Hoppa yfir valmynd

Eftirlitshlutverk og stefna

Forsaga sviðsins stafræns öryggis er sú að þann 1. september 2020 tóku gildi ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða ( lög nr. 78/2019  um öryggi net og upplýsingakerfa mikilvægra innviða), einnig þekkt sem „NIS-lögin“.

Þann 1. júlí 2021 tóku í gildi ný lög um Fjarskiptastofu (lög nr. 75/2021). Við þá lagabreytingu var skipuriti stofnunarinnar breytt og stofnað var svið stafræns öryggis.

Markmið laganna er að stuðla að auknu netöryggi á Íslandi með því að fylgja eftir lágmarkskröfum um tilhlýðilega umgjörð áhættustýringar, forvarna og viðbúnaðar gagnvart netógnum á grundvelli NIS-laganna og fjarskiptalaga.

Starf sviðsins fer að mestu í að framfylgja þessum lögum með því að fylgjast með og taka út stöðuna á eftirlitsskyldum aðilum til að geta fyrirbyggt og dregið úr hættu á veikleikum.  Sviðið setur fram stefnu Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits á grundvelli framangreindra laga.

Stefna Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits

Stefna Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með netöryggi rekstraraðila stafrænna grunnvirkja, veitenda stafrænnar þjónustu og fjarskiptafyrirtækja.

Í stefnunni er sett fram sýn Fjarskiptastofu er varðar eftirlit með net- og upplýsingaöryggi fjarskiptafyrirtækja, stafrænna grunnvirkja og veitenda starfrænnar þjónustu.

Rekstraraðilar stafrænna grunnvirkja

Sviðið fer jafnframt með eftirlit á grundvelli laga nr. 55/2019, um rafrænar auðkenningar og traustþjónustur fyrir rafræn viðskipti og reglugerðar nr. 100/2020 um sama efni. Umrædd lög og reglugerð innleiða svokallaða eIDAS reglugerð Evrópusambandsins sem kveður á um lágmarkskröfur til traustþjónustu, bæði fullgildrar og ófullgildrar.

Sviði hefur það hlutverk að yfirfara og sannprófa hvort aðilar sem vilja fullgilda traustþjónustur sínar uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og veitir að því loknu fullgilda stöðu og skráir umrædda þjónustu á traustlista Evrópusambandsins.

Þá framkvæmir sviðið eftirlit Fjarskiptastofu á grundvelli laga nr. 54/2021 um íslensk landshöfuðlén.