Fréttasafn
8. mars 2005
Tvær athugasemdir vegna útboðs á UHF-rásum
Nánar
Ríkisútvarpið og 365-ljósvakamiðlar ehf. hafa skilað inn athugasemdum vegna fyrirhugaðs útboðs á 10 UHF rásum fyrir stafrænt sjónvarp, en frestur til þess rann út 1. mars. Hér má lesa þær athugasemdir sem bárust: Frá Ríkisútvarpi Frá 365-ljósvakamiðlum
8. mars 2005
Athugasemdir RÚV
Nánar
Athugasemdir Ríkisútvarpsins við drög að auglýsingu um fyrirhugað útboð á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp skv. DVB-T staðli. Töluliðir hér á eftir vísa til sömu töluliða í drögunum. 1. Markmið útboðs Meðan hugtakið “sem flestir landsmenn” er ekki skilgreint, eru 2 árin í lagi, sem æskilegt markmið, en útbreiðsluhraðann í 6. grein teljum við full brattann. 2. Rásir sem verða í boði Við notkun rásanna ættu DVB-T útsendingar að hafa forgang 1, en hins vegar ættu aðrar gagnaútsendingar að vera heimilar með víkjandi hætti (forgangur 2). Þetta kemur t.d. dreifðum byggðum í Noregi til góða, sem hafa ekki aðra möguleika á háhraðatengingu. Tiltaka ætti hvaða verndar úthlutaði rásalistinn kemur til með að njóta af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar, þ.e. hvaða “protection ratio” P&f fer eftir í sínum úthlutunum. Ekki eru VHF rásir nefndar, en þær geta hentað sums staðar betur en UHF rásir og unnt er að gera kröfur um að aðgangskassar geti tekið á móti þeim. 3. Framkvæmd útboðs Við úthlutun ætti ennfremur að taka tillit til að Ríkisútvarpið hefur skyldur við almenning í landinu umfram aðra skv. útvarpslögum, hvort sem um er að ræða á svæðum sem standa undir sér markaðslega eða ekki. Vegna skyldna Ríkisútvarpsins umfram aðra til að koma dagskrám sínum til alls landsins og næstu miða, hvort sem það stendur undir sér markaðslega eða ekki, telur Ríkisútvarpið nauðsynlegt að vanda til hönnunar stafræns dreifikerfis, til að halda stofnkostnaði og framtíðar rekstrarkostnaði í lágmarki. Því teljum við fyrirhugaðan 6 vikna tilboðsfrest of skamman og viljum frá ráðrúm til tilraunasendinga áður en endanleg hönnun dreifingarinnar er afráðin. Annað hvort mætti lengja tilboðsfrestinn eða heimila að leggja fram drög að hönnun, þótt lokahönnun kæmi síðar. Til að flýta málinu vísum við til umsóknar okkar um slíkar tilraunasendingar dags. 4. maí 2004, sem ekki hefur verið svarað. Við förum þess hér með á leit, að fá jákvætt svar, eða til vara UHF rás 22 til þessara tilrauna. 5. Útbreiðslusvæði Til að geta gert tímaáætlanir þurfa nánast að liggja fyrir samningar eða tilboð frá framleiðendum um afhendingartíma. 6 vikur er full knappur tími til þess, sbr. t.d. útboðsskyldur RÚV sem opinberrar stofnunar. Venjulegast er að með lágmarkssviðsstyrk sé átt við miðgildis sviðsstyrk (median field strength) í 10m hæð yfir jörð, miðgildi í merkingunni 50% staða yfir og 50% staða undir sviðsstyrksgildinu. Tilgreina þarf hvort P&f á við þetta eða eitthvað annað. Einnig er í erlendum viðmiðum, ekki notaður sami viðmiðunarstyrkur fyrir neðri og efri hluta UHF sviðsins. Eitt viðmið sem við höfum sér er t.d. 52 dB/uV/m í bandi IV og 56 dB/uV/m í bandi V. Enn fremur kann viðmiðunarstyrkur að vera háður vali á mótunartegund, sem ætti að endurspeglast í lágmarkssviðsstyrk. 6. Útbreiðsluhraði Lágmarkskröfur um uppbyggingarhraða samkvæmt drögunum eru mjög strangar. DVB-T kerfi á þessu tíðnisviði hefur ekki verið byggt fyrr á Íslandi og ef bygging þess hæfist utan SV-lands (frá Akranesi til Suðurnesja) eru bæði mörkin of ströng. Lagt er til að bæði mörkin verði aukin um tvö ár. Fh. Ríkisútvarpsins, Eyjólfur Valdimarsson, forstöðumaður þróunarsviðs
