Fréttasafn
15. maí 2009
Framlengdur frestur til að skila umsögnum vegna samráðs um framtíðaráform vegna GSM 1800 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja frest til að skila umsögnum og athugasemdum vegna samráðs um framtíðaráform vegna GSM 1800 tíðnisviðsins.Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til kl. 12:00 miðvikudaginn 20. maí 2009. Sjá nánar í frétt hér á vefnum frá 29. apríl sl.
4. maí 2009
Uppfærsla á vef PFS
Nánar
Vegna uppfærslu á vef PFS geta verið tímabundnir hnökrar á þjónustu vefsins. T.d. getur verið vandkvæðum bundið að nálgast sum eyðublöð sem þar eru inni. Ef um slíkt er að ræða vinsamlega hafið samband við okkur á netfangið pfs(hjá)pfs.is eða hrigið í síma 510-1500. Við munum senda viðkomandi eyðublað um hæl. Unnið er að lagfæringum. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir notendur vefsins.
29. apríl 2009
Samráð um framtíðaráform GSM 1800 MHz tíðnisviðsins
Nánar
Póst - og fjarskiptastofnun (PFS) hefur ákveðið að efna til samráðs hagsmunaaðila vegna eftirfarandi: Breytingar á markaði og ástandið í þjóðfélaginu um þessar mundir ásamt líkum á hægum bata í fjármálum þjóðarinnar á næstunni er meðal þess sem gerir það að verkum að PFS telur nauðsynlegt að skoða framtíðarskipan á GSM 1800 tíðnisviðinu hér á landi. PFS hefur borist umsókn frá Nova ehf sem sótt hefur um 2x7,4 MHz tíðnileyfi á GSM 1800 tíðnisviðinu. PFS hefur ákveðið að bíða með afgreiðslu þessarar fyrirspurnar þar til samráði við markaðsaðila er lokið. Það byggir þó á því að samráðsferlið taki stuttan tíma og er því einungis veittur tveggja vikna frestur til að skila inn umsögnum. Umsagnarfrestur er til kl 12:00 miðvikudaginn 13. maí 2009. Senda skal umsagnir í tölvupósti til thorleifur@pfs.is. Óskað er eftir að vísað verði til númers þeirra neðangreindra liða sem umsagnir eiga við um. Stofnunin áskilur sér rétt til að birta efni innsendra umsagna. Samráð um framtíðaráform GSM 1800 MHz tíðnisviðsins (PDF)(Word)
22. apríl 2009
Nýjar reglur lækka verð á farsímanotkun milli landa innan ESB
Nánar
Evrópuþingið hefur samþykkt nýjar reglur um alþjóðlegt reiki milli landa innan sambandsins. Nú þegar eru í gildi reglur sem setja þak á verð sem farsímafyrirtæki geta rukkað viðskiptavini sína um fyrir símtöl milli landanna. Með þessum nýju reglum bætast við þök á verð fyrir smáskilaboð (SMS) og gagnaflutning. Einnig eru settar reglur um tímamælingar á símtölum í farsíma. Reglurnar munu taka gildi innan ESB þann 1. júlí í sumar og gilda til 30 júní 2012. Helstu breytingar þeirra fyrir neytendur verða: Þök á gjöld fyrir gagnaflutning og textaskilaboð í farsíma milli landa innan ESB. Skylda farsímafyrirtækja til að upplýsa viðskiptavini sína um þau verð sem gilda fyrir gagnaflutning í farsíma eða 3G milli landa innan ESB. Gjöld fyrir símtöl milli landa innan ESB verða miðuð við hverja sekúndu eftir fyrstu 30 sekúndurnar þegar hringt er, en hverja notaða sekúndu þegar tekið er á móti símtali. Árið 2007 voru settar reglur innan Evrópusambandsins þar sem þak var sett á símtöl í farsíma milli landa innan sambandsins. Þær reglur voru innleiddar hér skv. EES samningnum í október á síðasta ári. Breyta þurfti íslenskum lögum til þess að hægt væri að innleiða reglurnar hér. Við lagabreytinguna var gert ráð fyrir þeirri reglugerð sem Evrópuþingið hefur nú samþykkt. Það mun flýta fyrir innleiðingu reglnanna hér á landi. Sjá nánar á upplýsingavef ESB um alþjóðlegt reiki
