér drögum að umræddum reglum. Öllum er frjálst að senda inn athugasemdir og umsagnir við ofangreind drög og er frestur til að skila þeim til 26. október nk. Drög (2) að reglum um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum (PDF) Drög (2) að reglum um virkni almennra fjarskiptaneta (PDF) Drög (1) að reglum um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu (PDF)
25. september 2007
Fjarskipti fatlaðra- Opið málþing miðvikudaginn 26. september
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun stendur fyrir opnu málþingi um fjarskipti fatlaðra miðvikudaginn 26. september kl. 9:30 – 12:30. Málþingið er haldið í framhaldi af samráðsfundi norræns samstarfshóps um fjarskipti fatlaðra,NFTH sem hittist tvisvar á ári, að þessu sinni í Reykjavík. Opið málþing um fjarskipti fatlaðra Miðvikudaginn 26. september 2007 kl. 9:30 – 12:30 Nordica hótel, Suðurlandsbraut 2, Reykjavík Allir áhugasamir velkomnir Dagskrá: Athugið að öll erindi fara fram á ensku. Gert er ráð fyrir stuttum umræðum í lok hvers erindis. 9:30 Setning málþingsins Hrafnkell V. Gíslason forstjóri PFS 9:35- 9:45 Kynning á NFTH, norrænum samstarfshópi um fjarskipti fatlaðra Erland Winterberg formaður NFTH 9:45 – 10:15 Swedish test of 3G-telephones, from a deaf, hard of hearing and deafblind perspective Andreas Richter, Hjálpartækjastofnun Svíþjóðar 10:15 – 10:45 3G and Siminn. A unique approach for the deaf community Jensína K. Böðvarsdóttir,forstöðumaður sölu – einstaklingssviðs, Síminn 10:45 – 11:00 Kaffi 11:00 – 11:30 Accessibility on the Web - Access for all within the information society Fríða Vilhjálmsdóttir, Sjá vefráðgjöf 11:30 – 12:00 Accessibility on the Web for the Deaf Haukur Vilhjálmsson, Félagi heyrnarlausra 12:00 – 12:30 Technological progress for the blind, new challenges, new opportunities Birkir Rúnar Gunnarsson, Blindrafélaginu Nánari upplýsingar gefur Ari Jóhannsson, netfang: ari@pta.is , Sími 510-1500
24. september 2007
Samráð um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang framlengt
Nánar
Þann 21. ágúst s.l. sendi PFS hagsmunaaðilum frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang (markaður 12) til umsagnar. Frestur til að skila athugasemdum var veittur til 24. september. PFS mun endurskoða markaðsgreininguna með hliðsjón af þeim athugasemdum sem berast áður en greiningin er send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Að teknu tilliti til umsagnar ESA verður ákvörðun stofnunarinnar birt hlutaðeigandi fyrirtækjum. PFS hefur ákveðið að verða við óskum hagsmunaaðila og framlengja ofangreindan umsagnarfrest til föstudagsins 5. október n.k. Ekki verður unnt að veita frekari fresti.
21. september 2007
Síminn og Míla útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á leigulínumarkaði
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið greiningu á mörkuðum 7, 13 og 14 (leigulínumörkuðum) og birt ákvörðun sína þar sem Síminn hf. og Míla ehf. eru útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á leigulínumarkaði á Íslandi. Leigulínur eru mikilvægur þáttur í fjarskiptum innanlands og eru línur sem liggja milli tveggja eða fleiri staða með miklum gagnaflutningshraða. Með ákvörðun sinni og greiningu á leigulínumarkaði telur PFS sig stuðla að aukinni samkeppni á markaði og tryggja aðgang samkeppnisaðila að leigulínum með sanngjörnum skilyrðum og á sanngjörnu verði. Þetta þýðir m.a. að þeir aðilar sem nú bjóða upp á lokaðan gagnaflutning í gegn um leigulínur Símans geta haldið því áfram. Skilgreiningar á mörkuðum 7, 13 og 14: Markaður 7: Lágmarksframboð á leigulínum, þ.e. lágmarksframboð á línum sem lagðar eru beint inn til notenda. Leigulínur eru t.d. notaðar af stærri fyrirtækjum þar sem þörf er fyrir lokað innra net milli deilda sem staðsettar eru á mismunandi stöðum. Markaður 13: Heildsölumarkaður fyrir lúkningahluta leigulína, þ.e. þann hluta leigulínu sem liggur frá notanda til símstöðvar. Markaður 14: Heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína, þ.e. þann hluta leigulínu sem liggur á milli símstöðva. Endanleg markaðsgreining á mörkuðum 7, 13 og 14 ásamt meðfylgjandi skjölum
20. september 2007
Síminn fær framlengda tíðniheimild fyrir GSM farsímaþjónustu
Nánar
PFS hefur framlengt tímabundið heimild Símans hf. til notkunar á tíðnum fyrir GSM farsímaþjónustu. Tíðniheimildin var gefin út þann 18. september 2007 og gildir til 1. febrúar 2010.Frá og með útgáfudegi heimildarinnar fellur úr gildi eldri tíðniheimild Símans frá 30. júlí 1998, ásamt síðari breytingum. Heimild Símans hf. til notkunar á tíðnum fyrir GSM farsímaþjónustu 18. sept. 2007 - 1. feb. 2010 (PDF) Forsendur fyrir ákvörðun PFS um framlengingu tíðniheimildar Símans hf. ( PDF)