Fréttasafn
16. janúar 2009
Tíðniheimild Símans fyrir NMT 450 tíðnisviðið framlengd til ársloka 2009
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur framlengt tíðniheimild Símans hf. til notkunar á tíðnum fyrir NMT 450 langdræga farsímaþjónustu sem þjóni landinu öllu og miðunum. Þann 18. desember 2008 birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) umræðuskjal um NMT – 450 tíðnisviðsins á Íslandi. Tíðnisviðinu hafði verið úthlutað til Nordisk Mobil Ísland en leyfið hefur nú verið afturkallað þar sem ekki var staðið við þau skilyrði sem sett voru í leyfinu. Frestur til að skila athugasemdum var til 9. janúar sl. Eftirtaldir aðilar sendu inn umsögn um umræðuskjalið:Hringiðan ehf, IceCell ehf, Nova ehf, Og fjarskipti ehf, Síminn hf. Þá barst einnig viljayfirlýsing frá einum aðila sem hefur áhuga á að byggja upp stafrænt háhraða farsímanet á tíðnisviðinu. Síminn hf. hafði þá einnig sent inn umsókn um framlengingu núverandi tíðniheimildar til 31. desember 2010. Það er niðurstaða PFS að framlengja NMT – 450 MHz leyfið til Símans til 31. desember 2009 með hugsanlegri framlengingu eftir það. Í ljósi þeirrar óvissu um skerðingu á útbreiðslu langdrægrar farsímaþjónustu á stórum svæðum á hálendinu og á miðunum er það mat PFS að Síminn og aðrir hagsmunaaðilar verði að leggja fram ítarlegri gögn um þéttleika útbreiðslu 3G og GSM. Á grundvelli slíkra gagna mun PFS taka ákvörðun um það hvort þörf sé á frekari framlengingu NMT tíðniheimildar Símans. Þurfa slík gögn að liggja fyrir eigi síðar en 30. september 2009. Framlenging tíðniheimildar Símans til notkunar á á tíðnum fyrir NMT 450 langdræga farsímaþjónustu (PDF) Sjá einnig samantekt umsagna vegna NMT 450 tíðnisviðsins (PDF)
15. janúar 2009
Samantekt umsagna vegna NMT tíðnisviðsins
Nánar
Þann 18. desember 2008 birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) umræðuskjal um NMT – 450 tíðnisviðsins á Íslandi. Tíðnisviðinu hafði verið úthlutað til Nordisk Mobil Ísland en leyfið hefur nú verið afturkallað þar sem ekki var staðið við þau skilyrði sem sett voru í leyfinu. Helstu markmið PFS með umræðuskjalinu voru eftirfarandi: Að kanna áhuga á uppsetningu og rekstri á langdrægri stafrænni farsímaþjónustu á þessu tíðnisviði Gefa áhugasömum möguleika á að fá úthlutað tíðni á NMT – 450 MHz tíðnisviðinu til tímabundinna prófana árið 2009 Einnig lýsti PFS ætlun sinni að framlengja núverandi tíðniheimild til 1. september 2009 og var þar vísað til almannahagsmuna og öryggissjónarmiða þar sem ekki hefðu fengist óyggjandi staðfestingar frá rekstraraðilum annarra farsímakerfa um dekkun NMT þjónustusvæðisins. Óskað var eftir umsögnum hagsmunaaðlila í síðasta lagi 31. desember 2008 en sá frestur var síðan framlengdur til 9. janúar 2009. Umsagnir hagsmunaaðilaEftirfarandi aðilar sendu inn umsögn um umræðuskjalið:Hringiðan ehf, IceCell ehf, Nova ehf, Og fjarskipti ehf, Síminn hf. Þá barst einnig viljayfirlýsing frá einum aðila sem hefur áhuga á að byggja upp stafrænt háhraða farsímanet á tíðnisviðinu. Síminn hf. hafði þá einnig sent inn umsókn um framlengingu núverandi tíðniheimildar til 31. desember 2010. NiðurstaðaÞað er niðurstaða PFS að framlengja NMT – 450 MHz leyfið til Símans til 31. desember 2009 með hugsanlegri framlengingu eftir það. Í ljósi þeirrar óvissu um skerðingu á útbreiðslu langdrægrar farsímaþjónustu á stórum svæðum á hálendinu og á miðunum er það mat PFS að Síminn og aðrir hagsmunaaðilar verði að leggja fram ítarlegri gögn um þéttleika útbreiðslu 3G og GSM. Á grundvelli slíkra gagna mun PFS taka ákvörðun um það hvort þörf sé á frekari framlengingu NMT tíðniheimildar Símans. Þurfa slík gögn að liggja fyrir eigi síðar en 30. september 2009. Samantekt (pdf)