21. apríl 2009
Breyting á tímamælingum farsímafyrirtækja hefur áhrif á kostnað neytenda
Nánar
Í tilefni af nýjustu breytingum Símans og Vodafone á áskriftarleiðum sínum þar sem aðferðum við tímamælingu símtala er breytt vill PFS vekja athygli á áhrifum mismunandi aðferða við tímamælingu á gjaldfærslu símtala. Þegar símtal hefst er fyrst tekið upphafsgjald. Þá um leið er einnig gjaldfært fyrir lágmarkslengd. Þegar lágmarkslengd er liðin er gjaldfært fyrir hvert byrjað tímabil. Tímabil lágmarkslengdar og tímabils er táknað í gjaldskrá með tveimur tölum með deilistriki á milli. Til dæmis þýðir tímamælingin 60/10 að lágmarkslengdin miðast við 60 sekúndur og síðan er gjaldfært fyrir hverjar byrjaðar 10 sekúndur eftir það. Notandi sem talar í 62 sekúndur greiðir þannig upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 10 sekúndur þar til viðbótar, þó hann hafi einungis notað 2 sekúndur af þessum 10. Nú í mars síðastliðnum breytti Síminn tímamælingum sínum úr 60/10 í 60/60 og Vodafone mun einnig breyta úr 60/10 í 60/60 í maí. Samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi við tímamælingu símtala er aldrei rukkað fyrir minna en 60 sekúndur og eftir það fyrir hverjar byrjaðar 60 sekúndur, þar sem áður voru hverjar byrjaðar 10 sekúndur. Það hefur í för með sér að símtöl sem eru lengri en 60 sekúndur munu nú hækka í verði, að öðru óbreyttu.Ef skoðuð er notkun farsímans yfir lengra tímabil, t.d. einn mánuð, má að gera ráð fyrir að greitt sé að meðaltali fyrir 30 ónotaðar sekúndur í hverju símtali í stað 5 sekúndna áður, vegna þeirra símtala sem vara lengur en 60 sekúndur. Neytendur eiga erfitt með að átta sig á þessu miðað við þær upplýsingar sem þeir hafa frá farsímafyrirtækjunum. Því má gera ráð fyrir að miðað við almennar verðskrár felist dulin verðhækkun í ofangreindum breytingum. Áhrif þessara breytinga verða mestar hjá þeim sem tala oft lengur en í eina mínútu. Ef tekið er mið af dæminu um 62 sekúndna símtalið hér að ofan verður nú rukkað fyrir upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 60 sekúndur til viðbótar, þó aðeins séu notaðar tvær. Hver hækkun símareiknings verður í raun, er mismunandi eftir símnotkun hvers og eins. Meðalsímareikningur gæti hækkað yfir 10% í verði miðað við almenna verðskrá.Önnur fyrirtæki en Síminn og Vodafone hafa ekki tilkynnt PFS um breytingar á tímamælingum en Tal hefur notað fyrirkomulagið 60/60 og Nova 30/30. Réttur neytenda til að fá sundurliðað yfirlit yfir farsímanotkun sínaRétt er að benda á að samkvæmt fjarskiptalögum hafa allir neytendur rétt á því að fá sundurliðað yfirlit yfir símtöl sín. Með því að kynna sér slík yfirlit geta neytendur betur áttað sig á notkunarmynstri sínu og þannig tekið afstöðu til þess hvaða áskriftarleið er hagkvæmust. Full ástæða er til að benda neytendum á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir hagsmunum sínum á þessum markaði eins og öðrum. PFS er í samstarfi við aðra aðila sem sinna neytendamálum hér á landi, t.d. Neytendastofu sem hefur látið þessi mál til sín taka í síauknum mæli, sbr. nýlega ákvörðun hennar vegna auglýsinga á þessum markaði. Sjá nánar: Ný samantekt PFS: Verðlagning farsímaþjónustu - mismunandi áskriftarleiðir og tímamæling símtala (PDF) Verðsamanburður fjarskiptaþjónustu hér á vefnum
