Hvað er netglæpur?
Það er til fræg setning sem segir: „Ef það er hægt að misnota eitthvað, verður það misnotað.“
Netið er þar engin undantekning.
Netið hefur aukið þægindi í okkar daglega lífi til muna. Hvort sem það er með því að minnka pappírsnotkun, auðvelda leit að upplýsingum, allt frá fræðigreinum yfir í það hvernig sjóða skuli egg eða að hjálpa okkur að halda góðu sambandi við fólk sem statt er í öðrum löndum.
Netið, eins og lífið, á sér einnig dekkri hliðar þar sem glæpamenn notfæra sér internetið og tölvubúnað til að fremja netglæpi.
Netglæpir skiptast í margar mismunandi tegundir.
Gott er þó að byrja á tveimur yfirflokkum sem hægt er að skilgreina og skipta netglæpum í til að skilja betur hugtakið netglæpir.
Það eru annars vegar netglæpir sem eru háðir notkun nets og tölvu (e. cyber dependent crimes) og svo hins vegar glæpir sem eru framkvæmdir með því að notfæra sér tölvu við að fremja glæpinn (e. cyber enabled crime).
Netglæpir sem háðir eru notkun tölva
Dæmi um netglæpi sem ekki er hægt að fremja nema tölvur komi við sögu eru:
Yrkjanet (e. botnet), þau eru til dæmis notuð til að framkvæma glæpi eins og að senda álagsárásir á fórnarlömb.
Spilliforrit (e. malware) er komið fyrir í tölvubúnaði eða hugbúnaði til að framkvæma aðgerðir í leyfisleysi sem oft eru skaðlegar fyrir fórnarlambið.
Innbrot í tölvukerfi þar sem glæpamenn stela upplýsingum, taka yfir tölvukerfin eða dulrita gögnin í von um ávinning fyrir sjálfa sig.
Þetta eru allt glæpir sem ekki væri hægt að fremja nema með notkun tölvu.
Netglæpir sem styðjast við notkun tölvu
Við flesta glæpi þarf ekki að beita tölvu eða netinu, en oft er það þó svo að með því getur orðið auðveldara að fremja glæpinn og gróðinn meiri en annars.
Dæmi um þetta eru til dæmis níðingsefni, einelti, áreitni og eltihrelllni og fer fram yfir netið.
Netsvindl, t.d. vefveiðar, hvort sem það er gert í gegnum tölvupóst eða vefsíðu sem er sett upp sérstaklega til að líkjast þekktri og traustri síðu í þeim tilgangi að komast yfir kortanúmer eða lykilorð.
Þetta eru dæmi um glæpi þar sem tölvan aðstoðar við að fremja glæpinn. Nota þá glæpamennirnir bragðvísi (e. social engineering) til að ná upplýsingum frá fórnarlömbum sínum.
Öll þurfum við að vera vakandi gegn báðum tegundum af netglæpum þar sem við getum öll lagt okkur fram við að sporna gegn frekari netglæpum. Glæpamenn reyna að nýta sér veikleika til að misnota tölvukerfi og því mikilvægt að klára allar uppfærslur eins fljótt og auðið er. Huga að því að nettengingin sem við erum tengd við sé örugg og ekki hala neinu niður af internetinu nema að vita uppruna þess sem er hlaðið niður.
Einnig er orðið algengara að glæpamenn noti bragðvísi til að fá fólk til að smella á sýkta hlekki og koma þar með spillikóða fyrir í tölvukerfum. Við þurfum öll að vera alltaf á varðbergi en aðferðir glæpamanna verða sífellt betri og oft mjög erfitt að sjá þegar eitthvað grunsamlegt er í gangi.