9. janúar 2009
Ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 32/2008 um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur. Forsaga málsins er sú að þann 13. nóvember árið 2006 birti PFS ákvörðun þar sem OR var gert skylt að skilja fjarskiptastarfsemi sína fjárhagslega frá annarri og sérleyfisbundinni starfsemi félagsins. Í kjölfar ákvörðunar PFS stofnaði OR dótturfélagið Gagnaveitu Reykjavíkur um fjarskiptastarfsemi sína. PFS hefur nú gert úttekt á framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar fyrirtækjana og birtir niðurstöðu sína með ákvörðun 32/2008. Niðurstaða PFS er að framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði á fjarskiptastarfsemi OR, sem rekin er í dótturfélaginu GR, frá annarri og sérleyfisbundinni starfsemi félagsins, sé að mestu leyti fullnægjandi. Hins vegar er það jafnframt niðurstaða stofnunarinnar að GR verði að grípa til ákveðinna aðgerða til að auka gegnsæi hins fjárhagslega aðskilnaðar og jafna tiltekinn aðstöðumun varðandi lánakjör. Annars vegar með því að GR skili inn ársreikningi eins og stærð og umsvif OR gefur tilefni til, þ.e. nýti sér ekki undanþáguákvæði um samandregna ársreikninga, og hins vegar með því að færa lánakjör í lánasamningi sínum við OR til samræmis við það sem almennt tíðkast um fjármögnun á fjarskiptamarkaði. Ákvörðun nr. 32/2008 um um fjárhagslegan aðskilnað milli Orkuveitu Reykjavíkur og Gagnaveitu Reykjavíkur (PDF) Viðauki við ákvörðun 32/2008 (PDF) Sjá einnig:Ákvörðun PFS um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur frá 13. nóvember 2006 (PDF)
5. janúar 2009
Úrskurðarnefnd fellir úr gildi ákvörðun PFS um afturköllun tíðniréttinda Mílu
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi ákvörðun PFS nr. 10/2008 um að afturkalla tiltekin tíðniréttindi Mílu fyrir fastasambönd. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 12. gr. fjarskiptalaga hefði ekki að geyma fullnægjandi heimild til slíkrar skerðingar á úthlutuðum réttindum. Þá vísaði nefndin frá varakröfu PFS um að stofnunin hefði heimild til að færa umrædd fastasambönd úr stað í tíðnirófinu. Gerði nefndin ekki athugasemd við þá túlkun PFS á 12. gr. að hún fæli í sér rétt til slíkrar breytingar en taldi þær upplýsingar sem fram komu í greinargerð ekki nægja til þess að unnt væri að taka frumákvörðun um úthlutun tíðnisviðs. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 6/2008 (PDF) - 30.desember 2008 Ákvörðun PFS nr. 10/2008 (PDF) - 9. maí 2008
2. janúar 2009
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um heimild Íslandspósts til að loka póstafgreiðslu á Laugum
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála hefur með úrskurði sínum þann 30. desember 2008 staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 20/2008 frá 12. ágúst 2008 um heimild Íslandspósts hf. til að loka póstafgreiðslu á Laugum í Þingeyjarsveit.Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar kærði málið til úrskurðarnefndar sem nú hefur birt úrskurð sinn. Úrskurður úrskurðarnefndar í ágreiningsmáli nr. 7/2008 (PDF) - Þingeyjarsveit gegn PFS og Íslandspósti hf. - 30.desember 2008
29. desember 2008
Framlengdur frestur til að skila umsögnum vegna framtíðarnotkunar NMT 450 tíðnisviðsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest til að skila umsögnum og athugasemdum vegna samráðs um framtíðarnotkun NMT 450 tíðnisviðsins. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til kl. 12:00 föstudaginn 9. janúar 2009 Sjá nánar í frétt hér á vefnum frá 18. desember sl.