15. apríl 2009
Aðvaranir vegna spilliforrita
Nánar
Nýlega hefur borið á spilliforritum hér á landi, sem dreifast í tölvur notenda gegnum veraldarvefinn. Um er að ræða sérstakar tegundir Trójuhesta sem ná aðallega bólfestu í Windows stýrikerfum. Eitt spilliforritið er t.d. sérstök útgáfa af svokölluðum Zeus Trójuhesti, annað er tvíþætt og nefnist „Bankpatch“ og „Nadebanker“. Þau sækjast eftir því að komast yfir viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem aðgangsupplýsingar notenda netbanka. Ítök þeirra teygja sig inn í vefsjá einkatölva, þar sem þau geta hlerað samskipti við netbanka og jafnvel náð stjórn á vefsjánni óséð. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun benda á vef sinn www.netöryggi.is. Þar er að finna nánari upplýsingar og góð ráð gegn spilliforritum. Þar er einnig vísað á netsíður þar sem hægt er að gera öryggisprófanir á tölvum. PFS ítrekar mikilvægi þess að nota viðurkenndar veiruvarnir og að stýrikerfi og önnur forrit séu alltaf með nýjustu uppfærslum. Í dag er talið að einhverjar tölvur á Íslandi séu smitaðar af þessum spilliforritum. Veirur, njósnahugbúnaður, upplýsingastuldur og fjársvik á Netinu verða sífellt þróaðri og því er afar brýnt að notendur Netsins séu stöðugt á verði. Hver og einn þarf að gæta vandlega að öryggi gagna sinna og persónuupplýsinga. Þær tölvur sem greinst hafa til þessa eiga það sameiginlegt að vera með lélegar veiruvarnir, auk þess sem láðst hefur að uppfæra stýrikerfi, forrit og vefsjá reglulega í viðkomandi tölvum. Auk vefsíðunnar www.netöryggi.is, bendum við á gátlista Samtaka fjármálafyrirtækja (www.sff.is) um gagnaöryggi á Netinu og um hvað almennt ber að varast við notkun tölva og meðferð viðkvæmra upplýsinga. Póst- og fjarskiptastofnun, í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja, lögreglu, fjarskiptafyrirtæki og erlenda öryggishópa, svokallaða CERT/CSIRT hópa, vinna nú að því að leita lausna og tryggja áframhaldandi öryggi persónuupplýsinga á Netinu. Hér eru nokkur góð ráð gegn þessari vá: Gættu varkárni í notkun netbanka og við önnur netviðskipti. Skoðaðu reglulega reikningsyfirlit og fylgstu með að þar séu ekki færslur sem þú kannast ekki við. Lokaðu vefsjá alfarið strax að lokinni notkun þar sem peningar og viðkvæmar upplýsingar koma fram. Veikleikar í óuppfærðum forritum eins og Flash spilurum, PDF lesurum og Java forritum, eru oft leiðir Trójuhesta sem miða að fjársvikum inn í einkatölvur. Afar mikilvægt er að setja inn uppfærslur þessara forrita um leið og þær eru í boði. Uppfærðu stýrikerfið reglulega, svo og vefsjá og veiruvarnir. Notaðu alltaf eldveggi og öflugar varnir gegn spilliforritum. Uppfærðu þetta reglulega svo og önnur forrit. Gerðu reglulega öryggisprófanir á www.netöryggi.is. Mundu samt að engar varnir né prófanir eru fullkomnar.
