- Fræðsla
- Hefur lykilorðið mitt lekið?
Hefur lykilorðið mitt lekið?
Í dag á meðalmanneskjan fullt af aðgöngum sem eru í mismikilli notkun. Reglulega verða gagnlekar þegar mikið magn af notendanöfnum og lykilorðum er lekið á netið. Óprúttnir aðilar nota þessar upplýsingar til að reyna að taka yfir aðra aðganga í eigu fórnarlambanna. Vonast þeir eftir að fólk noti sömu eða svipuð lykilorð á mörgum stöðum.
Margir átta sig ekki á hversu marga aðganga við höfum í heildina. Sumir aðgangar eru í takmarkaðri notkun í stuttan tíma en upplýsingarnar eru áfram til staðar inni í forritinu. Því er góður siður að venja sig á að athuga reglulega hvort aðgöngum tengdum manni hafi verið lekið.
Í gegnum þjónustuna haveibeenpwned.com er hægt að fletta upp netfangi sínu og sjá hvort það komi fram í þeim gagnalekum sem Have I Been Pwned býr yfir.
Ef í ljós kemur að aðgangur tengdur þínu netfangi hafi birst í gagnaleka þá er mikilvægt að skipta strax um lykilorð. Ef þú hefur breytt lykilorðinu þínu eftir að gagnalekinn átti sér stað gætir þú verið sloppin ef lykilorðið eða blæbrigði af því er ekki notað aftur eða annars staðar. Mikilvægt er að skoða svo hvort einhver hafi skráð sig inn eða framkvæmt eitthvað á aðganginum milli þess sem lykilorðinu var lekið og því var breytt. Flestir þjónustuveitendur sýna hvaða tæki eru skráð inn og ætti það að gefa vísbendingar um hvort óviðkomandi hafi nýtt aðganginn.
Virkjun tví- eða fjölþátta auðkenningar eykur öryggi aðganga til muna og mælt er með því að virkja hana alls staðar sem boðið er upp á það.
Tengdar greinar: