Fréttasafn
3. apríl 2013
PFS gefur út tíðniheimildir fyrir 4G þjónustu
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag gefið út sjö tíðniheimildir fyrir 4G þjónustu á Íslandi. Þar með er formlega lokið því tíðniuppboði sem hófst á vegum stofnunarinnar þann 11. febrúar sl. Tíðniheimildirnar sem gefnar voru út í dag eru eftirfarandi (hægt er að skoða heimildirnar sjálfar sem PDF skjöl): 365 miðlar ehf. fá tvær tíðniheimildir: Tíðniheimild A á 800 MHz gildir til 25 ára Tíðniheimild B á 800 MHz gildir til 10 ára Fjarskipti hf. fá tíðniheimildir D, E og I. Gefnar eru út tvær heimildir, ein sameiginleg fyrir D og E og ein fyrir I Tíðniheimild D og E á 800 MHz gildir til 10 ára Tíðniheimild I á 1800 MHz gildir til 10 ára Nova ehf. fær tíðniheimildir C og J. Gefnar eru út tvær heimildir Tíðniheimild C á 800 MHz gildir til 10 ára Tíðniheimild J á 1800 MHz gildir til 10 ára Síminn hf. fékk F, G og H. Gefnin er út ein tíðniheimild fyrir allar. Tíðniheimild F,G og H á 1800 MHz, gildir til 10 ára. Sjá nánar um uppboðið, undirbúning þess og niðurstöður í frétt frá 14. mars hér á vefnum
26. mars 2013
Samkeppniseftirlitið og Skipti gera með sér sátt. Aukið jafnræði á fjarskiptamarkaði.
Nánar
Samkeppniseftirlitið og Skipti hafa gert með sér heildarsátt um lok þeirra mála sem eftirlitið hefur haft til rannsóknar varðandi félagið. Með sáttinni, sem undirbúin var í náinni samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, eru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi og háttsemi Skiptasamstæðunnar í því skyni að efla samkeppni. Með henni er einnig tryggt að keppinautar Símans sitji við sama borð og Síminn sjálfur varðandi aðgang að grunnfjarskiptakerfum Skipta. Er gengið lengra í slíkum aðskilnaði fyrrum einokunarfyrirtækis í fjarskiptum en tíðkast í nágrannalöndum. Skipti fallast einnig á að greiða 300 milljónir kr. í stjórnvaldssekt. Sjá nánar um málið á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins í dag.
25. mars 2013
PFS gerir Íslandspósti að fresta hækkunum á gjaldskrá fyrir 51 – 2000 gr. póstsendingar.
Nánar
Með bráðabirgðaákvörðun sinni nr. 3/2013 hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) frestað gildistöku fyrirhugaðrar hækkunar Íslandspósts á gjaldskrá fyrir sendingar í þyngdarflokknum 51 – 2000 gr. Er ákvörðunin tekin í framhaldi af kvörtun Árvakurs til stofnunarinnar vegna hækkunarinnar. Það er niðurstaða stofnunarinnar að Íslandspóstur hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir þeim forsendum sem breytingarnar byggjast á og að uppbygging nýrrar gjaldskrár og afsláttarkjara hafi ekki verið í samræmi við þær forsendur sem settar voru með ákvörðun PFS nr. 16/2012. Gildistöku breytinganna er því frestað Sjá ákvörðunina í heild:Ákvörðun PFS nr. 3/2013 um bráðabirgðaákvörðun vegna kvörtunar Árvakurs hf. vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á gjaldskrá í þyngdarflokknum 51- 2000 gr.
