Fréttasafn
17. september 2014
PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá og skilmála Mílu fyrir lén og tengiskil vegna samtenginga og VDSL+ fyrirtækjatengingar
Nánar
Með ákvörðun PFS nr. 13/2014, dags. 30. júní sl., veitti PFS Mílu heimild til að hefja veitingu nýrra tegunda bitastraumsþjónustu áður en endanleg ákvörðun PFS um skilmála og verð fyrir þjónustuna lægi fyrir. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang að því er varðar aðgang að VDSL+ fyrirtækjatengingum vegna aðgangsleiða 1 og 3 annars vegar og hins vegar aðgang að lénum og tengiskilum vegna samtengingar fjarskiptafyrirtækja við xDSL og GPON kerfi Mílu vegna aðgangsleiðar 3. Um er að ræða nýja viðauka við umrætt viðmiðunartilboð, þ.e. viðauka 6, 7A og 7B. Fram kom í framangreindri ákvörðun PFS að þau verð sem um ræddi í fyrirhuguðum viðaukum við umrætt viðmiðunartilboð skyldu gilda sem bráðabirgðaverð þar til endanleg verð hefðu verið ákvörðuð af PFS og skyldi uppgjör vegna hugsanlegs verðmismunar fara fram innan mánaðar frá því að sú ákvörðun lægi fyrir.
15. september 2014
Ákvörðun PFS vegna ólögmæts framsals og óheimillar notkunar á númerum IceCell ehf.
Nánar
Þann 30. apríl 2014 barst Póst- og fjarskiptastofnun ábending um að farsímanúmeraraðirnar 652 XXXX og 642 XXXX, sem árið 2007 var úthlutað til IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi með tilkynningu til valdra aðila innan GSMA (fr. Groupe Speciale Mobile Association) verið færðar yfir á nafn og kennitölu iCell ehf., kt. 540710-1200. Átti þetta jafnframt við um talsímanúmeraröðina 536 XXXX sem auk þess var tilkynnt fyrir farsímaþjónustu. Þá liggur fyrir að Icecell ehf. hefur ekki greitt lögboðin afnotagjöld af framangreindum númerum síðastliðin ár. Með ákvörðun sinni í dag nr. 22/2014 kemst Póst- og fjarskiptastofnun að þeirri niðurstöðu að IceCell ehf., kt. 420407-0330, hafi brotið alvarlega gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003 með því að framselja tiltekin númeraréttindi til fjarskiptafyrirtækisins iCell ehf. kt. 540710-1200.
12. september 2014
PFS óskar umsagna vegna beiðna Íslandspósts um heimildir til fækkunar dreifingardaga í dreifbýli
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að kalla eftir umsögnum hagsmunaaðila vegna erinda frá Íslandspósti ohf. til stofnunarinnar, dags. 23. júní 2014 þar sem farið er fram á heimild til að fækka dreifingardögum pósts úr fimm niður í þrjá til bæja sem tilheyra dreifbýli í nágrenni tiltekinna þéttbýlisstaða á landinu. Um er að ræða dreifða byggð í nálægð við Bolungarvík, Kópasker, Raufarhöfn, Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Breiðdalsvík og Djúpavog. Alls er því um að ræða níu aðskildar umsóknir sem taka til þjónustu Íslandspósts við 126 heimili. Samhliða þessari tilkynningu á heimasíðu stofnunarinnar verður sent bréf til viðkomandi sveitarstjórna þar sem vakin er athygli á samráðinu.
12. september 2014
Grunsamlegir tenglar í tölvupósti - ekki smella!
Nánar
Sameiginleg fréttatilkynning frá netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, Ríkislögreglustjóra, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum og MP banka: Grunsamlegir tenglar í tölvupósti - ekki smella! Bankar og fjármálafyrirtæki biðja aldrei um upplýsingar um notendur í gegnum tölvupóst Nokkuð hefur orðið vart við tölvupóst í vikunni þar sem viðskiptavinir banka eru beðnir um að smella á tengil inni í póstinum og gefa upp notendanafn og aðgangsorð að netbönkum. Almenningur er hvattur til að vera á varðbergi gagnvart slíkum tölvupósti og smella ekki á slíka tengla. Bankar og fjármálafyrirtæki biðja viðskiptavini sína aldrei um notendaupplýsingar í gegnum tölvupóst, né hvetja þá með þeim hætti til að skrá sig inn í heimabanka. Gott er að senda grunsamlega tölvupósta áfram til viðkomandi banka til upplýsingar fyrir starfsfólk hans og eyða síðan viðkomandi skeyti tafarlaust. Ennfremur er fólk hvatt til að fara ekki í netbanka nema í gegnum vefsíður viðkomandi banka eða fjármálafyrirtækis.