7. mars 2005
Evrópufundur um fjarskipti í Reykjavík í sumar
Nánar
Evrópska samstarfsnefndin um fjarskipti (European Communications Committe) fundar í í Reykjavík dagana 20-24 júní. Búist er við að fulltrúar 40 ríkja og hagsmunahópa sitji fundinn og að erlendir gestir verði um 80 talsins. Eitt meginverkefni fundarins er að samræma notkun einstakra tíðnisviða í Evrópu og setja reglur sem tryggja einn innri markað í Evrópu, bæði fyrir fjarskiptatæki og þjónustu. Niðurstöður fjölmargra vinnuhópa á hinum ýmsu sviðum verða kynntar og ræddar og þess freistað að ná sem víðtækustu samkomulagi um niðurstöður. 46 ríki eiga aðild að samstarfsvettvangi evrópskra stjórnvalda á sviði fjarskipta og einskorðast hann ekki við Evrópusambandsríki og þau ríki sem eiga aðild að samningnum um evrópska efnahagssvæðið.
28. febrúar 2005
Yfirlýsing um VoIP
Nánar
Eftirlitsstofnanir á evrópska efnahagssvæðinu hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um aðkomu eftirlitsstofnana að VoIP eða talsambandi yfir Internetið. Í yfirlýsingunni kemur fram að eftirlitsstofnanirnar fagna tilkomu þessarar nýju tækni. Þær ætla að sameinast í að vinna tækninni brautargengi á evrópska fjarskiptamarkaðinum og skapa umhverfi þar sem þjónustan getur blómstrað og jafnframt tryggja neytendum nægilega vernd. ERG (European Regulatory Group) er nýstofnaður formlegur vettvangur eftirlitsstofnana þjóða Evrópusambandsins. Sérstakur vinnuhópur um málefni VoIP vann drög að þessari yfirlýsingu sem nú hefur verið gerð opinber. Ársæll Baldursson hefur verið fulltrúi Póst og fjarskiptastofnunar í þeim vinnuhóp. Sameiginleg yfirlýsing ERG um aðkomu eftirlitsstofnana að VoIP. (pdf)
28. febrúar 2005
Gagnleg tölfræði í ársskýrslu 2003
Nánar
Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2003 er komin út. Þar segir að tvíkeppni ríki á íslenskum fjarskiptamarkaði og undir slíkum kringumstæðum sé meginviðfang stofnunarinnar að veita fyrirtækjum þétt aðhald og tryggja hag neytenda. Þá er bent á að óheppilegt sé til lengri tíma litið að fjölmiðlar með veruleg ítök í dreifingu hafi tök á að takmarka aðgang keppinauta að dreifikerfum. Dreifikerfi hljóðvarps og sjónvarps hérlendis eru yfirleitt undir stjórn þeirra sem framleiða og dreifa efni. Úrskurðað var á árinu 2003 að markaðshlutdeild Og Fjarskipta á farsíma- og samtengimarkaði væri umtalsverð, sem þýðir að leggja má á fyrirtækið kvaðir til að jafna samkeppnisstöðu. Stofnunin ákvað jafnframt að Landssímanum bæri að lækka heildsöluverð inn í farsímanet sitt um fimmtán af hundraði. Á árinu 2003 voru settar reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða fyrir póstsendingar, en eins og kunnugt er hefur Íslandspóstur hin síðari ár gengið til samstarf við banka, sparisjóði og verslanir í þeim efnum Jafnframt voru settar reglur um gæði í póstþjónustu. Í árskýrslunni eru birtar niðurstöður árlegra gæðakannana á því hversu fljótt póstur berst til neytenda innanlands. Þá kemur fram að á árinu 2006 verði einkaréttur Íslandspósts á póstsendingum bréfa færður niður í 50 grömm. Greinargott yfirlit yfir þróun á íslenskum fjarskiptamarkaði er í ársskýrslunni, en með nýjum lögum um fjarskipti sem tóku gildi 2003 var kveðið á um markaðsgreiningu í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Hér má sækja ársskýrsluna á pdf sniði. Ársskýrsla 2003 Nýjustu tölfræðiupplýsingar
25. febrúar 2005
Athugasemdir við útboð á UHF rásum fyrir 1. mars
Nánar
Frestur er veittur til þess að koma að athugasemdum til þriðjudags 1. mars 2005 kl 16:00. Sjá frétt 10.2.2005.