8. apríl 2009
Vaxandi netvá - varað við tölvuveirum
Nánar
Undanfarið hefur borið á tölvuveirum á Netinu, svokölluðum Trójuhestum, sem fylgjast með tölvunotkun. Um er að ræða sérstakar tegundir sem dreifa sér í gegnum Veraldarvefinn og virðast miða að því að komast yfir viðkvæmar persónuupplýsingar. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun ítreka mikilvægi þess að nota viðurkennda veiruvörn og að stýrikerfi og önnur forrit séu alltaf með nýjustu uppfærslum. Leiða má líkur að því að veirurnar hafi borist í einhverjar tölvur á Íslandi. Stofnunin vill benda á að veirur, njósnahugbúnaður, upplýsingastuldur og fjársvik á Netinu verða sífellt þróaðri og því afar brýnt að notendur Netsins séu stöðugt á verði.Hver og einn þarf að gæta vandlega að öryggi gagna sinna og persónuupplýsinga. Almennt smitast þær tölvur frekar sem hafa lakar veiruvarnir eða ef láðst hefur að uppfæra stýrikerfi, forrit og netvafra í viðkomandi tölvum. Á vefsíðu PFS um netöryggi Netöryggi.is er að finna góð ráð til varnar óværum af þessu tagi. Sérstaklega bendir stofnunin á að mikilvægt er að gera öryggisprófanir sem finna má þar.
20. mars 2009
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli Íslandpósts hf. gegn íbúum í nokkrum húsum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa.
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2009, Íslandspóstur gegn ábúendum á nokkrum bæjum í Helgafellssveit, staðsetning bréfakassa. Í ákvörðunarorðum segir: „Staðsetning bréfakassa fyrir húsin þrjú að Bjarnarhöfn og Bjarnarhöfn 2 skal eigi vera fjær en 500 metrar frá húsakynnum ábúenda.Staðsetning bréfakassa fyrir bæina Saurar og Norðurás skal vera við vegamót þar sem vegurinn skiptist heim að Saurum. Staðsetning bréfakassa fyrir Birkilund 39, Birkilund 39A og Birkilund 50 skal vera við fyrstu vegamót þar sem hin skipulagða byggð byrjar.“ Forsaga málsins er sú að Íslandspóstur náði ekki samkomulagi við ábúendur varðandi staðsetningu bréfakassa sem þjóna áttu viðkomandi bæjum. Taldi fyrirtækið það mikið hagsmunamál að bréfakassar í dreifbýli væru rétt staðsettir og vísaði m.a. til þess að dreifing í dreifbýli væri mjög dýr, þeirrar framkvæmdar sem viðhaft er við dreifinguna og nauðsynjar þess að fyrirtækið fái að dreifa pósti á eins hagkvæman hátt og kostur er innan þeirra leikreglna sem löggjöfin biði upp á. Íbúar vísuðu m.a til þess að bréfkassar ættu að vera heim við íbúðarhús, að ekkert samráð hafi verið haft við þá af hálfu Íslandspósts um staðsetninguna, jafnræðisreglna og til þeirra hættu sem gæti skapast ef bréfakassar væru settir upp utan alfaraleiðar. Í ákvörðun PFS kemur m.a. fram að lengi hafi tíðkast í dreifbýli að bréfakassar séu staðsettir þar sem vegir heim að bæjum tengjast þjóðvegakerfinu. Í 16. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 364/2003, sé kveðið á um nokkrar meginreglur sem leggja skal til grundvallar við val á staðsetningu bréfakassa, skilgreining á þéttbýli, ákveðnar vegalengdir sem taka ber mið af og svo sérstakar undanþágur s.s. hlutfallsreglu, ef ekkert vegasamband er við húsið eða það staðsett langt utan við almenna byggð. Í ákvörðuninni er farið yfir ofangreind sjónarmið og staðsetning bréfakassa fyrir hvert einstakt hús ákvarðað með hliðsjón af meginreglum 16. gr. reglugerðar um alþjónustu. Ákvörðun 4/2009