20. mars 2013
Héraðsdómur staðfestir að Símanum hafi borið að tilkynna viðskiptavini um rof á friðhelgi einkalífs
Nánar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með dómi staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 5/2012 vegna meðferðar öryggisatviks hjá Símanum. Í ákvörðuninni komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn fjarskiptalögum með því að bregðast seint við ábendingu frá viðskiptavini sínum um að tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins kynni með ólögmætum hætti að hafa rofið friðhelgi einkalífs gegn sér. Fyrirtækið tók ábendinguna ekki til rannsóknar fyrr en rúmu ári eftir að hún barst. Þegar rannsókn innan fyrirtækisins hafði leitt í ljós að viðkomandi starfsmaður hafði með ólögmætum hætti skoðað persónuupplýsingar um viðskiptavininn var umræddum viðskiptavini ekki tilkynnt um það. Með því taldi PFS að Síminn hefði bæði brotið gegn fjarskiptalögum og reglum nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum. Í kjölfar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar stefndi Síminn stofnuninni og umræddum viðskiptavini sínum fyrir dómstóla og krafðist ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1774/2012 Sjá einnig eldri frétt um málið hér á vef PFS
15. mars 2013
Nýr verðsamanburður á símtölum í 118
Nánar
Þann 18. febrúar s.l., birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) frétt hér á heimasíðu sinni þar sem birtar voru niðurstöður úr verðsamanburði sem stofnunin gerði á milli símafyrirtækjanna á því verði sem þau gjaldfæra frá viðskiptavinum sínum þegar þeir hringja í 118. Byggði samanburðurinn á verðskrá símafyrirtækjanna sjálfra eins og þær voru birtar og settar fram á heimasíðu þeirra í febrúar 2013. Síðar kom í ljós að framsetning verða af hálfu símafyrirtækjanna byggði ekki að öllu leyti á samræmdum forsendum. Þannig var þjónusta Símans við að koma á símtali við 118 ekki sýnd sem álagning eða viðbótargjald á símtal samkvæmt gjaldskrá Já, eins og hin símafyrirtækin kjósa að gera.Þess í stað gjaldfærir Síminn sérstaklega fyrir venjulegt símtal samkvæmt gjaldskrá sinni, miðað við viðeigandi þjónustuleið hvers og eins notanda, til viðbótar við gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá Já. PFS telur ekkert vera því til fyrirstöðu að símafyrirtæki hagi gjaldtöku í yfirgjaldsnúmer á þann hátt sem Síminn gerir, svo fremi sem notandinn er upplýstur um að gjaldtakan fari fram með tvöföldum hætti, þ.e. annars vegar samkvæmt gjaldskrá Já og hins vegar samkvæmt gjaldskrá símafyrirtækisins. Í verðskrá Símans var hins vegar hvergi að finna upplýsingar um að gjaldfært væri fyrir símtal samhliða gjaldtöku samkvæmt verðskrá Já þegar hringt er í 118. Því telur PFS að framsetningu Símans á upplýsingum um raunverulegt verð fyrirtækisins fyrir símtöl í 118 hafi verið ábótavant með tilliti til kröfu um að birta skuli gjaldskrár og skilmála þjónustu á aðgengilegan hátt fyrir notendur. (Sbr. 5. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga). Stofnunin hefur því beint þeim tilmælum til Símans að gera skilmerkilegri grein fyrir því hvernig gjaldtöku vegna hringinga í númerið 118 er háttað, þannig að neytendur fá skýrari mynd af heildarkostnaði við að nýta sér umrædda þjónustu hjá fyrirtækinu. Hefur Síminn fallist á að fara að þeim tilmælum PFS. PFS vill þó leggja áherslu á að þrátt fyrir framangreint þá stendur megin niðurstaða fyrrgreindrar úttektar óhögguð; þ.e. að dæmi séu um allt að 85% álagningu símafyrirtækjanna á verðskrá Já. Til að fá óyggjandi niðurstöðu gerði stofnunin umræddan verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna að nýju nú í mars, þar sem tekið er mið af viðbótargjaldi því sem Síminn gjaldfærir til hliðar við gjaldtöku Já. Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Tekið skal fram að í verðsamanburðinum hér að ofan er eingöngu tekið mið af verðskrá fyrirtækjanna og ekki tekin með ýmis hlunnindi sem falist geta í mismunandi áskriftarpökkum fyrirtækjanna. Já upplýsingaveitur hafa tilkynnt PFS um hækkun á heildsöluverði símtala í 118 sem tekur gildi þann 1. apríl nk. Hækkunin mun nema 10 krónum fyrir 1 mínútu símtal og verður því 160 kr. í stað 150 kr. áður. Mun stofnunin fylgjast með áhrifum þeirrar hækkunar á verðskrá símafyrirtækjanna og birta verðsamanburð á símtölum í 118 á næstu mánuðum.