10. febrúar 2005
Útboð á UHF rásum fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun er nú á lokastigi undirbúningur undir útboð rása fyrir stafrænt sjónvarp á UHF tíðnisviðinu. Í fyrsta áfanga verða boðnar í heild allt að 10 UHF rásir um allt land, þ.m.t. á Reykjavíkursvæðinu. Hverjum aðila verður þó aðeins heimilt að bjóða í tvær rásir. Gert er ráð fyrir að 5 sjónvarpsdagskrár rúmist á einni stafrænni UHF rás. Hér er stuttur úrdráttur úr drögum að útboðslýsingu fyrir UHF tíðnirnar, þar sem fram koma meginatriði fyrirkomulags útboðsins. Vakin er sérstök athygli að kröfunni um útbreiðslu, en í útboðinu er gert ráð fyrir að innan tveggja ára skuli stafræn sjónvarpsþjónusta á UHF tíðnisviði ná til a.m.k. 98% heimila landsmanna. Hagsmunaaðilum er hér með boðið að koma að athugasemdum sínum varðandi fyrirhugað útboð og skulu þær berast PFS fyrir 25. febrúar 2005 kl 16:00
17. desember 2004
Óljós símakostnaður vegna númeraflutnings - tilkynning
Nánar
Þann 1. október síðastliðinn var farsímanotendum gert mögulegt að flytja númer sín með sér vilji þeir eiga viðskipti við annað farsímafyrirtæki. Borið hefur á kvörtunum frá notendum um hækkun á símreikningum sem rekja má til þess að viðkomandi hafi hringt í númer sem áður var hjá sama farsímafyrirtæki og viðkomandi en vegna breytinganna er nú hjá öðru farsímafyrirtæki. Verð símtala milli farsímafyrirtækja eru allt að 120% hærri en verð símtala milli notenda sem eru hjá sama farsímafyrirtæki.Svipuð staða er uppí í löndum þar sem númeraflutningur er skylda. Almennt hefur lausnin verið sú að tryggja að farsímanotendur geti nálgast upplýsingar um í hvað net er hringt og þannig vitað hver verður kostaður af viðkomandi símtali. Farsímafélögin á Íslandi hafa þegar mætt þessu með því að bjóða notendum að fletta upp á vefsíðum sínum í hvaða kerfi notandi er. Sjá t.d. http://www.siminn.is/control/index?pid=6116 (Neðst á síðunni)http://www.ogvodafone.is/index.aspx?GroupId=750(Efst á síðunni) Hérlendis sem og annars staðar er verið að kanna aðrar lausnir t.d með því að veita upplýsingarnar gegnum talvél, smáskilaboð (SMS) eða þjónustuver. Neytendur eru hvattir til að kynna sér vel hvaða áhrif það getur haft á símreikninga þeirra að skipta um þjónustuveitanda. Þannig breytingar geta haft áhrif bæði til hækkunar eða lækkunar, allt eftir því hvort mikið eða lítið er hringt á milli kerfa.