8. september 2014
Kallað eftir samráði við hagsmunaaðila um úthlutun númera og kóða fyrir samskipti milli tækja
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila um úthlutun númera og kóða fyrir samskipti milli tækja. Samskipti milli tækja/hluta, eru samskiptalausnir sem hafa verið til síðan hliðræn mótöld komu á markaðinn og milljónir lyfta, viðvörunarkerfa, sjálfsala, og faxtækja fóru að nýta fjarskiptakerfi til að koma skilboðum milli tækja. TíT vísar til tækja sem leyfa bæði þráðlausum og fastanets kerfum að hafa samskipti við önnur tæki af svipuðum toga og er talin óaðskiljanlegur hluti þess sem nefnt hefur verið internet hlutanna (e. Internet of Things [IoT]). TíT samskipti fara hratt vaxandi m.a vegna næstu kynslóðar fjarskiptakerfa og lækkunar kostnaðar í farsíma- og farnetskerfum. Úthlutun númera og kóða fyrir TíT samskipti hefur verið rædd á alþjóðlegum vettvangi m.a. WG NAN, sem er hópur sérfræðinga frá eftirlitsstofnum í Evrópu (CEPT). Árið 2010, kom út skýrsla ECC (European Communications Committee) um TíT þar sem metnir voru nokkrir veigamiklir þættir um TíT þjónustuna. Í framhaldi af skýrslunni setti ECC árið 2011 fram tilmæli varðandi þessa þjónustu. Á Íslandi hefur TÍT þjónusta hingað til notað hefðbundin fastlínu/farsímanúmer en með fyrirsjáanlega þróun í slíkri þjónustu í huga vill PFS skilgreina sérstakar númeraraðir fyrir þjónustuna enda er vitað um áhuga nokkurra aðila fyrir TíT þjónustu
5. september 2014
PFS boðar ákvörðun um skyldu Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur sent Mílu ehf. boðaða ákvörðun um þá skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu, nr. 1356/2007, sbr. 3. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga nr. 83/2003. Boðunin kemur í framhaldi af umræðuskjali stofnunarinnar sem birt var þann 21. febrúar 2014, þar sem hagsmunaaðilum var boðið að tjá sig um nokkrar leiðir sem kynntar voru. Í samráðinu bárust athugasemdir frá 10 aðilum og voru þær birtar á heimasíðu PFS þann september sl. Á undanförnum árum hefur ákall notenda eftir öflugri tengingum sífellt aukist. Á nokkrum stöðum á landinu hafa fyrirtæki lagt ljósleiðara heim til notenda sem gefur kost á bandbreiðari tengingum. Þetta hefur m.a. verið gert í Reykjavík, Akureyri og nokkrum minni stöðum á landinu. Míla hefur einnig uppfært aðgangskerfi sitt með svokallaðri Ljósveitu (VDSL tækni). Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að hægt sé að uppfæra um 90% af núverandi tengingum fyrirtækisins með þessari tækni. Það er einkum fjarlægð heimila frá götuskáp, sem kemur í veg fyrir að fyrirtækið geti uppfært allar tengingar fyrirtækisins með þessari tækni.
2. september 2014
PFS birtir umsagnir vegna umræðuskjals um alþjónustuskyldur varðandi aðgang að almenna fjarskiptanetinu
Nánar
Þann 21. febrúar 2014 birti Póst- og fjarskiptastofnun frétt á hér á vefnum þar sem sett var fram um umræðuskjal um alþjónustuskyldur varðandi aðgang að almenna fjarskiptanetinu og kallað eftir umsögnum hagsmunaaðila. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú tekið saman yfirlit yfir helstu atriði þeirra athugasemda sem bárust. Í samantekt stofnunarinnar er að finna yfirlit yfir almennar athugasemdir umsagnaraðila, ásamt samantekt á svörum við þeim tilteknu spurningum sem stofnunin beindi út á markaðinn. Rétt er að geta þess að neðangreind samantekt er ekki tæmandi varðandi þær athugasemdir sem bárust.
29. ágúst 2014
PFS framlengir frest til að skila umsögnum í samráði um leiðbeiningar vegna uppbyggingar ljósleiðaraneta
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákveðið að framlengja skilafrest umsagna og athugasemda í samráði um leiðbeiningar til sveitarfélaga um uppbyggingu ljósleiðaraneta sem kallað var eftir þann 14. ágúst sl. Nýr skilafrestur umsagna og athugasemda er til og með 7. september nk.