14. mars 2013
Uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G lokið hjá PFS
Nánar
Í gær, 13. mars, kl. 11:00, lauk rafrænu uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G þjónustu sem haldið var á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Líkt og áður hefur komið fram tóku fjórir aðilar þátt í uppboðinu, þ.e. 365 miðlar ehf., Fjarskipti hf., Nova ehf. og Síminn hf. PFS mun nú fara yfir framkvæmd uppboðsins í samræmi við skilmála þess. Að jafnaði skal sá aðili sem hæsta boð átti í tíðniheimild fá henni úthlutað, leiði yfirferð stofnunarinnar á framkvæmd uppboðsins ekki til annars, eða málefnaleg sjónarmið leiði til annarrar niðurstöðu. Áskilur stofnunin sér þrjár vikur til að ganga frá útgáfu heimildanna. Heildarfjárhæð boða í allar tíðniheimildir var 226.011.000,- kr. en lágmarksboð hljóðuðu upp á 205.000.000,-. Munu endanlegir fjármunir renna til fjarskiptasjóðs, að frádregnum afslætti af tíðniheimild A. Afslátturinn er gefinn vegna mikilla uppbyggingarkrafna næstu kynslóðar farnets á tíðniheimild A sem gerðar eru í ljósi samfélagslegs mikilvægis þess. 365 miðlar ehf. áttu hæsta boð í tíðniheimildir A og B (2x15 MHz á 800 MHz tíðnisviðinu), Fjarskipti hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir D, E og I (2x10 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnisviðunum), Nova átti hæsta boð í tíðniheimildir C og J (2x5 á 800 MHz og 2x5 á 1800 MHz tíðnivsiðunum) og Síminn hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir F, G og H (2x15 MHz á 1800 MHz tíðnisviðinu). Niðurstaða uppboðsins þýðir að nýtt fjarskiptafyrirtæki, 365 miðlar, sækir nú inn á íslenskan fjarskiptamarkað. Með því að bjóða í tíðniheimild A hefur fyrirtækið skuldbundið sig til að byggja upp næstu kynslóðar farnet sem ná skal til 99,5% íbúa á hverju skilgreindu landssvæði fyrir sig. Farnetið verður því eitt stærsta fjarskiptanet landsins. Uppbyggingu þess á að vera lokið fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða. Gagnaflutningshraðinn verður síðan aukinn og skal vera orðinn 30 Mb/s í lok árs 2020. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá niðurstöður uppboðsins. HæstbjóðandiTíðnisviðTíðniheimildHæsta boð 365 miðlar ehf. 791-801/832-842 MHz A 100.000.000 801-806/842-847 MHz B 20.000.000 Fjarskipti hf. 811-816/852-857 MHz D 20.000.000 816-821/857-862 MHz E 21.000.000 1759-1764/1854-1859 MHz I 5.000.000 Nova ehf. 806-811/847-852 MHz C 20.000.000 1779-1784-1874-1879 MHz J 10.150.000 Síminn hf. 1725-1730/1820-1825 MHz F 5.665.000 1730-1735/1825-1830 MHz G 5.305.000 1735-1740/1830-1835 MHz H 18.000.000 Samtals: 225.120.000 Frekari upplýsingar um uppboðið má nálgast með því að kynna sér eftirfarandi gögn: Auglýsing um uppboðið hér á vefnum frá 17. desember sl. Skilmálar uppboðsins (PDF skjal) Skýrsla Mannvits - Mat á umfangi vegna uppboðs á 4G tíðniheimildum (PDF skjal) Niðurstöður PFS í framhaldi af samráði um uppboðið sem haft var við hagsmunaaðila áður en uppboðið var auglýst. (PDF skjal)
7. mars 2013
PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum annars vegar og breiðbandsaðgang hins vegar. Um er að ræða markaði 4 og 5 í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008.Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Samráðsskjalið má nálgast sem PDF skjal neðst í þessari frétt. Markaður 4, heildsölumarkaður fyrir aðgang að föstum aðgangsnetumÞessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 26/2007 (þá markaður 11 skv eldri tilmælum ESA). Þá einskorðaðist markaðurinn við heildsöluaðgang að koparheimtaugum en er nú orðinn tæknilega hlutlaus. Með ákvörðun 26/2007 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Það er mat PFS að umræddur markaður samanstandi nú ekki einungis af koparheimtaugum heldur einnig ljósleiðaraheimtaugum. Um mitt síðasta ár hafði Míla 87% markaðshlutdeild á þeim markaði. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir að mati PFS renna stoðum undir að Míla sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Mílu að því er varðar ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Markaður 5, heildsölumarkaður fyrir breiðbandsaðgangÞessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 8/2008 (þá markaður 12 skv eldri tilmælum ESA). Þar var Síminn útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Um mitt síðasta ár var Síminn enn með mestu markaðshlutdeildina á þessum markaði, eða 57%, og hefur hún lítið sem ekkert lækkað á undanförnum árum. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir renna stoðum undir að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 5 og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Símann að því er varðar veitingu breiðbandsaðgangs um ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum. Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um þau drög að markaðsgreiningu sem hér eru lögð fram er til og með 18. apríl nk. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal til þeirra liða sem um ræðir. Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson, netfang: ragnar(hjá)pfs.is. PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. Sjá samráðsskjal:Frumdrög að greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (Markaður 4) og breiðbandsaðgang í heildsölu (Markaður 5) (PDF, 2,785 MB) Sjá einnig almennar upplýsingar um markaðsgreiningu hér á vefnum.
4. mars 2013
PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar breytingar Símans á viðmiðunartilboði um samtengingu talsímaneta (RIO).
Nánar
Þann 31. janúar sl. óskaði Síminn eftir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar á breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta. Síminn taldi rétt að uppfæra nokkur atriði í viðaukum viðmiðunartilboðsins, fyrst og fremst til nánari útskýringar fyrir kaupendur á þjónustunni. Breytingin yrði í viðauka 1a, útgáfu 3.6-B frá 1. mars 2012 og viðauka 3a, útgáfu 3.6-A frá 1. september 2011. Í viðauka 1a leggur Síminn til breytingar á greinum 4.4.1, 4.4.2, 4.6 og 5: Í grein 4.4.1 er bætt við texta til frekari útskýringar á mánaðargjaldi fyrir aðgang að símstöð (POTS/ISDN). Í grein 4.4.2 eru lagðar til breytingar sem ætlaðar eru til frekari útskýringa. Í grein 4.6 eru lagðar til breytingar á texta varðandi nýtengingu. Einnig er lagt til að verð fyrir „Geymsla á síma (allt að 24 mán.)“ fari úr 881 kr. í 991 kr. og að verð fyrir „Númeraskipti“ fari úr 4.047 kr. í 991 kr. Í grein 5 er gerð breyting á texta í skýringu við liðinn „Númeraflutningur á stökum símanúmerum“. Í viðauka 3a leggur Síminn til breytingar á grein 2.4.4: Í grein 2.4.4 er sett inn skýring við liðina „Þriggja manna tal” og „CAW 1 Símtal bíður“. PFS óskar eftir viðbrögðum fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirætlunum Símans.Breytingartillögur Símans má sjá í skjölunum sjálfum hér fyrir neðan: Viðauki 1a - Verðskrá fyrir samtengingarþjónustu Símans (PDF) Viðauki 3a - Þjónusta samnings (PDF) Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 18. mars 2013. Umsagnir skal senda til Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is). Núverandi viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta ásamt viðaukum er að finna á vef Símans.