18. desember 2008
PFS kallar eftir nýju samráði um notkun NMT - 450 tíðnisviðsins á Íslandi
Nánar
Póst - og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að leita umsagnar hagsmunaaðila á fjarskiptamarkaðnum um framtíðarnotkun á NMT 450 tíðnisviðinu. Tíðnisviðinu hafði verið úthlutað til Nordisk Mobil Ísland en leyfið hefur nú verið afturkallað þar sem ekki var staðið við þau skilyrði sem sett voru í leyfinu.Samskonar samráðsferli fór fram í lok árs 2005 og byrjun árs 2006 og eru hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sér niðurstöður úr því ferli og gera hugsanlegar athugasemdir við þær eftir því sem við á. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum við samráðsskjalið er til kl. 12:00 miðvikudaginn 31. desember 2008. Senda skal umsagnir í tölvupósti til thorleifur(hjá)pfs.is Samráðsskjal um notkun NMT-450 tíðnisviðsins á Íslandi - 18. desember 2008 (PDF) Annað efni sem vísað er til í samráðsskjalinu: Umræðuskjal um framtíðarnotkun NMT - 450 tíðnisviðsins á Íslandi (PDF) (Birt 25. október 2005) Samantekt umsagna um framtíðarnotkun NMT - 450 tíðnisviðsins (Vefsíða, birt 2. janúar 2006)
8. desember 2008
Ákvörðun PFS: Ekkert fyrirtæki útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 18
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið markaðsgreiningu á markaði 18, heildsölumarkaði fyrir útsendingarþjónustu fyrir útvarpsþjónustu til notenda og birt ákvörðun sína nr. 31/2008, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á markaðnum. Niðurstaða PFS er að ekkert fyrirtæki á þessum markaði var útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á þessum markaði og því engar kvaðir lagðar á fyrirtæki. Forsendur niðurstöðunnar: PFS telur eðlilegt að skilgreina fimm mismunandi þjónustumarkaði fyrir útsendingarþjónustu fyrir útvarpsþjónustu til notenda, sbr. neðangreint: Útsendingarþjónusta fyrir hliðrænt hljóðvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir hliðrænt sjónvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir stafrænt hljóðvarp og sjónvarp á þráðlausum netum. Útsendingarþjónusta fyrir stafrænt hljóðvarp og sjónvarp á fastanetum. Útsendingarþjónusta fyrir starfrænt hljóðvarp og sjónvarp um gervihnött. PFS telur að síðastgreindur markaður, útsendingarþjónusta um gervihnött, sé millilandamarkaður sem ekki sé á valdi PFS að taka til greiningar. PFS tók hina fjóra þjónustumarkaðina til skoðunar með það fyrir augum að leiða í ljós hvort þeir uppfylltu skilyrði þess að til greina kæmi að leggja fyrirfram (ex ante) kvaðir á fyrirtæki á þeim mörkuðum. Til að það sé heimilt þurfa viðkomandi markaðir að uppfylla þrjú skilyrði (e. three critera test). Skilyrðin eru eftirfarandi: Hindranir eru á því að komast inn á markaðinn Markaðurinn hefur ekki eiginleika til að þar sé virk samkeppni Almennar samkeppnisreglur duga ekki til að afnema hindranir eða efla samkeppni Niðurstaða PFS var á þá leið að ofangreindir fjórir markaðir fyrir útsendingarþjónustu uppfylltu ekki ofangreind þrjú skilyrði svo að til greina komi að leggja fyrirfram kvaðir á fyrirtæki á viðkomandi mörkuðum. Þar af leiðandi hyggst PFS ekki útnefna neitt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum. Þar sem ekkert fyrirtæki er útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum verða engar kvaðir lagðar á þau. Ákvörðun PFS nr. 31/2008 (PDF) Viðauki A - Greining á markaði 18 (PDF) Viðauki B - Athugasemdir hagsmunaaðila og niðurstöður samráðs (PDF) Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF) Nánar um markaðsgreiningu hér á vefnum