Vefveiðar
Vefveiðar eru algengasta form netárása í dag. Ásamt gífurlegum vexti í vefveiðum á hverju ári hafa þær einnig orðið mun fágaðri en það sem sást áður fyrr. Það er greinilegt að mun meiri vinna er lögð í margar af vefveiðaherferðum í dag og geta þær litið mjög raunverulega út.
Vefveiðar eru notaðar til að ráðast beint á einstaklinga til að svíkja út peninga, persónulegar upplýsingar eða til að komast inn í tölvukerfi hjá fyrirtækjum. Í þeim tilvikum sem árásaraðilinn kemst inn i tölvukerfi fyrirtækja í gegnum vefveiðar er markmiðið oftar en ekki að fremja stærri glæp í formi gagnastuldar, gagnagíslatöku eða fjársvika.
Mikilvægt er að þekkja einkenni vefveiða og fræða starfsfólk um algengustu einkenni slíkra pósta eða skilaboða til að koma í veg fyrir tjón.
CERT-IS tekur við upplýsingum um vefveiðar í gegnum netfangið phishing@cert.is. Slíkar tilkynningar nýtast til að vara við yfirstandandi herferðum og greina breytingar í svikaaðferðum. Sé óskað eftir viðbragði þarf okkur einnig að berast tilkynning í gegnum rauða takkann eða með pósti á cert@cert.is. Einfaldast er að framsenda vefveiðipósta beint á það netfang eða skjáskot af SMS skilaboðum.